[Íslendingasögur

10. ágúst 1999
[Maí 2010: Þessi útdráttur var upphaflega saminn sem ítarefni fyrir áfangann JAR 113, þar sem gerð var tilraun til að samþætta þjóðfræði og jarðfræði í áfanga um Snæfellsnes.]
 


Útdráttur úr sögunni

U.þ.b. fyrstu 10 kaflarnir fjalla um landnám á Snæfellsnesi og afkomendur landnámsmanna.

3.- 4. kafli: Þórólfur Mostraskegg nemur land -> Þórsnes, Helgafell

6. kafli: Björn austræni, kvæntur Gjaflaugu Kjallaksdóttur  nemur land, býr í Borgarholti, heygður við Borgarlæk.

7. kafli: Geirröður nam land, bjó að Eyri. Vestarr Þórólfsson nemur land og bjó að Öndverðri-Eyri.

8. kafli: Geirríður, systir Geirröðar, bjó í Borgardal og átti skála um þvera þjóðbraut. Sonur hennar er Þórólfur bægifótur (haltur á fæti eftir hólmgöngu). Hann bjó að Hvammi í Þórsárdal.


Þórólfur Mostraskegg ~ Unnur                                        Ólafur feilan
_______________________                                     _____________
                |                                                                           |

Þorsteinn þorskabítur                         ~                             Þóra
_________________________________________________
                         |                                                            |
                Þorgrímur ~Þórdís Súrsdóttir (1)            Börkur digri ~ Þórdís Súrsdóttir (2)
            _____________________                         _________________________
                            |                                                                 |
Þorgrímur = Snorri goði                                            Þuríður (á Fróðá) ~ Þorbjörn digri (1)

                                                                                                                ~ Þóroddur skattkaupandi (2)
 

Þessi ætt kallast Þórsnesingar.


 

                                                                Björn austræni ~ Gjaflaug
                                                               _____________________
                                                                       |                     |
                                                                Óttar             Kjallakr gamli
                                                                               _______________________
                                                                                 |                                     |
                                                                          Arngrímur = Styrr     Vermundur hinn mjóvi.

                          Þessi ætt kallast Kjalleklingar.


Kjalleklingar og Þórsnesingar deila um helgi þingstaðar, þ.e. hvort megi kúka á Þórsnesi eða hvort menn verði að fara út í Dritsker.
 
 

11. kafli: Drukknun Þorsteins þorskabíts. Þórsnesingar deyja í Helgafell.

15. kafli: Mávahlíð: Geirríður Þórólfsdóttir bægifótar
                                ______________________
                                                      |
                                    Þórarinn svarti ~ Auður

            Holt: Katla
                    _____
                        |
                    Oddur

Katla er fríð og göldrótt ekkja sem er afbrýðisöm út í Geirríði, vegna þess að hún er í uppáhaldi hjá Gunnlaugi Þorbjörnssyni (Þorbjörns digra) á Fróðá. Oddur kemur af stað orðrómi um að Geirríður sé göldrótt og hafi ráðist á Gunnlaug og slasað hann. Mál var höfðað gegn Geirríði en það ónýttist.

Þjófnaðarmál kemur upp og Oddur Kötluson espar Þorbjörn digra á Fróðá upp á móti Þórarni svarta, syni Geirríðar. Þorbjörn fer að Þórarni og í bardaganum er Auður, kona Þórarins, handarhöggvin. Þórarinn drepur Þorbjörn þegar hann kemur að þeim að gera grín að handarhögginu.

20. kafli: Geirríður kemst að því að Oddur Kötluson hafi höggvið höndina af Auði. Þórarinn og 11 aðrir ríða í Holt. Katla beitir ýmsum göldrum en þegar Geirríður slæst í för með þeim finnst Oddur. Hann er hengdur í Búlandshöfða. Katla játar að hafa valdið meini Gunnlaugs Þorbjarnarsonar og er grýtt í hel undir höfðanum.

25. kafli: Vermundur mjóvi kemur til Íslands með berserkina Halla og Leikni (sænska menn). Styrr, bróðir Vermundar, tekur að sér að sjá um þá.

