Myndir Hörpu
 
 
Ferð Atla og Hörpu um Þjórsárdal, Hrauneyjar o.fl. 13.-14. júlí 2010
 
Við ókum af Skaganum upp í Þjórsárdal, eyddum þar tíma á Stöng og í Gjánni, gengum síðan smávegis í nágrenni Búrfells, ókum svo upp í Hólaskóg og gengum þaðan að Háafossi (sem er talsvert labb fram og tilbaka). Síðan var haldið upp í Hálendismiðstöðina við Hrauneyjar, hvar við átum kvöldverð og gistum. Morguninn eftir gengum við niður með farvegi Hrauneyjakvíslar (sem er vatnslaus), að Tungnaá og svo upp með henni aftur upp á veg. Eftir morgungönguna ókum við að Þórisvatni og skoðuðum okkur um. Síðan var haldið að Sigöldu og lagt af stað til Landmannalauga en við snérum við því vegurinn var tæplega fær fólksbílum. Þá var haldið til byggða á ný en í þetta sinn ókum við hinum megin Þjórsár, niður Land, og skoðuðum Tröllkonuhlaup og Þjófafoss, stoppuðum loks svolítið á Leirubakka. Þegar hér var komið sögu vorum við orðin magnþrota af koffeinskorti enda virðast menn sörvera álíka lap í Rangárvallasýslu og þótti við hæfi í Akraborginni forðum tíð. Þannig að við brenndum á Sunnlenska bókakaffið á Selfossi og auðvitað fengum við príma kaffi á þeim bænum!

Í þessari ferð var boðið upp á allra handa veður, frá sólbaðsveðri upp í erlent regn; við rétt misstum af þrumveðri í Bláfjöllum. Á Akranesi skein sólin glatt - eins og venjulega - þegar við renndum í hlað. 

Erfiðasti parturinn var tveggja tíma morgungangan í Hrauneyjum því flugnager þar var algert skaðræði öllum skilningarvitum!

Atli utan við Stöng.

Plantan sem ég lærði í bernsku að héti Maríuvöndur og líka Dýragras. Fyrra nafnið finnst mér miklu fallegra en aftur á móti fellur þessi bernskuþekking ekki að grasafræðibókum nútímans þótt vissulega viðurkenni þær að hún sé af Maríuvandarætt. Ég lærði líka, sem krakki, að fagurblá blóm væru blóm Maríu meyjar ... og hef þess vegna mikla samúð með Alaskalúpínunni ... enn meiri eftir að hafa séð í ferðinni kraftaverkin sem sú planta vinnur á svörtum eða gulum vikurbreiðum! Myndin sýnir, að mínu mati, Maríuvönd. (En menn mega kalla hann Dýragras fyrir mér ...)

Gjáin í Þjórsárdal.

Atli er verðandi aðdáandi Ísfólksins (þótt hann telji frásagnarmátann sprottinn af Sögum herlæknisins) og stillti sér þess vegna upp við Gjána, sem eins og allir vita er fyrirmyndin að Dal Ísfólksins.

Ég hef verið aðdáandi Sögu Ísfólksins í áratugi og þarf ekki hafa fleiri orð um þessa mynd! Nema kannski benda á að stuttbuxur hefðu verið rétti klæðnaðurinn ... eða fara að dæmi þýsku fjölskyldunnar sem var aðeins á eftir okkur og strípaði sig víst gersamlega við tjörnina.

Heimspeking ber við himin ...

Á rölti að Búrfelli fundum við þessa landnámshrútaræktun - sá til hægri hefur að hluta blámáluð horn og bláa skellu á reyfinu. Athyglisvert að rækta hyrnda hrúta og ákaflega þjóðlegt.

Við Háafoss var rigning en það kom ekki að sök - hver segir að það þurfi regnboga við hvern foss?

Harpa við Háafoss.

Silungahylurinn undir Háafossi sést neðst í vinstra horninu en myndin er tekin upp gljúfrið og sýnir aðallega fossinn Granna. Veit ekki hvað litlu fossarnir heita. Á brúninni hægra megin sjást oggolitlir túristar sem komu á rútum - ég myndi ekki vilja starfa sem fararstjóri á Íslandi miðað við hvað þetta fólk stóð yfirleitt tæpt enda nennti það ekki að ganga þessa 30 metra frá bílastæði að þokkalega öruggum útsýnisstað og varð að halla sér útfyrir til að ná myndum af öllum Háafossi.

Á bakaleiðinni frá Háafossi niður í Hólaskóg (sem er vel að merkja ekki skógur). Þarna var stytt upp. Fimmstrendir stuðlabergstoppar eru hvarvetna en annars einkennnist leiðin af urði, grjóti, mýri og háspennulínum.

