Myndasafn Hörpu

Myndir Atla úr sömu ferð
.


Ferð Atla og Hörpu til Halkiðiki í maí og júní 2016

Atli kom til Aþenu 22. maí, var þar á ráðstefnu í tvo daga og fór þaðan í rútu til Þessaloniki með viðkomu í Volos. Harpa flaug til Þessaloniki 25. maí. Þaðan fórum við saman til Sarti á Siþoniuskaga þann 26. maí og dvöldum þar í tvær vikur. Á þeim tveim vikum skruppum við í siglingu til Aþos og í bíltúr til Stageiru hinnar fornu þar sem Aristóteles ólst upp. Síðustu fimm dagana dvöldum við í þorpinu Agia Triaða rétt hjá Þessaloniki. Við flugum heim gegnum Berlín 14. júní. Á kortinu efst á myndasíðu sést hvar á Grikklandi við vorum, nánar tiltekið í héraðinu Mið-Makedóníu á Norður-Grikklandi.

Siþoníuskagi

Af þessum þrífingra-skaga eru Kassandra og Siþonía ferðamannastaðir en Aþos er lokaður almenningi og öllum kvenpeningi.
Sarti
Þetta er gististaðurinn okkar, Haus Theodora, en eldri dóttir gistihúseigenda heitir einmitt Þeódóra. Sú yngri heitir Eleni og mamman (Tomai) rekur annað gistiheimili með nafni hennar. Elsti sonurinn heitir Giorgos og lærir lögfræði í Saliniki en auðvitað heitir ekkert eftir honum. Ég stend á svölunum okkar.

Haus theodora

Þessi mynd ef tekin af svölunum, handan götunnar er strandbarinn þeirra Tomai og Stratosar og svo tekur ströndin við (með ókeypis sólbekkjum fyrir þeirra gesti).
Sarti

Mér fannst mjög gaman að horfa á gömlu konuna á svölunum handan götunnar kaupa fisk á morgnana: Hún slakaði niður fötu (væntanlega með peningum), náunginn á fiskbilnum fyllti í fötuna og sú gamla halaði hana aftur upp.
Aþos

Af ströndinni blasti við Fjallið helga, Aþos, á samnefndum skaga. Sagan segir að Hin helgasta (Panagia - nafn Maríu meyjar er yfirleitt ekki nefnt) hafi lagt upp í ferð ásamt Jóhannesi guðspjallamanni (og e.t.v. postula) frá Jaffa (í Ísrael) til Kýpur, til að heimsækja hann Lazarus (þennan sem Jesús reisti upp frá dauða). En þau lentu í leiðindaveðri, hrakti af leið og tóku loks land á Aþos. Hin helgasta leit í kringum sig, heillaðist af náttúrufegurðinni umhverfis Aþos fjall, blessaði svæðið og bað son sinn að sjá um að þetta yrði garður hennar. Raust af himnum heyrðist segja: "Megi þessi staður vera arfur þinn og garður, paradís og griðastaður fyrir þá sem óska eftir sáluhjálp."

María hélt svo áfram sinni för og segir ekki meir af því en þar sem æðri máttarvöld höfðu lýst því yfir að Aþos væri garður hinnar helgustu má engin dauðleg kona stíga þar fæti á land og hefur svo verið um tvö þúsund ár. Karlar geta sótt um vegabréf til að fá að fara inn á Aþos-skaga en erindið verður að vera annað hvort vísindalegt eða trúarlegt.


Aþos

Við fórum í allanga siglingu yfir að Aþosskaga, sigldum meðfram hinum helga skaga og dáðumst að klaustrunum. Vont var í sjóinn og megnið af farþegum ælandi þvers og kruss, en ekki beit á Skagamenn með mikla æfingu af Akraborgarsiglingum. Leiðsagt var á ungversku, serbnesku, rússnesku og þýsku en einu Norðurlandabúarnir sem við hittum í þessari ferð, "sænskt" par á sjötugsaldri, konan frá Belgrad og karlinn frá Chile, voru talsverð hjálp, a.m.k. gat konan frætt okkur á helsta slúðri serbneska gædsins sem ekki var sagt í hátalara. Og svo renndum við yfir útprent af  Wikipedíu á ensku, sem serbneski gædinn lét okkur hafa (við vorum á könnu þeirrar indælu stúlku, þetta undarlega fólk sem skildi bara ensku og hrafl í þýsku  - raunar töluðu þau Atli svo saman á grísku).
Amoliani

