3. Egils saga á margmiðlunarformi
Eins og fram hefur komið tel ég að sterk tengsl séu milli upphaflegs forms Íslendingasagna og hins nýja miðils, vefsins. (Sjá kafla 2.2, 2.3 og 2.4)

Það er óneitanlega spennandi að prófa að nálgast upphafið með nýjustu tækni. Þess hefur ekki verið kostur fyrr en nú, þegar tiltölulega auðvelt að skrifa vefsíður. Prófa má hugmyndir um frásagnareiningar á vefsíðum og er alveg gráupplagt að nota tölvu til að skoða slíkar kenningar sem vinsælar hafa verið á síðustu áratugum. Að hluta til er þetta í samræmi við kenningar Aarseth, sem fjallað var um í upphafi þessarar ritgerðar. Hann segir að sýberíutextar séu „annað sjónarhorn" á bókmenntir og með því að skoða þannig texta sé hægt að finna nýjar vísbendingar um hvað frásögn er (sjá tilvitnun í Aarseth í kafla 1.2). Það er reyndar ekki ný hugmynd að koma Íslendingasögunum á tölvutækt form. Nefna má starf Netútgáfunnar og útgáfu Máls og menningar á sögunum ásamt orðstöðulykli á geisladiski. Netútgáfan nýtist þeim sem ekki geta nálgast sögurnar á pappír (búa t.d. í útlöndum) og geisladiskurinn nýtist þeim sem vilja rannsaka Íslendingasögurnar, jafnt lærðum sem leikum. En í hvorugu tilvikinu er í rauninni verið að gera annað en áður var hægt á pappír; Hægt var að lesa sögurnar á prenti og hægt var að leita (að vísu á miklu seinlegri máta) í sögunum á prenti. Þessar útgáfur nýta því fáa möguleika tölvunnar sem verkfæris, heldur einungis útprentun og leit. Enn eru ýmsir ónýttir möguleikar í framsetningu Íslendingasagna á tölvutæku formi.

„Það er til marks um hugvitsamlega hönnun ef möguleikar tölvunnar eru nýttir til þess sem ekki er auðvelt með öðrum miðlum." [31] Þessi nýi miðill, tölvan, gerir einmitt kleift að tengja einstaka hluta Egils sögu á svipaðan hátt og sagnamenn sögðu hana forðum misfróðum áheyrendum sínum. Ætla má að ný uppsetning á tölvutæku formi hugnist ungu fólki, sem verður æ vanara að lesa vefsíður og nota margmiðlun, því miður oftast á ensku. Sé Egils saga skrifuð sem stiklutexti getur hún orðið allt í senn: Glósur, yfirlit, skemmtun, afþreying og fróðleiksnáma. En auðvitað er ekki gert ráð fyrir að slíkur stiklutexti komi í stað þess að lesa söguna á pappír!

Tölvan gerir líka mögulegt að nálgast upphaflegt form dróttkvæða, sem byggist á hljóðum og myndmáli, en miklu síður skrifuðum texta, eins og hingað til hefur staðið lesendum til boða.
 

3.1 Efni um Egils sögu
 
Hér á eftir reyni ég að lýsa verklagi og skipulagi við að koma efni um Egils sögu á margmiðlunarform. Á geisladiski sem fylgir þessu verkefni má sjá dæmi um útfærslu. Nauðsynlegt að er geta skoðað geisladiskinn meðan þessi kafli er lesinn. Opna skal skrána adalsida.htm í Netscape Navigator. Annað skýrir sig sjálft.
3.1.1 Markhópur
 
Ítarefnið er ætlað nemendum í framhaldsskólum. Egils saga er víða kennd í ísl 313, sem er 3. eða 4. áfangi sem nemendur taka miðað við núgildandi námskrá. Í bekkjarskólum er sagan oft kennd á fyrsta eða öðru ári. Í dæmigerðum fjölbrautaskóla, eins og ég kenni við, eru flestir nemendur sem lesa Eglu 17-18 ára. Nemendur hafa allir reynslu af lestri Íslendingasagna úr grunnskóla, þ.e. Gísla sögu Súrssonar eða Grettis sögu, og víða er lesin Íslendingasaga í fyrsta eða öðrum íslenskuáfanga framhaldsskóla. Í ísl 313 koma saman nemendur úr „hraðferð" og „hægferð" sem þýðir að námshæfileikar eru misjafnir og því er mikilvægt að efnið sé fjölbreytt.

