Eiríkur blóðöx og fjölskylda


Haraldur hárfagri átti 20 syni með ótal konum!  Hann setti Eirík blóðöx, son sinn, yfir Noreg þegar hann dró sig sjálfur í hlé.  En þegar Haraldur dó kröfðust aðrir synir hans að fá yfirráð yfir Noregi.  Eiríkur blóðöx varð því að drepa þá Ólaf og Sigurð, bræður sína, til að halda völdum.  Hann missti svo völdin í hendur Hákoni Aðalsteinsfóstra, hálfbróður sínum, sem alinn var upp á Englandi.  Eiríkur hrökklaðist úr landi en fékk að vera landvarnarmaður konungs í Jórvík á Englandi. Sjá upplýsingar um kónga á tímum Egils sögu.

Eiríkur  var síðasti sjálfstæði konungurinn í Jórvík (ríkti 947-948 og 952-954).  Viðurnefnið blóðöx er aðeins að finna í norrænum heimildum, þ.e. Heimskringlu og Egils sögu.  Eiríkur var flæmdur frá völdum og drepinn árið 954.

Sonur Eiríks og Gunnhildar, Haraldur gráfeldur, tók við konungdómi í Noregi eftir að hann og bræður hans höfðu fellt Hákon Aðalsteinsfóstra.  Haraldur gráfeldur var fóstursonur Arinbjarnar.  En faðir Arinbjarnar, Þórir hersir, hafði fóstrað Eirík blóðöx á sínum tíma.

Tvær tegundir mynta hafa varðveist frá tímum Eiríks í Jórvík.  Hugsanlega svara þessar tvær tegundir til þeirra tveggja tímabila sem hann ríkti á Norðimbralandi.  Myntirnar sjást hér að neðan.