Víkur þá sögunni til Hreiðmars og sona hans tveggja, Fáfnis og Regins. Þeir heimtuðu bróðurgjöld en Hreiðmar neitaði. Drápu synir hans hann þá en fóru svo að rífast um gullið. Reginn vildi skipta gullinu en ekki Fáfnir og rak hann Regin burt. Fór hann svo upp á Gnitaheiði, brást í ormslíki og settist á gullið.
Nokkrum árum seinna fór Reginn með Sigurð, fósturson sinn, og lét hann drepa Fáfni með sverði er hann smíðaði sjálfur og hét Gramur. Sigurður drap svo hinsvegar Regin og reið sína leið á hestinum Grana.
Kemur Sigurður til Gjúka konungs og konu hans, Grímhildar. Sigurður giftist Guðrúnu, dóttur þeirra, og sórst í fóstbræðralag með bræðrum hennar, Gunnari og Högna.
Vildi Gunnar biðja Brynhildar Buðladóttur, systur Atla. Hún sat hinsvegar á Hindarfjalli, í höllu umluktri vafurloga (galdraeldi) og vildi einungis giftast þeim er þorði að ríða í gegn. hestur Gunnars, Goti, þorði ekki í gegnum eldinn og skiptu þá Sigurður og Gunnar litum svo Sigurður gæti hleypt Grana í gegn með útlit Gunnars, en Grani vildi undir engum öðrum ganga en Sigurði og skynjaði hann að Sigurður sæti á baki hans.
Svaf svo Sigurður við hlið Brynhildar en hafði þó sverð þeirra á milli. Um morguninn gefur hann henni Andvaranaut (hring Andvara) og ríður út á undan til að skipta aftur litum við Gunnar.
Eitt sinn er Brynhildur og Guðrún eru að þvo hár sitt segist Brynhildur ekki vilja þvo hár sitt úr vatninu sem rennur út hári Guðrúnar því að hennar maður sér meiri hetja. Þá reiðist Guðrún og segir Brynhildi frá svindli Gunnars og Sigurðar. Brynhildur reiðist, fer heim og reynir að eggja Gunnar og Högna til að drepa Sigurð en þar sem þeir voru eiðsvarnir Sigurði eggja þeir Gotþorm, bróður sinn, og drepur hann Sigurð og son hans Sigmund. Sigurður nær samt að drepa Guttorm áður en hann fellur. Svo drepur Brynhildur sig og Gunnar og Högni fá Fáfnisarf og Andvaranaut.
Atli konungur Buðlason fékk Guðrúnar og bauð til sín Gunnari og Högna. Áður en þeir komu til Atla földu þeir gullið í Rín og hefur það ekki fundist síðan.