Myndasíða Hörpu
Myndir Atla úr sömu ferð

Ferð Atla og Hörpu til Parga í Epírus í júní og júlí 2017

Texti Atla: Við flugum til Kerkyru (Corfu) í gegnum London 12. júní og vorum þar í tvær nætur. Frá Kerkyru fórum við með ferju til Igoumenitsa og þaðan með rútu til Parga þann 14. júní.

Við gistum 22 nætur í Parga, fyrstu 14 næturnar í herbergi með útsýni yfir Piso krio neri ströndina en það var ekki laust fram í júlí svo síðustu átta næturnar vorum við í húsi hinu megin við sömu götu. Þann 6. júlí fórum við sömu leið aftur til Kerkyru og flugum heim þaðan gegnum Amsterdam þann 7. júlí.

Bjarni og Elín heimsóttu okkur á leið sinni heim frá Palestínu og voru hjá okkur frá kvöldi 17. júní til 20. júní. Þau voru á bílaleigubíl og við Bjarni ókum saman um fjallahéraðið Zagoriu 19. júní. Tveim dögum seinna, 21. júní, fórum við Harpa í hópferð til Meteora og í vikunni eftir, 29. júní, til þriggja af Jónísku eyjunum sem heita Lefkaða, Kefalonia og Íþaka. Þessar tvær dagsferðir voru í boði hjá ferðaskrifstofum í Parga. Einnig fórum við styttri ferðir um næsta nágrenni Parga, sumar gangandi og sumar með lítill lest sem skutlar ferðamönnum á skoðunarverða staði í nágrenni bæjarins.

Allar landslagsmyndir eru miklu flottari á myndasíðu Atla sem krækt er í efst í vinstra horni hér.
Epírus á Grikklandi
Á þessari mynd er héraðið, Epírus sérstaklega auðkennt. Fyrir norðan það er Albanía. Corfu, sem heitir Kerkyra á grísku, teygir sig að hluta eftir strönd Albaníu. (Lengst til vinstri á kortinu sést smá angi af Ítalíu). Í fyrra vorum við akkúrat hinum megin á meginlandinu, þ.e.a.s. á "miðfingrinum" sem sést á skaganum neðan við Þessalóníki. Epírus er fátækasta hérað Grikklands en líkist Íslandi að sumu leyti: Íbúar eru um 320.000 og meirihlutinn býr í höfuðborginni Jóannína.

Strax í Keflavík kom í ljós að maðurinn hafði klúðrað hótelpöntun. (Hann segir sjálfur að piltur sá sem tók niður pöntunina hafi klúðrað málum.) Við fengum samt gistingu þar, raunar í miklu fínna herbergi en við höfðum pantað, fyrir verð þess sem maðurinn taldi sig hafa pantað. Þegar við komum grútþreytt síðla kvölds á hótel Arcadiu í Corfu-borg kom í ljós við áttum þar ekkert bókað herbergi. En sem betur fer var laust og við fengum miklu fínna herbergi þar fyrir sama verð og herbergið sem maðurinn taldi sig hafa pantað í tvær nætur. (Maðurinn telur að tæknilegum mistökum bókunarfyrirtækisins á netinu sé um þetta að kenna. Talsmenn hótelsins töldu að maðurinn hefði gleymt að ýta á Enter í lok pöntunar)  Í ljósi sögunnar ákvað ég að bóka sjálf herbergi fyrir bakaleiðina og greiða þeim Arkadíumönnum, passaði svo vel upp á kvittunina!
Gamli kastalinn í Corfu

Þetta er útsýnið af svölunum á herberginu okkar á hótel Arkadíu í Corfu. Næst hótelinu er lítið torg, síðan má sjá yfir þennan garð og gamla kastalann í Corfu ber við loft. (Corfuborg hefur það framyfir aðrar grískar borgir sem ég hef heimsótt að hafa tvo feneyska kastala, þann eldri og þann yngri. Í flestum borgum og þorpum er bara einn svoleiðis.)

Gamli kastalinn Corfu

Við klifum auðvitað upp í gamla kastalann og hér sést manninn bera við loft hvar hæst má komast, Litli vitinn var læstur (því miður).

