Akranesi, 13. maí 1996

Menntamálaráðuneytið b.t. Maríu Gunnlaugsdóttur

Lokaskýrsla um notkun Veraldarvefs í íslenskukennslu

í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi


Á vorönn 1996 hefur gerð vefsíðna einkum farið fram í ÍSL 313 en einnig hafa bæst við vefsíður úr ÍSL 202 (ÍSL 103 var ekki kenndur).

Tilhögun vinnu

Í ÍSL 313 voru miklu fámennari nemendahópar en venjulegt er í þeim áfanga, eða tveir 15 og 16 manna hópar. Hver nemandi fékk því gott tækifæri til að láta ljós sitt skína.

Í upphafi annar fóru u.þ.b. tvær vikur í að kynna Veraldarvefinn fyrir nemendum. Kennari kenndi á hefðbundinn hátt en tveir nemendur sátu við tölvuna í hverri kennslustund, skoðuðu þær vefsíður sem unnar höfðu verið á haustönn, og fengu síðan að "leika sér" að vild á Vefnum. Með þessu var reynt að bæta það sem nemendur höfðu kvartað undan í könnun sem gerð var í lok haustannar, nefnilega að þeir hefðu ekki fengið tækifæri til að skoða Vefinn nægilega. (Að vísu geta nemendur komist á Vefinn inni á bókasafni, en sjálfsbjargarviðleitni þeirra er mismikil.)

Í byrjun febrúar hófst svo gerð vefsíðna um Snorra Sturluson. Í upphafi fengu nemendur ítarlegan lista yfir þau verkefni sem vinna átti um Snorra. Í könnun á síðustu haustönn hafði komið fram að sumir nemendur töldu sig skorta yfirsýn yfir fjölda verkefna og vildu fá að vita betur um skipulag þeirra fyrirfram. (Að vísu hékk veggspjald uppi í stofunni sem sýndi skipulag "Fornfræðavefsins" en það virtist ekki komast nógu vel til skila.) Öll þessi verkefni má finna inni á kennarasíðu sem bætt hefur verið við Fornfræðavefinn. Hún heitir "Um þetta verkefni" og er tenging í hana af heimsíðu.

Vinnan við Snorra Sturluson var nokkuð með öðrum hætti en þau vefsíðuverkefni sem áður höfðu verið unnin. Nú reyndi mjög á heimildaleit og úrvinnslu heimilda. Í ljós kom að kennari vissi lítið um Snorra Sturluson og því neyddust nemendur til að vinna sjálfstætt. Við tókum því fyrsta tímann í "innrás" á bókasafnið þar sem allar mögulegar og ómögulegar heimildir voru tíndar til, jafnt bækur og blöð sem myndbönd. Þetta var allt borið inn í kennslustofu og var þar meðan vinnan stóð yfir, í u.þ.b. tvær vikur. Nemendur sýndu mikla hæfileika í að finna gögn og heimildir (einkum eftir að vanþekking kennara á Snorra varð ljós) og einnig frumkvæði, s.s. að verða sér úti um ljósmyndir af Reykholti (frá áhugamanni um ljósmyndun í Borgarnesi), hringja í sr. Geir Waage o.fl. Kennarar í Reykholti voru hjálplegir með myndefni, tóku myndir á myndbandsupptökutæki og sendu okkur í tölvupósti. Í tengslum við vefsíðnagerð um Snorra æfðum við söng; sungum "Þegar hnígur húm að þorra" með dyggri hjálp kennara og nemenda í TJÁ 102.

Eftir að farið hafði verið yfir fyrsta hluta Egils sögu á hefðbundinn hátt hófst svo vinna við gerð vefsíðna um hana. Sú vinna var lík þeirri sem unnin var á haustönninni, þ.e. sagan sjálf var lögð til grundvallar en ekki reyndi mikið á heimildavinnu úr öðrum ritum. Þó var þetta að því leyti öðruvísi að margir nemendur í ÍSL 313 voru úr Borgarnesi og þekktu því sögusviðið eins og lófann á sér. Alls voru 3 vinnulotur úr Egils sögu og tók hver þeirra hálfa til eina viku.

