Áfangaskýrsla til Menntamálaráðuneytis Akranesi, 7. desember 1995

Menntamálaráðuneytið b.t. Maríu Gunnlaugsdóttur

Áfangaskýrsla um notkun Veraldarvefs í kennslu ÍSL 103 og ÍSL 313

í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi


1. Verkefni sem unnin voru á önninni

Á þessari önn voru búnar til vefsíður um Laxdælu og Snorra-Eddu. Til stóð að deild skólans í Reykholti sæi um að gera vefsíður um Snorra Sturluson, en því miður virðist það verk hafa dottið upp fyrir, einhverra hluta vegna. Kennari þýddi síður um Snorra-Eddu á ensku, en nemendur í ÍSL 103 hafa þýtt þann hluta Laxdælusíðna sem tilbúinn er. Í desember mun kennari ljúka við enska þýðingu á síðum um Laxdælu og vefa þær.

2. Framkvæmd verks

Nemendur unnu verkefnin í smáum hópum og dómnefnd nemenda valdi síðan úr bestu verkefnin. (Tekið skal fram að val dómefndar gilti, þótt kennari væri ekki alltaf sammála því.) Sama fyrirkomulag gilti um teikningar.

Kennari sló textann, sem valinn var hverju sinni, inn sem textaskrá. Aðstoðarmaður, Arnar Valdimarsson, sem er nemandi hér við skólann og fékk þessa vinnu metna sem valáfanga í TÖL, óf síðan textann. Hann á heiðurinn af útliti síðnanna (bakgrunni o.þ.h.). Arnar sá einnig um að skanna inn myndir og greiddi skólinn honum fyrir það. Snemma í nóvember tók svo kennari við sjálfum vefnaðinum, en hefur notið hjálpar Arnars þegar á hefur bjátað.

Kennari sá einnig um að koma verkinu á framfæri, þ.e. kynna vefinn á erlendum og innlendum ráðstefnum og póstlistum, skrá veffang á ýmsar leitarvélar, óska eftir tilvísunum úr erlendum síðum um goðafræði og víkinga, svara fyrirspurnum um verkið, senda bréf í skóla, koma fyrirspurnum um Íslendingasögur til nemenda og hjálpa þeim að senda svör.

Síðustu 3 vikur annarinnar fékk hver nemandi í ÍSL 103 að sitja við vefinn í 30 - 40 mínútur og skoða afraksturinn, sem og að skoða aðra vefi um víkinga og goðafræði. Því miður reyndist ekki unnt að hafa sama háttinn á í ÍSL 313 og þar fengu nemendur sárafá tækifæri til að skoða vinnu sína fullbúna, nema þá utan kennslustunda.

Helstu vandkvæði sem komu upp voru tæknilegs eðlis. Aðallega var þar um að ræða alls kyns bilanir hjá Íslenska menntanetinu. Ómögulegt reyndist að nota vél Ísmenntar á Bifröst og er vefurinn því geymdur í Reykjavík. Hann verður þar uns eitthvað rætist úr tæknimálum á Vesturlandi. Einnig komu í ljós miklir erfiðleikar í samskiptum við starfsfólk Ísmenntar og getur undirrituð ómögulega mælt með því fyrirtæki, þótt skipt verði við það áfram meðan ekki býðst skárri kostur.

3. Viðbrögð annarra við verkinu

Talsvert hefur borist af bréfum að utan þar sem menn lýsa ánægju sinni með "Fornfræði á Vesturlandi", eins og vefsíðurnar nefnast. Í hvert sinn sem kennari hafði auglýst verkið á erlendum ráðstefnum mátti sjá fjölgun skoðenda á teljara ensku útgáfunnar. Alls hafa 1704 skoðað heimasíðuna og 528 ensku heimasíðuna, skv. teljara þann 6. desember (en teljarar voru settir í lok september).

Örlítið bar á óánægjuröddum að utan. Einn (Finni) benti á mistök í tilvísun í Snorra-Eddu, sem voru snarlega leiðrétt. Einn (Svíi) lýsti óánægju sinni með að tákna Egils sögu með hyrndum hjálmi, því víkingar hefðu alls ekki haft horn á hjálmum sínum. Sennilega reynum við að búa til sérstaka síðu um þessa þjóðsögu um hyrnda víkingahjálma en breytum ekki myndinni.

