Noregi að áliðnu sumri árið 1000

Kæra Guðrún

Ég skrifa þér þetta bréf til að segja þér frá ferð minni og tilfinningum þeim sem ég ber til þín. Ferðin tók heldur lengri tíma en ég ætlaði í fyrstu, en samt var hún ánægjuleg þar sem ég kynntist mörgu áhugaverðu fólki. Þó var enginn í líkingu við þig hvað varðar vitsmuni og fegurð. Ég hef saknað þín mikið og hugsaði mikið til þín þegar ég dvaldist í Noregi.

Ég fann það úti að ég ber sterkar tilfinningar til þín og ég hef komist að því að ég vil giftast þér við fyrsta mögulega tækifæri. Ég vil þakka þér fyrir að bíða eftir mér öll þessi ár sem ég held að ekki margar hefðu gert en þetta sýnir það aðeins að okkur var ætlað að vera saman.

Ég vona að brúðkaup okkar verði haldið núna í sumar að Hjarðarholti, þar sem öllum ættingjum og vinum okkar verður boðið í stórkostlegustu veislu sem haldin hefur verið á Íslandi. Mér voru færðar ýmsar gjafir í Noregi þar á meðal sverð frá konungi og motur frá Ingibjörgu Tryggvadóttur konungssystur. Moturinn er sagður vera sá fallegasti, sem gerður hefur verið. Moturinn ætla ég að færa þér í brúðkaupsgjöf.

Ég vona að við hittumst bráðum og getum gifst hið fyrsta. Ég bið að heilsa allri fjölskyldu þinni og vona að öllum líði vel. Ég hef ekki mikið meira að segja annað en að ég elska þig.

Þinn Kjartan Ólafsson


Skýring á þessu bréfi: Bréf þetta, sem Kjartan skrifar Guðrúnu, er skrifað sama ár og Íslendingar tóku kristna trú eða árið 1000. Í Laxdælu er bréfið skrifað úr efni 43. kafla.

Kjartan Ólafsson er staddur í Noregi. Hann er að skrifa Guðrúnu sem er á Íslandi. Hann heldur að Guðrún sé ógift og bíði eftir honum. En hún er nú gift Bolla Þorleikssyni, sem er fóstbróðir Kjartans. Kjartan skrifar bréfið þegar það hefur frést tiil Noregs að Íslendingar hafi tekið kristna trú.

Tilgangur bréfsins hjá Kjartani er að láta Guðrúnu vita að hann hyggi á heimferð svo að hún geti haft allt tilbúið fyrir giftinguna þegar hann kemur heim.

Bréfið komst aldrei til skila vegna þess að skipið, sem það fór með, fórst í hafi.


Íslandi að áliðnu sumri árið 1000

Kæri fóstbróðir!

Ég skrifa þér héðan af Íslandi. Vonandi hefur þú og hinir Íslendingarnir það gott í Noregi hjá Ólafi Tryggvasyni.

Ég átti góða ferð heim frá Noregi. Hún tók aðeins 30 daga. Við komum fyrst að landi í Vestmannaeyjum. Við gistum þar í nokkra daga og skemmtum okkur vel. Þar voru meðal annars haldnir knattleikar sem við skemmtum okkur vel við. Það voru frekar tíðindalitlir leikar nema að Gissur nefbrotnaði þegar hann fékk kylfu Þorsteins Þorkelssonar, vinar þíns, í andlitið. Þar með hófust mikil átök á milli þeirra, sem enduðu með því að Þorsteinn borgaði honum smá silfur í skaðabætur.

Við Gissur og Hjalti héldum svo áfram heimleiðis og á fastalandinu skildu leiðir. Þegar heim var komið, var vel tekið á móti mér. Fólkið hér hefur það gott og biður að heilsa þér þó sérstaklega Ólafur faðir okkar. Hann vonar að þú farir að koma heim, en samkvæmt nýjustu fréttum bendir allt til þess því nú hafi Íslendingar loksins tekið kristna trú. Kristnitakan þróaðist þannig að Gissur og Hjalti, sem ég sigldi með, fóru til Alþingis og töldu menn á að taka kristna trú og Íslendingar fóru að ráðum þeirra.

