Grein í Ný menntamál 1996:1

Fornfræði á Vesturlandi

http://rvik.ismennt.is/~harpa /forn


Inngangur

Ég tengdist umheiminum fyrst árið 1991, þá í gegnum tölvu sem hét Imba og var staðsett á Kópaskeri. Strax heillaðist ég af tölvusamskiptum og hef haldið þeim áfram allar götur síðan, ýmist til að skrifa prívatbréf eða afla mér þekkingar af póstlistum eða gagnasöfnum alls konar.

Fljótlega eftir að Íslenska menntanetið (ÍM) var stofnað og vél sett í Reykjavík, reyndi ég að koma tölvusamskiptum að í kennslu en það tókst heldur illa. Eftir tvær tilraunir hætti ég þessu baksi því ég sá að nemendur entust illa við að skrifa bréf á ensku til útlanda þótt þeim þættu annars tölvur skemmtileg tæki. Áhugi nemenda beindist miklu meir að því að nota síma, mótald og tölvu til að sækja leikjaforrit eða spjalla ("irka") og fór því ekki saman við áhuga kennara.

Í október í fyrra sá ég í fyrsta sinn Vefinn (World Wide Web). Mér tókst að telja umsjónarmenn tölvukosts hér í Fjölbrautaskóla Vesturlands á að setja upp nauðsynleg forrit hér í skólanum í janúar á þessu ári og gat nú farið að gramsa í Vefnum, við illan leik að vísu því okkur var afhent gömul og gölluð útgáfa af forritinu. En með þolinmæði gat ég komist að því hvers konar fyrirbæri Vefurinn er. Það var afskaplega auðvelt var að læra að nota Vefinn (svo framarlega sem forritin virkuðu) og mér fannst str ax að hann hlyti að bjóða upp á mikla möguleika. Ég bjóst við að eins og venjulega myndu skólarnir missa af lestinni, þ.e. að aðgangur að Vefnum yrði kominn á annað hvert heimili áður en nokkurn varði og nemendur myndu sjálfsagt venjast á að nota hann sem leiktæki. Þess vegna væri nauðsynlegt að í skólum væri bent á fræðslugildi Vefsins.

Svo var það snemma í vor að ég fékk frábæra hugmynd (a.m.k. fannst mér það), sem ég kynnti fyrir nokkrum sem vit hafa á (þ.e. móðurmálskennurum sem nota Vefinn og tölvusamskipti) og fékk mjög jákvæð viðbrögð. Næsta skref var að tala við skólastjórnendur hér á Skaga og tóku þeir vel í málið. Við sóttum svo um styrk til þróunarstarfs í skólanum og fengum hann (að vísu töluvert lægri en við sóttum um). Loks spjallaði ég dagspart nú í haust við pilt, sem vinnur hjá ÍM, um mismunandi vefnað.

Sjálf kunni ég ekki tæknina við að gera vefsíður. Hins vegar var ég kokhraust og sannfærði sjálfa mig um að aðalatriðið væri að kunna að kenna, þekkja námsefnið vel og vita hvernig ég vildi að verkið væri unnið og liti út. Kom á daginn að þetta gekk eftir, enda fékk ég aðstoðarmann sem kunni þessa tækni mjög vel. Er nú best að segja af framkvæmd þessa verkefnis.


Laxdæla er að vísu ekki hefðbundin afþreyingarbók en þegar maður kafar dýpra í hana er hún rosalega spennandi og skemmtileg. (Tilvitnun í Heimasíðu Laxdælu)

Ég ákvað að láta vinna vefsíður úr Laxdælu (í ÍSL 103) og Snorra-Eddu (í ÍSL 313) til að byrja með. Auk þess fékk ég deildina okkar í Reykholti til að sjá um síður um Snorra Sturluson. Eftir áramót mun ÍSL 313 gera síður um Eglu og ÍSL 103 mun bæta við Laxdæluvefinn. Vefinn köllum við "Fornfræði á Vesturlandi" og ef lesendur vilja líta á hann þá er staðsetningin: http://rvik.ismennt.is/~harpa/forn.

Í ÍSL 103 hef ég 3 nemendahópa, alls um 68 manns, en í ÍSL 313 tvo nemendahópa, alls um 46 manns. Ég fékk sérstaka stofu og í hana tölvu með nauðsynlegum forritum, mótaldi og símalínu. Einnig var sett upp tölva með sama búnaði inni á bókasafni, sem nemendur hafa aðgang að á opnunartíma safnsins.

Þetta er að vísu fulllítill búnaður en þar sem aldrei stóð til að kenna nemendum á tölvu, heldur að nota þessa tækni í kennslu, dugði hann nokkurn veginn.

Markmiðin með þessu verkefni eru:

  • - Að kynna nemendum nýja tækni
  • - Að nemendur leggi metnað í vinnu verkefna
  • - Að nemendur meti texta hver annars.