28. kafli: Halli vill fá Ásdísi, dóttur Styrrs, fyrir konu. Styrr ráðgast við Snorra goða. Síðan segir Styrr að ef Halli og Leiknir leysi þá þraut að ryðja götu um hraunið (nú Berserkjahraun) fái Halli Ásdísi. Styrr platar þá í gufubað að loknu verkinu, lokar þá inni og breiðir blauta nautshúð fyrir utan. Þegar þeir brjótast loks út detta þeir á hálli nautshúðinni og Styrr drepur þá. Þeir eru dysjaðir við götuna sem þeir ruddu. Snorri goði fær síðan Ásdísi fyrir konu.

29. kafli: Þóroddur skattkaupandi fær Þuríði Barkardóttur (hálfsystur Snorra) fyrir konu. [Hún var áður gift Þorbirni digra sem Þórarinn svarti drap. Hún var seinni kona hans því Þorbjörn var ekkjumaður, hafði áður verið kvæntur Þuríði Ásbrandsdóttur, systur Björns Breiðvíkingakappa. Af því hjónabandi voru nokkur börn, þ. á. m. Gunnlaugur Þorbjörnsson, sem Katla meiddi.] Þóroddur og Þuríður búa á Fróðá.

Björn Breiðvíkingakappi gerir sér tíðförult að Fróðá og er mál mann að með þeim Þuríði séu fíflingar (!) Þóroddur og fleiri gera Birni fyrirsát og drepur Björn fylgdarmenn Þórodds. Af þessu er Björn dæmdur útlægur í 3 vetur. Sama sumar fæðir Þuríður soninn Kjartan, sem að öllum líkindum er sonur Björns.

30. kafli: Þórólfur bægifótur stelur heyi Úlfars á Úlfarsfelli. Arnkell, sonur Þórólfs, greiðir Úlfari skaðabætur, í óþökk Þórólfs.

31. kafli: Þórólfur bægifótur sendi 6 drukkna þræla sína til að brenna Úlfar inni. Arnkell nær að stoppa þetta og slökkva eldinn, hengir síðan þrælana í Vaðilshöfða. Úlfar gerir Arnkel að varnaðarmanni sínum og lætur hann fá allt sitt fé. Þórólfur bægifótur leitar til Snorra goða og mútar honum (með afnotum af Krákunesskóg) til að taka að sér eftirmál eftir þrælana. Snorri vinnur málið en Þórólfur er samt fúll.

32. kafli: Þórólfur bægifótur fær Spá-Gils til að drepa Úlfar. Menn Arnkels drepa Spá-Gils. Arnkell Þórólfsson erfir Úlfar en Þorbrandssynir (frændur Úlfars) eru æfir yfir því.

33. kafli: Þórólfur bægifótur deyr. Arnkell dysjar hann „rammliga“ í Þórsárdal. Arnkell tekur allan arf eftir föður sinn.

34. kafli: Æ meira ber á afturgöngu Þórólfs bægifótar. Smalamaður finnst laminn í hel. Fé ærist. Fuglar sem setjast á dys Þórólfs falla þegar dauðir niður. Ekkja Þórólfs deyr. Afturgangan eyðir byggð í dalnum. Arnkell lætur grafa upp lík Þórólfs og jarða hann á Bægifótshöfða. Lá Þórólfur kyrr meðan Arnkell lifði.

35. kafli: Arnkell og Snorri goði deila um afnot af Krákunesskólgi.

36. kafli: Snorri goði sendi sakamann til höfuðs Arnkeli en tilræðið mistekst.

37. kafli: Snorri goði fær Þorleif kimba Þorbrandsson með sér til að ráðast á Arnkel. Arnkell fellur. Hann er heygður á Vaðilshöfða.

38. kafli: Þorleifur kimbi er dæmdur í útlegð.

39. kafli: Þorleifi kimba sinnast við Arnbjörn Ásbrandsson (bróður Björns Breiðvíkingakappa).

40. kafli: Björn og Arnbjörn koma til Íslands. Björn þekkir að Kjartan er sonur hans.

