Ferð Atla og Hörpu til Kos og Nysiros / Nyssiros, með viðkomu í Bodrum, Tyrklandi, 17. júlí - 7. ágúst 2009 Hér er kort yfir grísku Tylftareyjarnar (Dodecanese). Þær eru nálægt Tyrklandsströndu, af þeim er Ródos stærst og frægust, og mjög auðvelt er að taka ferju hvert á ey sem er frá Kos eða Bodrum á Tyrklandi, eða Ródos. Við flugum til Bodrum (tæpl. 6 tíma flug), gistum þar eina nótt en tókum ferju til Kos morguninn eftir. Siglingin er rétt rúmur klukkutími og fylgdi huggulegt endurlit til Akraborgaráranna, þótt Eyjahafið gríska sé ólíkt stilltara en Faxaflóinn. Á Kos gistum við 7 nætur en fórum svo með ferjunni til Nysiros*, lítillar eyju þar sem 948 manns búa allt árið en talsverður fjöldi túrista, einkum Vestur-Grikkja og skútufólks, heimsækir á sumrin. Á Nysiros vorum við í 11 daga, fórum svo aftur til Kos í 2 nætur og svo yfir til Bodrum þar sem við eyddum degi og Atli skoðaði sig um, síðan 6 tíma flugið til baka. Stór kostur við Nysiros er að þar eru engir breskir túristar (og engir íslenskir heldur ;) Sama mætti segja um borgina Kos en þar er þó fjörugt næturlíf og mikið um Skandinava. Nóttina í Tyrklandi sáum við skemmtanalífið á sundlaugarbörum allt í kring um hótelið okkar og voru þar pissfullir Bretar að dansa og drekka. Sama blasti við þennan tæpa dag sem við dvöldum þar nema þá lágu pissfullu Bretarnir í sólbaði, sumir skaðbrunnir, og öskruðu á börnin sín. Bodrum er því einungis fyrir fólk sem þolir samvistir við lágstéttarbreta ... og finnst gaman að versla, því borgin er einn basar og fjörugir stórmarkaðsdagar haldnir oft í viku.
Í Paloi á Nysiros var ein búð, þrjú eða fjögur veitingahús, ókeypis strætó og rútuferðir milli þorpanna þriggja sem eitthvað voru (og einn leigubíll sem frú Írena ók), vespur mátti leigja fyrir lítinn pening og reyndar kom í ljós að ítarleg læknisskoðun var einnig ókeypis. Bekkir á strönd voru og ókeypis. Paloi er á stærð við Kópasker og fær nánast 0 fyrir næturlíf. Aftur á móti er þetta afskaplega friðsæll bær og íbúðahótelið þar sem við gistum var til stakrar fyrirmyndar. (Sjá mammis.com, gistingin kostaði 60 evrur nóttin.)
* Stafsetning Nysiros með latínustöfum er mjög á reiki.
Atli stendur utan við hótelið Kosta Palace, við höfnina á Kos.
Hótelið var skreytt með mörgum sjálfstæðisfálkum en inn á milli (í sundlaugargarðinum á þaki hótelsins) voru Mjallhvít, dvergarnir 7 og einhver grískur heimspekingur, allt í bland við fálkana. Jesú var utandyra og sést glitta í hann til vinstri á myndinni. Þessi skreytingarmáti gladdi okkur Skagamennina og minnti okkur á jólaskreytingarnar í næstu götu.Hippokrates fæddist og ólst upp í borginni Kos. Hér er hann að kenna læknisfræði undir beru lofti og á sökklinum má finna Hippokratesareiðinn á grísku og ensku.
Hippokrates í prófíl. Dúfnaskítur sést á sitjandi nemanda.
Hippokratesar-tréð er ógurlega stórt og ógurlega gamalt og erfitt að mynda svo vel sé. Hér er partur af því. Menn telja að í forsælu þessa trés hafi Hippokrates rekið sinn læknaskóla.
Atli trónir efst í tröppum rómverska leikhússins í Kos (Odium?). Þessar rústir eru inni í bænum.
Brotnar styttur eru út um allt og svæðið löðrandi af fornleifum, eins og víðast á Grikklandi.
Rétt utan við bæinn Kos er Asklepeion, sem var risavaxin lækningamiðstöð, byggð á svipuðum prinsippum og Heilsuhælið í Hveragerði (heit og köld böð, grænmetisfæði o.þ.h.). Setrið heitir eftir lækningaguðinum.
Á einum stað voru sérstakir íhugunarklefar þar sem sjúklingar gátu lagst til svefns og þá vitjaði Asklepíon þeirra í draumi, sjúkdómsgreindi þá og lagði á ráðin um lækningu. E.t.v. myndu svona klefar gera sig á Lans 32 C?
Hér sést yfir hluta læknamiðstöðvarsvæðisins.Svæðið er gríðarstórt og hefur verið byggt við stöðina hvað eftir annað. Þess vegna sjást dórískar súlur í rómverska hlutanum en allt annars konar byggingasnið í eldri og yngsta hluta. Þetta minnti okkur Skagamenn ljúflega á hönnun okkar vinnustaðar, FVA, hvar stíllinn einkennist af stílbrotum.