Allir nemendur eiga greiðan aðgang að tölvum og Interneti í skólanum og svk. könnun sem gerð var í FVA á vorönn 1999 hafa um 90% þeirra aðgang að tölvu á heimili eða sdvalarstað. Yfirleitt eru nemendur vel færir um að nota tölvur við textavinnslu og heimildaleit á vefnum enda er þetta kennt í áföngum sem flestir ljúka á fyrsta ári (þ.e. rit 103 og sam 105).

Hvað þarfir nemenda sem lesa Eglu varðar byggi ég fyrst og fremst á eigin reynslu, en á 12 árum hef ég kennt um 800 nemendum Egils sögu. Margt hefur auðvitað breyst á þessum árum en síðustu árin hef ég kannað reglulega hvernig nemendum finnst að samþætta tölvunotkun, einkum notkun vefsins, og íslenskunám. Nemendum finnst almennt mjög gaman að vafra eða gramsa á vef. Vefurinn hefur ákveðið skemmtigildi í þeirra augum og þykir einnig „fínt" að nota hann, eins og aðrar tækninýjungar. Nemendum finnst meira að segja skemmtilegt að taka próf í tölvu þótt hið sama verði ekki sagt um venjuleg próf á pappír. Mér finnst sjálfsagt að nýta þá staðreynd í námi og kennslu að þessi aldurshópur er mjög ginnkeyptur fyrir tækninýjunum. Ég tel einnig að kennsla verði að taka mið af því umhverfi sem nemendur hrærast í og aðstæðum þeirra. Þess vegna má ekki líta fram hjá nýrri tækni og halda áfram að kenna eins og gert var fyrir áratug eða áratugum síðan. Kennsluaðferðir verða að endurspegla breytingar í samfélaginu, þótt kennsluefnið sjálft sé sígilt og nánast óumbreytanlegt, eins og Egils saga. Segja má að kennari eða höfundur námsefnis sé að þessu leyti í svipaðri stöðu og sagnamenn forðum. Þeir reyna að varðveita og miðla menningararfi en þó á þann hátt að miðlunin endurspegli ríkjandi gildi og aðstæður í samfélaginu.
 

3.2 Bygging og skipulag efnisins
Í grófum dráttum má skipta efnisþáttum í fernt þannig: A Saga Skallagríms og Kveldúlfs

B Saga Egils

C Vísur og kvæði

D Ítarefni

Þótt hér sé sögunni skipt í tvennt (A og B) og gert ráð fyrir að unnið sé efni við hvorn hluta fyrir sig munu einstakar síður tengjast mjög. Skilin miðast við fæðingu Egils. Sömuleiðis verða vísurnar í samhengi við lausmálstextann þótt í þessu skipulagi séu þær sérstakur þáttur. Mjög misjafnt er eftir skólum hvort eða hve margar vísur eru lesnar.

Í starfi mínu sem kennari hef ég oft orðið vör við að nemendur eiga erfitt með að átta sig á sögutíma, einkum ef tvennum sögum fer fram samtímis eða ef mikið er um tímaeyður. Hvoru tveggja er til að dreifa í Íslendingasögum en einnig í nútímabókmenntum sem lesnar eru í framhaldsskólum, t.d. Englum alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson. Heimir Pálsson hefur haldið því fram að tímaskyn sé bundið aldri og þroska, þannig að í hugum barna (og jafnvel unglinga) sé fortíðin óskilgreindir „gamlir dagar" og því yngri sem nemendur séu því erfiðara eigi þeir með að skynja fjarlægð í tíma. Í þeirra augum gætu Egill Skallagrímsson, Snorri Sturluson og langafi verið nánast samtímamenn, allir uppi í „gamla daga" [32]. Nemendur sem lesa Egils sögu eiga líka stundum erfitt með að átta sig á sögusviði; hvar Kúrland, Bjarmaland, Finnmörk o.fl. var; hvar og hvenær kóngar eins og Eiríkur blóðöx ríktu og hve langt er milli staða. Þess vegna er reynt að nota annars vegar tímatalsrönd og hins vegar fjölda korta til að renna stoðum undir skynjun nemenda á tíma og rúmi. Dæmi:

Nemandinn getur á hverri yfirsíðu hneppt á viðkomandi tímaskeið og fengið yfirlitsmynd yfir þá atburði sem gerast þá. Í bakgrunni er reynt að gefa hugmynd um sögusvið. Dæmi:

Segja má að tímatalið sé eins konar leiðarhnoða um vef sögunnar.

Upphaflega hugðist ég vefa allan texta sögunnar í. Ég hef nú fallið frá þeirri hugmynd, enda alls ekki ætlast til að þetta efni komi í stað lesturs sögunnar af pappír. Nokkrar klausur og textabrot eru tekin beint úr sögunni en einnig eru víða endursagnir mínar. Ég mun þó sýna hvernig hægt væri að setja söguna í stiklutexta, sbr. kafla 3.4.

Hér á eftir verður sýnd nánari útfærsla á B-hluta, sögu Egils.
 

3.2.1 Söguþráður
Framvinda; yfirlit yfir einstaka kafla. Þetta yrðu nokkurs konar glósur, þar sem nemandi gæti valið um að fá einungis lýsandi kaflaheiti (flest þau sömu og í útgáfu Guðna Jónssonar, þessi hluti er ekki tilbúinn) eða fá kaflanúmer með stuttri endursögn kaflans (sjá geisladisk). Gert er ráð fyrir að flestir nemendur prenti þennan hluta út og noti sem glósur. Þess vegna er ekki gert ráð fyrir krækjum úr þessum hluta.

Einstakir þættir sögunnar. Hér verða dregnar saman upplýsingar um einstaka þætti sem skipta máli, t.d. saga Bjarnar og Þóru.
 

3.2.2 Sögusvið; útlönd og Ísland
Hér þyrfti að vinna upp mörg kort. Helst þurfa þau að vera gagnvirk, þannig að hægt sé að stækka upp hluta þeirra, t.d. kort af Íslandi, þar sem hægt er að hneppa á landnám Skallagríms og fá upp mynd af því. Draumurinn er náttúrulega að geta sýnt þrívíddarkort, eða þrívíddarmyndir af landslagi, en ég veit ekki hvort eða hvenær hann verður að veruleika. Gallinn við kort í flestum útgáfum Egils sögu er að þar er sýnt alltof mikið; alltof mörg nöfn eru nefnd á sama korti (þetta á aðallega við um kort af landnámi Skallagríms). Komast má hjá þessu með því að hafa mörg, misítarleg kort, sem tengd væru saman, þ.e. snertikort (image maps).

Jafnframt væri gott að tengja sögusvið við nútímann, einkum útlönd, með því að sýna hvar sögustaðir eru á nútímakorti. Þar sem efnið er geymt á vef er upplagt að krækja í vefsíður annars staðar, t.d. vefsíðu víkingasafnsins í Jórvík (York).

Krækja ætti úr kortasíðum í ítarefnissíður eftir því sem við á. Krækt yrði í kortasíður jafnóðum, úr öðrum síðum. Hugsanlegt er að útbúa staðarnafnaskrá (felligluggaskrá) sem krækti í kort og síður sem við ættu. Einnig má hugsa sér leitarvél, sem leitaði á síðunum.

Hvor hluti, útlönd og Ísland, skiptast síðan í smærri þætti. Það liggur t.d. beint við að hafa sérstakar síður um hverja ferð Egils til útlanda. (Sjá sem dæmi útfærslu á fyrstu för Egils til útlanda, á geisladiski.)
 

