Björgólfur í Torgum
Björgólfur var auðugur og voldugur höfðingi sem bjó í Torgum á Hálogalandi. Þegar hann kemur til sögunnar er hann orðinn gamall maður, búinn að missa konuna sína og hafði nú dregið sig í hlé en látið búið í hendur Brynjólfi, syni sínum.Haust eitt fór Björgólfur í veislu í eynni Leku, hjá Högna bónda þar. Hann átti undurfríða dóttur, Hildiríði, sem sat hjá Björgólfi í veislunni. Er ekki að orðlengja það nema Björgólfur verður svo hrifinn af stelpunni að skömmu síðar fer hann út í Leku, með 30 manna lið, og þvingar Högna bónda til að gifta sér Hildiríði. En af því Björgólfi lá á var enginn tími fyrir venjulegt brúðkaup, með festum (trúlofun) og tilheyrandi, heldur gerði hann svokallað skyndibrullaup til Hildiríðar og dreif hana svo í rúmið! (Vafamál virðist vera hvort svona skyndibrullaup er fullkomlega löglegt hjónaband eða ekki.) Björgólfur fór svo með Hildiríði heim að Torgum, við lítinn fögnuð Brynjólfs, sonar síns.
Þau Hildiríður eignuðust tvo syni, þá Hárek og Hrærek. En um leið og Björgólfur gamli dó var Brynjólfur ekki seinn á sér að fleygja þeim mæðginum, Hildiríði, Háreki og Hræreki, út! Þau fóru í Leku og þar ólust Hildiríðarsynir upp.