Myndir Hörpu
 
 
Ferð Atla og Hörpu til Krítar árið 2010

Sjá einnig myndir Atla úr sömu ferð

Við flugum til Kaupmannahafnar föstudaginn 28. maí og gistum þar í eina nótt, fórum svo daginn eftir með flugi til Chania og gistum þar 4 nætur í miðbænum. 

Frá Chania héldum við til Matala á suðurströnd Heraklion-sýslu þar sem við gistum í 10 nætur. Frá Matala gengum við í nærliggjandi þorp og ferðuðumst á bíl um Mesara dalinn og um Psiloritis, þ.e. sveitirnar í hlíðum Íða-fjalls.

Næsti áningarstaður var Sougia á suðurströnd Chania-sýslu þar sem við vorum 7 nætur. Þaðan gengum við m.a. til Lissos.

Frá Sougia fórum við til Paleochora sem er vestasti þéttbýlisstaður á suðurströnd Krítar. Þar vorum við í 4 nætur og gengum m.a. til Anyðroi. 

Síðustu 3 næturnar gistum við svo í Chania þaðan sem við flugum til Kaupmannahafnar 26. júní. Eftir einn dag í Kaupmannahöfn flugum við heim að kvöldi sunnudagsins 27. júní. 
(Texti Atla)
 

Rauðu punkarnir sýna hvar við dvöldum. Til þess að komast til Matala þurftum við að taka rútu frá Chania (Xania) til Heraklion (Iraklion), labba gegnum gamla bæinn að hinni rútustöðinni og taka rútu þaðan til Matala. Svo lá öfug sama leið til baka og áfram með rútu frá Chania til Sougia (það er enginn vegur milli Hora Sfakion og Paleohora og engin ferja fer vestureftir frá Matala, austasti ferjustaður til Sougia er Hora Sfakion. Seinni rútuferðin tók 9 klst., þar af 7 sitjandi í rútu!  Aftur á móti vorum við bara 3 korter með ferjunni frá Sougia til Paleohora og sirka 2 tíma þaðan til Chania með rútu.

Þorpið Anogia (sem Þjóðverjar jöfnuðu við jörð í seinni heimstyrjöld og drápu 115 íbúa) er á Psiloritis fjallgarðinum, á leið upp Ida-fjall. Festos sést ágætlega á kortinu, nálægt Matala. Smáþorpin sem við fórum til eru náttúrlega ekki merkt á þetta kort. En hið fræga Samaria gljúfur liggur frá Omalos í Hvítufjöllum (Lefka Ori) niður í Agia Roumeli (rétt hjá Sougia) ... við höfum hins vegar tölt þetta 15 km gljúfur tvisvar áður og slepptum því í ár. 

Við fengum alls konar veður í ferðinni, smá rigningu þrisvar, lentum í svarta þoku á Ída fjalli, hitabylgju í Sougia (hitinn fór í 47 stig) en almennt var þægilegur hiti og oftast sól. 

Hittum enga Íslendinga í tæpan  mánuð - ekki fyrr en í Kaupmannahöfn á leiðinni heim. Það var verulega notalegt að geta blaðrað fram og aftur um náungann án þess að nokkur skildi. Aftur á móti æfðumst við í að tala við hástéttarbreta, drafandi Kaliforníbúa, allskonar skandinavísku, pidgin-þýsku og loks er Atli minn orðinn altalandi á gríska tungu, hvað innfæddum þykir afskaplega merkilegt og undursamlegt upp til hópa!  Á meðan á svoleiðis samræðum stendur einbeiti ég mér að því að vera sæt og kvenleg :)

Ferðin var mjög skemmtileg og vel heppnuð, fyrir utan það að við fengum bæði hastarlega matareitrun og ég var helv. lasin í sólarhring! Svo má deila um hve skemmtilegt það var þegar Sheffer-hundurinn á Ída fjalli réðst að Atla mínum, sem slapp naumlega (annars hefði hann náttúrlega ekki getað gert sína myndasíðu ;). 