Í Corfu

Þessi mynd, tekin í upphafi ferðar, í Corfu-borg, er einungis til að sýna hárið. Þarna var ég s.s. enn með sæmilega sítt hár en af svipnum að dæma líst mér ekkert á lundabúðina.

Í mylluhúsinu við myllulækinn

Hér er hins vegar nokkuð liðið á dvöl í Parga, myndin er tekin í mylluhúsinu við myllulækinn þar í grennd hvar var vísir að byggðasafni og þetta ljómandi huggulega hesputré við vefstól. Eftir nokkra daga á sólbakaðri strönd og í mörgum söltum sjóböðum fór ég til hárgreiðslukonu og lét klippa mig knallstutt. Sú ágæta hárgreiðslukona var dóttir prestsins í Anþúsu, þorpi skammt frá Parga. Þetta veit ég því presturinn kom tvisvar að máli við mig utan við hárgreiðslustofuna og hrósaði hæfileikum dóttur sinnar. Ég er honum sammála og mjög ánægð með klippinguna - ef mín fasta hárgreiðslukona hér á Skaganum (sem hefur verið að reyna að fá mig til að láta hárið vaxa aðeins, svona sem hæfir konum á mínum aldri) spyr í forundran: "Hver í ósköpunum klippti þig svona?!" verður svarið: "Prestsdóttirin í Parga!"

Presturinn í Anþúsu

Þarna er einmitt umræddur prestur. Atli þóttist vera að taka mynd af mér og þess vegna er ég þarna í baksýn. Sennilega hefur prestinum leiðst í litla þorpinu sínu og skroppið sem oftast niður í Parga til að spjalla við túrista. Ég heyrði á máli hans þegar þessi mynd var tekin að hann var að reyna að sannfæra einhvern túrista um að "family values" væru mikilvægust alls. Hann ætti að vita það, presturinn, eigandi tvær dætur og einn son ...

Kort sem sýnir Parga

Á þessu korti sést hvar Parga er. Við sigldum s.s. frá Corfu til Igomenitsa, tókum rútuna til Parga og leituðum svo að gistingu þar. Okkur líkaði svo vel í Parga að við vorum þar allar þrjár vikurnar. Neðst á kortinu sést Lefkas, á eyjunni Lefkada (sem er tengd meginlandinu með brú). Þaðan fórum við í siglingu um jónísku eyjarnar, lagt var af stað frá Nidri á Lefkaða (sem er merkt á kortið). Öllu áhugaverðari var þó skoðunarferðin til Meteora, sem er rétt utan kortsins en leiðin þangað er merkt efst vinstra megin. Í bakaleiðinni í þeirri ferð stoppuðum við í fjalla/skíðaþorpinu Metsovo.


Atli í kvöldroða, kastali í baksýn

Í Parga er að sjálfsögðu feneyskur kastali, sem sést í baksýn á þessari mynd, hvar maðurinn stendur í kvöldroðanum á bryggjunni. Kastalinn í Parga á sér langa og erfiða byggingarsögu: Sumir segja að upphaflega hafi hann verið reistur af Normönnum um 1380 en hinn illi sjórængi Barbarossa hafi eyðilagt hann 1537. Menn eru sammála um að Feneyingar hafi svo endurbyggt (eða frumbyggt) kastalann árið 1569. Sú dýrð stóð ekki lengi því Tyrkir rústuðu honum 1571. Feneyingar gáfust ekki upp og endurbyggðu kastalann 1572. Svo fékk kastalinn að standa þótt Feneyingar hafi misst yfirráðin yfir Parga og Frakkar, seinna Tyrkir, svo Bretar hafi ráðið borginni og héraðinu og loks seldu Bretar þeim alræmda albanska stríðsherra Ali Pasha Pargaborg og kastalann með, árið 1819. Grikkir endurheimtu svo borgina Parga árið 1913.

