[Laxdæla] [Íslendingasögur]
Nokkrar persónur í Laxdælu
Spurningar úr einstökum köflum


Melkorka
 

Myndin af Ólafi pá og Melkorku er tekin
á Sögusafninu, Perlunni, Reykjavík,
og birt hér með leyfi Ernst Backman, höfundar sýningarinnar. 

    Hvernig er Melkorku lýst þegar hún kemur fyrst við sögu? (Sjá 12. kafla).

    Af hverju er þessi "ómála kona" dýrust ambáttanna?

    Hvers vegna fjárfestir Höskuldur í ambátt?

    Hvernig bregst Jórunn við komu ambáttar á heimilið?  Með hvorri þeirra hefur þú samúð?

    Af hverju slær Jórunn Melkorku?

    Finnst þér lýsingin á Melkorku vera trúverðug (þ.e. sennileg) eða ekki?  Athugaðu bæði 12. kafla og 20. kafla í þessu sambandi.  Færðu rök fyrir máli þínu.

 

Ólafur pá

   Lýstu uppruna Ólafs pá og þjóðfélagsstöðu við fæðingu í nokkrum setningum. (Sjá 12 og 13. kafla.)

   Hvað er sagt um útlit Ólafs og mannkosti, í bernsku og æsku?  (Sjá 13. og 16. kafla.)

   Hvar elst Ólafur upp?  (Sjá 13. og 16. kafla.)

   Hvers vegna hvetur Melkorka Ólaf til að fara til útlanda? (Sbr. 20. kafla.)

   Hvernig vegnar Ólafi erlendis? (Sjá 21. og 22. kafla.)

   Breytir utanför Ólafs áliti manna á honum?  (Sjá 22. kafla.)  Breytist afstaða Höskulds til hans?  (Sjá 20. og 22. kafla.)

   Athugaðu sérstaklega vel bónorð og kvonfang Ólafs pá;  Hvernig líst Agli Skalla-Grímssyni á að fá Ólaf sem tengdason?  Hvernig líst Þorgerði á ráðahaginn?  Af hverju?  Hvers vegna er yfirleitt verið að spyrja hana?  Til hvaða ráða grípur Ólafur þegar svar Þorgerðar er ljóst og hvernig virka ráð hans?  (Sjá 23. kafla.)

   Hvað verður ráðið um efnahag Ólafs pá af lýsingunni á flutningum í Hjarðarholt?  Hvers vegna vill hann að Höskuldur fylgist með flutningunum.?

   Hvernig vegnar Ólafi pá í Hjarðarholti?

   Hvernig leysir Ólafur deilur þær um arf sem upp koma eftir lát föður hans?  (Sjá 27. kafla.)

   Hvernig bregst Ólafur við kynnum Kjartans, Bolla og Guðrúnar?  Hvers vegna bregst hann svo við?  (39. kafli.)

   Hvernig bregst Ólafur við fréttum um víg Kjartans?  Vill hann láta drepa Bolla?  (Sjá 49. og 50. kafla.)  Hvað má af þessu ráða um skapferli Ólafs?

   Skrifaðu stutta lýsingu á Ólafi með eigin orðum.
 


Þorgerður Egilsdóttir

  Þorgerður er fyrst kynnt til sögunnar í 23. kafla. Hvað segir faðir hennar um hana?  Hvað segir það lesanda um skapgerð Þorgerðar?

  Hvernig líkar Þorgerði við Bolla, fósturson sinn?  (Sjá 27. kafla.)

  Hver eru áhrif Þorgerðar á heimilinu?  (Sjá t.d. 29. kafla.)

  Hvernig bregst Þorgerður við dauða Kjartans?  (Sjá 51. kafla.)

  Hvernig eggjar Þorgerður Halldór, son sinn, til að hefna Kjartans?  (Sbr. 53. kafla.)  Berðu orð hennar saman við orð Guðrúnar í 48. kafla;  Hvað er líkt með þeim?

  Athugaðu þátttöku Þorgerðar í aðförinni að Bolla (sbr. 54. og 55. kafla.) Hvað má ráða um skaplyndi hennar og tilfinningar af orðum og framkomu í þessum köflum?  (Athugaðu líka fyrri tengsl Þorgerðar og Bolla.)






Guðrún Ósvífursdóttir

  Hvernig er Guðrúnu lýst?  (Sjá 32. kafla.)  Reyndu að umorða lýsinguna og nota eigin orð.

  Skoðaðu lýsinguna á hjónabandi Guðrúnar og Þorvalds í Garpsdal (34. kafli);  Hvaða ályktanir má draga af þessari lýsingu um skaplyndi Guðrúnar?

  Skoðaðu lýsinguna á tilhugalífi Þórðar Ingunnarsonar og Guðrúnar (34. og 35. kafli);  Hvaða ályktanir má af henni draga um skaplyndi og viljastyrk Guðrúnar?

  Hvernig kynnast þau Guðrún, Bolli og Kjartan?  Hvernig líkar þeim hverju við annað?

  Skoðaðu lýsinguna á kveðjum Kjartans og Guðrúnar (í 40. kafla).  Hvað vill Kjartan? Hvað vill Guðrún?  Hvers vegna eru þau ekki sammála?

