[Íslendingasögur

13. ágúst 1999
[Maí 2010: Þessi útdráttur var upphaflega saminn sem ítarefni fyrir áfangann JAR 113, þar sem gerð var tilraun til að samþætta þjóðfræði og jarðfræði í áfanga um Snæfellsnes.]
 
 

Útdráttur úr sögunni


1.- 3. kafli: Á Hjörsey fyrir Mýrum býr Þorkell Dufgusson. Dóttir hans er Oddný, kölluð Oddný eykyndill því hún er svo fögur. Hún trúlofast Birni Arngeirssyni (sem elst upp að Borg á Mýrum). Hann fer utan en hún á að sitja í festum í 3 vetur. Björn er 18 ára þegar hann kemur til Noregs og kemst þegar til mannvirðinga við hirð Eiríks jarls.
 
Þórður Kolbeinsson frá Hítarnesi kemur líka til Noregs. Þeir Björn voru óvinir en nú fer vel á með þeim. (Þórður er 15 árum eldri en Björn.) Á fylleríi segir Björn Þórði allt um Oddnýju og biður fyrir skilaboð til hennar, því Þórður er á leið heim.

4. kafli: Björn berst í Austurvegi og særist.

5. kafli: Þórður kemur þeirri sögu af stað að Björn sé látinn. Hann biður Oddnýjar og fær hennar. Björn fréttir þetta til Noregs og vill nú ekki fara heim. Björn fer til Englands og berst m.a. við dreka, fer svo í víking og dvelst í Danmörku á veturna. Þannig líða 3- 4 ár.

6. kafli: Þórður og Oddný búa á Hítarnesi. Eignast alls 8 börn í hjónabandi sínu um ævina. Hjónabandið er gott.

7. kafli: Þórður fer utan að vitja arfs. Björn rekst á hann í Brenneyjum, rænir skip hans, en gefur Þórði grið. Björn varar hann við að þeir hittist aftur.

8. kafli: Þórður fer heim.

9. kafli: Björn er í miklu vinfengi við Ólaf konung helga, eignast m.a. skóreim Ólafs! (En hún varð seinna messulindi í kirkjunni að Görðum á Akranesi.)

10. kafli: Björn kemur til Íslands. Ólafur konungur helgi sendir orð með mönnum að Þórður haldi vel sættir við Björn. Oddný verður heldur fúl þegar hún fréttir að Björn, sem Þórður sagði andaðan, sé kominn til landsins. Hún segir að Þórður sé „fullur af lygi og lausung.“

11. kafli: Þórður vill bjóða Birni til vistar. Oddný er á móti því en Þórður hlustar ekki á varnaðarorð hennar. Móðir Bjarnar varar hann við að þiggja boð Þórðar en Björn hefur orð hennar að engu.

12. kafli: Björn fer til Þórðar í Hítarnes. Þórði sinnast við Oddnýju konu sína þegar hún segir honum fyrir verkum og slær hana kinnhest. Björn kveður vísu af þessu tilefni. Björn og Þórður kveðast á og minnir hvor annan á að Þórður hafi stungið undan Birni um árið.

13. kafli: Þórður verður æ pirraðri út í Björn.

14. kafli: Björn er líka pirraður og fer loks á brott. Hann sest að á Hólmi við Hítárvatn.

15. kafli: Björn kveður níðvísu um Þórð.

16. kafli: Þórður kveður níðvísu um Björn. Björn stefnir honum og á Þórður að greiða Birni hundrað silfurs fyrir vísuna (þ.e. skaðabætur fyrir meiðyrði).

17. kafli: Björn kveður níðvísu um Þórð sem stefnir honum. Á Alþingi er Björn dæmdur til að gjalda 3 merkur silfurs fyrir níðið.

18. kafli: Þórður gerir Birni fyrirsát þar sem hann er á leið frá Saxahvoli [bæ á utanverðu Snæfellsnesi]. Húsfreyju á Saxahvoli dreymir fyrir fyrirsátinni og hún varar Björn við. Það slær í bardaga en bæði Björn og Þórður sleppa.

19. kafli: Minnst er á Grettisbæli, en Grettir Ásmundsson dvaldi hjá Birni um skeið. Þórður sendir Birni flugumann sem Björn drepur.

20. kafli: Björn yrkir Grámagaflím, sem er hryllilegt níð um Þórð Kolbeinsson!

21. kafli: Björn sér Kolla prúða, 4 ára son Þórðar og Oddnýjar. Björn telur að Kolli sé sinn sonur.

22. kafli: Björn heldur skógarmenn (sakamenn) og lætur gera virki um bæ sinn. Þórður kærir hann fyrir aðstoð við sakamenn, Björn játar greiðlega og á Alþingi greiðir hann Þórði sekt. Þórður tekur skömmu síðar við tveimur sakamönnum. Björn drepur skógarmenn Þórðar.

23. kafli: Birni og Þórði lendir saman á hestaati en menn skilja þá.

24. kafli: Þórður sendir tvo flugumenn til að drepa Björn. Björn tekur þá höndum og sendir bundna til baka til Þórðar.

25. kafli: Þórður situr fyrir Birni, en Björn verst og sakar ekki.

26. kafli. Þórður situr aftur fyrir Birni. Björn særist talsvert (en nær sér alveg af sárum sínum). Nokkurt mannfall verður og þar á meðal drepur Björn Kolbein, son Þórðar.

27. kafli: Þorsteinn Kuggason gistir hjá Birni. Þórður var reyndar búinn að reyna að fá stuðning Þorsteins en eftir að Þorsteinn hefur hrakist til Bjarnar, í vondu veðri, og notið gestrisni hans vill Þorsteinn ekki gera neitt á hlut Bjarnar.

28. kafli: Þorsteinn Kuggason reynir að sætta þá Þórð og Björn.

29. kafli: Sættir takast á þingi á Staðarhrauni á Mýrum.

30. kafli: Þórður fréttir að Björn sé heima með fáa menn. Hann og Kálfur (leiðindagaur, enda hefur hann viðurnefnið illviti) ákveða að ráðast á Björn.

31. kafli: Lið Þórðar skiptir sér á þá staði sem líklegt er að Björn eigi leið um og sitja menn hvarvetna fyrir honum.

32. kafli: Björn segir konu sinni frá erfiðum draumum um nóttina. Hann leggur af stað og lendir fljótlega í fyrirsát Kálfs og Þórðar. Eftir mikinn og krassandi bardaga drepur Þórður Björn.

33. kafli: Þórður færir móður Bjarnar höfuð hans. Hann lætur konu Björns fá men sem Björn bar en hún segir að hann skuli færa það Oddnýju. Oddný fellur í öngvit þegar henni er fært menið. Oddný verður mjög þunglynd eftir þetta, sérstaklega næsta vetur. Helst skánaði henni ef hún sat á hestbaki og Þórður teymdi undir henni fram og aftur. Þórði er sjúkleiki konunnar mikill harmur og er það sögn manna að heldur hefði hann kosið Björn á lífi en að Oddný væri svona mikið veik. Oddný „mornaði og þornaði og tæði aldri síðan tanna“ (= var þunglynd og brosti aldrei) eftir þetta en lifði þó lengi.

34. kafli: Ásgrímur, bróðir Björns, tekur við skaðabótum og sættist við Þórð. Þórður greiðir einnig Þorsteini Kuggasyni manngjöld fyrir Björn. Alls þarf Þórður að greiða 900 silfurs, sem eru níföld manngjöld, fyrir Björn. 


Uppfært í maí 2010
Harpa Hreinsdóttir