Saga prjóns I
Handavinnusíða Hörpu
Heimasíða Hörpu Hreinsdóttur
Spænsku svæflarnir Myndin er skönnuð úr bók Annemor Sundbø, Unsynlege trådar i Strikkekunsten, s. 69, Det Norske Samlaget, Oslo, 2. útg. 2006. Myndin er birt með leyfi höfundar.
Svarthvítu myndirnar eru fundnar á Vefnum en eru upphaflega úr Gomez-Moreno, M. 1946. El panteon real de las Huelgas de Burgos, Madrid: Consejo superior de investigaciones cientificas, Instituto Diego Velazquez.
Á myndunum hér að ofan sést svæfill sem lagður var undir höfuð kastilíska erfðaprinsins Fernando de la Cerda, dáinn 1275, í steinþró í nunnuklaustrinu Santa María la Real de Las Huelgas, á norðanverðum Spáni. (Mynd af steinþrónni hans Fernandos er hér. Á henni sjást merkin í eldra skjaldarmerki fjölskyldunnar vel.) Ferndando de la Cerda var einungis 22 ára þegar hann lést. Hann var erfingi þess fræga kóngs Alfonso X sem réði Kastilíu, León og Galisíu, og kvæntur franskri prinsessu, Blanche de France. Skjaldarmerki ættarinnar, sem sést hér til hægri, sýndi því bæði kastala og ljón (kastelísku og León merkin) og frönsku liljuna, frá því hjónabandi.
Þótt synir þeirra tækju ekki við ríkinu við dauða erfðaprinsins áttu þau hjón fræga afkomendur síðar meir, þau Ferdinand de la Cerda og Blance af Frakklandi eru nefnilega meðal forfeðra Katrínar af Aragóníu, fyrstu eiginkonu Hinriks VIII. Englandskonungs (sem átti mikið úrval af eiginkonum, eins og allir vita).
Richard Rutt, enskur prestur sem skrifaði A History of Hand Knitting, segir réttilega að svæfillinn sé nú brúnn og gulur með grænum snúrum. Hann veltir því fyrir sér hvort brúni liturinn hafi upphaflega verið eldrauður og sá guli líkst gylltum lit. Irene Turnau, sem skrifaði History of Knitting Before Mass Production, segir að svæfillinn hafi upphaflega verið prjónaður í fjólubláum, gullnum og hvítum lit. Borðinn í kring hafi verið grænn, brúnn, hvítur og svartur.
Ég veit ekki hvað Irene hefur fyrir sér í þessu með litina því hún segir sjálf að upplýsingar um svæfilinn séu lélegar, að engin tæknileg rannsókn hafi verið gerð á svæflinum og að hún hafi einungis skoðað hann í glerskáp. En líklega hefur hún annað skjaldarmerki kastilísku konungsfjölskyldunnar í huga, sem sést hér til vinstri. Það var merki Fernando III af Kastelíu sem tók það upp þegar hann náði einnig völdum í León. Sá Fernando var afi Fernando de la Cerda. Í því skjaldarmerki eru ljónin fjólurauð á lit. Einnig kann að vera að Irene hafi skoðað „alijuba“ eða nokkurs konar kyrtil (túniku) sem lík Fernandos de la Cerda var klætt. Sá var ofinn úr silki, munstrið er gamla skjaldarmerkið með ljóninu og kastalanum og e.t.v. hefur bakgrunnurinn verið fjólublár. Richard Rutt heldur því hins vegar fram að munstrið á púðanum þurfi hreint ekki að hafa skírskotun til skjaldarmerkja því allt voru þetta algeng munstur í vefnaði á 13. öld.