Seinna meir stal feneyskur hertogi fullt af steinum úr Asklepeion til að byggja sinn feneyska kastala. (Virðist vera lágmark að hafa einn feneyskan kastala á hverri eyju þarna í Eyjahafinu.)
Menn töldu áður fyrr að Síprus-lundirnir (sem sjást allt í kring) væru heilagir og geymdu lækningamátt (mig minnir að það hafi eitthvað tengst Dýonísosi) og sumir lundanna í kring eru ævagamlir.
Þetta fagra og forgengilega umhverfislistaverk blasti við á einni ströndinni á Kos (man ekki hvar en við tókum bílaleigubíl í einn dag og fórum um alla eyna, slepptum þó partíbænum Kardamena því þar í stuðinu mátti ætla að væru breskir túristar).
Þessi mynd er sérstaklega tekin fyrir Vífil! Hún sýnir að öllum á Kos er sléttsama um akstursstefnu í bílalagningum. Mætti Skagalöggan e.t.v. taka sér þetta til fyrirmyndar?
Hugsandi heimspekingur á veitingastað í Nysiros ...
Léttist heldur brúnin - ætli maturinn sé ekki að koma?
Fer að húma að ... maðurinn kominn í siðsamleg föt og situr á veröndinni okkar. Sjá má vínberjaklasana hanga yfir höfði hans.
Þakið á veröndinni okkar og sést aðeins í næsta inngang.
Maðurinn á vespu. Myndin er tekin fyrsta vespudaginn því þá var hann að böðlast við að nota hjálm. Svo sömdum við okkur að siðum innfæddra, sem brúka hvorki hjálm né öryggisbelti í rútu. Aftan við manninn sat ég gjarna og hélt mér lauslega í hann. Að óreyndu hefði ég haldið að ég þyrði ekki að sitja á vespu en svona leynast duldir hæfileikar í manni og brjótast út ef á þarf að halda! Næsta sumar get ég ábyggilega ekið vespunni sjálf!
Í fjallaþorpinu Nikiu sáum við þessa ljómandi fögru kirkju á hæðinni fyrir ofan þorpið. (Slíkur fjöldi kirkja er á Nysiros að sambærilegt væri að á Akranesi væru 100 kirkjur, miðað við stuðulinn íbúafjöldi á kirkju. Einnig er doldið sport að planta kirkjunum upp á hóla og hæðir, væntanlega til að auka líkamlegt atgervi sóknarbarna. Hér á Skaga þarf því að fjölga kirkjum og hafa a.m.k. eina þeirra uppi í fjalli, helst á Háahnúk.)
Atli spurði gamlan Nikiubúa hvort ekki væri fært upp að kirkjunni (maðurinn var alltaf að æfa sig í grísku, þessi elska, og er ég vitni að því að hann bæði skilst og skilur aðra grískumælandi ...). Sá gamli sagði að stígurinn væri ekki alveg tilbúinn en væri búið að marka fyrir honum og ekkert mál að trítla á strandskóm upp á hólinn. Hér er mynd af umhverfi stígsins og ég get upplýst að rispurnar eftir þyrnóttan gróðurinn á "stígnum" eru ekki enn grónar á mínum fögru og tönuðu leggjum!
Sönnun þess að við komumst upp á hólinn! Aftur á móti var kirkjan læst og augljóslega ekki fullbyggð.
Séð yfir fjallaþorpið Nikiu ofan af kirkjuhólnum. Okkur fannst þetta óskup huggulegt fjallaþorp - fórum þangað með Sæmundi innfæddra, ókeypis að sjálfsögðu!
Úr Nikiu er fínt útsýni yfir frægasta gíginn, Stefánsgíg (Stefanos). Nysiros er nefnilega risa gígur / gígar og byggðin í gígbörmunum, alveg niður í sjó. Enn stígur upp gufa og finnst brennisteinsþefur í þessum gíg og er það aðal túristaattraksjón eyjarinnar. Ég nennti ekki að skoða gíginn, hef sé gíga áður, meira að segja grískt "eldfjall" áður. Við vorum sammála um að eldfjallasafnið í Nikiu væri miklu klénna en Geysisstofa.
Þar sem vegurinn endar ... þar er veitingahús, heldur fátæklegt. Veitingahúsið hefur ekki fastan opnunartíma heldur lokar þegar maturinn er búinn. Þarna er svo eyðiströnd fyrir þá sem vilja vera einir eða allsberir eða eitthvað ...
Maðurinn er siðsamlega klæddur á eyðiströndinni! Reyndar er fullt af svona eyðiströndum á Nysiros, vilji menn njóta kyrrðar í sínu sólbaði og losna við að hlusta á háværa Vestur-Nysirosbúa gasprandi á sinni amrísku.
Stundum var kyrrðin og prívatið svo algert að kona varð að mynda sjálfa sig! (Tek fram að skugginn er afbakaður og ég er ekki svo feit sem sýnist!)
Skúturnar í Paloi voru flestar gífurlega ríkmannlegar og flottar. Okkur þótti þó höfrungaskrautið á þessari tyrknesku heldur smekklaust!
Haldið á brott: Nysiros hverfur í fjarskann eins og fjólublár draumur en við Atli sitjum á ferjunni til Kos.
Gert 11. ágúst 2009.