Dauði Snorra

Árið 1237 fór Snorri til Noregs á fund Skúla jarls, vinar síns. Þegar Snorri hafði verið þar um nokkurn tíma barst frétt til Noregs frá Íslandi. Sú frétt var um Örlygsstaðabardagann. Þegar Hákon konungur heyrði um þennan bardaga ákvað hann að kyrrsetja alla íslenska hirðmenn er staddir voru í Noregi, þar á meðal Snorra. Hann ætlaði að halda þeim þangað til hann gæti lagt á ráð um með hvaða erindum þeir færu til Íslands. Snorri var þá staddur hjá Skúla jarli og vissi að Skúli var að áforma uppreisn gegn konungi og ætlaði að taka sér konungsnafn sjálfur. Því fór Snorri heim til Íslands vorið 1239, án leyfis konungs. Hann taldi að óþarft væri að hlýða konungi því hann yrði bráðum úr sögunni.

Árið eftir gerði Skúli misheppnaða uppreisn og féll fyrir konungmönnum. Þá var komið að konungi að hegna hinum íslenska lénsmanni sínum (Snorra) sem hafði farið úr landi í banni hans og líklega verið í vitorði með Skúla. Konungur skrifaði Gissuri Þorvaldssyni, er var hirðmaður hans, og sagði að Snorri hefði svikið sig og bað Gissur að drepa Snorra.

Gissur kom í Reykholt um nóttina þann 23. september 1241 með sjö tigi manna. Er Snorri varð þeirra var flúði hann ofan í kjallara. Þar fundu hann þeir Markús Marðarson, Símon Knútur, Árni beiskur, Þorsteinn Guðinason og Þórarinn Ásgrímsson. Er þeir höfðu fundið Snorra bað Símon Knútur Árna beisk að höggva Snorra.

"Eigi skal höggva," sagði Snorri en Símon svaraði: "Högg þú!" "Eigi skal höggva, " sagði Snorri og samstundis veitti Árni honum banahögg.

Þannig var Snorri Sturluson veginn, varnarlaus á næturþeli, af ótíndum hrottamönnum, án þess að hann fengi jafnvel að tala við Gissur eða koma fyrir sig nokkrum boðum. Haft er eftir Hákoni að hann mundi fremur hafa kosið að Snorri lifði og snerist til hlýðni við hann, en samt var víg Snorra í konungsskjóli.