Myndasíða Hörpu
 
 
Ferð Hörpu og Atla til Santorini og Krítar í júlí 2013
Myndir Atla úr sömu ferð eru hér.

Nýstigin á land á Santorini, eftir þvæling frá Íslandi til Gatwick, áfram þaðan til Iraklio (Herakleon) á Krít og svo
ferjusiglingu til Santorini.

Við dvöldum í þorpinu Perissa á Santorini. Ég gerði tilraun til að skoða kirkjuna í plássinu en grimmdarleg kona, 
líklega formaður sóknarnefndar, tók ekki í mál að leyfa mér að stíga þar inn svo dræslulega klæddri. Svo maðurinn
smellti af þessari mynd fyrir utan kirkjuna. Gerði ekki fleiri tilraunir til að skoða orþódoxar kirkjur í þessari ferð enda
hef ég skoðað nógu margar svoleiðis fyrir lífstíð ...

Á hinn bóginn var nýtt og spennandi að prófa fiskafótsnyrtingu. Lítil síli narta af manni siggið ...

Þetta er faktískt ljómandi þægilegt ... mun þægilegra en hefðbundin fótsnyrting.

Maðurinn reynir að vingast við geitur sem haldnar voru í miðju Perissaþorpi. Þær skildu kibba-kibb ...

Við eyddum auðvitað dagsparti í Ía (Oia) á Santorini, ljósmyndaðasta plássi heims, að sagt er. Ía var drottning
Þírosar, fyrst konungs eyjunnar (skv. fornum fræðum, annað  nafn Santorini er enda Þíra). 

Ía (og höfuðborgin Fíra og fleiri þorp á Santorini) hangir á klettasyllum. Sé vel að gætt sést hvar ferðalangar
eru að paufast ofan úr Ía niður í fjöru, eftir stígum og stigum. Fyrir neðan bíða skutlbátar stóru skemmtiferðaskipanna, 
sem liggja fjölmörg við festar við Santorini. Við notuðum einfaldlega strætó og þurftum ekkert að príla ;)

Af skorti á ferðafélögum verðum við yfirleitt að sitja fyrir til skiptis: Hér er Atli við vindmyllurnar í Ía.

Og Atli við litla kirkju í Ía, okkur þótti liturinn á kaktusunum tóna svo vel við kirkjudyr og gluggaumgjörð að 
full ástæða væri til að smella af mynd við þessa kirkju, þótt enginn skortur væri á miklu stærri og voldugri svoleiðis.

Í Ía er ansi merkileg bókaverslun, sem selur jafnt nýjar sem notaðar bækur. Maðurinn þurfti alltaf öðruhvoru
að svara í símann, yfirleitt einhverjum erindum sem vörðuðu fjölbraut. Reikna með að þarna sé hann að neita
að skrá nemanda í skólann akkúrat hér og nú.

Eins og í mörgum grískum verslunum var köttur að störfum í bókabúðinni.

Þótt Santorini sé lítil eyja, eiginlega bara leifar af eyju því miðjan sprakk í loft upp og einungis gígbarmurinn eftir
á stórum hluta hennar, er landslag þar sérlega fjölbreytt. Hér er Rauðisandur, myndavélin mín nær ekki dökkrauðum
lit klettanna nógu vel. Við paufuðumst stíginn gegnum skriðuna og fórum í örsólbað á ströndinni, til þess eins að fatta
að rauðamöl hitnar stórkostlega í sól og klettarnir veittu óhóflegt skjól. Þá var nú þægilegra að vera í sólbaði í rokinu
í Perissa!

Svo skoðuðum við rústir á Santorini (þótt ég telji raunar að ég hafi fullskoðað mínóskar rústir fyrir minn smekk fyrir löngu!).
Þarna er Atli í rústum borgarinnar Akrotiri, sem sumir telja að hafi verið það sem seinna varð í munnmælum að Atlantis.
Borgin eyddist um 1500 f. Kr., mögulega í sprengigosinu mikla á Santorini, sem talið er hafa valdið gífurlegri flóðbylgju,
sem eyddi einnig Knossos og líklega Feistos og fleiri frægum mínóskum borgum á Krít. Byggingarnar í Akrotiri fylltust af leðju og 
svo rann hraun yfir allt saman. Menn eru svona smám saman að moka þessu í burtu með teskeiðum en gengur hægt.

Í Akrotiri hafa fundist merkilegar freskur sem nú eru geymdar í Aþenu. Frægasti parturinn af einni freskunni er þessi
fiskimaður, við töldum hann vera síldarprins.

Svo lá leiðin aftur til Iraklio, hvar við gistum, síðan til Rethymno, hvar við mældum göturnar nokkrar klukkustundir, og 
svo suður til Plakias. Þarna er Atli að glugga í ferðahandbók við einhvern gosbrunn í Rethymno.

Og ég stilli mér upp við búð sem seldi hannyrðir innfæddra, sömuleiðis í Rethymno. Í þessari búð fengust meira að 
segja prjónaðar barnaflíkur, sem er heldur sjaldgæft. Prjónamennt er á lágu stigi á grísku eyjunum en vefnaður og
útsaumur þess flottari. Í þeim garnbúðum sem ég hef skoðað fæst aðallega innflutt garn úr gerviefnum. 


