[Málsaga] [Kennsluvefir Hörpu Hreinsdóttur]
 
 

 
 
Imbareglur eru stundum kallaðar þumalfingurreglur. Slíkar reglur er góðar til síns brúks en eru vitaskuld ekki algildar.

Til þess að finna út hvaða hljóðbreytingar hafa orðið í tilteknu orði frá frumnorrænu til nútímamáls:

1)  Hefur e klofnað í ja eða jö?  Sé svo er þetta klofning.  Ef ekki þá sjá framhald:
2)  Sést i í aftasta eða næstaftasta atkvæði endurgerða orðsins?  Sé svo er þetta i-hljóðvarp.  Ef ekki sjá framhald:
3) Sést u í aftasta eða næstaftasta atkvæði endurgerða orðsins?  Sé svo er þetta u-hljóðvarp.  Ef ekki skoðaðu þá aftur lið 1 og 2.

Hafa einhver hljóð dottið burt (þ.e. gjörsamlega horfið en ekki breyst í eitthvað annað)?  Sé svo hefur líka orðið stórabrottfall í orðinu.  Það er langalgengast að stórabrottfall hafi orðið en hitt er líka til.


*Hljóðdvalarbreytingin var breyting á hljóðdvöl = lengd:

Fyrir þessa breytingu var lengd sérhljóða fastbundin, þ.e.a.s. sérhljóð voru annað hvort löng eða stutt burtséð frá samhljóðum í kring um þau.  Eftir hljóðdvalarbreytingu (núna) varð lengd sérhljóða stöðubundin, þ.e.a.s. nú fer það eftir því hve mörg samhljóð eru á eftir sérhljóðinu hvort það er langt eða stutt. (Ef eitt eða ekkert samhljóð er á eftir er sérhljóðið langt;  Ef fleiri en eitt samhljóð er á eftir er sérhljóðið stutt.) **

*(Í rauninni fólst hljóðdvalarbreytingin fyrst og fremst í breytingu á lengd atkvæða en til einföldunar er einungis talað um sérhljóð hér.)

** Eins og aðrar imbareglur er þessi ófullkomin, þ.e.a.s. þetta gildir einungis um áhersluatkvæði (ekki endingar) og auk þess eru undantekningar frá reglunni ef um sérstakar hljóðasamstöfur er að ræða (t.d. t+r, s+j)
 

Harpa Hreinsdóttir
Gert í byrjun september 2001
Uppfært í mars 2011