[Verkefni úr Njálu] [Brennu-Njáls saga]
 
Verkefni úr 112. - 130. kafla Brennu-Njáls sögu

Svarið þessum spurningum og vinnið saman í 2 - 4 manna hópum.   Allir hópar eiga að skila útfylltu blaði þar sem kemur fram hverjir voru í hópnum og hverjir unnu vinnuna.  Hlustað verður á sýnishorn svara frá öllum hópum í kennslustund og er gert ráð fyrir að hver hópur velji eitt af svörum sínum og bregði upp glæru með aðalatriðum þess.   Passið að eiga öll eintök af svörunum því þau geta nýst sem glósur.
 
 

1.  Skarphéðinn Njálsson - stutt æviágrip.  Gott væri ef kæmi fram hver staða Skarphéðins er í stórfjölskyldunni, hvaða hlutverki hann gegnir einkum í sögunni og hvort eitthvað megi ráða um hann af ævilokum hans.  Minnir Skarphéðinn ykkur á einhverja aðra persónu, annað hvor í Brennu-Njáls sögu eða annarri Íslendingasögu?  Er Skarphéðinn ljós eða dökk hetja?
 
 
 
 

2. Njáll og ráð hans.  Ráð Njáls reynast yfirleitt vel og sonum hans fer ekki að ganga verulega illa fyrr en þeir hætta að hlusta á föður sinn.  Hvernig reyndi Njáll að tryggja viðvarandi sætt við Sigfússyni eftir víg Þráins Sigfússonar?  Af hverju mistókst þetta?  Hverjar voru síðustu ráðleggingar Njáls og hvað gekk honum til með þeim?  Er hugsanlegt að honum hafi skjöplast í síðustu ráðleggingunum?
 
 
 

3.  Hallgerður og Hildigunnur; Sumir halda því fram að Hildigunnur Starkaðardóttir taki við hlutverki Hallgerðar í sögunni - eruð þið sammála þessu?  Berið þær saman.
 


 


4.  Brennu-Njáls saga og götuheiti í Reykjavík:  Kannið eftir hvaða aðalpersónum í Njálu götur í Reykjavík heita, sjá  Póstnúmeraskrá á postur.is, s. 8 í pdf-skjalinu (tölusett bls. 13 o. áfr.). Enn þægilegra er að nota gamaldags símaskrá og fletta gegnum póstnúmeraskrá þar aftast. Eru þessar götur bundnar við ákveðið hverfi eða póstnúmer?  Vantar einhverja aðalpersónu í þetta safn?
 
 

Uppfært í maí 2010
Harpa Hreinsdóttir