    Framkvæmdin er þannig að nemendur vinna verkefni í fámennum hópum (svona 3- 4 manna). Hvert verkefni er unnið af 5- 6 nemendahópum. Síðan velur dómnefnd nemenda besta verkefnið. Í dómnefnd eru 2- 3 nemendur og er skipt ört um fulltrúa í dómnefnd. Mér reiknast svo til að á önninni hafi yfir helmingur nemenda einhvern tímann tekið þátt í dómnefnd. Verkefnin, sem dómnefnd velur úr, eru textar eða myndir.

    Að auki hafa starfað sérstakir þýðingarhópar, sem þýða textann á ensku, og nokkrir nemendur hafa tekið að sér að sinna bréfaskriftum í sambandi við þetta verkefni. Er þar einkum um að ræða að svara fyrirspurnum frá útlöndum.

    Þegar búið er að velja besta verkefnið slæ ég það inn og afhendi síðan aðstoðarmanni mínum, Arnari Valdimarssyni, sem textaskrá. Arnar sér síðan um að breyta textaskránni í html-skrá og senda inn á netið. Hann sér einnig um að skanna inn myndir og á heiðurinn af útliti vefsíðanna. Arnar er nemandi hér við skólann og fær þessa vinnu metna til eininga, auk þess sem hann fær aðstöðu í skólanum fyrir ýmsa aðra vinnu sína. Á vorönninni reikna ég með að taka sjálf við vefnaðinum og hef verið að læra þá tækni.

    Rétt er að taka það fram að samning vefsíðna kemur í staðinn fyrir önnur ritunarverkefni, t.d. ritgerð. Að öðru leyti er kennsla í þessum áföngum með hefðbundnu sniði, þ.e. próf eru þau sömu og tíðkast hafa, sem og ýmis smærri verkefni. Hér er því ekki um það að ræða að gjörbylta kennslunni, heldur einungis að vinna ritunarþáttinn á annan hátt.

    
    
    25. september 999: Bolli Þorleiksson og Guðrún Ósvífursdóttir hafa nú verið gefin saman. Laxdælufréttir óska hinum ungu brúðhjónum alls hins besta í framtíðinni. (Úr Laxdælufréttum)

    Verkefnin sem nemendur vinna eru af ýmsum toga. Í tengslum við lestur Laxdælu semja nemendur t.d. heimasíður Bolla, Guðrúnar og Kjartans, semja fréttir í Laxdælufréttir og Gulu pressuna, útbúa kort sem sýnir söguslóðir, teikna myndir og svo mætti lengi telja. Laxdælufréttir er blað sem birtir nýjustu fréttir úr Laxárdal - á tíundu og elleftu öld! Fréttaritari, sem greinir satt og rétt frá, heitir Illugi Marðarson og prýðir stór mynd af honum kennslustofuna okkar. Aftur á móti er öllu óvandaðri fréttafl utningur í Gulu pressunni, enda er heimildarmaður þess blaðs engin önnur en Þórhalla málga. Þar birtist alls kyns slúður og hálfkveðnar vísur um persónur Laxdælu. Og þótt nemendur í ÍSL 103 hafi skapað Illuga karlinn munar hana Þórhöllu ekki um að flétta meinyrta frásögn af honum í sínar fréttir:

    Sá orðrómur hefur farið á kreik að Guðrún Ósvífursdóttir hafi verið ófrísk eftir fyrsta eiginmann sinn, Þorvald í Garpsdal. Sökum ástleysis í hjónabandinu gat hún ekki hugsað sér að halda barninu og því gaf hún okkar ástkæra fréttaritara, Illuga, barn sitt, sem á nú í mesta basli með krógann, því hann sker sig ekki úr ættinni hvað skap varðar. Þess má einnig geta að Guðrún var aðeins 15 ára að aldri þegar barnið fæddist.

    (Úr Gulu pressunni)

    Hver nemandi í ÍSL 103 samdi eina frétt í Gulu pressuna. Níu manna dómnefnd valdi svo 7 fréttir úr þessum 68 fréttum. Kennari sló inn textann og síðan bjó þriggja manna hópur til fyrirsagnir. Arnar "óf" textann (í htm-mál) og loks skiluðu um 10 nemendur inn hugmyndum að myndskreytingum (af blaðhaus, af Þórhöllu málgu og fréttamyndum), sem enn ein dómnefndin valdi úr. Þannig að á bak við þetta "ómerkilega" blað liggur mikil vinna nemenda. Þegar þetta er skrifað á enn eftir að þýða textann á ensku.

    Nemendur í ÍSL 313 hafa einnig unnið fjölmörg verkefni um Snorra-Eddu. Má þar nefnda síður (texta og myndir) um heimsmynd heiðinna manna, heimsendi, samanburð á hugmyndum Biblíunnar og Snorra-Eddu um heimsendi, síður um einstaka æsi og ásynjur o.fl. Verklag var með sama hætti og í ÍSL 103. Búið er að þýða textann á ensku og dönsk þýðing er væntanleg.