Í Plakias, um þúsund manna þorpi á suðurströndinni, bjuggum við á þessu gistihúsi í viku, sóluðum okkur á daginn,
snæddum frábæran mat á kvöldin, lásum í Kindlum og spiluðum rommí og höfðum það alveg yndislegt. Það var 
dálítið sérstakt að í Plakias er yfrið nóg af vatni og þess vegna er grasflöt (með vökvunarkerfi undir grastónni)
bæði fyrir framan og aftan gistihúsið okkar. Meir að segja var nóg vatn í sturtunni, bæði heitt og kalt! Okkar góði
gistihúseigandi bauð okkur í kaffi ef vel stóð á hjá honum, sýndi okkur stoltur matjurtagarðinn sinn sem glittir í á myndinni
og hafði stillt upp flösku af raki (krítversku brennivíni) á herberginu okkar. Sú flaska var enn ósnert þá við fórum ;)

Litla huggulega ströndin okkar í Plakias er þarna fyrir neðan. Vilji menn liggja á sínu handklæði en ekki sólbekk
er ágætt að koma sér fyrir undir Tamarisk tré eins og þarna sést.

Tamarisk trén (innfæddir kalla þau salttré) eru lífsseig ... þarna er Atli við eitt dálítið vindbarið, rétt fyrir utan
Plakias.

Er alltaf dálítið veik fyrir gríska öldumunstrinu ...

Þessi mynd og næsta eru aðallega til að sýna vinkonu minni að víst stunda ég sjósund! Ég geri hins vegar vissar
kröfur um lofthita og kemur ekki til mála að ég drepi svo mikið sem tá oní Höfðavíkina eða sjóinn við Langasand.

Allt upp í tíu sundtök á klukkustundarfresti telst ágætt sjósund! Lýbíuhafið (við sunnanverða Krít) er meira að segja
talsvert kaldara en Krítarsjórinn norðanmegin.

Fyrir utan Plakias var þetta ágæta bókasafn. Þar gat maður gerst meðlimur fyrir 2 evrur. Belgísk hjón, sem bjuggu
í Selju, næsta þorpi, ráku bókasafnið. Á bókasafninu unnu þrír kettir.

Hér vingast Atli við einn bókasafnskattanna.

Eftir viku letilíf í Plakias eyddum við tæpum sex klukkutímum í rútum aftur norður yfir og austur til Agios Nikolaos.
15.000 manna borgar sem reyndist gullfalleg. Hér sést yfir botnlausa vatnið í miðbænum, sem tengist smábátahöfninni
með manngerðum skurði. 

Og þessi ljómandi fallega stytta af Evrópu, dóttur Fönikíkonungs sem Seifur (í nautslíki) rændi var líka í Agios
Nikolaos. Evrópa og Seifur eignuðust soninn Mínos, konung í Knossos.

Uppáhaldsveitingastaðurinn okkar, við vatnið í Agios Nikolaos, var skemmtilega litríkur.

Og hér erum við að snæða á þeim uppáhaldsveitingastað ...

Hótelið okkar var í miðbænum, strönd handan götunnar og af svölunum blasti við þetta útsýni.

Einhver óprúttinn gestur hefur laumast til að teikna andlit á þessa þjóðbúningadúkku á byggðasafninu í 
Agios Nikolaos ...


Við kláruðum bæði The Island eftir Viktoriu Hislop og var ekki hjá því komist að fara í fjögurra tíma siglingu til Spinalonga. Á 
leiðinni gafst mönnum tækifæri til að stinga sér í sjóinn og hér syndir maðurinn glaður kringum bátinn (ég passaði handklæðið hans).

Og hann var enn glaðari þegar hann kom uppúr og ég var búin að þurrk'onum ...

Spinalonga rís úr hafi. Allt umhverfis þessa litlu eyju er voldugur virkisveggur Feneyinga enda héldur þeir
eyjunni plássa lengst á Krít.

Ég stend við Hlið Dantes, á virkisveggnum. Hliðið heitir svo af því þeir sem inn um það gengu áttu fæstir
afturkvæmt. Á Spinalonga var nefnilega starfrækt holdsveikrahæli/nýlenda til ársins 1957, þegar loksins
var búið að finna lækningu við þessum uggvænlega sjúkdómi.

Innan við Hlið Dantes taka við nokkurra metra löng göng og þá er komið í þorpið. Þessi mynd er tekin úr 
göngunum. 

Götumynd úr Spinalonga. Húsin eru í misjöfnu ásigkomulagi.

Þarna er gamli sótthreinsitankurinn. Þeir fáu sem fengu að yfirgefa eyjuna, t.d. læknar og hjúkrunarfólk, voru
vandlega spúlaðir áður en þeir máttu fara.

Þetta er hitt hliðið á virkisveggnum. Handan við sundið er pínulitla þorpið Plaka, eiginlega er það bakvið tréð.
Plaka kemur mjög við sögu í bókinni The Island.

Á heimsiglingunni var okkur bent á þennan helli, í hamrastáli lítillar óbyggðar eyju, og sagt að þarna hefði
hinn illi sjóræningi og ribbaldi Barbarossa haft bækistöð.

Við eyddum laugardegi í Iraklio, sem er heldur ljót borg og hálfur dagur dugir ágætlega til að skoða hana, nema 
fólk sé heitt fyrir fornminjum. Þarna er Atli fyrir utan endurgerða skrifstofu Kazantzakis, á Sögusafninu í Iraklio.

Og ég sit á gröf Kazantzakis. Á legsteininn er rituð sama klausa og ég hef haft sem einkunnarorð á mínu bloggi
árum saman: Ég vona ekkert, ég óttast ekkert, ég er frjáls. En nú er ég farin að efast um skynsemi þessarar tilvitnunar
í skáldið fræga ...

Loks er hér mynd af ágætu bókaúrvali í Iraklio :)


 

Gert 31. júlí 2013.