Virki Ali Pasha

Virki Ali Pasha var ólíkt reisulegra en Parga-kastali. Við fórum þangað uppeftir með lítilli traktors-lest og stoppuðum líka aðeins í Anþúsu, sem er litla þorpið fremst á myndinni. Okkur voru sagðar margar hryllingssögur af Ali þessum, sem rak kvennabúr og var raunar nokk sama hvort í því væru drengir eða stúlkur, rændi og ruplaði ungmennum allt í kring, hálshjó mann og annan o.s.fr. Þegar Ali Pasha hafði lagt undir sig allt Parga hérað nema Parga borg og reist þetta myndarlega virki og safnað fjölda hermanna ákváðu Bretar, sem þá réðu yfir Parga, að nenna ekki mannskæðum bardaga og seldu honum borgina fyrir væna summu. Við þetta brá Pargabúum svo mjög að þeir sömdu sjálfir við Bretana um aðstoð til að flytja út í nálægar eyjar (t.d. Corfu) og taka með sér mold og bein forfeðra sinna. Afkomendur þeirra sneru svo til baka öld síðar. - Af Ali Pasha er hins vegar það að segja að hann rændi eiginkonu eins Pargabúans og gerði að sinni. Hún sór að koma Ali fyrir kattarnef. En einhverra hluta vegna tók undirbúningurinn óratíma og Ali Pasha var kominn yfir áttrætt þegar hann var afhausaður í lítilli eyju í stöðuvatni við Jóannína. Þannig var nú það. (Má geta þess að lýsing leiðsögumanns er í litlu samræmi við fróðleik Wikipediu um Ali Pasha en það er sjálfsagt að taka meira mark á heimamönnum.)

Atli í kastala eleni baksýn

Auðvitað löbbuðum við nokkrum sinnum upp í okkar margrifna og margendurreista Parga-kastala. Hér er Atli á toppnum og í baksýn er hæð sem við klifum nokkrum sinnum - hún er ekki nema 200-300 metra há en gangstígurinn er nánast lóðréttur á köflum og löbbutúrinn tekur verulega á.  Efst á þeirri hæð er helgidómur Eleni af Konstantínópel, vel við haldið og huggulegt helgihús. (Á leiðinni er ósköp fátæklegut og druslulegur helgistaður Elíasar spámanns.) Eleni þessi er okkur þekktari sem heilög Helena, móðir Konstantíns keisara sem gerði Býsans að höfuðborg rómverska ríksisins og umnefndi Kontantínópel. Helena var vísindamaður og uppgötvaði Golgata, fann krossinn helga og fann kyrtil Jesú Krists. Hún brúkaði empíriskar rannsóknir: T.d. fann hún 3 líklega krossa á Golgatahæð en varð sér út um mann í andarslitrunum, lét hann snerta hvern krossinn af öðrum og viti menn: Þegar hinn deyjandi snerti þriðja krossinn snarbatnaði honum og varð hann alheill! Þetta var nægileg sönnun þess að rétti krossinn væri fundinn og heilög Helena er reyndar verndardýrlingur vísindamanna, sem þarf ekki að koma á óvart.

Atli veitingastað Parga

Eitt af síðustu kvöldunum okkar í Parga  borðuðum við á veitingastað sem er á svölum rétt fyrir neðan kastalann. Þarna sést hæð heilagrar Eleni (og Elíasar) enn betur. Eyjan úti fyrir Parga er helguð Maríu mey og heitir því einfaldlega Panagia (en Grikkir virðast forðast að nefna Maríu með nafni og kalla hana gjarna "hina heilögustu", þ.e. Panagia).

Panagia

Panagia er jafnvel enn fegurri á kvöldin, þegar helgihúsið er upplýst.

