Í Raufarnesi hafði Skallagrímur smiðju og sagt er að hann hafi sjálfur kafað eftir steini niður á hafsbotn, sem heppilegur væri til að lýja á járn, þ.e. berja óhreinindi úr járninu. Raufarnes heitir nú Rauðanes. Niðri í fjöru neðan við bæina Rauðanes I og Rauðanes II má sjá þennan stein en sagan segir að þetta sé steinn Skallagríms. (Bíllyklarnir ofan á steininum eru stærðarviðmiðun. Steinninn er þó alls ekki allur sýnilegur því hann er hálfgrafinn í fjörusandinn.) Í Egils sögu segir að á ritunartíma hafi þurft fjóra menn til að bifa steininum. Væri spennandi að vita hvernig nútíma kraftakarlar stæðu sig í að lyfta þessum steini!
Hér sést víkin þar sem steinninn liggur efst í fjörunni.
Uppfært í apríl 2010
Harpa Hreinsdóttir