Myndasíða Hörpu

Ferð Atla og Hörpu til Krítar 3.-24. júlí 2014

Myndir Atla úr sömu ferð eru hér

Kort af Krít 

Í fyrsta sinn í mörg ár gátum við keypt flug beint frá Íslandi til Krítar. Við keyptum gistingu fyrirfram í Hania (Chania) fyrstu nóttina og þær tvær síðustu en annars fundum við okkur gistingu í þeim þorpum sem við dvöldum í þegar við vorum komin á staðinn. Rauðu deplarnir sýna hvar við dvöldum en áður höfum við dvalið í Matala (austan við Agia Galini) og Sougia og Paleohora (vestan við Hora Sfakion), auk þess að hafa tvisvar komið til Agia Roumeli því þar endar leiðin niður Samaria gjána. Svo segja má að suðvesturströndin sé okkur nokkuð vel kunn núna.

Við byrjuðum á að taka rútuna frá Hania til Reþymno (Rethimnon) og rútu þaðan til Agia Galini, þar sem við dvöldum í fimm nætur. Þaðan gátum við skipt í rútu í örþorpi sem heitir Kaxos og þurftum því ekki að fara alla leið aftur til Reþymno á leið til Plakias. Okkur likaði vel í Plakias í fyrra og dvöldum því níu nætur þar í ár. Síðan lá leiðin til Hora Sfakion. Til að komast þangað með rútu hefðum við þurft að fara til Reþymno, þaðan til Hania og þaðan til Hora Sfakion sem hefði tekið heilan dag. Skipulagið er svona vegna þess að Plakias er í Rethymno-sýslu en Hora Sfakion í Hania-sýslu (það eru fjórar sýslur á Krít).  Þó eru bara 50 km milli Plakias og Hora Sfakion - að vísu mjög seinfarnir 50 km - svo við tókum leigubíl á milli þeirra. Dvöldum í Hora Sfakion í fjórar nætur og enduðum sem áður var sagt á tveimur nóttum í Hania. Það hentar ekki bílhræddum eða lofthræddum að fara þann spottann með rútu.



Agia Galini (nafnið þýðir Friðsæld og tengist nauðalíkri sögu og þeirri sem liggur að baki Strandakirkju) er byggð á stöllum; brattar tröppur og stígar milli húsanna en bara ein bílfær leið gegnum þorpið. Hér sést bílastæðið, smábátahöfnin, glittir í strandarendann fyrir miðri mynd og maðurinn fremstur, enn með sinni heldur hallærislega hatt. Gullfallegar hengiplöntur af kletti (og þar fyrir neðan pálmaskrúð) fela volduga járnhurð (opna) að nokkurs konar göngum sem opnast ofar í þorpinu. Þau eru eftir Þjóðverja í síðari heimstyrjöldinni. Ekkert upplýsingaskilti er um þetta kannski af því nokkuð er um þýska túrista í þessu þorpi. Önnur ferðahandbókin mín var saga Krítar í síðari heimstyrjöldinni og í henni kom fram að í Agia Galini geymdu Þjóðverjar rússneska stríðsfanga og gyðinga, sem þeir síðan káluðu. Ég hygg að það sé ekki haft í hámæli í þorpinu núna.
 
Daedalos og Ikaros
Efri myndin var tekin við stolt Agia Galini: Stytturnar af þeim feðgum Dædalosi og Ikarosi. Þeir lögðu nefnilega í hann af kletti við Agia Galini, í fjaðraham sem límdur var saman með vaxi, á flótta undan þeim illa konungi Mínosi. Svo sem öllum er kunnugt flaug Ikaros of nálægt sólinni, vaxið bráðnaði og hann steyptist í hafið við eyjuna Ikariu (sem er rétt hjá Samos) og drukknaði. Þetta lukkaðist betur hjá pabbanum og Dædalos lenti á Ítalíu, þar með sloppinn. Við sáum ekki betur en stytturnar væru úr steinsteypu og hún byrjuð að molna og springa.
Dædalos og Ikaros

Og hér stend ég glaðbeitt við elsta flugvöll veraldarsögunnar ...
Agia Galini

Við leigðum herbergi með eldunaraðstöðu + baðherbergi hjá frú Mariku fyrir 25 evrur á sólarhring. Þetta er útsýnið af svölunum, myndin tekin á laugardagseftirmiddegi þegar prestur og sóknarnefnd eru að undirbúa messu. Manninn langaði í messuna (til að hlýða grannt á framburð prestsins á Nýja testamentinu) en þorði svo ekki þegar sunnudagur rann upp því honum fannst hann ekki eiga föt við hæfi. Þess í stað sátum við á svölunum og horfðum á brauðið skorið undir skyggninu (orþódoxar brúka brauð en ekki oblátur). Suður-Grikkir eru dálítið kærulausir í málningarvinnu og sé grannt skoðað má sjá að kirkjuþakið hefur verið málað rétt áður en hellirigndi svo rauðir taumar hafa lekið niður alla veggi.