Stærstu tíðindin eru líklega þau að ég og Guðrún Ósvífursdóttir erum gift. Brúðkaupið fór fram í sumar og var haldin mikil veisla þar sem allir vinir og ættingjar, að þér undanskildum, komum og skemmtu sér konunglega. Hjónaband okkar hefur verið gott og við dveljumst nú að Laugum.

Ég vona bróðir sæll að þú fáir þetta bréf áður en þú heldur af stað til Íslands.

Vonandi samgleðst þú mér og Guðrúnu innilega. Hér með kveð ég - vonandi sjáumst við fljótlega.

Þinn bróðir

Bolli Þorleiksson


Skýring á þessu bréfi: Þetta bréf sem Bolli skrifar Kjartani er skrifað árið 1000. Það er árið sem Íslendingar tóku kristna trú. Í sögunni er um það fjallað í 43. kafla.

Bolli Þorleiksson er staddur á Íslandi. Hann er að skrifa fósturbróður sínum, Kjartani Ólafssyni, sem er staddur í Noregi, þar sem Noregskonungur hefur nokkra Íslendinga í haldi til að þvinga Íslendinga til kristinnar trúar.

Bolli er þá nýgiftur Guðrúnu Ósvífursdóttur, sem var heitmey Kjartans áður en hann fór til Noregs.

Bolli skrifar bréfið til að tilkynna Kjartani giftingu þeirra, svo að hann myndi kannski róast á heimleiðinni. Bolli veit að hann á enga möguleika í Kjrtan ef hann ræðst á hann.

Bréfið komst aldrei til skila vegna þess að Kjartan var farinn frá Noregi þegar bréfið kom þangað.


Kæri fóstbróðir

Ég ákvað að skrifa þér þetta bréf þegar ég heyrði þær góðu fréttir að Íslendingar hefðu tekið kristna trú.

Ég var orðinn mjög áhyggjufullur út af þessu því ég hélt að Íslendingar ætluðu aldrei að ganga að þessu. Sá orðrómur var kominn á kreik að Noregskonungur ætlaði að fara að fórna einhverjum af okkur Íslendingunum sem hann hefur haft í haldi, til að segja smá pressu á Íslendinga. Því var það mikið fagnaðarefni þegar kristnitakan fréttist hingað út. Nú er ég að tygja mig heim á leið og vonast ég til að vera kominn heim um mitt sumar.

En tilgangur minn með þessu bréfi er sá, bróðir sæll, að biðja þig um að sjá um undirbúning fyrir brúðkaup mitt og Guðrúnar Ósvífursdóttur. Ég vona að þú getir gert þetta fyrir mig. Það sem ég vil að þú gerir er að bjóða öllum vinum og ættingjum okkar í veisluna og að þú hafir Hjarðarholt tilbúið undir gleðskapinn. Ég ætlast til að þetta verði ein mikilfenglegast veisla sem haldin hefur verið hér á landi og að fólk muni eftir henni í langan tíma.

Eins og þú sérð geri ég miklar kröfur til þín og vona að þú standir þig vel við undirbúninginn. Ef þú gerir þetta fyrir mig mun ég launa þér ríkulega.

Ég vil líka að þú látir fjölskyldu mína vita af heimkomu minni og bið að heilsa þeim öllum. Vonandi sjáumst við fljótlega.

Kjartan Ólafsson


Þetta bréf er frá Kjartani til Bolla og var ritað sama ár og Íslendingar tóku kristna trú eða árið 1000. Í sögunni er um þetta fjallað í 43. kafla.

Kjartan er í Noregi og er að skrifa Bolla Þorleikssyni, fóstbróður sínum ,sem er staddur á Íslandi. Bolli er þá nýgiftur Guðrúnu Ósvífursdóttur sem Kjartan ætlaði að giftast þegar hann kæmi heim frá Noregi.

Tilgangur bréfsins hjá Kjartani er sá að hann ætlar að láta Bolla sjá um undirbúning fyrir brúðkaupsveisluna og vill að Bolli láti vita af heimkomu sinni frá Noregi.

Bréfið komst aldrei til skila vegna þess að það fauk útbyrðis á skipinu sem það fór með.


Pálmi