Ég á svölunum á Hótel Heru í Hania. Við komum passlega til að sjá Júróvissjón og vorum stolt af okkar konu, sem við sáum á einum af risaskjánum á einhverjum veitingastaðnum í stuttri kvöldgöngu - svo auðveldaði keppnin mér að muna nafnið á hótelinu ... sem var reyndar bara þriggja herbergja gistihús, í gamla bænum en í afskaplega kyrrlátri götu. Þessi mynd er tekin þegar við erum á bakaleið svo ég hef tekið nokkurn lit en vegna nýafstaðinnar matareitrunar er ég náttúrlega ekki mjög hress í bragði. 

Útsýnið neðan af svölunum. Ég sá aldrei neinn kaupa neitt í þessum búðum.

Ein Jósefínan í Hania. Við söknuðum okkar mjög!

Séð yfir Matala. Ída-fjöll í baksýn. Borgin í fjarska heitir Timbaki og er óspennandi landbúnaðarborg, í nágrenninu er fjöldi gróðurhúsa. Hinum megin við hallandi Matala-fjallið er Kommos-ströndin, eyðiströnd með nokkrum nöktum túristum en fræg fyrir að vera varpstöðvar sæskjaldbaka, sem eru í bullandi útrýmingarhættu. (Við sáum einmitt spor eftir nykur á þessari strönd en komumst sumsé að því að sporin væru sennilega eftir skjaldböku.) Labbi maður út alla Kommos ströndina kemst maður í þorpið Kalamaki, þar sem reynt hefur verið að byggja upp túrisma en afraksturinn var afar rýr í ár, a.m.k. þegar við komum þangað. 

Myndin er tekin upp á öðru lágu fjalli en yfir það liggur leiðin á Rauðasand (Kokkino ammos) þar sem fólk sólbaðar sig alsbert. Eins og nafnið bendir til er sandurinn á þeirri strönd rauður en grágullinn í Matala og alveg grár á Kommos. Góður staður fyrir fólk sem vill geta valið úr litum á sínum sólbaðsstað, svo ekki sé minnst á valið um hversu mikið eða lítið það vill vera klætt. 

Atli ofan við Kommos ströndina.

Á leiðinni til Kommos / Kalamaki gengur maður fram hjá þessu garðyrkjubýli.

Atli æfði sig í grísku og spurðist fyrir um ræktunina. Þessi indæli garðyrkjumaður bauð okkur umsvifalaust inn í skýlið sitt, sneiddi niður tómata og veitti okkur með sjávarsalti. Hann reyndi sitt besta til að hella í okkur Raki (krítverskum landa) en við afþökkuðum bæði. 

Atli á veitingahúsi í Kalamaki. Við vorum einu gestirnir og engir gestir voru heldur í nærliggjandi veitingastöðum. Og auðvitað enginn á ströndinni því þennan dag var skýjað.

Undarlegt fyrrverandi íveruhús á Kommos ströndinni ...

Atli les á veröndinni okkar í Matala.

Fyrir ofan gistiheimilið okkar (eldhúsdyrnar eru til hægri) var bakgarður með íslenskum hænum (reyndar sáum við eingöngu íslenskar hænur í ferðinni, enga hvíta ítali) og fögrum blómum. Þegar kvöldsett var orðið varð fjallið gullið að lit og þaðan heyrðust huggulegir bjölluhljómar frá geitunum sem þarna príla og éta grjót.

Við hjónin á veröndinni. Elskulegir ungverskir Norðmenn, nágrannar okkar, tóku myndina. Sem sjá má er frú Soffía, húsfreyjan á gistihúsinu, afskaplega hrifin af pelargóníum!

