Loki

Loki Laufeyjarson var talinn rógberi ásanna og rót alls ills í Ásgarði. Loki, sem var sonur Fárbauta jötuns og Laufeyjar, var fagur og fríður ásýndum, en jafnframt illur í skaplyndi og kom ásum oft í hin mestu vandræði. Kona Loka hét Sigyn og átti hann tvo syni með henni sem hétu Váli og Nari.

Gott dæmi um illan hug Loka er þegar hann plataði Höð til að skjóta mistilteini í gegnum Baldur þar sem hann stóð undir "meinlausri" skothríð hinna ásanna. Fyrir það var honum refsað illilega og er hann nú hlekkjaður niðri í helli. Það hangir eiturslanga yfir honum og eitrið úr henni drýpur niður á andlitið á honum. En konan hans, hún Sigyn, situr hjá honum og lætur eitrið drjúpa í skál. Þegar hún fer að losa skálina drýpur eitrið í andlit Loka og kippist hann þá svo hart við að jörð skelfur öll. Það köllum við jarðskjálfta.

Það má segja að Loki hafi búið til allt það versta sem í heiminum er, því hann átti Hel, Fenrisúlf og Miðgarðsorm með skessunni Angurboðu, en þau áttu eftir að verða stór hluti hins illa í heimsendi.


Laxdaela Egils Saga Snorri Sturluson