3.2.3 Persónur; Egill, aðrar persónur og ættartölur.
Auðvitað ber Egill höfuð og herðar yfir yfir alla aðra og verður fjöldi síðna um hann. (Sjá mynd af vef í kafla 3.3) Aðrar persónur sem fá sérstaka yfirlitssíðu eru einkum ættingjar Egils, konungar, óvinir Egils og aðrir sem mikið koma við sögu. Æskilegt væri að útbúa nafnaskrá þar sem hægt væri að flett upp hverri persónu fyrir sig, líkt og gjarna er gert í prentaðri útgáfu sögunnar, eða notuð yrði leitarvél.
Ættartölur eru nauðsynlegar. Hér er gert ráð fyrir að þær séu gagnvirkar, þannig að hægt sé að fá upplýsingar um æviferil hverrar persónu í ættartölunni. Úr æviferilskrá er gjarna krækt í kort eða síður þar sem viðkomandi kemur mikið við sögu. Dæmi:


 
 

Hér er farin sú leið að sýna „týpur" þ.e.a.s. sýna hvernig útlit erfist og að í rauninni er karlpeningur ættarinnar tvenns konar manngerðir. Þess vegna er einungis tvenns konar útlit. Varla þarf að taka það fram að flestar konur í ættinni eru „kvenna vænstar og gervilegastar." Ættartalan er gagnvirk, þannig að með því að hneppa á einstakar myndir fást upplýsingar um viðkomandi. (Sjá geisladisk.)
 

3.3 Dróttkvæðar vísur í Eglu (C hluti skipulags)
Í mörgum framhaldsskólum eru lesnar nokkrar vísur úr Egils sögu, jafnvel kvæði. Ég held að mjög misjafnt sé hve margar vísur eru lesnar. Sums staðar eru þær einungis notaðar sem sýnishorn dróttkvæðs bragarháttar því mörgum þykir mikilvægt að nemendur sjái sýnishorn sem flestra bókmenntagreina í tengslum við bókmenntasögu. Hefðbundin kennsluaðferð felst í því að nemendur læri utanað samantekt hverrar vísu, geti síðan skýrt kenningar og heiti og loks endursagt vísuna á nútímaíslensku. Jafnframt geti nemendur fundið skothendingar og aðalhendingar, auk þess að greina stuðlasetningu.

Ég er svo sem ekkert ósammála þessari kennsluaðferð og tel hana góða til síns brúks, nefnilega að nemendur þekki sýnishorn dróttkvæðs háttar. En óneitanlega finnst mörgum nemendum þetta ekki skemmtilegt.

Efni dróttkvæðra vísna er oft ekki merkilegt. Þær eru háðar stað og stund, eru nokkurs konar „fréttaljósmyndir", segir Heimir Pálsson. Hann segir jafnframt: „Stíll þeirra er knappur en myndríkur og hver vísa gefur oftast afmarkaða mynd. En að jafnaði vantar mikið á að við getum skilið myndirnar nema með þeim fylgi lausamál, eins konar myndatexti." [33] Þetta á ekki hvað síst við um Eglu, þar sem Egill varpar fram vísum til að tjá tilfinningar sínar, til að koma sér í gott „bardagastuð", til að lýsa eigin hetjudáðum o.s.fr. (Hér verður ekki tekin nein afstaða til þess hvort vísurnar sem eignaðar eru Agli eru tilbúningur seinni tíma manna eða raunverulega eftir Egil. Slíkt tel ég vera rannsóknarverkefni á háskólastigi og ekki vel til þess fallið að laða framhaldsskólanemendur að lestri Íslendingasagna. Í þessu verkefni verður litið svo á að vísurnar tilheyri heimi sögunnar eins og við þekkjum hann í dag, athugasemdalaust.)

