2. tölublað

23. október 891

Búin að reisa bæ á Borg.

Skalla-Grímur og Bera hafa nú komið sér upp búi í Borgarfirði og nefnist sá bær Borg. Skalla-Grímur hefur nú komið sér upp smiðju þar sem hann vinnur járn úr mýrarrauða. Gengur þeim allt í haginn.

18. nóvember 917

Víkingsefni aðeins sjö vetra

Egill Skalla-Grímsson hefur nú drepið sinn fyrsta mann. Móðir Egils hrósaði honum fyrir að hafa drepið mann aðeins sjö ára og kvað hann mikið víkingsefni. Þetta bar þannig til að verið var að keppa í knattleik á Hvítárvöllum. Egill var að keppa á móti Grími Heggssyni og stóð Grímur sig betur í leiknum. Gerði það Egil reiðan og tók hann sér vopn í hönd og drap Grím.

14. september 935

Sonur Skalla-Gríms giftir sig.

Þórólfur Skalla-Grímsson og Ásgerður Bjarnadóttir giftu sig um daginn. Haldin var mikil veisla og var margt um manninn. Þar mættu helstu höfðingjar landsins og fleiri menn. Þórólfur og Ásgerður eru mjög hamingjusöm og eru menn ánægðir með þessa giftingu. Egill Skalla-Grímsson mætti ekki í veisluna vegna þess að hann sagðist hafa tekið sótt, en heyrst hefur að hann hafi verið mjög ósáttur með giftinguna.

7. maí 936

Hefndir reyndar

Gunnhildur drottning hefur nú fengið bræður sína til að hefna Bárðar sem Egill hafði drepið á dísarblóti í Atley. Gunnhildi var illa við Egil áður en hann drap Bárð en nú hatar hún alla ættina. Gátu bræður Gunnhildar hvorki drepið Þórólf né Egil og drápu því einn uppáhalds mann Þórólfs. Eyvindur, bróðir Gunnhildar, var gerður útlægur fyrir vikið, því hann hafði vegið mann í véum, þar sem er bannað að bera vopn. Þótti það mikil hneisa að vega vopnlausan mann.

4. ágúst 937

Fær gjald fyrir bróður sinn

Þórólfur Skalla-Grímsson er látinn. Var hann drepinn í bardaga í Englandi þar sem hann var í her Aðalsteins Englandskonungs. Egill var mjög sár við lát bróður síns og gerðist hann hamrammur þegar hann vissi að Þórólfur bróðir sinn var dáinn. Hann var svo reiður vegna dauða bróður síns að hann drap alla menn sem hann náði í og kom þess vegna seint í veislu Aðalsteins Englandskonung sem hann hélt vegna sigurs síns á óvinum sínum. Þegar Egill kom til veislu var hann þungur á brún og sagði fátt en það lifnaði yfir honum þegar Aðalsteinn greiddi Agli gjald fyrir lát Þórólfs.