Konur í lífi Snorra

Þegar Snorri var 18 vetra, andaðist Jón fósturfaðir hans og þeir Þórður, bróðir hans, og Sæmundur, fóstbróðir hans, taka við forsjá hans. Þegar Snorri er tvítugur fastna þeir til handa honum dóttur Bersa prests og goðorðsmanns á Borg á Mýrum, en hann var mjög auðugur. Eftir brúðkaupið, sem fór fram í Hvammi, fluttust þau í Odda og voru þar í 3 ár eða þar til Bersi prestur lést árið 1202. Þá fluttu þau á Borg og tóku við búinu þar eftir hann. Þar bjuggu þau aðeins saman í fjögur ár, en þá komst Snorri yfir Reykholt og fluttist þangað, en Herdís hélt áfram að búa á Borg og var samvistum þeirra þá þar með slitið.

Árið 1224 flytur Hallveig Ormsdóttir, sem þá var ríkasta kona á Íslandi, til Snorra í Reykholt. Hún var töluvert yngri en Snorri og átti tvo syni af fyrra hjónabandi, en hún hafði verið gift Birni Þorvaldssyni í Hruna, en hann hafði verið drepinn. Ekki er að sjá að þau Hallveig og Snorri hafi gifst og hafa menn getið sér þess til að aldrei hafi farið fram lögskilnaður Snorra og Herdísar. Þó flestir telji að sambúð þeirra Hallveigar og Snorra hafi verið af hagsmunaástæðum beggja aðila var reyndin sú að sambúð þeirra virðist hafa verið hin farsælasta og virðist hafa verið mjög kært með þeim, því Snorri tók það mjög nærri sér þegar hann frétti af dauða hennar, en hann var ekki vanur að vera að flíka tilfinningum sínum.

Þau Hallveig áttu hins vegar engin börn saman, en synir Hallveigar ólust upp hjá þeim í Reykholti. Með Herdísi átti Snorri tvö börn, Hallberu og Jón murt. Snorri átti síðan börn með þrem öðrum konum en Herdísi, sitt barnið með hverri og virðast þau öll fædd á næstu árunum eftir að hann fer frá Borg. Fyrst þessara barna var Ingibjörg, en móðir henar var Guðrún, dóttir Hreins Hermundarsonar. Guðrún þessi ól Snorra fleiri börn, en Ingibjörg ein komst úr barnæsku. Þórdís hét önnur laundóttir Snorra og hét móðir hennar Oddný, en ekki er meira um hana vitað. Hann átti svo einn son með Þuríði, dóttur Halls Órækjusonar, og hét hann Órækja.

Snorri og konurnar