Fyrirmyndir Sigurðar Fáfnisbana og Brynhildar, konu Gunnars, hefur reynst erfiðara að finna, en þó er talið að atburðirnir, tengdir þessum persónum, eigi sér einhverjar stoðir í sögu Mervíkinga á Frakklandi á 6. öld því mikið er þar um samsæri, morð og brögð kvenna. Þó er líkingin ekki nógu mikil til að teljast sagnfræðilegur grundvöllur.
Jörmunrekkur, sem tengist sögupersónum síðar, þ.e. eftir að Atlakviðu lýkur, er talinn vera sami maðurinn og heitir í latneskum ritum Ermanrichus og var konungur Austur-Gota við Svartahaf. Samtíma heimildir herma að hann hafi ráðið sér bana af ótta við Húna er þeir brutust vestur í Evrópu um 375. Gotnesk hetjukvæði segja að hann hafi skömmu áður verið særður miklu sári af Sarus og Ammius, sem eru þá líklega Sörli og Hamdir að hefna systur sinnar, Svanhildar, sem Jörmunrekkur hafði pínt til dauða.
Gaman er að bera efnisröð hetjukvæðanna, sem fjalla um þetta fólk, saman við tímatal þeirra raunverulegu atburða, sem taldir eru liggja þeim að baki. Þá kemur í ljós að í hetjukvæðunum líður tíminn öfugt við það sem var í veruleikanum.
Ef Sigurður Fáfnisbani er Sigibert í
sögu Mervíkinga, sem helst hefur verið giskað á
sem fyrirmynd Sigurðar, var hann tekinn af lífi árið
575 en Brynhildur árið 614. Eftir dauða Sigurðar Fáfnisbana
giftist Guðrún Atla, sem lést árið 453. Að
honum látnum eignaðist Guðrún tvo syni: Hamdi og
Sörla, sem veittu Jörmunrekki konungi árás árið
375, eða 78 árum árum áður en þeir fæddust!
Þvílíkar hetjur!!