Þegar nokkuð var liðið á önnina barst okkur óvænt boð um aðstoð frá enskukennara við skólann. Sá bauðst til að láta nemendur sína þýða síðurnar á ensku. Því boði var auðvitað tekið fegins hendi, en áður hafði verið leitað til deildarstjóra í ensku sem taldi þýðingarvinnu ekki henta í enskuáföngum. (Hins vegar hefur viðkomandi deildarstjóri verið manna hjálplegastur sjálfur við yfirlestur á þýðingum íslenskunema og íslenskukennara). Nemendur enskukennarans þýddu u.þ.b. þriðjung textans um Egils sögu og munaði mikið um það. Síðurnar um Snorra Sturluson þýddu nemendur í ÍSL 313 sem og annan þriðjung af Eglu-síðunum. Líkast til mun kennari ljúka þýðingu á Eglu-síðum í maí eða júní.

Önnur vefsíðuvinna fór einnig fram á önninni. Undirrituð var að kenna ÍSL 202 ásamt öðrum kennara og samdist okkur svo að auglýsa meðal nemenda að tíu bestu verkefnin (af 75) í Laxdælu færu inn á Vefinn. Um var að ræða ritun "Bréfasmásögu" í tengslum við Laxdælu. Ég sló svo öll verkefnin inn (hvert þeirra samanstóð af þremur bréfum í orðastað persóna í Laxdælu), kom þeim í html-form og bætti þeim við Laxdælusíðurnar sem fyrir voru.

Einnig bauð ég kennara í Stykkishólmi að setja inn "Laxdælufréttir" sem hún hafði látið nemendur sína vinna og prentað síðan. Fyrir einhvern misskilning sendi hún ekki textaskrá heldur skrá unna í umbrotsforriti fyrir Macintosh og þurfti ég því líka að slá inn allan þann texta, sem og skrifa í html.

Fyrirhugað samstarf við Fjölbrautaskóla Vesturlands í Reykholti varð ekkert, enda barst aldrei neitt frá íslenskukennara þar.

Viðbrögð við Fornfræðavefnum

Viðbrögð við þessum vefsíðum hafa verið góð, eins og á síðustu önn. Að vísu hafa heldur færri bréf borist en áður, en samkvæmt teljara, bæði á íslensku útgáfunni og þeirri ensku, eru síðurnar heimsóttar jafnt og þétt. Miðað við að efni þeirra höfðar ekki til fjölmenns hóps er aðsóknin góð. Laugardaginn 11. maí sýnir íslenski teljarinn 5768 heimsóknir og sá enski 3777. Teljarinn á dönsku útgáfunni af Snorra-Eddu síðunum sýnir 218. Þær síður þyrfti að kynna betur en tími hefur unnist til ennþá.

Þann 8. febrúar tókum við þátt í verkefninu Sólarhringur í sýndarheimi (eða "24 Hours in Cyberspace") sem var nokkurs konar ljósmyndamaraþon, í umsjá ljósmyndarans Rick Smolan. Ýmis fyrirtæki fjármögnuðu þetta verkefni, s.s. Kodak, Sun Microsystems o.fl. Um 200 verkefni víðs vegar um heim voru valin til ljósmyndunar og 100 ljósmyndar tóku þátt í verkefninu (að sögn 100 bestu ljósmyndarar heims). Á Íslandi voru nokkur verkefni valin og var vinna okkar við Fornfræðavefinn eitt þeirra. Ljósmyndarinn Ragnar Axelsson mætti hér, ásamt aðstoðarmanni, árla morguns þann 8. febrúar og myndaði vinnu okkar í gerð vefsíðna um Snorra, ásamt því að mynda sérstaklega nokkra nemendur sem tekið höfðu þátt í vefsíðugerð á haustönninni. Myndirnar voru síðan sendar jafnharðan til San Fransisco þar sem þær verða birtar á vefsíðu, á geisladiski, sem kemur út í vor, og komast vonandi með í úrval í ljósmyndabók, sem kemur út í haust. (Þegar þetta er ritað hafa þær ekki enn birst á vefsíðunni, en bætt er við 5 verkefnum í hverri viku. Veffangið er http://www.cyber24.com)

Um miðjan mars barst undirritaðri bréf frá Evan Nisselson, sem vinnur hjá CNBC sjónvarpsfyrirtækinu (sem e.t.v. er þekktara undir nafninu NBC). Hann hafði séð ljósmyndir af okkur hjá aðstandendum Sólarhrings í sýndarheimi og hafði mikinn áhuga á að gera þátt um okkur og fleiri íslensk verkefni. Evan Nisselson var að undirbúa þáttaröð um nýja tækni, sem sýna á um allan heim í byrjun júlí. Viðræður við hann (sem fóru að mestu fram með tölvusamskiptum, en dálítið í síma) voru tímafrekar en skemmtilegar. Ég fjölfaldaði jafnóðum bréf frá honum til nemenda svo allir gætu fylgst með stöðu mála. Evan þessi var kresinn með afbrigðum og hafnaði hverju verkefninu á fætur öðru, uns svo var komið að hann hugðist gera þátt um okkur, menntamálaráðherra og Samvinnuháskólann á Bifröst. Því miður hætti hann við á síðustu stundu og við urðum af heimsfrægðinni! (En við vorum þó altént komin í góðan félagsskap...)

