Myndir Atla úr sömu ferð
Myndasíða Hörpu

Ferð Atla og Hörpu til Naxos á Grikklandi í júní 2018

Við fórum í annað sinn til Naxos í sumar og gistum á sama stað, Despina hotel á Agia Anna. Líklega höldum við okkur við Naxos í framtíðinni, þetta er yndisleg eyja og ekki að drukkna í túristum! Ferðin hófst með næturflugi laust eftir miðnætti þann 3. júní og við komum heim aðfaranótt 29. júní, flugum með Lufthansa til Aþenu og þurftum að bíða nokkra klukkutíma annars vegar í Frankfurt og hins vegar München á leiðinni. Svo gistum við í Maraþonas (Maraþon) bæði á leiðinni út og heim (en hlupum ekkert), tókum ferju frá Rafína til Naxos og til baka.

Hér að neðan er kort sem sýnir Hringeyjarnar. Ég veit ekki af hverju Delos er kölluð Dilos á þessu korti.
Hringeyjar
Agios Prokopios og Agia Anna Naxos

Við vorum dugleg að fara í gönguferðir, sumar langar. Hér höfum við trítlað upp á hæð og fyrir neðan sést nokkuð ósnortin strönd, vatnið sem sést lengst til vinstri er raunar salttjörn (til að safna salti), byggðin sem sést er að stærstum hluta túristaþorpið Agios  Prokopios en Agia Anna (sem er miklu minna) er í krikanum við lága nesið.
Salttjörn
Snemma í gönguferðinni: Ég stend á salt-drullu og hæðin sem við gengum upp á blasir við.
Agia Anna Naxos grjóthóll
Við endann á gullinni strönd Agia Anna taka við klappir, sem sumir vilja sóla sig á. Úti í sjó er grjóthóll sem grýlubörnin sofa væntanlega á. (Ég nenni ekki að birta mynd af steinhákarlinum, hann má sjá á myndasíðu Atla, og örugglega litlu kirkjuna í Agia Anna líka.)
Útsýni af svölum Hotel Despina Agia Anna

Útsýnið af svölunum okkar að kvöldi. Vinstra megin er grænmetisgarður sem við fylgdumst með af miklum áhuga. Kartöflur voru teknar upp og settar aftur niður, tómatar og kúrbítur festir við stuðningsgrindur o.s.fr. Hægra megin er fótboltakrá. Þar voru yfirleitt afar fáir gestir, stundum enginn. Hjá apótekinu er einnegin hraðbanki og ströndin tekur nánast við þar sem götustubburinn endar. Hæðin sem við klifum sést til vinstri á myndinni.
Atli drekkur retsina

Þessi mynd er hins vegar tekin seinnipart dags, á sömu svölum. Atli er að fara að hella sér retsinu í glas (raunar var þetta nú bara venjulegt hvítvín), sem okkar góða húsfreyja gaf honum ómælt af enda á hún vínekru. Þegar ég mannaði mig loks upp í að fá Atla til að segja henni að ég drykki ekki áfengi og hann yrði að drekka þetta allt sjálfur skellihló hún bara og sagði að hann svæfi þess betur!
Strandhandklæðið mitt hangir á snúru og sést að hönnun Sigurðar málara fyrir skautbúning og annað þjóðlegt stöff er víða þjófstolin á Grikklandi  ...
Harpa í Filoti

Á nánast öllum Grikklandsferðasíðum er mér stillt upp undir þríburablómi enda fögur blóm og mikils metin þar í landi. Þessi mynd er aðeins öðruvísi, hún er tekin í Hgalki, einu af  þorpunum í fjöllunum, og þar hefur greinilega hvesst hressilega!
Við fórum í hringferð um eyna með leiðsögumanni. Allt til Apollonas (nyrst á eyjunni) gekk ferðin nokkuð vel (að vísu gleymdist næstum að sækja okkur til Agia Anna en það kom ekki að sök því rútan í ferðina var hvort sem er of sein). Frá Apollonas gekk hins vegar allt á afturfótunum, rútan bilaði, önnur rúta kom en hún bilaði líka og heim komum við á þriðju rútunni sem var örugglega fyrrverandi breskur tveggja hæða strætisvagn. Af því við vorum búin að sjá þessa staði áður, á eigin rúntum um eyna, þótti okkur þessi ferð hreint ágætis ævintýri! Einhverjir danskir ferðamenn voru með eitthvert múður yfir bilununum en aðrir tóku þessu af æðruleysi.
Atli og Hvítbláinn

