NJÁLU - fréttir
Hugleiðingar

Steinn úr glerhúsinu

Fjórmenningarnir Njáll, Gunnar, Bergþóra og Hallgerður

Ég hef núna verið að lesa Njálu í nokkurn tíma og hefur þar verið ýmislegt sem hefur valið mér heilabrotum og hafa ýmsar vafasamar vangaveltur sprottið upp. Ég er nú einu sinni þannig að ég hef mjög gaman af öllu sem ekki er almennt viðurkennt og ég hef gaman að því að sjá nýjar hliðar á gömlum málum, að ég tali nú ekki um ef ég get fundið eitthvert hneyksli. Ég vil svo hvetja fólk til að taka þessari grein á versta veg og verða alveg svífandi hoppandi vont því það er jú tilgangurinn með þessu öllu.

Það eru nokkrir hlutir í Njálu sem ég hef aldrei fengið fullnægjandi skýringu á. Þar get ég til dæmis nefnt skeggleysi Njáls, deilur Hallgerðar og Bergþóru, sem mér finnast full yfirdrifnar miðað við gefna skýringu, það að synir Njáls skuli líkjast Gunnari meira heldur en Njáli og að lokum sú skemmtilega venja að bókin sé kölluð Njála.

Ég hef baslað saman kenningu sem útskýrir þessa hluti og þó svo að hún sé kannski ekki mjög sennileg þá gerbreytir hún viðhorfi lesandans ef hún er höfð í huga meðan á lestri stendur.

Kenningin byggist á því (haldið ykkur fast!) að Njáll sé í raun kona og ekki nóg með það heldur samkynhneigð í þokkabót!!!! Njáll (eða Njála eins og ég kýs að kalla hann/hana) hefur síðan einhvern tíma náð sér í tvíkynhneigða kerlingu sem kölluð er Bergþóra. Hún hefur kartnögl á hverjum fingri sem gæti gefið í skyn að hún sé nokkuð vergjörn. Sagan gerist á þeim tíma er samkynhneigð er lítt þekkt og áreiðanlegt að hörð viðurlög lágu við slíkri ónáttúru. Þess vegna þykir mér líklegt að Njála hafi brugðið á það ráð að þykjast vera karlmaður. Það gengur ágætlega upp þrátt fyrir hið vandræðalega skeggleysi.

Svo eru það hinar tíðu heimsóknir Gunnars á Hlíðarenda og næturgistingar hans. Vera má að hann og Bergþóra hafi eitthvað verið að leika sér saman og gæti það útskýrt hversvegna "synir Njáls" líkjast Gunnari svo mikið, að minnsta kosti hvað allt atgervi og skeggvöxt varðar. Njála hefur sennilega tekið þessu með jafnaðargeði og sýnt tvínáttúru Bergþóru skilning. Svo kemur að því að Gunnar nær sér í sína eigin kerlingu. Hallgerður kemst svo líklega að öllu saman og er það mun sennilegri skýring á því að allt fór í háaloft milli hennar og Bergþóru heldur en að það hafi allt verið vegna þess að Hallgerður var sett útí horn.

En hvað sem öðru líður þá er þetta mín túlkun á Njálu og ef einhver vill sannfæra mig um eitthvað annað þá getur hann bara sparað sér ómakið því mér er alveg ands...kvæmlega sama hvað honum finnst!

Guðmundur "þrjóski" Harðarson


Samband fólksins á Bergþórshvoli
og Hlíðarenda

Gunnar og Njáll voru vinir miklir. Sumir segja jafnvel of miklir til að það geti talist heilbrigt. Nokkrir hafa jafnvel gengið svo langt að halda því fram að Njáll sé í raun kona! Ég ætla ekki að koma með slíka sleggjudóma og halda mig við jörðina. Synir Njáls og Bergþóru voru allmiklir kappar. Skarphéðinn virðist vera svolítill háðfugl að eðlisfari því hann á það til að glotta mikið.

Konurnar eru á hinn bóginn hinar verstu viðureignar. Hallgerði líkar ekki að henni sé hent út í horn eins og snyrtilega krumpuðum pappírssnepli og Bergþóra vill ráða því hvar hún vísar fólki til sætis í sínum húsum. Þegar Bergþóra dirfist að nýta skóginn sem báðir bæir hafa reyndar nytjað saman í langan tíma, finnst Hallgerði nóg komið og hefur húskarlavígin sem eiga eftir að standa lengi. Að lokum drepa Njálssynir Sigmund Lambason og þorir Hallgerður ekki að láta drepa þá.

Gunnar leitar oft ráða hjá Njáli og veitir hann oft heilræði og vill helst að Gunnar leiti til sín með öll vandamál, en ekki annarra. Gunnar vill helst ekki drepa menn, en neyðist oft til þess. Skammkell varð t.d. þess valdandi að allt fór í bál og brand með Gunnari og Otkatli.

Mikll heiður virðist vera í húfi og er Hallgerður sennilega með geysilegt stolt og er Bergþóra sennilega með það líka. Stolt og heiður er sumsé ástæðan fyrir því að Gunnar verður að yfirgefa þennan heim. Ef Hallgerður og Bergþóra hefðu ekki verið svona súrrealískar frekjudollur, hefði Njáll kannski getað bjargað öllum með útsjónarsemi sinni og snilld.

Sigurjón Vilhjálmsson


Fletta áfram...
Fletta til baka...
Aftur á forsíðu...