Happadrjúgt getur verið að líta á vísurnar sem fréttaljósmyndir, líkt og Heimir Pálsson kallar þær. Mér finnst þó tónlistarmyndbönd nútímans samsvara þeim enn betur enda byggja dróttkvæðar vísur á myndmáli og hljóðum. Aldrei var ætlast til að þessar vísur væru lesnar og greindar af blaði. Stundum vefst fyrir nemendum að finna hendingar af því þeir eru svo háðir endarími sem sést vel en hendingarnar eru, í þeirra augum, fremur hljóð inni í orðum; þeir koma ekki auga á hendingar í einni sjónhending heldur verða að heyra þær hljóma. Þess vegna mun ég reyna að fá góðan karlkyns lesara, helst með djúpa rödd, til að lesa nokkrar vísur úr Eglu, svo nemendur geti ímyndað sér hvernig þær hljómuðu. Æskilegt væri auðvitað að sá gæti lesið með endurgerðum framburði Egils. Nemendur eru miklu vanari myndmáli en mín kynslóð er, svo ekki sé talað um kynslóðir fyrri alda. Þeir horfa á tónlistarmyndbönd, leika tölvuleiki, glápa á myndbönd, lesa myndasögur ... Aftur á móti eru nemendur ekki vanir því að sjá fyrir sér ómyndskreyttan texta. Miðað við þessar forsendur ætti myndmál dróttkvæða að liggja opið fyrir þeim, sé það sett fram á myndrænan hátt.

Á geisladiski með þessu verkefni fylgir sýnishorn af einni vísu úr Egils sögu þar sem ég reyni að sýna myndmálið. (Enn skal tekið fram að teiknihæfileikar mínir eru í lágmarki!). Mér er ekki ljóst á þessari stundu að hve miklu leyti ég get „teiknað" vísur í Egils sögu sjálf. En ég mun gera mitt besta.
 

3.4 Ítarefni (D liður í skipulagi) yrði einkum þrenns konar, þ.e.:
a) Sögulegur fróðleikur (baksvið)

b) Tenging við nútímann

c) Próf, verkefni og glósur

a) Sögulegur fróðleikur væru t.d. sagnfræðilega heimildir um staði, persónur, skip, vopn o.s.fr. Talsverða áherslu ætti að leggja á fornleifar, á Íslandi og erlendis, en þeim hefur ekki verið haldið mjög á lofti í kennsluútgáfum Egils sögu. (Þar hef ég m.a. í huga hugsanlega tengingu við Ísleifu, gagnagrunn Fornleifafélags Íslands, en nú á einmitt að fara að vinna notendavænt viðmót á gagngrunninn, sem verður hægt að nálgast á vefnum.) Innan þessa efnisflokks má einnig hafa upplýsingar um handrit Eglu, varðveislu þeirra og þess háttar, ásamt almennri umfjöllun um handritagerð og upphaf ritaldar á Íslandi. Fróðleikur um rúnir og rúnaristur, jafnvel galdra, er yfirleitt vinsælt efni meðal nemenda í framhaldsskólum og einnig má hér hafa ýmsan fróðleik um málsögu, t.d. framburð Egils (sem gæti tengst umfjöllun um vísur).

b) Tenging við nútímann. Ýmislegt mætti hér tína til, frá götukorti af Borgarnesi til útreikninga á hagtölum á tímum Egils ... Hér á eftir eru einungis raktar fyrstu hugmyndir:

  • Kenningar um Íslendingasögurnar og tenging við bókmenntasögu.
  • Kenningar um margt sem gæti skýrt persónuleika Egils (sjá mynd af vef í kafla 3.3.)
  • Hagnýtar tölulegar upplýsingar, t.d. um mannfjölda á Íslandi á landnámsöld og nú (þ.á.m. fjölda karla og kvenna), gjaldmiðlar sem notaði eru í Egils sögu umreiknaðir til nútímans, vegalengdir milli staða og áætlaður siglingartími á dögum Egils og fleira. Í tengslum við þetta efni mætti e.t.v. útbúa stærðfræðisíður, í samvinnu við stærðfræðikennara.
  • Áhrif Egils sögu í Borgarfirði, t.d. ferðmennsku og listaverk.
  • c) Próf, verkefni og glósur. Æskilegt er að útbúa krossapróf úr Eglu. Þau ættu að vera mörg og helst í tveimur þyngdarflokkum. Nemendum finnst óskaplega gaman að taka próf í tölvu, enda líta þeir á þau fremur sem þrautir en hefðbundin próf. Þessa staðhæfingu byggi ég á reynslu sem kennari og könnun sem ég lagði fyrir nemendur mína og spurði m.a. um þetta (í ísl 203 á haustönn 1998). Á vefsíðu minni eru nokkur próf, úr Íslenskri málsögu, Laxdælu, Íslandsklukkunni og málfræði og ég verð talsvert vör við að nemendur víða af landinu taka þessi próf. Léttari gerð krossaprófa ætti að vera þannig að nemandinn fái vísbendingar eða svörun við hverri tilraun Þyngri gerðin yrði án vísbendinga.

