Einstaklingsverkefni úr Íslandsklukkunni
1. - 3. kafli: Athugaðu persónulýsingar: Hvað er mest áberandi í fari hverrar persónu? Hvernig er málfari persónanna háttað? Athugaðu sérstaklega kvenlýsingar. Hvað mætti segja um notkun lita í búningi Snæfríðar? (Minnstu þess að hún er kölluð Íslandssól.)
4. kafli: Hvers konar glæpamenn gistu svartholið á Bessastöðum? Hvaða álit hefur Jón Hreggviðsson á þeim? Er hægt að draga einhverjar ályktanir af þessum kafla um réttarfar á landinu á 17. öld?
5. kafli: Athugaðu lýsinguna á betlurunum við Ölfusá - má af þessari lýsingu ráða eitthvað um aldarfar á Íslandi á þessum tíma? Hvers vegna er lýsingin svona nákvæm? Er einhver í þessum hópi málpípa höfundar? (Hér er spurt hvort einhver persóna haldi hugsanlegum skoðunum Halldórs Laxness fram.)
8. kafli: Athugaðu lýsinguna á dómkirkjuprestinum. Hvers konar líkingamál talar hann? Hvernig bregst Snæfríður við því og hvað mætti almennt segja um málfar persóna í þessum kafla?
9. kafli: Berðu saman orð lögmanns í þessum kafla við orð hans í 19. kafla Hins ljósa mans. Berðu einnig saman orð lögmanns og tal Snæfríðar við Jón Hreggviðsson í 6. kafla Hins ljósamans. Hvaða ályktanir má draga af þessum samanburði um réttarfar í landinu og viðhorf Snæfríðar og föður hennar til þess?
11. - 12. kafli: Hvers vegna leggur Snorri á Húsafelli þrautir fyrir Jón Hreggviðsson? Hvaða skýring gæti verið á yfirnáttúrulegum atburðum í þessum köflum?
13. - 14. kafli: Taktu saman nokkur atriði sem sýna hvernig Jón Hreggviðsson lítur allt í Hollandi með augum íslensks sveitamanns.
15. kafli: Hvaða skoðanir hafa útlendingar á Íslandi? Er viðhorfið til Íslands og Íslendinga hið sama hjá Dönum, Hollendingum og Þjóðverjum, eða er þar munur á? Hver eru svör Jóns Hreggviðsssonar við athugasemdum útlendinga um Ísland og Íslendinga?
16., 17. og 18. kafli: Berðu saman Jónana þrjá (þ.e. Hreggviðsson, Marteinsson og Grindvicensis); Athugaðu einkum viðhorf þeirra til Dana, Íslands og Arnasar Arnæusar. Breytist viðhorf Jóns Hreggviðssonar eitthvað í þessum köflum?