Eftir lúshæga og langa siglingu meðfram Aþosskaga var stoppað á pínulítilli eyju, Amoliani. Sú eyja byggðist fyrst 1922, af Anatólíugrikkjum. Farkostur okkar sést í baksýn og ég er mynduð við blómskrúð (eins og venjulega). Það var mjög gott að hafa fast land undir fótum og geta fengið sér lútsterkt kaffi og eitthvað í gogginn! Miklu betra var í sjóinn á bakaleiðinni (og flestir farþegar auk þess vel dópaðir af sjóveikitöflum).
Sarti

Sarti er mjög fallegur bær. Þarna er ég notuð sem eldspýtnastokkur til að sýna stærð þríburablómsins ...
Sarti

Atli við eitt af gömlu húsunum í Sarti - um þessar dyr er tæpast gengið núna. Gömlu húsin eru mörg hver frá 1922 og byggð fyrir gríska flóttamenn frá Tyrklandi. Af þeirri milljón Anatolíugrikkja sem Tyrkir féllust á að senda til Grikklands (og höfðu þá komist lífs af úr blóðbaðinu í Smyrna og víðar) settust flestir að í Makedóníu, héraðinu sem við dvöldum í. Afkomendur þessara flóttamanna eru stoltir af uppruna sínum og eftir því sem við urðum vör við er feikilega mikil samúð með flóttamönnum í héraðinu og reynt að aðstoða þá eftir föngum, sú samúð er hins vegar ekki í „Lýðveldinu Makedónínu(skammstafað FYROM í Júróvissjón, fyrir "The former Yugoslav Republic of Macedonia") hvar búa að mestu Slavar sem lokuðu sínum landamærum kirfilega, landamærum sem liggja að Makdóníu Grikkja.
Sarti

Á þökum bakhúsa við innganginn okkar í Haus Þeódóra í Sarti bjó kattafjölskylda. Hún var áfafklega vel fóðruð, af eigendum, túristum, pizzugerðarmönnum og fleirum. Má giska á hverjum datt í hug að gefa hluta fjölskyldunnar ost ...
Sarti

Læðan sjálf, guleyg eins og þakkanturinn, feldurinn gulldustaður eins og algengt er að sjá á grískum köttum. Hún er í feikilega góðum holdum, því grískt kattakyn er mjóslegið að eðlisfari, minna á styttur af egypskum köttum.
Stageira

Maðurinn varð auðvitað að heimsækja gömlu Stageira, borgina sem Aristóteles fæddist og ólst upp í og kenndi sig við. Þrátt fyrir að að karlinn ætti eitthver afmæli í ár (altso Aristóteles) og aska hans (líksins) talin nýfundin og mætti því ætla að menningarsinnaðir túristar þyrptust á svæðið, hittum við einungis ein hjón á okkar röltu um þessar rústir.
Stageira

Kannski stafaði fólksfæðin af þessu skilti við innganginn að Stageira? (Ég hef aldrei áður séð svona skilti og þótti það mjög merkilegt, jafnvel merkilegra en rústirnar ...)
Stageira

En þarna stendur heimspekingur heimilisins í rústunum, væntanlega sést niður í sundlaug Aristótelesar fyrir neðan hólinn sem borgin stóð á.
Agia Triada

Eftir tveggja vikna dvöl í hinu fagra og blómlega þorpi Sarti héldum við með rútunni til Agia Triaða (Heilagrar þrenningar) og hittist svo skemmilega á að sú ferðin var farin á uppstigningardegi (skv. grísk-orþódoxu tímatali). Agia Triaða er algert krummaskuð en hefur einhvern tíma átt að verða blómlegur ferðamannabær. Áhyggjufullur leigubílstjóri, sem keyrði okkur af rútustöðinni inn í þá miðju þorpsins sem lítur þokkalega út, skildi okkur eftir í umsjá þjónustustúlkunnar Önu, því þau fáu hótel sem þarna voru áttu ekki laust í fimm daga samfleytt. Ana var ráðagóð og með farsíma og þar sem hún hafði verið svaramaður bestu vinkonu sinnar fyrir skömmu og eiginmaður vinkonunnar var nýbúinn að gera upp íbúð til að leigja túristum á svörtu reddaði Ana þessu auðvitað. Okkar góði leigusali, vínyrkjubóndi á þrítugsaldri sótti okkur, ók okkur í næsta þorp svo við kæmumst í hraðbanka og gætum staðgreitt, bauðst til að stoppa í almennilegum súpermarkaði og vildi ekki þiggja krónu fyrir bíltúrinn. Daginn eftir færði hann okkur svo "velkomstgjöf", sýnishorn af eigin vínframleiðslu og ýmislegt hrikalega gott gúmmelaði sem mamma hans hafði búið til úr heimaræktuðum apríkósum. Nema við bjuggum s.s. í húsinu á miðri mynd, eftir hæðinni með hornsvölunum, í glænýrri íbúð. Niðri bjuggu foreldrar Kirijakosar. Hann var sérstaklega stoltur af því að afi hans hafði verið Anatólíu-Grikki, þessi milljón sem Tyrkir vildu frekar skila en halda áfram að drepa, settist nefnilega líka að í Agia Tríaða. (Á myndasíðu Atla er mynd af minnismerki um þá flóttamenn.)
Agia Triada