  Af hverju er motri Hrefnu stolið?  (Sbr. 46. kafla.)  Athugaðu vel orð Guðrúnar þegar Kjartan ber þjófnaðinn upp á þau Bolla.

  Hvernig eggjar Guðrún bræður sína til að drepa Kjartan?  (Sbr. 48. kafla.)

  Hvernig eggjar Guðrún Bolla til að drepa Kjartan?  (Sjá 48. kafla.)

  Hvaða vonir gat Guðrún gert sér um lyktir bardaga milli  Bolla og Kjartans, skv. þriðja og fjórða draumi sínum?

  Hvernig bregst Guðrún við fregnum að dauða Kjartans?  (Sbr. 49. kafla.)  Athugaðu sérstaklega að orð hennar:  "Misjöfn verða morgunverkin.  Ég hefi spunnið tólf álna garn, en þú hefir vegið Kjartan" eru mjög fræg.

  Hvað verður ráðið um tilfinningar Guðrúnar af viðbrögðum við vígi Bolla?  (Sbr. 55. og 56. kafla.)  Hvað á Helgi Harðbeinsson við er hann segir "að undir þessu blæjuhorni [blæju Guðrúnar] búi minn höfuðsbani"?

  Hvernig eggjar Guðrún syni sína til að hefna Bolla? (Sbr. 60. kafla.)

  Hvernig er samningur Guðrúnar við Þorgils Hölluson?  (Sbr. 59. og 60. kafla.)  Hvað finnst þér um framkomu hennar við Þorgils?

  Hvernig koma áhrif og völd Guðrúnar skýrt fram í brúðkaupi hennar og Þorkels Eyjólfssonar?

  Hvað á Guðrún við með orðum sínum:  "Þeim var ég verst er ég unni mest" í 78. kafla?


Kjartan og Bolli

  Skoðaðu vel lýsinguna á þeim í 28. kafla.  Lýstu svo hvorum um sig með eigin orðum.  Lýstu einkum:
Útliti, líkamsburðum, skapgerð og vinsældum.

  Hvernig kemur þeim saman?  (Sjá 39. og 40. kafla.)

  Athugaðu viðhorf Bolla og Kjartans til konungs og samskipti þeirra við hann (í 40. kafla). Er viðhorf þeirra líkt eða ólíkt?

  Athugaðu orðaskipti Bolla og Kjartans í 41. kafla, sem og orð Bolla í 42. kafla;  Hefur Bolli ástæðu til að ætla að Kjartan verði langdvölum í Noregi?

  Kemur bónorð Bolla lesanda á óvart?  (Þ.e. hefur áður komið fram að hann væri hrifinn af Guðrúnu?)

  Skýrir Bolli rétt frá almannarómi um vináttu Kjartans og Ingibjargar?

  Hvernig bregðast Ólafur pá og Ósvífur við bónorði Bolla?  En Guðrún?  (Sjá 43. kafla.)  Skrifaðu nokkrar línur um viðbrögð hvers þeirra.

  Ólafur konungur Tryggvason segir við Kjartan: "... því kost muntu eiga að taka þann ráðakost í Noregi er engi mun slíkur á Íslandi", í 43. kafla.  Hvað á konungur við?  Hvers vegna tekur Kjartan ekki þann kost?

  Athugaðu heimkomu Kjartans (í 44. kafla); Hvernig bregst Kjartan við tíðindum af brúðkaupi Bolla og Guðrúnar?

  Hvernig reynir Bolli að sættast við Kjartan í heimboðinu? (45. kafli.) Hvernig tekst til?

  Hvernig er hjónaböndum Kjartans og Bolla lýst, einkum hvað varðar ást og samlyndi hjóna?  Lýstu vandlega hjónabandi Bolla og Guðrúnar (sjá 43. kafla), annars vegar, og hins vegar hjónabandi Kjartans og Hrefnu (sjá 45. kafla).

  Hvers vegna er sverði Kjartans stolið (í 46. kafla)?

  Er líklegt að Bolli hafi átt hlut að máli þegar sverði Kjartans og motri Hrefnu var stolið?

  Frá 46. kafla er fullur fjandskapur milli Bolla og Kjartans. Hvor á upptök fjandseminnar?

  Til hvaða hefnda grípur Kjartan í upphafi 47. kafla?  Hvað finnst þér um þessa aðferð Kjartans?

  Hver er síðasta hefndarráðstöfun Kjartans?  (Sjá 47. kafla.)

  Athugaðu mjög vel lýsinguna á aðförinni að Kjartani í 48. og 49. kafla;  Hvernig hagar Bolli sér?;  Hvernig hagar Kjartan sér?;  Af hverju ber Kjartan ekki sverðið sem Ólafur Tryggvason gaf honum?;  Hvaða sverð hefur Bolli?;  Hvernig ber dauða Kjartans að?;  Hvernig bregst Bolli við dauða Kjartans?

  Hvernig bregst Bolli við banamönnum sínum? (Sjá 55. kafla.)
 

Uppfært í apríl 2010
Harpa Hreinsdóttir