Golfo gistihúsið

Aldrei þessu vant var erfitt að finna laust húsnæði í Parga. Venjulega hefur ekkert mál verið að mæta á staðinn og redda sér gististað, þar sem við höfum dvalið í Grikklandi. En við fundum þó  herbergi með þessu venjulega (kaffigræjum, ísskáp, interneti, baðherbergi og svölum) hjá frú Friðriku, sem stjórnaði gistihúsinu sínu með styrkri, jafnvel harðri hendi. Hér sést útsýnið af svölunum okkar, við bjuggum sem sagt á litlu ströndinni í Parga. Fyrir neðan svalirnar er veitingastaður í eigu Fotis, barnabarns Friðriku. Hann og bræður hans unnu þar alla daga og skemmtu gestum með nokkrum Sirtaki sporum þegar Zorba var spilað en þrisvar í viku var lifandi tónlistarflutningur á þessu gistihúsi. Einstaka sinnum söng Ana, unnusta Fotisar og barþjónn á veitingastaðnum, með körlunum þremur sem sáu um tónlistan. Það var mjög til bóta því hún Ana lærir bæði söng og píanóleik í Þessalóníki á veturna. Í húsinu var líka snyrtistofa og eigandi hennar, Frini, var systir Fotisar. Hún litaði á mér augabrúnirnar. Elisabet (með áherslu á a-ið), sem setti á mig nýjar augnháralengingar var hins vegar þremenningur við Frini (eða eitthvað svoleiðis). Þær stöllur kenndu mér sérlega ljótt orð, svo ljótt að það er ekki að finna  í orðabókum mannsins, í kaupbæti. Gaurinn sem sá um að innheimta leigu fyrir sólbekki og sólhlífar var eiginmaður Frini. Mig grunar að herbergisþernan, sem ekki þreif, hafi verið systir þeirra Frini og Fotis en er ekki viss. Frú Friðrika keðjureykti allan daginn og öskraði á barnabörnin ef þess þurfti. Hún minnti mig svolítið á ömmu mína, var greinilega sómakona með járnvilja.

Kötturinn Zizi

Þetta var einnig daglegt útsýni af svölum herbergis okkar í tvær vikur: Kötturinn Zizi, sem tilheyrði fjölskyldunni. Við héldum fyrst að Zizi væri kettlingafull en sáum seinna að svo var ekki, Zizi var einfaldlega jafn ólánlega vaxinn og hann Eiður okkar. Morgun hvern mátti sjá Zizi leggja sig á einni bárunni á þaki veitingahússins, svo færði hún sig báru af báru eftir því sem skugginn minnkaði. Um eftirmiddag var hún komin undir tré úti í garðinum fyrir framan gistihúsið.

Parga

Parga er byggð í talsverðum halla eins og margar aðrar grískar borgir/þorp. Milli húsanna sem hér sjást eru aðalverslunargöturnar.

Parga

Verslunarferðir í svona umhverfi styrkja bæði lungu og lærvöðva, sem er vel.

Vlachos

Af stöðugu rápi um verslunargötur og upp að helgistað Elini (og Elíasar) vorum við orðin svo vel á okkur komin að við ákváðum að kanna rústirnar sem við eygðum á þarnæstu hæð við Parga. Þetta var ríflega þriggja klukkustunda labbitúr, upp og niður og yfir Valtos-ströndina (sem mér þótti ofurskipulögð og þ.a.l. ljót) og síðan upp aftur. Stígurinn að rústunum var að mestu horfinn svo ekki er þetta fjölfarin leið. Atli reyndi svo að grafa upp upplýsingar um staðinn og eftir því sem við komumst næst eru þetta rústir af gömlu klaustri, Vlachos-klaustrinu, elsti hlutinn frá fjórtándu öld. Við urðum dálítið spennt yfir þessu Vlachos-nafni, því Vlachos-fólkið er að finna í Albaníu og Pargahéraði, dularfullt þjóðarbrot sem talar latínu. En því miður fundum við enga sæmilega umfjöllun um þetta. Við vorum líka dálítið spennt yfir að rekast kannski á úlf en úlfar eru víst talsvert á röltinu í Pargahéraði. En engan hittum við úlfinn, í dimma, dimma ólífuviðarskóginum ...

Vlachos

Þótt klaustrið sé rústir einar (nema turninn sem hefur verið endurbyggður) og myndarlegur helgistaður er þar rétt hjá hafa menn sett helgimyndir og minningarmyndir í rústirnar. Ég stend innan um þessar myndir sem eru af ýmsum toga og greinilega misgamlar.