Og hér eru þau Atli og frúin saman! Þau blöðruðu viðstöðulaust á grísku en annars kunni frú Soffía hrafl í þýsku; ég komst hins vegar að því að ég kann ekki einu sinni hrafl í því tungumáli! Með einföldum nafnorðaforða og leikrænum tilburðum gátum við frúin eitthvað soldið skilið hvor aðra. Soffía er fædd og uppalin í Matala og hefur því séð tímana tvenna; frá oggolitlu fiskiþorpi, þar sem öll fjölskyldan bjó í nokkurra fermetra kofa, til hippanna sem tóku yfir staðinn um 1970, til bullandi lausatraffíkur frá Iraklion á sumrin. Við hittum Fyrsta Túristann, sem hafði komið til Matala 1962 og þá einmitt fengið inni hjá frú Soffíu. Þetta er norsk kona, Unni-Lis, sem kom í nostalgíuferð meðan við vorum þarna og bauð frú Soffíu út að borða og við vorum svo heppin að heilsa upp á þennan fræga túrista og snakke norsk, eða altént skandinavísku. 

Svona snigla sáum við í tonnatali á labbitúrum í nágrenni Matala. Einn daginn kom ég að frú Soffíu með fulla skál af þessu og hún gaddaði í sig sniglum af bestu lyst, bauð mér með sér en ég var sú tæfa að afþakka! Komst svo aðeins seinna að því að svona sniglar eru einn af þjóðarréttum Suður-Krítar.
 

Ég í Matala. Tek fram að ég bar það ekki við að mála mig í allri ferðinni! Atli er með miklu fleiri myndir af mér á sinni síðu ... eðlilega.

Við á ferðalagi upp í Ída-fjall. Við ætluðum að skoða einhvern helli hvar Seifur fæddist en þegar þessi mynd var tekin, 5 km frá hellinum (sem er í 1565 m hæð) var þokan orðin svo dimm að hefði ekki sést milli stika, hefðu verið stikur. Þegar þess er og gætt að vegurinn lá í S-beygjum með þverhnípi öðrum megin, ákváðum við að snúa við, hjá þessum laglega geitasmalakofa fornum. Við áttuðum okkur ekki á því að einhvers konar rétt var þarna enn í notkun og risastór, fullkomlega þögull Shefferhundur var á verði við kofann en sást ekki í þokunni. Þegar Atli var næstum kominn að honum stökk hundurinn upp, urraði ógurlega og ætlaði að ráðast á Atla minn, sem hljóp og hljóp og datt svo beint á hnakkann! Sem betur fór stóð keðja hundsins akkúrat á endum. Og Atli var svo heppinn að detta á flatan stein. Og allt bjargaðist. En þetta var voðalega spennandi og meðan við paufuðumst aftur niður í Anogia-þorpið, á 10 km hraða, endursagði ég Atla þá ágætu sögu Cujo, eftir Stefán King :)

Þarna staulast heimspekingurinn í þokunni, sloppinn frá hundinum ...

Atli myndar Feistos ... frægastar rústir Krítar eftir Knossos. Feistos hefur líka þann kost að Arthur Evans náði ekki að "endurgera" eða "endursteypa" þær eins og ku vera raunin með hluta af Knossos. 

Þarna fannst diskurinn frægi ... sem enginn hefur getað þýtt til þessa. En í nýlegu Andrésblaði kemur fram að á disknum sé að finna skilaboð til þvottahúss hallarinnar, á mínósku myndletri. Þetta er frekar líkleg skýring miðað við myndirnar. Annars fær maður fljótlega nóg af eftirtöldum minjagripum: Feistos-disknum, snákagyðjunni og Liljuvallar-prinsinum! Þetta er út um allt - og Zorbalagið bætist ofan á, dveljist maður á túristaslóðum á Norður-Krít. Við heyrðum Zorba aldrei þarna sunnanlands.

Atli við manngert stöðuvatn í Zaros, ekki langt frá Matala. Þar þykir afar fagurt enda er einungis til eitt alvöru stöðuvatn á Krít og því eðlilegt að finnast vötn falleg og merkileg. Frú Soffía hvatti okkur mjög til að eta silung þarna uppfrá því þar er silungaeldi og silungur er náttúrlega sjaldgæfur á Krít. Okkur datt það ekki í hug!
 