Svæfillinn, sem talinn er elsta prjónaða stykkið í Evrópu, er úr silki eða fínum ullarþræði (heimildum ber ekki saman), nánast örugglega prjónaður í hring, með tvíbandaprjóni. Hann er um 36 cm á kant og ákaflega fínt prjónaður, talið er að um 8 lykkjur séu á cm (20 lykkjur á þumlung). Yfirleitt er talið að Márar í þjónustu kastilísku konungsfjölskyldunnar hafi prjónað svæfilinn og tækniþekkingin sé því upprunnin frá aröbum. Þetta má rökstyðja með borðanum sem er prjónaður allt í kring um munstrið en á honum stendur með kúfísku letri arabíska orðið baraka sem þýðir blessun. Á tímum mozarabísku kirkjunnar á Spáni sáu kristnir menn því ekkert til fyrirstöðu að njóta blessunar, baraka, þótt á arabísku væri. Baraka lisahibihi (blessun til handa eigandanum, þ.e. sahib) er algengasta veraldlega áletrunin á islömskum listmunum.
Litlu deplarnir sem mynda V í Baraka-borðanum eru einungis til skrauts og þýða ekkert.
Franska liljan og kastalinn í munstrinu gætu verið úr skjaldarmerki Fernando de la Cerda en svo þarf þó ekki að vera.. Örninn snýr tilviljanakennt sitt á hvað og er algengt mótíf í miðaldavefnaði, sama gildir um áttblaða rósina og sólkrossinn (swastika). Þetta eru ævagömul tákn sem verður síðar fjallað betur um.
Richard Rutt telur að svæfillinn hafi verið prjónaður í hring og líklega með prjónum úr stáli. Ekki sé ólíklegt að prjónarnir hafi haft hak á öðrum endanum. Irene Turnau telur aftur á móti að einungis hafi verið notaðir 2 prjónar og hlýtur því að gera ráð fyrir að prjónað hafi verið fram og til baka. Hún bendir líka á að prjónaðir svæflar hafi eflaust verið ódýrari en þeir ofnu silki og ullarsvæflar sem tíðkaðist að leggja undir höfuð látinna tignarmanna á þessum tíma, oft hafi líka verið ofið með gullþræði í slíka svæfla.
Til vinstri má sjá myndir af munstrinu á þessum svæfli. Sé smellt á einhverja þeirra opnast pdf-skjal með munstrinu. (Harpa teiknaði munstrið upp eftir smágerðri mynd í bók Rutt).
Endurgerð sem byggir á hluta þessa svæfils má sjá á http://webpages.charter.net/samagill/susan/fernando.htm og þar er grunnliturinn hafður rauður og munsturlitur gulur.
Þessi svæfill, stundum kallaður Mafalda-svæfillinn, er um 28 cm á kant. Því miður hef ég hvergi fundið litmynd af honum en hann er talinn hafa verið prjónaður í rauðum, ljósdröppuðum eða hvítum, svörtum og gulum litum (Rutt) eða brúnum, hvítum, svörtum og grænum lit (Turnau). Prjónið er jafn fínt og á fyrri púðanum, slétt tvíbanda prjón, en enn ber heimildum ekki saman um hvort þráðurinn hefur verið úr silki eða ull. Irene Turnau staðhæfir þó að hann sé úr ullargarni. Rutt og flestir aðrir eru sannfærðir um að svæfillinn hafi verið prjónaður í hring en Turnau telur hann prjónaðan á 2 prjóna. Sem sjá má eru myndir úr skjaldarmerki kastilísku konungsfjölskyldunnar áberandi, bæði ljónið og franska liljan. En önnur velþekkt mynstur blasa við s.s. átta blaða rós, áttblaðastjarna (á íslensku gætir ruglandi í heiti þessarar stjörnu, hún er oftast kölluð áttablaðarós eða áttblaðarós en réttara væri kannski að nota orðið átta arma stjarna), stílfærður örn (sem var í skjaldarmerki Aragóníu en er einnig algengt munstur í brókaði-ofnum púðum frá sama tíma) o.fl.
Á alla kanta svæfilsins er prjónaði borði með taflmynstri þar sem skiptast á ljósir og dökkir litir. Skv. lýsingu Rutt er borðinn ekki eins á litinn allan hringinn heldur ráðast litir af lit munstursins næst borðanum hverju sinni. Ég get reyndar ekki séð að þetta sé rétt miðað við svarthvítu ljósmyndirnar, a.m.k. ekki á efri og neðri kanti, en sjálfsagt er auðveldara að greina þetta á litmynd.