    Glósurnar eru hugsaðar þannig að nemandi geti opnað sérstakan glugga hvar sem hann er staddur í vefnum. Þar sé sérstök glósubók, sem nemandi getur skrifað í, vistað og prentað út. Þetta er til þess að auka gagnvirkni, þ.e. nemandinn tekur þá sjálfur þátt í að skapa sitt eigið námsefni. Helst þyrfti að vera hægt að vista glósur á algengu ritvinnsluformi.
     

    3.5 Framsetning og tæknileg útfærsla
    Efnið er allt skrifað í html og gert þannig að það sé auðvelt að skoða það í algengustu vefsjám, eins og Netscape Navigator (útgáfa 3.0 eða nýrri) eða Internet Explorer (útgáfa 3.0 eða nýrri). Efnið er svo annað hvort hægt að skoða á Vefnum eða hægt að hlaða niður á disk í eigin tölvu. Þess vegna mun líka liggja frammi pökkuð útgáfa (zip-skrá) af vefsíðunum. Ég geri ráð fyrir að margir nemendur vilji hafa efnið á diski í eigin vél til að geta flett síðum hratt og þurfa ekki að bíða lengi eftir því að stórar myndir berist eftir símalínum.

    Ástæða þess að ég geri ráð fyrir að efnið sé sótt af vefnum en ekki dreift á geisladiski (CD-ROM) er sú að geisladiskur er hefur sömu takmarkanir og bækur (eða prentað mál), sem er að efnið er stöðugt. Þótt hægt væri að koma hlutum svo fyrir að notandi geti fyllt inn efni frá eigin brjósti er erfitt að hugsa sér að breyta efni á geisladisk nema þá brenna nýjan. Hins vegar er ekki mikil fyrirhöfn að uppfæra vefsíður.

    Ég geri ráð fyrir því að notendur geti skrifað inn athugasemdir sínar eða óskir um breytingar og ég geti síðan orðið við þeim sem ég er sammála. Í því skyni set ég upp form sem auðvelt er að fylla í og senda. Auðvitað má líka senda mér tölvupóst.

    Bygging vefsins í heild verður svona:

    Þessi mynd sýnir auðvitað ekki margt, enda er þetta skipulagið í mjög grófum dráttum. Þó ætti að vera ljóst að gert er ráð fyrir að síðurnar verði kræktar saman þvers og kruss og þess vegna sýnir myndin kónglóarvef. Til að sýna nánari útfærslu er hér mynd af byggingu vefsíðna um persónuna Egil:

    Hér sjást tengingar í aðra efnisflokka, svo sem í D ítarefni, þ.e. nútímakenningar sem gætu skýrt þætti í fari Egils og fleira.
     