43. kafli: Álftfirðingar (= Þorbrandssynir) senda Egil þræl til að drepa Björn eða Arnbjörn. Freysteinn bófi, í liði Álftfirðinga, sér mannshöfuð í skriðunni Geirvör. Egill dettur um skóreimina og mistekst. Hann er drepinn í Egilsskarði.

44. kafli: Bardagi milli Þorbrandssona + Snorra goða og Breiðvíkinga (Bjarnar og liðsmanna hans). Meiri bardagar í næstu tveimur köflum.

47. kafli: Snorra er boðið í heimsókn að Fróðá. Þóroddur skattkaupandi klagar í Snorra að Björn sé alltaf að finna Þuríði. Snorri ákveður að drepa Björn og ríður að Kambi. Björn nær Snorra en þeir sættast með því að Björn lofar að fara á brott. Hann siglir af landinu daginn eftir.

48. kafli: Þorbrandssynir fara til Grænlands.

50. kafli: Árið 1000 kemur skip til Íslands og þ.á.m. suðureysk kona sem heitir Þórgunna. Hún átti glæsilegan búning sem Þuríður á Fróðá girntist en Þórgunna vildi ekki selja. Þuríður býður henni þá að koma í vist á Fróðá. Þórir viðleggur og Þorgríma galdrakinn, kona hans, eru á framfærslu á Fróðá. Þeim Þorgrímu galdrakinn og Þórgunnu semur illa.

51. kafli: Í heyskap að Fróðá rignir blóði! Allt þornar þó nema heyið sem Þórgunna þurrkaði og hrífa hennar. Morguninn eftir er Þórgunna veik. Hún gefur eftirfarandi fyrirmæli:

a) að hún verði jörðuð í Skálholti;

b) Þuríður húsfreyja fái skarlatsskikkju Þórgunnu;

c) gullhringur Þórgunnu fari með henni í gröfina;

d) rekkja hennar og rekkjutjöld verði brennd í eldi;

e) Þóroddur bóndi má eiga annað sem hann vill.

Svo deyr Þórgunna. Þuríður tímir ekki að láta brenna glæsileg rekkjutjöldin og hirðir þau. Menn leggja af stað með líkið og gista í Stafholtstungum, hjá bónda sem ekki tímir að bjóða þeim mat. Þórgunna sjálf birtist nakin í búrinu, skammtar og ber líkmönnum sínum. Þeir komast svo klakklaust í Skálholt og var Þórgunna jörðuð þar.

52. kafli: Kvöldið sem líkmennirnir koma aftur að Fróðá sjá menn inni í bænum hálft tungl á veggþili, sem gengur andsælis um húsið og hverfur svo. Þetta er urðarmáni og birtist hann nú á hverju kvöldi um hríð.

53. kafli: Sauðamaður á Fróðá fer að haga sér undarlega (tala við sjálfan sig o.fl.). Hálfum mánuði síðar er hann dauður þegar menn vakna einn morguninn og þá grafinn að kirkju. Nokkru síðar fer Þórir viðleggur út að pissa að næturlagi. Þegar hann ætlar aftur inn er sauðamaður afturgenginn þar fyrir, varnar honum inngöngu og leikur Þóri svo illa að hann varð rúmfastur eftir og dó skömmu síðar. Hann er jarðaður að kirkju en eftir þetta sjást afturgöngur Þóris og sauðamanns saman. Síðan veikist hver af öðrum á bænum uns 6 voru látnir.

Þóroddur bóndi drukknar með 5 mönnum sínum rétt fyrir jól.

Á Fróðá sést selshöfuð koma upp úr eldstæði. Barið var á hausinn en selurinn gekk upp við hvert högg. Loks náði Kjartan (sonur Þuríðar og Björns) að berja hann niður með járnsleggju.

54. kafli: Ákvðið er að drekka saman erfi Þórodds og jólaölið og er gestum boðið. Um kvöldið mæta Þóroddur og förunautar hans, alvotir og afturgengnir, í erfidrykkjuna. Gerist þetta nú á hverju kvöldi og svo bætast við Þórir viðleggur og sex með honum, allir moldugir. Úr verður að draugarnir sitja í eldaskála á kvöldin en heimilisfólk í öðru húsi, fram yfir jól.

