[Verkefni úr Njálu] [Brennu-Njáls saga]
Verkefni úr 73. - 77. kafla Brennu-Njáls sögu Svarið þessum spurningum og vinnið saman í 2 - 4 manna hópum. Allir hópar eiga að skila útfylltu blaði þar sem kemur fram hverjir voru í hópnum og hverjir unnu vinnuna. Hlustað verður á sýnishorn svara frá öllum hópum í kennslustund og er gert ráð fyrir að hver hópur velji eitt af svörum sínum og bregði upp glæru með aðalatriðum þess. Passið að eiga öll eintök af svörunum því þau geta nýst sem glósur. 1. Af hverju fór Gunnar ekki utan? Athugið að hann veit vel hvaða þýðingu það mun hafa fyrir hann að halda ekki sættina (= hlíta ekki dómnum). 2. Af hverju er Skarphéðinn heima?
Af hverju fer Skarphéðinn ekki með yngri bræðrum sínum, þeim Helga og Grími, til útlanda? Langar hann ekki að fara? Vill Njáll hafa hann heima? Treystir Njáll honum ekki til fararinnar? Eða hvað?3. Síðustu samskipti hjónanna Gunnars og Hallgerðar
Gunnar segist vilja tvo leppa (=lokka) úr hári Hallgerðar til að gera sér nýjan bogastreng en hún neitar og segist muna honum kinnhestinn forðum ...„og hirði eg aldrei hvort þú verð þig lengur eða skemur.“ segir hún.Var rétt af Hallgerði að neita Gunnari um hárlokkana? Var rétt af honum að slá hana þarna um árið? Er yfirleitt hægt að búa til bogastreng úr mannshári? Hefði skipt einhverju máli fyrir Gunnar að fá þetta hár eða að koma boganum aftur í lag? Eru þau hjónakornin kannski að grínast kaldhæðnislega af því þau vita að úr þessu verður engu bjargað?
Hvað finnst ykkur um þetta? (Málin má gjarna ræða í víðu samhengi, við gjörðir persónanna til þessa, hvernig stendur á því að svona er komið fyrir Gunnari, með hliðsjón af nútímaviðhorfum til heimilisofbeldis, o.fl.. )
Ef Brennu-Njáls saga væri umskrifuð sem nútímasaga; Hvernig væru hjónin Gunnar og Hallgerður? (T.d. hvað varðar starf, stöðu, lífsferil o.þ.h.)
Uppfært í maí 2010
Harpa Hreinsdóttir