Við skoðuðum ævagamla kirkju, Panagia drossiani (sjá síðu Atla ef menn vilja fleiri myndir af kirkjunni). Af því ég er nýbúin að júbílera þótti mér gaman að sjá að þarna við kirkjuna var flaggað skólafána ML, a.m.k. sé ég ekki betur en þetta sé Hvítbláinn!
Harpa og Bondí í Apollonas

Hún Bondí, frá Víetnam, var ekki að stressa sig yfir einu né neinu í þessari ferð. Hér erum við að spjalla saman í Apollonas, pínulitlum bæ á norðurodda Naxos. Þar rétt hjá er fræg risastytta, kouros, sem kann að vera af Apollon en hefur aldrei verið lokið við. Bondí er líklega að reyna að sannfæra mig um að ég verði að komast til Hoi An, í Víetnam. Atli er búinn að kanna möguleikana á því og það ferðalag held ég að verði okkur um megn. En Bondí hefur ferðast alla ævi þegar efni hafa leyft, sem ung kona komst hún t.d. tvisvar í grunnbúðir Everest (án sjerpa því hún hafði engin efni á að ráða svoleiðis). Það tók hana tvö ár að safna fyrir ferðinni til Hringeyja, með (svartri) enskukennslu í Hoi An. Og hún var heilluð af Litlu Hringeyjum, sem ég skildi vel þegar við fórum þangað.
Iraklia

Við fórum s.s. í siglingu um Litlu Hringeyjar. Hér er ég nýstigin á land og okkar góði bátur, Kirijarkos III er þessi rauði við endann á bryggjunni. Á Iraklia búa 140 manns á veturna en fleiri á sumrin. Enginn læknir er á eynni en þar er þyrlupallur ef einhver veikist svo alvarlega að hann þurfi á spítala. Veitingamaður sem við skiptum við var fæddur og uppalinn á Iraklia en af því hann á lítil börn neyðist hann til að búa í Aþenu á vetrum, bæði vegna heilsugæslu og skólagöngu þeirra, sagði hann.
Bátur á Iraklia

Á Iraklia var hafið svo tært þennan dag að bátarnir virðast svífa í loftinu ...
Bátur Ano Koufonissi

Á Ano Koufonissi, sem er fjölmennari en Iraklia og fleiri túristar og dásamlegar strendur hafði einn fiskimaðurinn gert þessa skemmtilegu uppreisn gegn hvít- og blámáluðum bátum og málað sinn grænan og gulan ... Í baksýn er Kato Koufonissi sem er óbyggð.
Ano Koufonisi

Skemmtilegt athafnasvæði á Ano Koufonissi: Kirkjan, fyrrverandi vindmylla og skipasmíðastöð fyrir neðan hana.
Ano Koufonissi saltsker

Á Ano Koufonisi eru svona skemmtileg saltsker milli gullinna stranda og sjávar sem er ýmist túrkisgrænn eða safírblár.
Agios Nicolaos

Gönguferð frá Agia Anna upp að kirkju heilags Nikulásar er a.m.k. þrír tímar fram og til baka. Þessi kirkja  minnir dálítið á að vor guð er borg á bjargi traust :)  Og í þessari gönguferð hittum við bændur og búalið að taka upp kartöflur, ég sá snák í fyrsta sinn á ævinni og við björguðum kettlingi sem var fastur undir röri (sem Atli segir að sé sögufölsun, við sáum snákinn og björguðum kettinum þegar við löbbuðum upp í þorpið Agios Arsenios - þar sem hið góða fólk sem rekur hótel Despinu á raunar heima utan túristavertíðar)..
Kveikt á kerti hja´heilögum Nikulási

Kirkjan var lokuð og greinilega verið að sansa hana, a.m.k. lágu kirkjugripir við hana (í landi heitttrúaðra orþódoxa er lítil hætta á að helgigripum sé stolið, reikna ég með) og málningarfötur/kalkfötur við hliðina á þeim. Sem betur fer gafst mér kostur á að kveikja á tveimur kertum, í smáskoti á kirkjunni, hjá honum heilögum Nikulási.
Ganga til Mikri Vigla