Herbergi frú Mariku var prýðilegt nema dýnurnar voru dálítið slitnar. Á leyfisbréfinu sem hékk á hurðinni kom fram að henni var heimilt að rukka 50 evrur fyrir sólarhringinn en það vantar túrista í Agia Galini, raunar alls staðar á Suður-Krít. Hún færði okkur tvisvar heimabakaðar kökur og var einkar almennileg við sína gesti. Í sama húsi var pósthús bæjarins í einu herbergi (og eiginlega alltaf lokað) og þvottahús bæjarins og kannski eitthvað fleira. Í þorpinu var hins vegar ekki ein einasta bókabúð eða yfirleitt seldar bækur á grísku, í örfáum búðum var fábreytt úrval reyfara á þýsku og ensku og svo þessar venjulegu túristabækur um grískan mat, gríska fánu og flóru o.s.fr.

Við tókum svo upp á því að snæða morgunverð á veitingastað við ströndina því í kaupbæti fylgdu strandbekkir og sólhlíf. Eigandinn, myndarkarl líklega kominn yfir sextugt, reyndi ævinlega að hella í okkur raki (krítverskum landa) í morgunverð og hélt því fram að þetta væri vítamín. Sjálfur gekk hann um með hálffulla vatnsflösku, sem ég hélt í sakleysi mínu að innihéldi vatn alveg þangað til ég sá að hinir í fjölskyldunni voru búnir að leggja karlinn til á sólbekk í skugga laust eftir hádegi. Þá fattaði ég að það var ekki vatn í flöskunni og alkóhólismi er samur við sig hvarvetna; Karlinn sást aldrei á kvöldin. Aftur á móti stóðu hinir í familíunni sig vel, maturinn var klassafínn og óspart spilaðar krítverskar rímur og önnur þjóðleg dinnertónlist fyrir gesti. Suður-Krít er nefnilega allt annar heimur en túristabæirnir norðanmegin, t.d. heyrir maður aldrei Zorba eða Aldrei á sunnudögum þarna fyrir sunnan, þar ríkir þjóðararfurinn einn.

sauðaís

Og þótt menn séu e.t.v. ólæsir í Agia Galini selja þeir túristum ís úr sauðamjólk. Við smökkuðum hann ekki ... bæði heldur áhugalaus um ís.
Plakias Despina

Svo lá leiðin til Plakias. Minnug norðanvindsins í fyrra tók ég ekki í mál að leigja annað en hósiló með suðursvölum. Og þótt mér sé bölvanlega við blómskrúð (sem getur fylgt pöddufans) ákváðum við að leigja hjá frú Despinu fyrir 35 evrur nóttina. Þetta var stórt herbergi, lítil eldhúsviðbygging (sem er hulin þríburablóminu á myndinni) og baðherbergi. Atli stendur á svölunum, við gluggann sem hlerarnir eru fyrir. Pöddur voru ekki til trafala og eiginlega var eini gallinn sá að frú Despina geymir handklæðin í mölkúlum yfir vetrartímann og lyktin loddi enn við þau. Allt var nýmálað og þarna hafði purkunarlaust verið málað yfir slökkvara og slett á gardínustangir, flísar og ýmislegt annað. Ég þori ekki einu sinni að minnast á sparsl-vinnubrögðin!

Plakias Despina

Þrátt fyrir auglýst Wi-fi samband var það samband einungis að finna á litlu horni á svölunum og það heldur lélegt samband. Hér hangir maðurinn á facebook ...

Plakias

Frú Despina var ævinlega svartklædd og með gylltan kross um hálsinn og þótt maðurinn tali grísku vildi hún yfirleitt heldur tala við mig, Við notuðum stikkorð úr þýsku (báðar jafn lélegar í þeirri tungu) eða létum manninn túlka. Ef annað var ekki í boði  greip ég til actionary túlkunar, ég er að verða nokkuð seig í svoleiðis. Þegar við sömdum um leiguna sagðist hún því miður ekki geta þrifið á föstudag og laugardag því hún þyrfti að fara til Reþymno og ég náði því að það væri eitthvað í sambandi við manninn hennar. Í ljós kom að á laugardeginum var tveggja ára ártíðar eiginmanns Despinu minnst og hún gaf okkur þessar bollur/brauð sem hafði greinilega verið boðið upp á. Despina var ósköp döpur allan tímann sem við leigðum hjá henni.

plakias

Í miðju þorpinu Plakias er lækjarspræna og skjaldbökur höfðust við undir og við brúna yfir hana. Ég hef aldrei áður séð villtar skjaldbökur. Hins vegar hafði köttum snarfækkað frá því í fyrra, frú Despina sagði að veturinn hefði verið óvenju kaldur og þeir hefðu einfaldlega ekki lifað hann af. Sem betur fer voru þó bókasafnskettirnir þrír sprækir nema einn hafði misst annað eyrað síðan í fyrra.

plakias

Rómantík í Plakias: Mánaljósið merlar á öldunum. (Atli tók myndina.)  Uppi á hæsta tindinum er kirkja.

