[Íslandsklukkan] [Halldór Laxness] [Kennsluvefir Hörpu Hreinsdóttur]
Glósur úr Eldi í Kaupinhafn
1.  Úffelen Hamborgarkaupmaður býður Arnasi að gerast landstjóri yfir Íslandi.  Danakonungur er fjárvana og hefur boðið Hamborgarkaupmönnum Ísland til kaups.

2.  Niðurstaða Hæstaréttar í Danmörku er að Magnús í Bræðratungu sé sýkn saka. Magnús fær fé sitt til baka, en Arnas á nú að gjalda Magnúsi jafnháa upphæð í skaðabætur.  Lögmaður Magnúsar var Jón  Marteinsson en danskir Íslandskaupmenn borguðu málareksturinn.  Arnas er settur í farbann til Íslands.
    Skálda er horfin.  Líklega hefur Jón Marteinsson stolið henni, til að selja Svíum.

3. Magnús í Bræðratungu heldur upp á sigurinn, fer á fyllerí og drukknar í síki í Kaupmannahöfn.  Jón Grindvicensis er viss um að Jón Marteinsson hafi drekkt honum.

4.  Um Stóru-bólu /bóluna miklu á Íslandi.  Mikill mannfellir, þ.á.m. látast biskupshjónin úr bólunni.  Kominn er nýr kóngur í Danmörku, sem ekki er hlynntur Arnasi (eða Íslendingum yfirleitt).  Embættismenn sem Arnas lét dæma á Íslandi undirbúa nú áfrýjun.

5.  Samtal Arnasar og etatsráðsins danska (sem er einhvers konar ráðherra Íslandsmála).  Etatsráðið hefur furðulegar hugmyndir um Ísland.  Arnas segir honum frá tilboði Hollendinga og honum verður illa við.

6.  Mál Jóns Hreggviðssonar vóg á sínum tíma þyngst í ákærunni gegn Eydalín lögmanni, þ.e. að Eydalín skyldi hafa dæmt Jón til dauða án sannana, í besta falli á líkum. Þegar Eydalín var dæmdur frá æru og embætti (í lok Hins ljósa mans) var Jóni Hreggviðssyni jafnframt skipað að útvega sér nýja hæstaréttarstefnu.  Það hefur hann ekki gert.  Snæfríður fær það nú í gegn að Jón er dæmdur á Brimarhólm fyrir þessa vanrækslu.  Það gleymist samt að ganga almennilega frá dómnum.

7.  Menn koma og handtaka Jón Hreggviðsson, fara með hann til Ólafsvíkur til að koma honum á skip.  Skipstjórinn neitar að taka farþega nema dómsskjöl fylgi.  Snæfríður kemur til Ólafsvíkur og sansar skipstjórann.

8.  Jón er fluttur í fangelsið á Brimarhólmi.  Arnas Arnæus bjargar honum (enda var Jón ekki formlega dæmdur) og tekur hann heim til sín.

9.  Í Skálholti:  Sigurður Sveinsson, dómkirkjuprestur, gegnir nú starfi biskups.  Snæfríður kemur í heimsókn.  Hún vill fá lánað fé til þess að fara til Danmerkur og taka á ný upp mál föður síns.

10.  Snæfríður hittir Gullinló, höfuðsmann Íslands, að máli.  Gullinló er til í að aðstoða Snæfríði ef hún vill bera vitni gegn Arnasi.  Hún samþykkir það en segist ekki munu bera ljúgvitni.

11.  Jón Hreggviðsson vinnur á heimili Arnasar.  Frú Metta kemur til hans og vill fá upplýsingar um Snæfríði.  Athugið ræðu Jóns um Snæfríði.

12.  Snæfríður er ferðbúin og ætlar til Íslands.  Þær Guðríður (fyrrum ráðskona) ræðast við.  Snæfríður hefur haft með sér forna bók til að gefa Arnasi en er nú hætt við.  Um nóttina kemur Arnas.  Hann segist lengi hafa girnst þessa bók. Arnas segir að umbótatilraunir sínar á Íslandi hafi allar runnið út í sandinn.  Eini árangurinn er Jón Hreggviðsson (þ.e. mál hans).  Snæfríður býðst til þess að rífa skjölin sem hún hefur orðið sér út um (þ.á. m. skjalið þar sem Arnasi er stefnur fyrir dóm á Þingvöllum næsta vor).  Arnas og Snæfríður láta sig dreyma um nýtt og betra Ísland, þar sem Arnas er lávarður yfir Íslandi og þau búa saman á Bessastöðum.

13.  Arnas hefur skilið bókina eftir um nóttina. Snæfríður leggur af stað til Íslands.
    Úffelen kemur að tala við Arnas.  Skilyrði Hamborgarkaupmanna fyrir kaupum á Íslandi er að hæfur íslenskur maður fáist til að stjórna landinu.  Athugið ræðu Arnasar um mann sem ætlar að kyrkja lítið dýr ... og áfram.  Arnas afþakkar starfið.

14.  Jón Marteinsson kemur um nótt í bókhlöðu Arnasar og segir Jóni Grindvicensis að Kaupmannahöfn sé að brenna.  Jón Grindvicensis er viss um að Jón Marteinsson hafi kveikt í.  Hann  vekur Jón Hreggviðsson, síðan Arnas.  Arnas er mjög fálátur og sinnulaus og lætur þessar fregnir ekki skipta sig neinu máli.

15.  Um bruna Kaupmannahafnar.  Íslendingar bjóðast til að hjálpa Arnasi að bera bækurnar á öruggan stað.  Arnas afþakkar því hann trúir því ekki að eldurinn nái til bókhlöðu sinnar.  Íslendingarnir bíða átekta og loks rankar Arnas við þeim og segir þeim að bjarga því sem bjargað verður.  Þeir komast bara eina ferð og meirihluti safnsins brennur.

16.  Nótt í brennandi Kaupmannahöfn.  Jón Hreggviðsson og Jón Grindvicensis reika um borgina.  Þeir hitta Jón Marteinsson og fara saman að fá sér öl, í boði Jóns Marteinssonar.  Það kemur í ljós að hann á ekki fyrir ölinu og hann býður Skáldu sem borgun.  Þá borga Jón Hreggviðsson og Jón Grindvicensis frekar fyrir ölið með skónum sínum.

17. Af máli Jóns Hreggviðssonar.  Hið gamla mál Jóns er nú rekið fyrir Hæstarétti í Danmörku.  Loks gengur lokadómur í máli hans og Jón er sýknaður af því að hafa drepið böðulinn um árið.  Jón leggur af stað til Íslands.

18.  Á Þingvöllum:  Glæpamenn á alþingi ræðast við.  Jón Hreggviðsson kemur til þeirra.  Dómar gengu á alþingi í gær:  Eydalín heitinn lögmaður var sýknaður af öllum ákærum og eigur hans endurheimtar.  Þær koma nú allar í hlut Snæfríðar.  Hún er gift Sigurði Sveinssyni, biskupsefni í Skálholti.  Arnas er dæmdur í miklar fjársektir.
 

Gert í apríl 2010
Harpa Hreinsdóttir