Við löbbuðum líka til Mikri Vigla, eftir moldarvegi þar sem hann bauðst en á endalausum gullnum sandinum þegar vegi sleppti. Þessi mynd er tekin einhvers staðar á leiðinni, í baksýn er hæðin sem við gengum upp á, sú sem er hinum megin við Agia Anna + Agios Prokopios.
Mikri Vigla smáhestur

Og merkilegt nokk sá ég hjaltlenskan smáhest í fyrsta sinn á ævinni í þessum labbitúr til Mikri Vigla. Þarna var vegleysa með strönd en rússneskur eiginmaður grískrar konu leyfði mér að skoða hestinn sinn, hún seldi túristum kaffi á meðan (raunar voru eiginlega engir túristar þarna). Lengst til vinstri má sjá Rússann sem var að passa barnið og hestinn.
Mikri Vigla sport

Mikri Vigla var örlítið pláss en hins vegar bálhvasst þar og fjöldi bíla þeirra sem vilja stunda svona sport. Þetta er nógu hættulegt til þess að brunendur eru með hjálma.
Samkvæmt strætótöflu átti strætó að koma kl. 13 og við keyptum okkur strætómiða. Enginn strætó kom. Í búðinni sem seldi strætómiða stundu afgreiðslukonur þegar ég kom til að spyrja um strætóinn og sögðu hann ekki byrja að ganga þangað fyrr en í júlí. En hann kæmi rétt bráðum að "krossinum". Við hlupum að krossgötum um 50 m frá og biðum. Þar var ekkert strætóskilti heldur ruslatunnur og ruslahaugur. Eftir talsverða bið fór ég aftur í búðina og sagði að enginn kæmi strætóinn. Afgreiðslukonur fórnuðu höndum og sögðu engan veginn á þennan strætó að treysta - kröfðust þess síðan að endurgreiða okkur miðana því það munaði evru á miða frá Mikri Vigla til borgarinnar og frá Agia Anna til borgarinnar. Við tókum þann kostinn að labba til baka. Heimkominn reiknaði Atli út að við hefðum gengið 20 km þennan dag, sem verður að teljast góður göngutúr.
Við hjónin á Delos

Við fórum í aðra siglingu, til Delos. (Að venju var fyrst farið til Paros að sækja fleiri túrista og ferðinni fylgdi einnig sigling til Mykonos.) Delos hefur verið heilög eyja ýmissa trúarbragða um aldir og auk þess er á eyjunni upphaf bankastarfsemi því þar geymdu Aþeningar sinn gullforða. Hér erum við hjónin við hin frægu ljón (þau eru 5 en sést bara eitt á myndinni). Það er reyndar dálítið svindl að þetta eru eftirgerðir, upprunalegu stytturnar eru inni á safninu á Delos.
Delos hringleikahús

Í leikhúsinu á Delos. Atli heimtaði að ég léki eitthvað ... hið eina sem mér datt í hug var Lady Macbeth, sem nýr hendur sínar og tuldrar: Out damn spot! Out I say!  Sem sjá má hafði ég einn áhugasaman áhorfanda ...
Delos og Rineia

Delos var svo helgur staður að þar mátti hvorki fæða barn né deyja. Til þeirra athafna varð að fara til annarrar eyju, Rineia. Hún er sem betur fer bara steinsnar frá og sést í baksýn.
Atli hangir við Mykonos

Fyrir mann með slæmt brjósklos eru svona ferjur ómetanlegar! Þarna erum við komin til Mykonos.
Litlu Feneyjar á Mykonos

Mér finnst nóg að birta mynd af Litlu Feneyjum á Mykonos, kirkjan, vindmyllurnar og allt hitt sem menn mynda þar eru á myndasíðu frá 2015 eða á myndasíðu Atla úr þessari ferð.
Gönguferð með Spíros - stígurinn