Agia Triaða mátti svo sannarlega muna finn fífil fegri. Þar var fátt um manninn, um helgina fylltist að vísu allt af dagstúristum frá Þessaloníki en virka daga voru fáir á ströndinni, sem sést mætavel á þessari mynd.
Agia Triada

Víða mátti sjá dæmi um stórkostlegar framkvæmdir sem runnu út í sandinn þegar kreppan skall á, t.d. þessi stóra viðbygging við lítið hótel sem var fyrir.
Agia Triada

En það fór vel um okkur hjá honum Kirijakos. Við bjuggurm í horníbúðinni á húsinu fyrir miðri mynd, þessu hvíta með rauða tígulsteinsþakinu. Atli var fjöðrum fenginn yfir að búa við götu sem var kennd við Konstantinos Kvafis, skáld sem ég held að hann hafi þýtt eitthvað eftir.
Agia Triada

Við hliðina á okkar húsi var þetta spennandi draugahús. Margt benti til að það hefði eitt sinn verið vandað hús, t.d. skrautsmíðajárnshandriðið og mósaíkhellur á stigapalli. En nún lítur það svona út.
Agia Triaða

Fátt var annað að gera en fara í labbitúra og ganga eftir mjúkri sandströnd fer ekki svo illa í mig. Ég heimsótti kirkjukettina reglulega, við gömlu aflögðu kirkjuna. Að vísu var lóðin og næsta lóð víggirt en það var auðvitað gat á girðingunni, við fjöruna. Þetta er eina kirkjan sem ég hef séð vanvirta á Grikklandi: Það var búið að brjóta rúður í einum glugga. Þrátt fyrir allt það graffíti og skemmdarverk sem unnin hafa verið í mótmælaskyni á ýmsum byggingum hef ég aldrei áður séð hróflað við kirkju. Enda Grikkir trúaðasta þjóð í Evrópu.
Agia Triada

Þótt ströndin í Agia Tríaða sé vottuð bláfánaströnd, með strandverði og öllu (nema strandgestum) er hún full af drasli. Mér finnast sterílar fjörur leiðinlegar og gladdist yfir að ganga um svipaðar fjörur og þær íslensku. Byggingin, sem er innan víggirðingar, hefur e.t.v. átt að verða herstöð en eitthvað hefur ruglast í staðsetningu þessa húss, a.m.k. er stiginn á heldur óheppilegum stað. Herstöðin er svo í næsta þorpi, svona hálftíma gang frá Agia Tríaða.
Agia Triada

Það þurfti ekkert að kvarta yfir lífríki fjörunnar og sjávarins; Hér er smokkfiskur sem ég gerði mitt besta til að bjarga, hann spýtti svörtu bleki en var of vitlaus til að láta ýta sér almennilega á flot heldur hélt dauðahaldi í einhverja smásteinvölu og dagar hans greinilega taldir á útfallinu.
Agia Triada

Og mér þótt gaman að fylgjast með svölunum færa sínum ungum í gogginn, sitjandi á svölunum á mínu húsi. Klessurnar á þessu húsi eru ekki geitungabú heldur svöluhreiður. Svalan er vorboði Grikkja og kannski er ekki amast við þessari hreiðurgerð þess vegna.
Agia Triada

Þótt lýsingin á Agia Triaða sé heldur nöturleg, á þessari myndasíðu, var þetta upplagt þorp til að enda ferðina okkar; sól, friður og þeir sem ekki gátu verið kjurir gátu tekið strætó inn í Þessaloniki ;)  Aðrir skoðuðu drasl og lífríki og ígrunduðu í þeim tæra sjó ...

 
Gert 10. ágúst 2016.