Tilefni bréfaskriftanna er brúðkaup þeirra Bolla og Guðrúnar og óvinskapurinn á milli Bolla og Kjartans sem fylgdi í kjölfarið. Kjartan leit á Guðrúnu sem heitmey sína og fannst því sem hann hefði verið illa svikinn þegar Bolli gekk að eiga hana. Kjartan og Bolli höfðu verið mjög góðir vinir allt frá því að faðir Kjartans, sem hét Ólafur og hafði viðurnefnið pái, tók Bolla í fóstur og til þess tíma er bréfin eru skrifuð.
Kjartan fór til Noregs og ætlaði að dvelja þar í þrjú ár. Áður en hann fór bað hann Guðrúnu að bíða sín, en sagði að ef hann yrði ekki kominn að þrem árum liðnum þá væri henni frjálst að giftast öðrum. Bolli hafði heyrt að Kjartan hefði fundið sér aðra konu og því taldi hann Guðrúnu á að giftast sér. Kjartan kom heim að fjórum árum liðnum en of seint engu að síður. Konan, sem hann ætlaði að kvænast, var nú eiginkona besta vinar hans.
Kæri Kjartan
Mér hefur fundist sem þú hafir oft verið mjög dapur á síðusut vikum. Ég held ég viti ástæðuna. Það hlýtur að vera vegna Guðrúnar, ekki satt? Ég held nú að þú hafir sjálfur nælt þér í konu sem þú getir verið fullsæmdur af. Höfðingi eins og þú ert ætti að mínu viti að bera harm sinn í hljóði, haga sér vel og láta ekkert á því bera þó að honum mislíki.
Ég hefði aldrei getað trúað því að svo miklir menn og höfðingjar sem þið Bolli eruð ættuð nokkurn tímann eftir að verða svona miklir óvinir og tek ég þessa atburði mjög nærri mér þó að ég vilji nú ekki kenna þér einum um þetta því að eins og máltækið segir, "sjaldan veldur einn þá tveir deila."
Bolla lít ég á sem einn sona minna og finnst mér fráleitt að álíta að hann einn eigi alla sök. En mér finnst þú ekki hafa neinn rétt til þess að vera Bolla reiður þó að hann hafi gengið að eiga Guðrúnu.
Hvers vegna baðstu Guðrúnu um að bíða þín í ein þjú ár á meðan þú varst úti í Noregi? Að þeim þrem árum liðnum ætlaðirðu að kvænast henni. Og er það ekki rétt skilið hjá mér að þessu hafi hún aldrei viljað lofa þér og því verið óbundin og frjáls til að giftast hverjum þeim sem hún vildi?
Ertu kannski ekki einungis reiður Bolla vegna þess að hann gekk að eiga konuna sem þú ætlaðir að kvænast, heldur vegna þess að þú telur hann hafa staðið fyrir þjófnaðinum á motrinum og sverðinu konungsnaut? Ég hef enga trú á því að Bolli hafi komið nálægt þessum þjófnaði. Ég held að Guðrún hafi verið þar að verki og eflaust einhverjir fleiri í vitorði með henni. Það er nú kannski ekkert svo skrítið þó að hún hafi viljað ná í moturinn þar sem hann var upphaflega keyptur handa henni. Ekki má heldur líta fram hjá því að Guðrún hefur þann ókost að hún þarf alltaf að eiga glæsilegasta skartgripinn af öllum konum á landinu og því er það eðlilegt að hún hafi ekki verið ánægð með það að motur, sem upphaflega var ætlaður henni, væri svo gefinn Hrefnu.
Með von um að óvináttu ykkar ljúki hið fyrsta.
