4. LokaorðHér á undan hef ég rakið ýmsar hugmyndir um texta á tölvutæku formi og munnlega frásagnarhefð, ásamt því að reifa hugmyndir mínar um margmiðlunarefni um Egils sögu. Það sem við fyrstu sýn virðist gjörólíkt, aldagömul sagnahefð og nýjasta tækni, er kannski ekki svo óskylt þegar grannt er skoðað. Íslendingum hefur löngum verið í nöp við þá sem vilja breyta út af gamalli hefð í notkun eða lestri Íslendingasagnanna. Nægir að minnast fjaðrafoksins sem varð þegar Halldór Laxness tók upp á því að stafsetja þær upp á nútímamáta. Ég geri því fastlega ráð fyrir að mörgum finnist hreinasta goðgá að búta sundur Eglu í stiklutexta eða vilja nota gildishlaðnar myndir í anda tölvuleikja til að túlka hluta sögunnar. Svo ekki sé minnst á það að líkja dróttkvæðum við tónlistarmyndbönd. En Íslendingasögurnar lifa því einungis með þjóðinni að þjóðin lesi þær og skilji sínum skilningi hverju sinni. Það er einmitt akkur sagnanna að þær lifa þótt samfélagið breytist, vegna þess að hægt er að nálgast þær á svo ótal marga vegu. Tillaga mín að margmiðlunarefni er aðeins ein leið til að nálgast Eglu og leiðin er valin sérstaklega handa ákveðnum ferðalöngum, sem eru unglingar. Þessi sama leið hentar e.t.v. ekki miðaldra lesendum sérlega vel. Og þótt ég hafi í þessari ritgerð reynt að stika leiðina nokkuð þá munu ferðalangarnir hafa sitt að segja; ég vænti þess að fara mjög að óskum notenda þegar fyrsta útgáfa hefur birst á vefnum og geri alveg eins ráð fyrir að þurfa að gera umtalsverðar breytingar. Upplýsingatækni þróast hratt og því er eðlilegt að kennsluefni þróist líka hratt. Tími stöðugleikans er liðinn og nú er ekki lengur hægt að búast við að námsefni eða kennsluefni sé notað óbreytt í áratug eða lengur líkt og eitt sinn var. En grunnurinn, Egils saga, stendur óbreyttur eins og við þekkjum söguna núna.