Meteora

Við fórum í 13 tíma skoðunarferð til Meteora. Meteora þýðir eiginlega "í loftinu" - kannski "í lausu lofti" á sæmilegri íslensku? (Maðurinn styður reyndar "háloft" með tilvísun í Gunnarhólma.) Þetta landslag er algerlega ótrúlegt, eins og Hljóðaklettar og Dimmuborgir í tíunda veldi! Það varð einhver misskilningur með nafnið mitt (ég greiddi miðana í ferðina) og hábreskur leiðsögumaður okkar brá á það ráð að kalla okkur hjónin "the Harpa's", sem ég hef ákveðið að verði gert í framtíðinni enda auðvelt í framburði og að muna það.

Meteora klaustur

Uppi á himinháum dröngunum hafa menn svo byggt klaustur. Við skoðuðum eitt klaustur og myndir á síðu Atla eru miklu betri en ég tók svo ég vísa í hana. Inn í það klaustur komumst við eftir stiga sem höggvinn hafði verið í bergið og svo göng inn í klaustrið.

Meteora klaustur úr bæklingi

En fyrir daga túrismans var eina leiðin upp í akkúrat það klaustur sem við skoðuðum að láta draga sig upp í poka! (Myndin er skönnuð úr bæklingi um Meteora.)

Meteora_klafur

Þetta klaustur notar kláf ... ég er fegin að við heimsóttum ekki það ...

Skilti Metsovo

Á bakaleiðinni var komið við fjallaþorpinu Metsovo (sem er vinsælt skíðaþorp á vetrum). Þar í fjöllum ganga nokkrir tugir bjarna lausir og eru friðaðir. Á þessu skilti í Metsovo sést hve langt er í næsta björn ...

Metsovo bjarnarstytta

Manninn langaði að sjá alvöru bangsa ... en þessi stytta í Metsovo var hið næsta sem hann komst því ...

stokkabelti í Metsovo

Í Metsovo fengust ýmsir ostar, sem glöddu manninn mjög enda fátt sem hann hefur meiri áhuga á en ostar. Ég tók hins vegar betur eftir þessum ágætu stokkabeltum sem voru á bullandi útsölu. Sá þó ekki beinlínis not fyrir stokkabelti og keypti ekki.

Bláa lónið

Við fórum í aðra 13 tíma ferð en sú var sjóferð. Fyrst var þó einn og hálfur tími í rútu til Niðri á eyjunni Lefkaða. Þessi strönd á Lefkaða er fræg fyrir fegurð: Hvíta kletta og ótrúlega safírbláan sjóinn. (Þeir sem komnir eru á besta aldur muna kannski eftir rómantísku myndinni Bláa lónið, með Brook Shields, en hluti kvikmyndarinnar var tekinn þarna.) Báturinn okkar gat ekki lagst að ströndinni en fór ansi nálægt og fólki gafst kostur á að synda í land. Margir þáðu boðið en ekki við.

Atli Ódysseifur

Siglt var á milli ýmissa eyja en toppurinn var að fá að ganga á land á Íþöku! Maðurinn heimtaði að ég tæki myndaseríu af sér þar sem hann lék Ódysseif að stíga á land, raunar skríða örmagna á land eftir hinar miklu mannraunir í tuttugu ár. Leikhæfileikar mannsins komu mér mjög á óvart og mega allir sjá á þessari mynd (en því miður er einhver menningarsnauður túristi að synda þarna bakvið - hefði getað klippt myndina til en við getum líka litið á þann menningarsnauða sem einn af biðlunum, í leikritinu sem sett var á svið á ströndinni).