    3.6 Útlit vefsins
    Útlit vefsins er enn í hönnun og verður það áfram. Það sem ég hef ákveðið er að aðalsíðan og forsíður verða nær eingöngu myndrænar. Ég tel það útlit henta vel markhópnum, sem eru fyrst og fremst unglingar. Þeir eru vanir tölvuleikjum þar sem texti er í lágmarki en framvindan byggist mjög á myndlestri. Það háir mér óneitanlega hve lélegur teiknari ég er sjálf en á diskinum fylgir uppkast að útliti (adalsida.htm), þar sem hver hlutur er hluti snertikorts, sem vísar á tilteknar síður. Einnig er forsíða B-hluta, um Egil. Unglingar vilja gjarna hafa vefsíður mjög dökkar, jafnvel svartar. Þetta sér maður t.d. vel þegar verið er að kenna vefsíðnagerð. Þess vegna hef ég forsíðuna svarta. Þegar vefsíður eru prentaðar út getur það stundum haft vanda í för með sér að nota mjög ljóst letur á dökkum grunni, því sumar prentstillingar prenta ekki bakgrunn heldur hvítt og þá sést ljóst letur ekki. Þess vegna ætla ég að hafa síður, sem líklegt er að verði prentaðar út, ljósar með dökku letri. Ég miða við tiltölulega stóran skjá og tiltölulega háa skjáupplausn því ég tel að á heimilum flestra unglinga sé tölvukostur talsvert betri en í skólum og geri ráð fyrir að mjög margir sæki efnið heim eða skoði það heima.
    3.7 Stiklað um Eglu
    Að gamni mínu sýni ég hvernig Egils saga gæti litið út sem stiklutexti. Ef viðbrögð notenda verða jákvæð kemur vel til greina að koma stærri hluta hennar á þetta form, enda auðvelt að nálgast Egils sögu á tölvutæku formi, hjá Netútgáfunni. Þetta geri ég til að prófa hvort hægt sé að nálgast munnlega miðlun sögunnar eins og ég tel að hún hafi verið, sbr. kafla 2.3.

    Ég byggi á líkani Lönnroths og skipti Egils sögu í þætti. Einn þáttanna er Jórvíkurferð Egils. Þáttunum er síðan skipt í kafla, líkt og tíðkast hefur í útgáfu sögunnar til þessa. Dálítið er misjafnt hvernig útgefendur skipta sögunni, t.d. hefst Jórvíkurferð á kafla 59 í útgáfu Guðna Jónssonar, á kafla 60 í útgáfu Netúgáfunnar og kafla 61 í útgáfu Máls og menningar. Texti Netútgáfunnar er eini textinn sem ég hef aðgang að (og má nota) á tölvutæku formi. Hins vegar hef ég breytt kaflanúmerum til samræmis við útgáfu Máls og menningar, sem er algengust þeirra útgáfa sem notaðar eru í skólum.

    Í sýnishorni sem fylgir þessu verkefni á geisladiski er sýnt hvernig 61. kafli gæti litið út sem vefsíða. Hann er settur upp sem „öfugur pýramídi", sbr. kenningar Nielsens sem raktar eru í kafla 1.3.3, þannig að fremst í kaflanum er sagt um hvað hann fjallar. Síðan er texti sögunnar bútaður niður svo að á vefsíðu kaflans sjálfs er einungis að finna aðalatriðin. Vilji lesandi lesa meira er urmull krækja í einstakar síður, sem kalla mætti sneiðar, í anda Lönnroth. Ef lesandi man nokkurn veginn hvað gerist í kaflanum eða hvað áður hefur gerst og er bara að glöggva sig á aðalatriðum sleppir hann auðvitað sneiðunum.

    Sneiðarnar eru:

  • Fyllri lýsing á því sem kaflinn fjallar um (t.d. lýsing á veðurfari, nánari skýring á einhverju o.s.fr.).
  • Kort, sem sýna ferð Egils, lönd og ríki sem tengjast þessum kafla og fleirum o.þ.h.
  • Heimasíður nokkurra persóna.
  • Síður um samskipti nokkurra persóna.
  • Heimasíður persóna eru settar þannig upp að vinstra megin eru millifyrirsagnir sem ég hef samið. Þær eru í öðrum lit en aðaltextinn. Þetta er svo lesandi sem vill aðeins gá að einhverju eða rétt glöggva sig á einhverju um viðkomandi persónu geti strax fundið það sem hann leitar að með því að renna augum yfir síðuna (sbr. það sem Nielsen og Hewitt segja um þörf lesenda fyrir að „skanna" vefsíður, eins og nefnt er í kafla 1.3.3) Jafnframt millifyrirsögnum er krækt í þann kafla sem viðkomandi bútur er úr, en hægra megin eru textabútar úr Eglu. Þetta gerir það að verkum að lesandi sem glöggvar sig á Eiríki blóðöx getur lesið nánar um föður hans, Harald hárfagra, eða lesið strax um syni Eiríks og komist að því að Haraldur gráfeldur náði um síðir völdum í Noregi. Lesandi getur einnig fengið yfirlit yfir samskipti persóna til þessa, enda skipta þau máli, og líka frekari samskipti síðar í sögunni. Lesandinn getur sem sagt þvælst fram og aftur um söguna að vild (alveg eins og áheyrendur gátu væntanlega spurt sögumann hér áður fyrr). Þarna sést vel hvað Hanjo Berressem á við með því að stiklutexti hafi í rauninni ekkert yfirborðslag. Einnig má hafa líkingu Jane Douglas í huga: Líkt og sá sem skoðar safn getur valið milli sýningarsala eins og hann lystir getur lesandi Eglu nú lesið hvað sem hann lystir, í hvaða röð sem er. (Sbr. kafla 1.3.2.) En til þess að lesandi verði ekki alveg áttavilltur er notuð tímatalssúla á hverri síðu, auk þess sem „stýrislá" (navigation bar), sem er röð smámynda, sést neðst á hverri yfirsíðu. .

    Vilji lesandi þessa tiltekna kafla vita hvað gerist meira í Jórvíkurför Egils getur hann skoðað þann þátt sérstaklega, með því að lesa kaflafyrirsagnir þessa þáttar, en fara síðan niður í einstaka kafla sem yrðu þá settir upp eins og þetta dæmi af 61. kafla. Vilji lesandi vita um bakgrunn þessarar ferðar getur hann valið ítarefni, sem sérstaklega er krækt í af stýrislá. Sé hann að leita að einhverju sérstöku í texta Eglu má skoða veftréð (site map/site index), sem táknað er með kóngulóarvef, en einnig mætti gera ráð fyrir innbyggðri leit í textanum.

    Til þess að vinna svona efni held ég að heppilegast sé að gera fyrst allar sneiðar um persónur. Síðan þyrfti að hafa tilbúin öll kort og aðrar skýringarmyndir. Augljósar „smásögur", t.d. söguna af Birni og Þóru hlaðhönd, söguna af Hildiríðarsonum, söguna af deilum Þorsteins Egilssonar og Steinars Önundarsonar, söguna af sonarmissi Egils o.fl. mætti „vefa" strax. Síður um kvæði Egils má vefa úr tengslum við annað.

    Síðan ætti að skipta sögunni í þætti (e.t.v. er sú skipting þegar til) og hverjum þætti í kafla. Nota á sem mest sömu kaflaskiptingu og í algengustu útgáfu. Einnig má nota þær kaflafyrirsagnir sem tíðkast hafa.

    Hver kafli yrði síðan bútaður niður á vefsíðu þannig að aðalatriði hans kæmu fram á þeirri síðu. Vísað yrði í allar þær sneiðar sem tilbúnar væru og búnar til sneiðar úr fyllri upplýsingum sem hver kafli geymir en ekki þykir ástæða til að hafa á yfirborði. Jafnframt yrði skoðað hvernig kaflinn tengist öðrum köflum í sama þætti og jafnvel öðrum þáttum.

    Jafnhliða þessari vinnu þarf að hafa góðar gætur á því ítarefni sem kæmi til greina að vísa í. Ég hef unnið jöfnum höndum að gerð slíks lista frá því að hugmyndin að þessu verkefni kviknaði.

    Loks má ekki gleyma því að notendur (nemendur í framhaldsskólum) ættu að hafa sitt að segja um efnið. Taka verður tillit til óska þeirra og breyta efninu eftir þeim hverju sinni. Ef lesendum hugnast að stikla um texta Eglu er vel hugsanlegt að koma fleiri köflum á þetta form.

    [Lokaorð]    [Efnisyfirlit]