 

Í Zaros-vatninu synti fiskafjöld en ég gat nú ekki séð að þetta væru silungar, a.m.k. líktust þessi kvikindi ekki hið minnsta þeim sem ég hirti úr netum, slægði, át, bar ofan í túrista o.s.fr. meðan ég átti heima á Laugarvatni. Aftur á móti var vatnið fallegra á litinn en Laugarvatn.

Aldið ólífutré í Zaros.
 

Komin til Sougia - bakpokarnir á veröndinni, auk annarra nauðsynja. Veröndin var þakin gróðri og dýralífið eftir því. Eðlan okkar lét bara sjá sig á kvöldin.
 

Atli er búinn að elda naglasúpu í Sougia og situr þarna glaður á veröndinni. Hann eldaði æ oftar eftir því sem á ferðina leið því við urðum dálítið leið á grískum þjóðlegum réttum, sem er aðall allra veitingahúsa.
 

Á labbitúr um gömlu Sougia (Syja) rákumst við á geitarhauskúpu ... Fagur fótur mannsins sýnir stærðarhlutföll.
 

Svo áttuðum við okkur á því að þarna var heill fórnarvöllur!  Eða heimaslátrun ... flestir af 40 íbúum þorpsins eiga nokkrar skepnur sem ganga um í fjöllunum sem umlykja Sougia. (Atli sat um að æfa sig í grísku á gömlum heimakörlum, sem er tiltölulega auðvelt því krítverskir eldri menn sitja gjarna á kaffihúsum allan daginn og spila kotru, kjafta saman eða sveifla einfaldlega stress-talnaböndunum sínum ... þangað til konan kemur og kallar á þá í kvöldmatinn.)

Ströndin í Sougia. Við vorum oftast austan til á ströndinni (nær klettunum) því þar gat maður verið mismunandi ber, margir allsberir (en ég hafði nokkrar áhyggjur af því að brenna á rassinum og var því allsber í hófi, hins vegar var frábært að losna við að vera í helv. bikinibrjóstahaldaranum). Á toppi staka fjallsins sem skagar út í sjó stendur kirkja og varð okkur ljóslifandi ljóðlínan "Ég er eins og kirkja á öræfatind". Kirkjur eru gjarna reistar á hólum eða hátt í hlíðum, á Krít, og eykur það eflaust mjög atgervi sóknarbarna.

Við sóttum í að liggja í skugga undir trjánum, sem við kölluðum fyrst "lífutré", því þetta voru augljóslega ekki ólífutré, en svo fann ég í túristabók að þetta mundu heita Tamarisk-tré.

Þarna er fé einhvers frístundabóndans í Sougia á leiðinni eitthvert ... rollurnar voru rólegar og virtust vanar að bíða á pallinum meðan húsbóndinn skrapp á tavernuna svo ég efast um að þær hafi verið á leiðinni í sláturhús.

Jósefínan í Sougia. Við vorum farin að sakna okkar allverulega þegar hér var komið ferðar!
 

Löbbuðum auðvitað yfir fjallið til Lissos. Atli stendur þarna uppi og litla víkin er í Lissos, sem í fornöld var mikilvæg höfn. Enn og aftur drakk ég úr brunni Asklepíosar og skoðaði hofið hans en meintur lækningarmáttur virðist virka lítið á mig!  Atli synti ber í sjónum þegar við komum niðureftir, það var heitt þennan dag, en ég lét duga að ausa yfir mig úr lækningabrunninum og vaða svo upp í hné í sjónum. Í þetta sinn gengum við líka til baka en kölluðum ekki út taxíbátinn hans Georgs, sem enn rekur sömu þjónustu og fyrir þremur árum.

Siglt frá Sougia, áleiðis til Paleochora.

Atli stendur á kastalarústum í Paleochora. Það var ákveðið menningarsjokk að koma í 2000 manna bæ, eftir Sougia. Palechora líkist Borgarnesi glettilega mikið nema þar er löng gullin sandströnd og veðurfar eilítið hlýlegra. En þetta er sumsé byggt nes með lítilli eyju við nesoddann, innfæddir hafa þó ekki komið í verk að byggja brú út í eyjuna. Við fórum einn daginn í 15 km labbitúr (það var hálfskýjað) inneftir strandlengjunni sem sést byrja til hægri á myndinni og svo upp í lítið fjallaþorp í svona 200 - 300 metra hæð.