Við sömdum við leiðsögumanninn Spíros að fylgja okkur eftir gönguleið frá þorpinu Kinidaros ofan í þorpið Engares (Eggares). Leiðin liggur um dal sem er löngu kominn í eyði en þó mátti sjá selkofa á stangli og eitthvað af geitum hér og þar. Hér sést hluti af stígnum. Spíros hafði nokkrar efasemdir um að ég gæti gengið þessa leið á heldur lásí strigaskóm, "það er gengið á grjóti" sagði hann, þegar við sömdum um ferðina. Ég varð sármóðguð og fullvissaði hann um að ég hefði arkað miklu erfiðari gönguleiðir um auðnir Íslands, gott ef ekki berfætt! Í rauninni hefðum við Atli verið helmingi fljótari að ganga þessa leið sjálf, því Spíros reyndist ekki í neinu súperformi. Við hefðum samt sennilega ekki ratað almennilega svo það var ágætt að hafa leiðsögumanninn. Hann var svo sem ekkert alltof ánægður heldur með að við vildum taka alla útúrdúra af leiðinni, til að skoða gamla kirkju, gamla brú o.fl., líklega varð grjótið honum megin ;)
Ég og Spíros

Ég og Spíros á leiðinni. Hann kom meira að segja með stafi handa okkur, sem hann hafði sjálfur unnið úr ólífuviði. Við afþökkuðum stafina.
Ég og Atli í gönguferð Kinidaros Engares
Við hjónin undir brú. Þarna var örlítil tjörn og mátti bleyta á sér höfuðið, sem var ágætt í hitanum.
Vatnaskjaldbökur milli Kinidaros og Engares

Önnur talsvert stærri tjörn, eiginlega hluti af heilli á,  var undir lok leiðarinnar. Þar var fullt af vatnaskjaldbökum í sólbaði. Fyrir okkur steyptu þær sér í tjörnina og syntu forvitnar til okkar. Atli er með miklu flottari myndir af þessum skjaldbökum á sinni myndasíðu. Ég hef séð vatnaskjaldbökur í Plakias á Krít en þessar voru miklu stærri, þær stærstu slöguðu upp í stóran matardisk.

Í Engares skoðuðum við kurteislega ólífuverksmiðju (ég veit ekki hvað oft ég hef skoðað svoleiðis) og snæddum ágætan miðdegisverð, Spíros ók okkur svo heim.
Auglýsing í borginni

Við gerðum fleira en fara í labbitúra og siglingar, fórum t.d. nokkrum sinnum til borgarinnar og skoðuðum kastalann og hlið Apollons og það allt. Við skoðuðum líka Grotta-svæðið sem er mjög áhugavert, nokkurs konar bakhlið á borginni en ekki sú fagra framhlið sem flestir túristar sjá. Daginn sem þessi mynd var tekin var spáð rigningu svo það var upplagt að ráfa um borgina í smáskúrum. Sem sést var mikill áhugi á heimsmeistarakeppninni í fótbolta ... og raunar fór svo að við horfðum á þennan auglýsta leik af því hellirigndi í Agia Anna klukkan fjögur þennan dag. (Auk þess höfðu nágrannar okkar á Despinu, sem ég hélt reyndar að væru bara Ítalir, hengt argentínska fánann í fullri stærð á svalirnar hjá sér.)  Þetta er fyrsti fótboltaleikurinn sem ég hef horft á frá upphafi til enda svo þannig séð var þetta upplifelsi. Og er leik lauk sendi ég Atla fram til að tékka á fánanum nágrannanna ... þá voru þau búin að taka hann inn ;)
Kettir sem lifa á landsins gæðum

Svo var kattafjöld sem lifði á landsins gæðum ... eða þannig ... í útjaðri Agia Anna. Það þurfti auðvitað að kaupa Whiskas handa þeim nokkuð oft!
Maraþon

En allt tekur enda og eftir rúmar þrjár vikur sigldum við í haugasjó frá Naxos til Rafínu (og kom reynslan af Akraborginni í suðvestan garra sér ágætlega). Þar gistum við aftur í Maraþon (Maraþonas) og þessi mynd er því til sönnunar. Við fundum nefnilega ekki aftur skiltið sem við sáum á útleiðinni og urðum að láta ruslagáma sem eru vandlega merktir bæjarfélaginu Maraþonas duga (þrumuveður og hellidembur takmörkuðu líka labb um Maraþon, hvað þá hlaup!). Skömmu eftir að þessi mynd var tekin ók kristilegur leigubílstjóri okkur á flugvöllinn og ég er ákaflega glöð yfir að orþódoxar signa sig með vinstri hendi því þessi signdi sig í hverri beygju, líka á hraðbrautinni.


Gert 7. júlí 2018.