Viðbrögð innanlands hafa verið lítil. Nokkrir hafa þó lýst ánægju sinni með verkið. Tilraun til að reka póstlista um efnið tókst ekki af því einungis 3 skráðu sig á slíkan lista. Almennt virðist áhugi og þekking íslenskukennara í framhaldsskólum á Veraldarvefnum vera mjög lítil.

4. Könnun á viðhorfum nemenda

Við lok kennslu á þessari önn var viðhorf nemenda til þessarar nýbreytni kannað (sjá fylgiskjöl). Af svörum þeirra má ráða að áhugi á Veraldarvefnum er mikill. Nemendur vilja einnig gjarna að aðgangur þeirra að Vefnum verði greiðari (sjá svör við 8. og 3. spurningu) enda er hann mjög takmarkaður eins og er.

Nemendum finnst þetta form á verkefnavinnu æskilegt (sjá svör við 4., 7. og 9. spurningu) og virðast almennt hlynntir notkun tölva í íslenskukennslu (sbr. svör við 6. spurn.).

Mér kom á óvart að sjá hve margar stelpur lýsa áhuga sínum á forritun, þ.e.a.s. að læra htm-mál. Í ÍSL 313 hefur rúmlega helmingur allra nemenda áhuga á að læra að vefa en í ÍSL 103 er áhuga stelpna meiri en stráka, þ.e.a.s. yfir 60% stelpna vill læra þetta. Áhugi stelpnanna hefur ekki komið í ljós fyrr en í þessari könnun, en 4-5 strákar í áfanganum hafa lært þetta mest af sjálfum sér, með dálítilli aðstoð kennara.

Í athugasemdum nemenda (svör við spurningu 9) má merkja almennan áhuga og stolt yfir verkefninu (þótt auðvitað sjáist neikvæðar skoðanir einnig). Stelpurnar eru mun jákvæðari eins og oft vill verða í könnunum á kennsluháttum (skv. minni reynslu).

Í ÍSL 313 kemur fram talsverð óánægja með það hve sjaldan og lítið nemendur höfðu tækifærði til að skoða afrakstur annarinnar.

Niðurstöður og framhald verks

Mat mitt, sem kennara, er að verkefnið hafi tekist vel, þótt tæknibúnaður (tölvur, mótöld og traust þjónustufyrirtæki) hafi verið af skornum skammti. Nemendur hafa kynnst nýrri tækni og þetta form á ritun virðist hvetja til aukins metnaðar þeirra.

Það er ljóst að aðgangur nemenda að Vefnum þarf að aukast. Væntanlega verður hann meiri á næstu önn, annað hvort með router eða linux við Bifrastarvél ÍM (að því gefnu að hún virki eins og hún á að gera) eða sama tæknibúnaði við annað fyrirtæki á Vesturlandi.

Einnig er ljóst að nemendur þurfa að fá meiri tíma, í kennslustundum, til að skoða verkefnið. Þetta á einkum við um ÍSL 313. Líkast til verður að skera niður kennsluefni svo sá tími fáist.

Loks verður að skýra betur fyrir nemendum hvernig Vefurinn virkar og tilgangur með verkefninu þarf að vera ljósari. Þetta á aðallega við um ÍSL 313. Ég tel samt algerlega óraunhæft að ætla að kenna nemendum að skrifa á htm-máli eða útskýra sérstaklega tæknina við að búa til vefsíður. Slíkt á fremur heima í tölvufræðiáfanga en íslensku.

Á næstu önn verður samin viðbót við Laxdælusíðurnar, í ÍSL 103, en aðaláhersla verður á gerð síðna um Egils sögu, í ÍSL 313. Líkast til munu nemendur hér á Akranesi einnig sjá um að gera síður um Snorra Sturluson.

__________________________ Harpa Hreinsdóttir kennari __________________________ Eiríkur Guðmundsson aðstoðarskólameistari