Fréttaskýring

Deilur Laugamanna og Hjarðhyltinga

Undanfarna mánuði hefur mikill rígur myndast á milli tveggja bæja hér í sveit, Hjarðhyltinga og Laugamanna. Fréttaritari ákvað að grafast fyrir um orsök og uppruna þessara deilna.

Þessar deilur má rekja allt til ársins 1000 þegar Kjartan og Bolli voru staddir úti í Noregi. Að sögn ónefnds heimildamanns voru Kjartan og Ingibjörg konungssystir eitthvað að slá sér upp en því má ekki gleyma að Kjartan var lofaður Guðrúnu Ósvífursdóttur á þeim tíma. Bolli fór á undan Kjartani heim til Íslands og virðist sem svo að hann hafi sagt Guðrúnu frá meintu sambandi Kjartans og Ingibjargar. Síðar bað Bolli Guðrúnar og tók hún bónorðinu eftir miklar fortölur.

Um haustið hélt Bolli heimboð og fer Kjartan að Laugum eftir miklar fortölur föður síns, Ólafs pá. Bolli vill gefa Kjartani hross en Kjartan vill ekki þiggja. Þar með sýndi hann Bolla mikla óvirðingu.

Stuttu síðar bað Kjartan Hrefnu Ásgeirsdóttur, er hann hafði fyrst séð þegar kom frá Noregi. Giftust þau og héldu mikla veislu. Kjartan gaf Hrefnu moturinn sem ætlaður hafði verið Guðrúnu.

Þó nokkru síðar hélt Ólafur pá boð í Hjarðarholti. Urðu þar þó nokkrar deilur um sætaskipan Guðrúnar og Hrefnu. Í því borði fékk Guðrún að sjá moturinn sem hafði verið ætlaður henni. Í boðinu var sverði Kjartans stolið en það fannst síðar án slíðurs.

Þá var farið að krauma undir reiðinni, en Laugamenn ákváðu þó að halda enn eitt heimboðið. Hjarðhyltingar mættu og hafði Hrefna tekið moturinn sinn með sér. Moturinn hverfur og Kjartan ásakar Bolla um stuldinn. Hann neitar og Guðrún fer að rífa kjaft við Kjartan og gefur í skyn að hún eigi moturinn.

Þetta var kornið sem fyllti mælinn. Kjartan dreitir Laugamenn inni í þrjá daga og þar með voru deilurnar nánast komnar upp í topp.

Í gær náði Kjartan að sölsa undir sig land sem Guðrún og Bolli höfðu keypt. Er það álit manna, að ekki eigi báðir aðilar eftir að komast óskaddaðir frá þessu.