Onassis

Siglt var langleiðina kringum Skorpíos, eyjuna sem Onassis átti. Það heyrðist lítið í okkar góðu leiðsögukonu í kallkerfinu á bátnum en sem betur fer hafði ég lesið ævisögu karlsins (raunar sameinaða ævisögu Onassis og Maríu Callas, eftir Nicholas Gage) og fylgst þokkalega með í slúðurblöðum hér fyrr á árum. Ég gat því endursagt Atla hið helsta af Onassis-bölvuninni, hvernig hann náði í Jackie Kennedy en hélt framhjá með Maríu sinni þegar Jackie var af bæ, hvernig fyrri eiginkonan og einkasonurinn dóu og frá barnabarninu Aþenu litlu sem erfði allt heila klabbið þegar dóttir Onassis lést 37 ára gömul (líklega af ofneyslu megrunarlyfja en kannski fleiri lyfja einnig - hún er ein af þeim sem fannst látin í baðkari). Atla var meinilla við Onassis (sem ég skil svo sem ósköp vel) en ég heimtaði að tekin yrði af mér mynd við hliðina á styttu sem Lefkaðabúar hafa reist af karlinum (haldnir einhvers konar "Öldurdals-mesti-sonur-syndrómi" reikna ég með). Á styttunni stendur fullt nafn: Aristoteles Sókrates Onassis. Á bakhlið stöpulsins eru einkunnarorð Onassis sem eru heldur kaldranaleg sé hugsað til ævi hans: Hver er sinnar gæfu smiður!

Atli í sólbaði með hundi

Svo liðu dagarnir í áframhaldandi letilífi í sólinni. Hér hefur maðurinn bundið trúss sitt við illt dýr (að sögnu Fr. Jósefínu Meulengracht Dietrich) en báðir virðast sælir með sitt ... maðurinn er að hlusta á Sellósvítur Bachs en hundurinn sefur í skugganum.

Harpa og köttur

Ég seiddi hins vegar til mín gott dýr (að mati Fr. Jósefínu Meulengracht Dietrich) á veitingastaðnum hinum megin við götuna/ströndina. Þetta var glæsilega búinn köttur og líklega eigandi staðarins. Hann var sko ekki svona hupplegur við aðra gesti!

Hjá Margaritu

Við þurftum að koma okkur fyrir annars staðar síðustu vikuna því frú Friðrika var búin að lofa herberginu. Sem betur fer fengum við nýuppgert herbergi hjá henni frú Margaritu, hinum megin götunnar. Margarita er eldri kona, kattþrifin og var að baksa við að gera upp gamalt hús og breyta því í gistiheimili. Eiginlega var hún ekki búin að opna gistiheimilið en tvær íbúðir voru tilbúnar, við fengum aðra og myndin er tekin af svölunum. Þar var allt nýmálað og flísalagt en sumt virkaði heldur illa. Til að mynda var ekki hægt að skrúfa frá vatninu í vaskinum því pakkningin míglak. En við komust fljótt upp á lag með að bursta tennurnar í sturtunni svo þetta var svo sem ekki vandamál. Frú Margaríta endurnýtti allt sem hún gat, sjáið t.d. hvernig snúrunar á svölunum okkar eru gerðar úr samanbundnu bláu snæri sem henni hefur einhvers staðar áskotnast. Ég kunni afar vel við Margarítu þótt hún talaði bara grísku og samskiptin væru því dálítið takmörkuð. En auðvitað saknaði ég hinnar keðjureykjandi stjórnsömu Friðriku og við fórum þess vegna nokkrum sinnum á veitingastaðinn á gamla gistiheimilið okkar, bara til að heilsa upp á hana.

 Pornstar

Við glöddumst yfir því að réttrúnaðarfemínismi hefur ekki enn verið uppgötvaður í Parga ...

Atli blátt úr

Og Atli gerði þessi reyfarakaup: Blátt Bulgari úr á aðeins 21 evru! Því miður entist úrið ekki út máltíðina og var þó keypt á leið á matsölustaðinn. Úrið fór því sömu leið og Addidas-skórnir mínir, "made in Vietnam", sem entust þó í nokkra labbitúra og voru ekki alveg eins forgengilegir og þetta fagra úr.

Til Corfu

Og loks var ævintýrinu þetta sumarið að ljúka. Hér er Atli á ferjunni sem nálgast óðum Corfu (báðir kastalarnir sjást). Þrátt fyrir að úrið hafi klikkað er hann kominn vel í bláa stílinn, þessi elska. Við eyddum svo hálfum degi í Corfu, flugum í bítið til Amsterdam hvar við höfðum næstum tíu tíma til að kynna okkur Schiphol-flugvöll og spila rommý á útiveitingastað. Síðan flutti blessað Wowið okkur til hins kalda og blauta Íslands ...