Kæri Kjartan
Þú hefur alltaf verið mér góður vinur og fósturbróðir. En mér hefur fundist sem vinskapur okkar hafi dvínað á undanförnum mánuðum. Ég gat nú búist við því þar sem ég giftist Guðrúnu, konunni sem þú varst búinn að ákveða að giftast. En á hverju áttirðu von? Hvernig gastu búist við því að kona eins og Guðrún mundi bíða eftir þér í þrjú ár og það þegar flestir voru þess fullvissir að þú værir búinn að biðja þér konu í Noregi. Það töldum við einnig, Guðrún og ég. Því leyfði ég mér að biðja Guðrúnar og hún tók bónorði mínu en var reyndar treg til þess því að hún talid þig bestan af öllum mönnum hér á landi og þó víðar væri leitað. Hræddur er ég um að sú skoðun hennar á þér hafði breyst eftir framkomu þína í okkar garð.
Guðrún sagði mér að hún hefði aldrei lofað þér því að hún myndi bíða eftir þér í öll þau ár sem þú varst staddur í Noregi og því hefur þú í raun og veru enga ástæðu til að vera mér reiður.
Mér finnst það mjög leiðinlegt hvernig málin hafa þróast á milli okkar. Ef ég hafði vitað hvaða afleiðingar bónorð mitt itl Guðrúnar hefði þá hefði ég ekki beðið hennar.
Ég vil einnig segja þér það að ég er algjörlega saklaus af því að stela konungsnaut og motrinum en ég held nú að þig gruni hver var þar að verki. Ég hef oft beðið þig sátta en þú hefur aldrei tekið þeim sáttatillögum sem ég hef boðið þér og því tel ég óþarft að endurtaka þá bón mína. Mér er farið að leiðast mjög þessi fýla þín og þú mátt vita að ég er alltaf tilbúinn að sættast við þig. Mér heyrist á öllu að þú sért ánægður í þínu hjónabandi og því ættirðu að fara að sættast við okkur Guðrúnu. Mér fann st það vera of mikið af því góða þegar þú dreittir mig og mitt fólk inni. En nú hlýtur þú að vera búinn að ná fram nægum hefndum og því vona ég að þessu ósætti okkar ljúki sem fyrst.
Ég vona að þú og þið öll á Hóli hafið það sem best.
Kæri Bolli
Vonandi líður ykkur á Laugum sem best.
Þú telur mig sennilega vera mjög reiðan við þig en svo er nú ekki. Þó mun ég nú sennilega seint eða aldrei fyrirgefa þér að fullu vegna þess að þú stalst, í orðins fyllstu merkingu, tilvonandi eiginkonu minni frá mér. Ég er mjög reiður og sár yfir því að Guðrún, sem nú er kona þín, skuli hafa svikið mig.
En er það satt Bolli, kæri vinur, að þú hafir fullvissað Guðrúnu um að ég væri búinn að ná mér í konu úti í Noregi og ætti því ekki afturkvæmt í bráð? Hvernig gastu gert mér þetta? Ef þetta væri satt og ég hefði kvænst úti í Noregi þá hefði ég án alls vafa boðið þér til veislunnar.
Samningurinn, sem við Guðrún gerðum, var þannig að ef ég væri ekki kominn aftur til Íslands innan þriggja ára, þá mætti Guðrún giftast öðurm manni. Gast þú ekki beðið í nokkrar vikur þar til þú værir þess fullviss að ég kæmi ekki aftur í bráð? Var vinátta okkar þér ekki meira virði en svo að þú gripir fyrsta tækifæri sem þér gafst til að svíkja mig?
Ást mín til Guðrúnar hefur þó dofnað mjög upp á síðkastið vegna þess að hún stal motrinum og sverðinu konungsnaut. Með þeirri framkomu sinni sýndi hún nýja og ómerkilega hlið á sér. Hvers vegna þarf hún að eiga fegurstu og bestu skartgripi á landinu öllu? Af hverju í ósköpunum lagðist hún svo lágt að stela motrinum sem ég gaf Hrefnu? Þó svo að ég hafi upphaflega ætlað henni hann þá þýðir það ekki að hún ein eigi rétt á honum.
Þú mátt vita að í þessu öllu saman þá er það ekki aðeins það að missa Guðrúnu sem mér svíður sárt heldur einnig framkoma þín í minn garð. Vinskapur okkar mun aldrei verða samur á ný.