[Íslendingasögur]

21. ágúst 1999
[Maí 2010: Þessi endursögn var upphaflega samin sem ítarefni fyrir áfangann JAR 113, þar sem gerð var tilraun til að samþætta þjóðfræði og jarðfræði í áfanga um Snæfellsnes.]

[Stutt endursögn. Þetta er feikilega rómantísk saga.  Hún er frægust fyrir vísurnar, einkum þær sem eignaðar eru Víglundi.]

Víglundarsaga fjallar aðallega um ástir þeirra Víglundar Þorgrímssonar, á Ingjaldshváli, og Ketilríðar Hólmkelsdóttur, frá Fossi á Snæfellsnesi við Hólmkelsá.  Inn í söguna fléttast þó mál föður Víglundar, Þorgríms prúða Eiríkssonar (sem var sonur Eiríks jarls í Noregi),  en hann stakk illilega undan Katli bónda af Raumaríki í Noregi  þegar hann rændi Ólöfu geisla, nánast af brúðarbekknum í brúðkaupi Ketils og Ólafar, og fór með hana til Íslands.  Ólöf geisli er móðir Víglundar.  Ketill varð auðvitað ævareiður og reynir, í rás sögunnar, að hefna sín á Þorgrími prúða.

Einhverra hluta vegna er mamma hennar Ketilríðar ósköp leiðinleg við hana en Ketilríður er hins vegar í uppáhaldi hjá föður sínum. Móðir Ketilríðar vill t.d. alls ekki kenna henni neinar hannyrðir (!) svo faðir hennar kemur henni í fóstur til Þorgríms prúða og Ólafar geisla, því Ólöf var kölluð best mennt allra kvenna á Íslandi.  Eftir að Ketilríður kemur að Ingjaldshváli eru þau Víglundur öllum stundum saman og afar kært á milli þeirra.

Bræður Ketilríðar eru með allskonar leiðindi við fólk í sveitinni, þ.á.m. fólkið að Ingjaldshváli, en ekki fellur þó skuggi á vináttu Hólmkels bónda og Þorgríms prúða. Bræður Ketilríðar kynnast Norðmanni, Hákoni nokkrum (sem reyndar var gerður út til Íslands á vegum Ketils í Raumaríki til að drepa Þorgrím prúða) og verða hrifnir af honum.  Bræðurnir segja við hann „Eigum við systur svo fríða og kurteisa að engi finnst hennar líki. Viljum við gera, hvort er þú vilt, einn að eiga hana eða takir þú hana frillutaki.“  [Þessi orð lýsa auðvitað innræti bræðra Ketilríðar ...]  Móðir Ketilríðar þvingar svo Hólmkel, föður hennar, að sækja Ketilríði að Ingjaldshváli, og er hún föstnuð Hákoni, heima á Fossi.  Skömmu seinna slær í mikinn bardaga milli Víglundar og bræðra hans, annars vegar, en hins vegar bræðra Ketilríðar og Hákonar.  Margir falla og verða sárir, þar á meðal drepur Víglundur Hákon.

Víglundur ákveður að fara til Noregs.  Ketilríður er vitaskuld harmþrungin yfir þessu og kveða þau margar vísur þar sem þau lýsa sorg sinni yfir að þurfa að skilja.  Þ.á.m. kvað Víglundur:

Stóðum tvö í túni.
Tók Hlín um mig sínum
höndum, haukligt kvendi,
hárfögr og grét sáran.
Títt flugu tár af tróðu,
til segir harmr um vilja.
Strauk drifhvítum dúki
drós um hvarminn ljósa.
[En Hinn íslenski þursaflokkur söng einmitt þessa vísu inn á hljómplötu fyrir margt löngu.]  Víglundur dvelur svo í Noregi í nokkur ár.

Dag nokkurn birtist náungi, sem segist heita Þórður og eigi heima á Austfjörðum, að Fossi og biður Ketilríðar.  Þórður er með 30 manna lið með sér.  Ketilríður vill alls ekki giftast Þórði og finnur það að honum að hann er gamall maður.  Mamma hennar vill hins vegar endilega gifta hana og verða málalyktir þær að hún er föstnuð  Þórði, hvort henni var ljúft eða leitt, og fer með honum austur á Firði.  Ketilríður tekur við sem húsfreyja á bæ Þórðar en ekki gerir hann brúðkaup til hennar.  Hins vegar lágu þau bæði saman í einni sæng (þótt gefið sé rækilega í skyn í sögunni að þau hafi gætt fyllstu siðsemi og alls ekki komið nálægt hvort öðru í þessu hjónarúmi).

Víglundur heldur nú heim til Íslands.  Þeir sjá Snæfellsjökul framundan og Víglundur kveður vísu, en þá gerir skyndilega svo hvassan vind að þá rekur frá landi og rekur nú marga daga á haf.  Alls lenda þeir í 60 daga hafvillum en tóku loks land með nauðum, á Austfjörðum í Gautavík. (!)  Bóndi úr Gautavík kemur til skips og býður þeim vetursetu hjá sér.  Vitaskuld þekkir Víglundur konu bónda , þótt hún reyni fyrst í stað að dyljast með því að bera slæðu fyrir andlitinu, sem er engin önnur en Ketilríður!  Víglundi er skapi næst að drepa Þórð bónda en vinur hans talar um fyrir honum.  Líður nú veturinn við mikla ástarsorg þeirra Víglundar og Ketilríðar, en Víglundur gætir fyllsta velsæmis.  Þegar bóndi bregður sér af bæ fer Víglundur líka af bæ því hann er svo hræddur um að hann freistist til að fífla konuna ella!

Undir vorið hyggst Þórður bóndi halda brúðkaup sitt og Ketilríðar.  Kemur múgur og margmenni í brúðkaupið, þ.á.m. fjölskylda Ketilríðar.  En í stað þess að kvænast henni, stendur Þórður bóndi upp og tilkynnir að hann heiti í rauninni Helgi og sé sonur Eiríks jarls í Noregi, og þar með föðurbróðir Víglundar.  Hann segir:  „Bað ég því Ketilríðar að ég vildi geyma hana þér til handa, og er hún óspillt af mér ... Höfum við og aldrei undir einum klæðum legið, því að rekkjustokkur tekur upp á millum rúma okkarra, þó að við höfum haft eitt áklæði. ... Er þetta allt ráð Hólmkels bónda...“  Víglundur biður nú Hólmkel bónda, föður Ketilríðar, um hönd hennar og er það auðsótt mál.  Brúðkaup þeirra er haldið með pompi og prakt og bjuggu  þau að Fossi það sem eftir lifði ævinnar.
 


Uppfært í maí 2010
Harpa Hreinsdóttir