ÍSL 313
22. apríl 1996
Vefsíður um Egils sögu - 3. verkefni
Hér á eftir fer listi yfir síðustu verkefnin sem þarf að vinna úr Egils sögu á þessari önn. Vinnið endilega í hópum eftir því sem hægt er. Sem fyrr gildir að ef margar útgáfur verða af sama verkefninu verður dómnefnd að skera úr um hver fer á vefinn.
Þættir í fari Egils. Hér þarf að gera grein fyrir þeim þáttum sem einkenna Egils og nefna dæmi þar sem þeir koma fram. leitast skal við að svara spurningunni: Hvers konar náungi var Egill? Þættir sem koma til greina eru fégræðgi, níska, grimmd, hetjuskapur, ást og afbrýði, sorg, hjálpsemi ... finnið endilega eitthvað fleira.
Sjúkdómar sem e.t.v. hafa hrjáð Egil. Sumir (t.d. kennarinn ykkar) halda að Egill hafi ekki gengið heill til skógar - að hann hafi ekki verið fullkomlega eðlilegur ... Er hugsanlegt að hann hafi verið alkóhólisti? Eða geðveikur? Eða ofvirkur? Eða haft sjaldgæfan beinsjúkdóm? Kannski haft mjólkurofnæmi? :) Ef þið fallist á eitthvað af þessu reynið þá að sýna fram á að Egill hafi haft sjúkdóm(a). Finnið upplýsingar um einkenni sjúkdómsins/sjúkdómanna á bókasafni.
Arfur Ásgerðar. Endursegið í stuttu máli baráttu Egils við að ná þessum arfi. Átti Ásgerður rétt á arfinum eður ei?
"Egill í nútímanum." Búið til sögu um Egil Skalla-Grímsson í nútímanum. Hvernig hefði líf hans orðið ef hann væri uppi nú á tímum?
Konur í Egils sögu. Hvaða konur koma aðallega fyrir í Eglu? Hvernig eru þær? Hvaða máli skipta þær í sögunni? (Ath. Skipta þær sjálfar máli eða einungis tilvist þeirra?) Stundum er því haldirð fram að Egils saga sé "karlrembusaga". Hvað finnst ykkur?
Fjölskyldufaðirinn Egill.Hvernig er fjölskylda Egils? Hvernig lyndir Agli við konu sína og börn? Gerir hann upp á milli barna sinna? Þykir honum vænt um fjölskyldu sína?
Skáldið Egill. Skrifið um yrkingar Egils, t.d. hvenær hann byrjaði að yrkja, við hvers konar tækifæri hann yrkir o.fl. Nefnið löngu kvæðin hans og segið af hvaða tilefni þau voru ort. Best væri náttúrlega ef þið læsuð Sonatorrek og endursegðuð efni þess. Gott væri líka að taka mynd af samnefndu listaverki, sem við gætum skannað...
Fjölkyngi í Eglu. Fjallið um galdra, álög eða aðra fjölkyngi í Eglu.
Gula pressan;Nokkrar "missannar" fréttir...
Lúfa;Helstu fréttir frá 56. kafla til loka sögunnar.
Egill og Arinbjörn. Lýsið vináttu þeirra frá því hún hefst. Hvers vegna eru þeir vinir? Gera þeir hvor öðrum greiða?
Verkefni að eigin vali (í samráði samt við kennarann!)
Svo vantar myndskreytingar! Óskað er eftir sjálfboðaliðum í slíkt.
Góða skemmtun!