Heilagur Nikulás og Kotsifou

Við leigðum bíl og ókum um svæði nálægt Plakias, ætluðum okkur ofan í Amari-dalinn en af því vegirnir eru eins og skrúfur (þetta eru ekki einu sinni zetubeygjur) þá villtumst við talsvert í hlíðum þessa ágæta dals. Þessi mynd er tekin snemma í ferðinni, af kirkju heilags Nikulásar sem hefur verið troðið inn í skot í bergstálinu. Hinum megin við veginn er hrikaleg Kotsifu-gjáin, vinsæl gönguleið. Þær eru nokkrar hrikalegu göngugjárnar þarna á Suður-Krít, Samaria frægust en hinar virtust jafnálitlegar þegar maður kíkti ofan í þær.

Yerakari

Ég var orðin mjög kaffiþyrst svo við stoppuðum við tavernu innfæddra í fjallaþorpinu Jerakari (Gerakari/Yerakari, sem skv. bókinni um Krít í síðari heimstyrjöldinni kom mjög við sögu andspyrnuhreyfingarinnar). Þar var þessum fallega asna parkerað meðan bóndinn fékk sér kaffitár og ræddi fótbolta við hina bændurna á kaffihúsinu. Sem sjá má er asninn hlaðinn vínviðargreinum (held ég) sem væntanlega á gefa geitfénu, klippum og keðjusög er líka hlaðið á hann. Menn sitja í söðli á asna. Eigandi hans var svo almennilegur að tylla á hann derhúfunni eftir nokkra stund svo honum yrði ekki alltof heitt, það var sennilega vel yfir þrjátíu stiga hiti í sólinni.

Jerakari

Í Jerakari sáum við nokkur dæmi þess að á bjargi byggir hygginn maður hús! Atli stendur við hliðina á einu svona bjargi, sem húsið er byggt um og bjargið síðan málað. Þegar hér var komið ferð var Atli búinn að kaupa sér ljómandi lekkeran kábojhatt.

Amari fjallvegur

Landslag og gróðurfar vestan við Amari dalinn minnir glettilega á íslenskan fjallveg ... nema lofthitinn er annar. Við þvældumst til fleiri þorpa og ég drakk í þriðja sinn úr brunni eilífrar æsku í Spili en get nú ekki séð að árangurinn af hinum tveimur sopunum hafi verið neitt til að hrópa húrra fyrir og bind engar vonir við þennan.

Preveli ströndin

Við ókum að Preveli ströndinni sem er talin ein af fegurstu ströndum Krítar. Grikkir virðast meta fegurð stranda einkum eftir tvennu: Pálmum og fíngerðum gullnum sandi. Í þriðja lagi skiptir máli hversu afskekkt og fámenn hún er. Mér er skítsama um pálma og tek hnullungaströnd framyfir fíngerðan sand eftir að hafa lent í norðanstormi á akkúrat svoleiðis ströndum sem sandskúra mann yst sem innst. Og við hnullungastrendur er Lýbíuhafið við sunnanverða Krít miklu tærara og smaragðsgrænna. En á þessari mynd sést sem sagt yfir Preveli og hálfan pálmaskóg, hinn helmingurinn brann fyrir nokkrum árum. Niður á ströndina eru 400 steinþrep og slóðar inn á milli.

Preveli ströndin

Svona þrep - ég ítreka: Fjögur hundruð talsins! (Og við þurftum líka að ganga þau upp, í bakaleiðinni.)

Preveli

Tilfinningin er svipuð og innst í Ásbyrgi þá komið er inn í pálmaskóginn (raunar eru salttré vinstra megin við mig á myndinni en vissulega pálmar hægra megin).

preveli

Atli við innganginn í hálfa pálmaskóginn.

Hora Sfakion

Svo lá leið til Hora Sfakion. Atli tók þessa mynd í gönguferð sem hann stalst í meðan ég lagði mig - eftir ansi tæpum stíg sem lofthræddir eru varaðir við. Á myndinni sést yfir þorpið, fremst er ströndin og við bjuggum rétt fyrir ofan hana.