    
    
    
    Hils elevene aa si at de er pionerer i IT og er i ferd med aa spre islandsk kultur og historie til elever og studenter over hele verden.

    (Bréf frá Wigo Skraamm, 17. október 1995, en hann er einn af umsjónarmönnum The Viking Network, fjölþjóðlegs verkefnis sem rekið er frá Noregi).

    Þegar ég lít yfir farinn veg er mér efst í huga hve nemendur hafa staðið sig vel. Þetta form á verkefnavinnu hefur skilað ótrúlegum árangri. Það þykir mikill vegsauki að sjá sitt verkefni inni á Vefnum, enda ljóst að margir munu lesa það, en ekki bara kennarinn einn, eins og þegar um hefðbundna ritgerð er að ræða. Tilhugsunin um heimsfrægð er líka lokkandi, þ.e. að vita að meira að segja fólk í útlöndum fylgist með textunum þeirra.

    Þótt vissulega sé alltaf um samkeppni að ræða í verkefnavali og ekki geti allið sigrað finnst mér þó að fleiri nemendur fái að njóta sín nú heldur en í hefðbundinni kennslu. Sumir nemendur eru góðir teiknarar, en kannski engir sérstakir pennar. Þeir fá lof félaganna fyrir myndskreytingar. Sumir eru fljótir að tileinka sér tölvutæknina og njóta sín þar (eru meira að segja byrjaðir að læra að gera vefsíður). Sumir eru góðir í ensku og njóta þess við þýðingar. Sumir eru einfaldlega duglegir og bjóða sig fram í að svara bréfum (ég hjálpa þeim þá ef enskan er vandamál), draga upp vönduð kort eða annað. Loks fá mjög margir að axla þá ábyrgð að velja úr verkefnum félaganna.

    Ástæða þess að textarnir eru þýddir á ensku (og reyndar hluti þeirra á dönsku) er sú að strax í upphafi tók ég þá ákvörðun að kynna þetta framtak nemenda í FVA ytra, enda treysti ég ekki á viðbrögð hér innanlands. Áðurnefndur Wigo Skraamm, sem ég hef haft einna mest samráð við og þegið frá góðar ábendingar, segir: "Jeg ser at dette vil bli STEDET for aa gaa til for skoleungdom i Norden og mange andre steder." (17. okt. 1995). Önnur viðbrögð að utan hafa verið afar lofsamleg og margir þeirra sem ekki ti lheyra skólum nefna að grafíkin og útlit síðanna sé sérstaklega glæsilegt. Þótt ég sé bara rétt byrjuð að kynna þetta verkefni hef ég þegar fengið talsvert af bréfum þar sem menn lýsa ánægju sinni með það.

    Þegar þetta er skrifað, í lok október, hafa 2 hópar útlendinga komið og kynnt sér þessa vinnu (en aðrir tveir hópar sem tilkynntu komu sína forfölluðust). Fyrri hópurinn var frá Svíþjóð og kom upp á Skaga til að kynna sér fjölbrautakerfið, en frétti svo af þessu verkefni. Sá síðari var hópur 13 skólastjórnenda frá löndum Evrópusambandsins og kom sérstaklega í FVA til að kynnast þessu verkefni. Hópurinn kom á vegum Menntamálaráðuneytisins. Báðir hóparnir hafa lokið lofsorði á verkefnið.

    Því miður er ekki sömu sögu að segja hér innanlands. Meiningin var að koma á fót póstlistum, þar sem Laxdæla og Snorra-Edda væru ræddar, en lítil sem engin viðbrögð urðu við þeim og eingungis tveir skráðu sig á listana. Innlend umræða varð því engin. Einstaka bréf hefur borist þar sem menn lýsa ánægju sinni með verkefnið, segja "þetta er flott" eða eitthvað svoleiðis. Samt auglýsti ég þetta verkefni nokkrum sinni á ráðstefnum ÍM og sendi "sniglapóst" í eina tíu skóla sem ég bjóst við að kenndu þessar bæ kur. Einnig auglýsti Íslenska menntanetið staðsetningu þessa verkefnis í dreifibréfi og hefur sett tilvísanir úr Menntavef sínum í Fornfræði á Vesturlandi. Sjálf held ég að skýringin á áhugaleysi innanlands sé fyrst og fremst sú að móðurmálskennarar almennt hafa ekki enn nýtt sér þessa tækni, vita ekki hvað Vefur er og kunna ekki að nota tölvusamskipti. Þar af leiðandi vita þeir ekki af þessu verkefni.

    Til að svona vinna gangi vel þurfa markmið að vera skýr, skipulag þarf að vera í lagi og síðast en ekki síst þarf tæknin að virka. Hið síðastnefnda hefur verið veiki hlekkurinn í þessari vinnu.