Munstrum er líka raðað líkt og á skákborði og skiptist á dökkur og ljós bakgrunnur þannig að litum í munstri er víxlað í hverjum munsturreit.
Sé smellt á myndina opnast pdf-skjal með munstrunum af Mafalda-svæflinum. (Harpa teiknaði eftir smágerðum munstrum í bók Richards Rutt.)
Prinsessan Mafalda de Castilla y Plantagenet var dóttir Alfonso VIII konungs Kastilíu og Tóledó, líklega fædd um 1191 og lést 1214. Hún var trúlofuð Fernando de León y Portugal, elsta syni Alfonso IX af Kastilíu (og sá Fernando var reyndar stjúpsonur eldri systur Maföldu) en þau giftust aldrei því Fernando dó sama ár og Mafalda og var þá rétt skriðinn á unglingsaldur. Mafalda er skv. flestum heimildum jarðsett í Catedral Vieja de Santa María í Salamanca og þar er grafskrift hennar að finna. Richard Rutt ruglast aðeins í þessu og heldur því fram að Mafalda hafi dáið á barnsaldri og að þessi Fernando hafi verið óskilgetinn sonur Alfonso X og þar með hálfbróðir Fernando de la Cerda. Alfonso X átti engan óskilgetinn son með þessu nafni, aftur á móti hét einn óskilgetinn sonur hans Alfonso Fernández “el Niño” og sá átti dótturina Maföldu sem dó á barnsaldri ... Alfonso Fernández dó 1281 og var jarðaður í klaustrinu Santa María de Matallana í Valladolid, í Kastilíu- León. Sjá upplýsingar um þessa konungsætt þar sem sömu nöfnin ganga endalaust aftur.) Rutt telur sem sagt að svæfillinn hafi komið úr kistu þessa Fernando lausaleiksprins sem ekki var til. Þessar upplýsingar ganga aftur í flestri umfjöllun um spænsku svæflana á Vefnum.
Í klaustrinu Santa María la Real de Las Huelgas fannst um miðja 20. öld fóðruð trékista í steinþró, sem talin er geyma líkamsleifar Maföldu prinsessu, við hliðina á fleiri líkamsleifum, þ.á.m. Pedro de Castilla y de Molina, sem dó sviplega árið 1319 og var hálfbróðursonur Fernando de la Cerda. Þetta kemur fram í upplýsingasíðunni um Mafalda de Castilla y Plantagenet sem krækt er í hér að ofan. Líklega var svæfilinn að finna í þeirri steinþró en ég hef ekki fundið beina staðfestingu á því.
Báða þessa svæfla má víst skoða í safninu í Burgos, Spáni. En það er bannað að taka myndir af þeim, eins og yfirleitt tíðkast um safngripi. Og síða safnsins sem hér er krækt er í sýnir ekki þessa svæfla.
Heimildir
Rutt, Richard. 1989. A History of Hand Knitting. Interweave Press, Colorado 1989 (fyrst gefin út 1987), s. 39-44.
Turnau, Irene. 1991. History of Knitting before Mass Production. (Agnieszka Szonert þýddi). Polska Akademia Nauk. Institut Historii Kultury Mareialnej. Varsjá 1991, s. 15-16
Annemor Sundbø, Unsynlege trådar i Strikkekunsten Det Norske Samlaget, Oslo, 2. útg. 2006.
Chris Laning á http://groups.yahoo.com/group/HistoricKnit/
Medieval Silkwork, http://m-silkwork.blogspot.com/2008/01/whats-this.html
Medieval Knitting Notes, http://www.strangelove.net/~kieser/Medieval/Knitting/knittingnotes.html
Susanna von Schweissguth, Fernando de la Cerda’s Diaper Pattern Cushion, c. 1275, http://webpages.charter.net/samagill/susan/fernando.htmauk sagnfræðifróðleiks sem krækt er í úr textanum sjálfum.
Gert í apríl 2011
Harpa Hreinsdóttir