Í byrjun labbitúrsins villtumst við inn á þjóðveginn til Hania. Það er nú ágætt því þar fundum við þessar fallegu veggjaskreytingar barnaskólanema, sjálfsagt gerðar fyrir jól. Í seríunni var líka snjókarl.

Til okkar kom maður á bifskottu, sem hafði verið að tala við mömmu sína (sú teymdi geit á eftir sér neðan við þjóðveginn). Þessi ágæti maður bauðst til að fylgja okkur á rétta leið, sem hann og gerði og sýndi okkur húsið sitt í leiðinni, í "þorpi" sem taldi 3 - 4 hús, ásamt gömlu myllubyggingu pabba síns. Daginn eftir hittum við sama mann, í örlabbitúr, og þá sagði hann okkur hve leiðinlegt væri að búa einn í stóra húsinu sem hann hafði byggt sér - mamman var að þvo þvott í bala þann daginn - og við sáum að þetta var þunglyndur flísalagninamaður, eiginlega svolítið sænskur í geðinu. Hann þyrfti að kynna sér úkraínskar brúðaþjónustur en við vildum ekki benda á slíkt, það teldist kannski dónlegt þarna sunnanfrá.

Ég á labbinu. Umhverfið minnti soldið á Melrakkasléttu þótt ég haldi reyndar að þar sé meiri umferð. Vegurinn versnaði æ meir eftir því sem lengra var haldið. En eldgamlir Ecco-sandalar reyndust eins og bestu gönguskór, hvort sem um var að ræða á sandi, malbiki eða príl upp fjöll og kletta.
 

Svo fóru að birtast dularfull skilti við veginn ...

Og skiltunum fjölgaði og vegurinn greindist ... en enn sáum við engan mann á ferli ...

Við fundum hárgreiðslustofuna á örfámennri strönd!

Og við fundum veitingastaðinn líka!
 

Eftir ítarlegar leiðbeiningar piltsins á veitingahúsinu (hárgreiðslustofan, snyrtistofan og nuddstofan voru lokuð enda ekki nema svona 5 -6 túristar á þessari risaströnd) héldum við upp í fjallaþorpið Anyðroi. Leiðin var einföld: Labbið upp árfarveginn! Sums staðar var nokkuð órgreiðfært og á einum stað kaðall til styrktar en allt gekk þetta prýðilega. 

Míns glaður að fá loksins að BORÐA, í labbitúrnum! Við erum sem sagt komin uppeftir, í Anyðroi.

Ég fékk krakka á næsta borði til að smella af okkur báðum saman, hjónunum.

Við lásum og lásum undir drep enda yfirleitt ekki annað við að vera á kvöldin (lítið skemmtanhald í þeim plássum sem við bjuggum í). Heimspekingur og skuggamynd af heimspekingi að lesa gríska málsögu í Paleochora.

Þessi mynd sýnir: Að lopapeysur eru ekki séríslenskt fyrirbæri; Að norsk áttblaðarós er ekki norsk fyrir fimm aura (hvað þá íslensk) og að munstur Sigga málara fyrir kyrtil og skautbúning er grískara en allt sem grískt er. (Hitt grísk-klassíska munstrið hans er á hverju einasta hótelhandklæði á Krít!)  Ég skal þó játa að peysan er með laskaermum en ekki hringúrtöku ... en á miðanum innaní stendur að hún sé úr 100% grískri ull.  Myndin er tekin á útimarkaði í Paleochora.

Segir allt sem segja þarf. En takið eftir ónöguðum nöglunum ;)

Í Köben á leiðinni heim rákumst við á þetta listaverk, sem passar svo einstaklega vel við mig!  


 
Gert 29. júní 2010.