The three brothers

Við leigðum herbergi af og átum morgunverð á veitingahúsi The three brothers, fyrir 40 evrur á sólarhring. Innifalið voru sólbekkir og sólhlíf á ströndinni. Atli hélt því fram að hann hefði stungið upp á staðnum eftir að hafa lesið góða dóma um hann á netinu en ég held að hann hafi fallið fyrir sjálfstæðiflokksfálkanum á burst bræðranna þriggja! Hvað um það, þetta var flottur staður, góður matur, indælt þjónustufólk (sérstaklega amma bræðranna) og mátti borga með kreditkorti! Slíkt er engan veginn sjálfgefið á Suður-Krít, meira að segja frekar sjaldgæft, en kom sér afskaplega vel þegar hraðbanki þorpsins tæmdist laust fyrir helgi og ekki fyllt á hann fyrr en á mánudegi.

Loutro

Við sigldum til Loutro, bæjar sem er ekki í vegasambandi og þykir henta vel þeim sem leita að friði og ró. Þar er hótelum og gististöðum hins vegar staflað á hvern auðan blett, hverju upp af öðru og fólk í stöppu. Mér var um megn að dvelja í Loutro meir en tvo tíma, fann stressið heltaka mig ;)  Á leiðinni til Loutro er Sweetwater beach (Glyka Nera) sem innfæddum þykir mjög merkileg, enda er hún í eyði og einungis aðgengileg af sjó. Hitt er þó öllu merkilegra að þar seytlar ferskt og gott vatn úr bergi víða og segir í hinni ferðahandbókinni sem ég hafði með í Kindlinum (Notes from Crete) að grafi maður holu í sandinn fyllist hún umsvifalaust af fersku vatni. Atli labbaði yfir á Glyka Nera og er með myndir þaðan á sinni síðu, takamarkað þó því þetta er öðrum þræði nektarströnd.

Í Sfakiu hafa menn alltaf verið lítið fyrir boð og bönn og kannski er það þess vegna sem á hraðbátaauglýsingum í Loutro er sérstaklega tekið fram að ekki þurfi að sýna nein skírteini eða krafist nokkurra prófa til að fá leigðan slíkan grip. Einn frægasti andspyrnuforingi gegn Tyrkjum á nítjándu öld, Daskalogiannis, bjó í fjallaþorpi fyrir ofan Loutro og gerði út kaupskip úr síðarnefnda bænum. Tyrkir handsömuðu hann fyrir rest og sem víti til varnaðar var Daskalogiannis fleginn lifandi fyrir utan dómshúsið í Hania. Önnur af stóru bílaferjunum sem sigla stanslaust milli Agia Roumeli, Loutro og Hora Sfakion heitir einmitt Daskalogiannis.

Verslunargata í Hania

Leiðin lá svo aftur til Hania hvar við bjuggum aftur í götunni fyrir aftan Sjóminjasafnið, leigðum litla íbúð með svefnherbergi, eldhúsi og baðherbergi (55 evrur sólarhringurinn - ég er alltaf að tiltaka verðið til að hvetja fólk til að ferðast á eigin vegum um Krít en láta ekki loka sig inni í sundlaugargarði í Platanias/Kato Stalos/ Agia Marina í pakkaferð sem er síst ódýrara). Leigusalinn færði okkur fulla vírskál af appelsínum úr eigin garði, tók fram að þær væru algerlega lífrænt ræktaðar ;)  Myndin er tekin í verslunargötu í gamla bænum sem margir kannast við.

Í tyrkneska hlutanum í Hania

En sé farið rétt út fyrir túristagöturnar er ekki allt jafn flott og fínt í Hania: Þessi mynd er tekin í tyrkneska hlutanum í gamla bænum. Ég veit ekki hvort er búið í húsinu.

Matinades

Ég valdi að borða á þessum veitingastað. Maðurinn varð nú aldeilis glaður þegar þessir tveir hófu að kveða krítverskar rímur (matinaðes)!  Rímnakveðskapur er nefnilega líklega bara til á Krít og á Íslandi. Við klöppuðum glaðbeitt eftir hverja rímu (sem tók svona 20 -30 mínútur í flutningi) en allir hinir túristarnir flýttu sér framhjá, líklega í leit að Þeódórakis-dinnertónlist. Ég tók mynd af manninum með flytjendum og þá vildu þeir endilega að ég sæti líka fyrir með þeim. Og verður að segjast að þeir eru miklu glaðari á myndinni með mér svo ég set hana inn. Á eftir að gúggla hvort sá gamli með afbrigði af hárneti hafi verið að spila á krítverska lýru/fiðlu eða bara gríska - tókst að hraðtelja strengina þegar ég settist hjá þeim og þeir eru þrír ...
 
Ströndin í Hania

Að lokum er rétt að geta þess að Kindill mannsins hrundi í miðri ferð. Eftir hrunið varð þetta algeng sjón á ströndinni en hann tók æ ofan í æ fram að best væri að læra daglegt mál grískt af Andrési Önd! Myndin er tekin á ströndinni í Hania.