Í Hálendismiðstöðinni í Hrauneyjum fást náttúrlega lopapeysur  og lopavettlingar og svoleiðis enda staðurinn kjaftfullur af útlendum túristum. Það merkilega við allar prjónavörur þar er að þær eru ástralskar, prjónaðar úr nýsjálenskri ull!  Enda munu glöggar prjónakonur sjá að peysan með "norsku áttblaðarósinni" er ekki með hringúrtöku. Engin flík var nánar merkt en S, M, L og enginn vegur fyrir þann sem ekki þekkir íslenskan lopa að fatta að varan er framleidd af andfætlingum okkar. Mér fannst þetta ansi mikið svindl, hafandi þó nýskoðað grískar lopapeysur með sama munstri ;) Ponsjóin voru samt doldið sniðug því innra byrðið (undir heklinu) var gimbað.

Til samanburðar er þessi lopapeysa sem fæst í Heklusetrinu á Leirubakka ...  Menn eru þjóðlegri þarna niður frá.

Atli á morgungöngu uppi í Hrauneyjum. Við gáfumst reyndar upp á skipulagðri gönguleiðinni sem var frekar ógreiðfær og seinleg og fórum frekar beint af augum, dekkuðum þó rétt svæði og rétta staði svo þetta er e.t.v. fyrirgefanlegt.

Tungnaá í farveginum neðan Hrauneyja er 50/50 jökulvatn og bergvatn. Hér sést hin fagra lúpína og himinninn speglast í kyrru bergsvatnskvíslinni.

Hér sést hvernig áin liggur - jökulvatnið í kvíslinni fjær en fína vatnið nær okkur.

Það er næsta lítið eftir í ánni og gefst gott tækifæri til að skoða hvernig árbotn lítur út. Aftur á móti er bannað að fara niður í farveginn því virkjunin getur fyrirvaralaust hleypt í hann vatni (skv. fjölda skilta).

Atli í eyðimörkinni nærri Þórisvatni. Hofsjökull sést í baksýn en rennur nánast saman við himininn.

Þórisvatn var ægilega fallegt en umhverfið ægilega eyðilegt og heyrðist ekki í svo mikið sem einum fugli heldur var dauðaþögn þarna. Tanginn heitir Höfðasporður, sem skagar fram úr Útigönguhöfða.  

Vatnið var svo kyrrt og speglunin svo mikil að engu var líkara en ský himinsins hefðu verið fótósjoppuð á vatnsborðið. 

Maðurinn við speglaðan himininn ...

Og ég sjálf með Þórisvatn að baki.

Þarna vex tæpast stingandi strá en þó má sjá duglega holurt á stöku stað ... líka geldingahnapp og aðrar harðgerðar plöntur. 

Við Sigöldu; Hrauneyjalón skiptist svona skemmtilega í jökuldrullumall og tært, ótrúlega grænt vatn.

Atli við minnismerkið sem Bormenn Íslands (starfsmenn Jarðborana ríkisins) boruðu árið 1968. Smart listaverk, skammt frá Sigölduvirkjun, á leiðinni til Landmannalauga.

Þarna vorum við komin áleiðis til Landmannalauga en nýbúin að snúa við því vegurinn var eins og Lyngdalsheiðin í gamla daga ...

Á heimleiðinni var Hekla sérlega illileg og virtist soga til sín skýin. Reyndar var Hekla illilegasta fjallið allan tímann; meðan önnur fjöll voru öðru hvoru böðuð í sólskini var hún dimm og virtist til alls vís, stundum hvarf hún í dökkan skýjabakka.

Harpa á leiðinni að Tröllkonuhlaupi - illúðleg Hekla í baksýn og labbað á Hekluvikri. Þar sem við stoppuðum bílinn var tvöföld girðing en ekkert rafmagn var á rafmagnsgirðingunni og gaddavírinn lá niðri. Á leiðinni aftur að bílnum föttuðum við opinberu utanvegaslóðina sem lá að stiga yfir þessar gagnslausu girðingar.

Tröllkonuhlaup í Þjórsá. Hún hefur verið kloflöng, skessan sem þarna stiklaði yfir!

Stærri kvíslin í Tröllkonuhlaupi. Veit ekki hvaða minj þetta er fremst á myndinni - byggingin stóð svo tæpt á gljúfurbarminum að ég þorði ekki að gá. Hugsanlega hefur verið þarna kláfferja einhvern tíma?

Við Þjófafoss hellirigndi! Þess vegna var ég ekki með myndavélina en maðurinn hreykti sér á hól og tók myndina af mér, í auðninni við Þjórsá. (Tek fram að vegurinn liggur um nokkuð fallega gróið lúpínuland, á köflum, og meira að segja hafa menn ræktað upp einhver strá.

Gert 14. júlí 2010