Sem betur fer fengum við aðra sjónvarpstökumenn í sárabætur, þ.e. Dagsljós fjallaði um okkur í lok apríl. Sá þáttur virðist hafa vakið mikla athygli íslenskukennara ef marka má símhringingar og tölvupóst til kennara.

Loks var greinargóð umfjöllun um Fornfræðavefinn í sunnudagsblaði Morgunblaðsins í lok apríl.

Öll svona viðbrögð eru mjög hvetjandi fyrir nemendur. Þeir vissu að aðrir læsu síðurnar þeirra og fundu að þeir voru að gera eitthvað merkilegt. Slíkt verður til þess að þeir leggja sig betur fram.

Vinna kennara

Þessar tvær annir sem verkefnið hefur verið unnið hefur vinna kennara verið ómæld. Starf mitt felst í:

- að stjórna verkefninu, þ.e. hanna vefinn, útbúa verkefni, sjá um að þau séu unnin og sjá um að þau séu metin

- að koma verkinu inn á Vefinn, þ.e. að slá inn texta, prófarkalesa, skrifa textann í html og koma honum inn á Vefinn, skanna myndir eða fá þær skannaðar

- að sjá um tölvupóst, þ.e. að skrifa bréf, svara bréfum eða prenta út bréf, dreifa þeim á nemendur og sjá um að senda svör þeirra

- að koma verkefninu á framfæri, þ.e. að skrá Fornfræðina á leitarvélar, að auglýsa nýjar síður á innlendum og erlendum ráðstefnum og póstlistum, að fara fram á að erlendar síður um sama efni setji tengingu í Fornfræðasíðuna

- að sjá um þýðingu á ensku, þ.e. að þýða texta sjálf eða lesa yfir þýðingar nemenda.

Í framtíðinni gætu nemendur e.t.v. tekið við einhverju af þessari vinnu, t.d. séð að einhverju leyti um bréfaskriftir og séð um að skrifa síðurnar í html. En miðað við núverandi tækjakost í flestum skólum og reglur Íslenska menntanetsins um netföng til nemenda getur þetta ekki orðið alveg á næstunni. Einnig held ég að það hljóti að vera hægt að semja við tungumálakennara um samstarf þótt það hafi gengið illa hér á þessu skólaári.

Fyrir vinnuna á hvorri önn fékk ég greiddar 50.000 krónur í styrk frá menntamálaráðuneyti, auk 80.000 króna undirbúningsstyrks áður en skólaárið hófst. Mér reiknast svo til að ég hafi fengið u.þ.b. þriðjung raunverulegrar vinnu minnar greiddan.

Annað

Ljóst er að áhugi á gerð vefsíðna og notkun Vefsins hefur aukist gífurlega meðal nemenda í Fjölbrautaskóla Vesturlands. Ég var með námskeið í vefsíðugerð fyrir nemendur í Opinni viku hér í skólanum og komust færri að en vildu. Um tugur nemenda hefur verið að gera sínar eigin vefsíður, sem er gott miðað við aðstöðu hér í skólanum.

Áhugi kennara hefur einnig aukist. Nokkrir hafa lært að leita á vef og nota hann reglulega. Aðrir einbeita sér fyrst og fremst að tölvupósti.

Lára Stefánsdóttir vakti athygli mína á verkefni Evrópusambandsins, sem heitir Web for Schools Project. Fjölbrautaskóli Vesturlands sótti um þátttöku í þessu verkefni og fékk inni. A.m.k. fimm kennarar munu því á næstu haustönn nota vefsíðugerð sem hluta af kennslu sinni. Til þessa fær skólinn styrk frá Evrópuráðinu.

Sjálf hætti ég störfum við Fjölbrautaskóla Vesturlands og hef störf við Menntaskólann að Laugarvatni. Þar hef ég mikinn hug á að þróa áfram vinnu við Fornfræðavefinn. Skólameistari Menntaskólans að Laugarvatni hefur og lýst áhuga sínum á því og mun hann sækja um styrk frá menntamálaráðuneyti svo ég geti unnið áfram að þessu verkefni.

Harpa Hreinsdóttir