Alltaf heyrast dularfull hljóð frá skreiðarhlaða heimilisins. Svo fer að vaxa rófa, lík sviðinni nautsrófu, úr hlaðanum. Menn reyna að toga í rófuna en árangurslaust. Skreiðarhlaðinn er rifinn en ekkert kvikt finnst. Hins vegar er allur fiskur horfinn og aðeins roðið eftir.

Þorgríma galdrakinn veikist, deyr og gengur aftur í liði Þóris, bónda sína. Nú veikist hver af öðrum. Um haustið, ári eftir lát Þórgunnu, höfðu, af 30 vinnufólki, 18 dáið, fimm strokið en 7 voru eftir.

55. kafli: Þuríður húsfreyja veikist. Kjartan leitar til Snorra goða, móðurbróður síns. Snorri sendi prest að Fróðá. Presturinn leggur til að:

a) rekkjubúnaður Þórgunnu verði brenndur;

b) draugunum sé stefnt með dyradómi.

Þetta er gert og höfðað mál gegn hverjum og einum draug og þeir dæmdir sekir um að trufla fólks heimilisfrið! Við uppkvaðningu dómsins hunskast hver og einn draugur burt. Prestur bar svo vígt vatn og helga dóma um öll hús, messaði og þá loks lögðust allar afturgöngur af. Þuríði húsfreyju batnar.

56. kafli: Deilur Snorra goða

67. - 62. kafli: Deilur um hvalrek og bardagi í kjölfarið.

63. kafli: Eftir lát Arnkels færðist afturganga Þórólfs bægifóts mjög í aukana. Þóroddur Þorbrandsson brýtur upp dys Þórólfs (líkið er ófúið en hryllilegt að sjá!). Þeir velta líkinu niður í fjöru og brenna. Askan dreifðist um alla fjöru. Kýr Þórodds gekk í fjörunni og sleikti steinana þar sem askan hafði fokið. Kýrin sást svo ganga með apalgráu nauti, sem enginn kannaðist við. Um haustið finnst kýrin ekki en skilar sér heim í fjós, rétt fyrir jól. Hún er þá með kálfi.

Kýrin ber um vorið, kvígu og nautkálfi, sem er svo stór að kýrin drepst við burðinn. Kálfurinn er apalgrár og eigulegur en blind fóstra Þórodds hefur illan bifur á honum og vill láta skera hann strax. Þóroddur tímir því ekki. Kálfurinn vex hratt og er allra nauta fríðastur að sjá, enda fær hann nafnið Glæsir. Þegar hann er fjögurra vetra er ákveðið að slá hann af um haustið. Rétt áður en honum skyldi slátrað ber svo við að Glæsir losnar og fer að djöflast í heyinu sem var nýbúið að raka saman. Þóroddur hleypur út en Glæsir ræðst á hann. Í lok spennandi nautaats nær Glæsir að reka hornið á kaf í kvið Þórodds og særir hann holundarsári. Glæsir anar svo af stað og endar í keldu þar sem hann sekkur á bólakaf (Glæsiskelda). Þóroddur lést skömmu síðar af sárum sínum,

64. kafli: Guðleifur nokkur villist á leið frá Íslandi til Írlands. Han kemur að ókunnu landi. Heimamenn taka Guðleif og menn hans höndum. Þá kemur höfðingi heimamanna, „mikill maður og garplegur ... og hvítur fyrir hærum.“ Sá talar norrænu og spyr nú Guðleif tíðinda, einkum af Snorra goða, Þuríði á Fróðá og Kjartani. Að skilnaði lætur ókunni maðurinn Guðleif fá hring, sem á að færa Þuríði, og sverð handa Kjartani. Menn telja höfðingjann hafa verið Björn Breiðvíkingakappa.

65. kafli: Endir, aðallega um Snorra goða og afkomendur hans.
 
 
 

Uppfært í maí 2010
Harpa Hreinsdóttir