Lesa má um Völuspá og Hávamál í formálum skólaútgáfa og í Leiðslubók eða annarri bókmenntasögu. Ath. að þessar aukaskýringar eru til að skilja vísurnar vel en á lokaprófi er ætlast til að nemendur kunni orðskýringar skv. skólaútgáfu kvæðisins.
----------------------------------------------------------------------------------------------------
Hér á eftir er hver vísa umorðuð á nútímamál. Skýringar einstakra orða og orðasambanda er að finna í kennslubók. Skammstöfunin GS á við skýringar Gísla Sigurðssonar en ÓB við skýringar Ólafs Briem.1. Ég bið alla menn, meiri og minni, að gefa hjóð.
Þú vilt, Óðinn, að ég segi frá gömlum sögum um menn (og goð), eftir því sem ég man hvað lengst aftur í tímann.2. Ég man eftir jötnum, sem fæddust fyrir löngu, og forðum fóstruðu mig.
Ég man eftir níu heimum, níu tröllkonum, hinu ágæta tré (Aski Yggdrasils) frá því hann var hulinn moldu.3. Í upphafi alda,
þar sem Ýmir bjó (GS)/ þar sem ekkert var (ÓB)
var hvorki sandur né sær né svalar öldur,
jörð fannst ekki né heldur himinn,
var Ginnungagap en hvergi gras.4. Áður en Burs synir (Óðinn, Víli og Vé) lyftu löndum
þeir sem sköpuðu hinn ágæta Miðgarð (bústað mannanna).
Sól skein úr suðurátt á steina jarðarinnar,
þá var jörðin gróin frjósömum gróðri.5. (Lesa lauslega)
Sólin, félagi mánans, varpað geislum sínum með hægri hendi um hesta Nætur og Dags (aðeins öðruvísi skýring hjá ÓB).
Sólin vissi ekki hvar hún átti bústaði, stjörnur vissu ekki hvar þær áttu sína staði, máninn vissi ekki hve máttugur hann var.6. Þá settust goðin á fund, hin mjög heilögu goð, og báru saman bækur sínar,
[goðin] gáfu nótt og afkomendum hennar (þ.e. dögunum eða stundum dagsins), nöfn,
létu heita morgun og miðjan dag, nón (kl. 3) og kvöld, [og ákváðu] að telja tímann í árum.7. Æsir hittust á Iðavelli, þeir sem reistu háa blótstaði og hof. [Æsir] smíðuðu eldstæði, gripi úr gulli, tangir og tól.
8. Þeir tefldu á túni og voru kátir. Þá skorti ekkert úr gulli.
Uns þrjár jötnameyjar, mjög voldugar / frekar, komu úr jötunheimum.
(Það er ekkert um þessar þursameyjar vitað, en vakin skal athygli á því að allt er í lukkunnar velstandi hjá ásum þar til þetta kvenkyn mætir á svæðið ;-)9. Goðin héldu fund, hin mjög heilögu goð, og ráðguðust um
hver ætti að skapa konung dverga (dverga drottin - GS) / ættir dverga (dverga dróttir - ÓB), úr blóði Ýmis (Brimis) og bláum leggjum (GS)/ steinum (Bláins leggjum).10. Þar var Mótsognir ágætastur (mæstur) dverga en Durinn gekk næst honum. Afgangurinn er ekki alveg ljós og sleppa má dvergatalinu (þ.e. nöfnum dverganna) í 10. - 16. erindi.
17. Þangað til þrír af ásum, öflugir og ástríkir, komu í mannheima (?). Þeir fundu þar Ask og Emblu, kraftlaus/máttvana og örlagalaus (þ.e. þau voru ekki lífs og áttu þess vegna engin örlög), á ströndinni.
18. Þau höfðu hvorki andardrátt, sál, hár né rödd, né heldur gott yfirbragð (litaraft/útlit). Óðinn gaf þeim andardrátt, Hænir gaf þeim sál, Lóður gaf þeim hár og gott litaraft.
19. Ég veit standa ask sem heitir Yggdrasill, hátt tré sem ausið er yfir hvítri leðju.
Þaðan kemur döggin sem fellur í dali, [askurinn] stendur ávallt grænn, yfir Urðarbrunni.20. Þaðan koma þrjár meyjar sem vita margt, úr Urðarbrunni.
Þær eru kallaðar Urður, önnur Verðandi, sú þriðja Skuld.
Þær ákváðu örlög, þær kusu/ákváðu líf handa mönnum og örlög manna.21. Hún (þ.e. völvan) man fyrsta víg í heiminum, þegar Gullveig (völvan? kraftur gullsins? ágirndin? ) var margstungin spjótum og þeir brenndu hana í höllu Óðins.
Þrisvar brenndu þeir hana, þrisvar fædda, oft og ósjaldan (drápu þeir hana), þó lifir hún enn.22. Þeir kölluðu hana (völvuna / Gullveigu) Heiði hvar sem hún kom í mannheimum, hina spávísu (þ.e. spár hennar rættust ávallt) völvu,
hún magnaði töfrastafi, hún kunni seið (galdur), hún framdi seið, ávallt var hún eftirlæti illra kvenna (e.t.v. er hér átt við þursameyjarnar þrjár í 8. erindi).23. Þá settust hin mjög heilögu goð á fund og ræddu hvort öll goðin ættu að þola bótalaust tjónið sem Heiður/Gullveig olli eða hvort þau ættu að krefjast skaðabóta.
(Einhverra hluta vegna virðast æsir hafa krafið vani um þessar bætur og af því spratt ófriður vana og ása.)24. Óðinn fleygði spjóti og skaut í herinn, það var fyrsta orusta í heiminum.
Vígveggurinn um Ásgarð var brotinn, vanir æddu yfir svæðið með ófriðargaldri.
- - -
(Hér virðist vera eyða í kvæðinu)25. Þá settust hin mjög heilögu goð á fund og ræddu um hver hverjir hefðu hlaðið loftið svikum eða gefið jötni Freyju.
26. Þór var þarna í bardagahug, hann situr sjaldan rólegur þegar hann fær svona fréttir,
Sviknir voru eiðar og mikilvæg loforð sem höfðu verið samþykkt (þ.e. milli ása og borgarsmiðsins).27. Hún (þ.e. völvan) veit hvar heyrn Heimdallar er falin undir hinum heilaga Aski Yggdrasils. Hún sér á streyma í óhreinum fossi ofan af auga Óðins (veði Óðins). Viltu enn fá að vita meira?
28. Hún (völvan) sat ein úti þegar hinn gamli Óðinn kom og leit í augu henni:
„Hvers spyrjið þér mig? Hvers vegna eruð þér að prófa mig?“
Ég veit allt um það, Óðinn, hvar þú faldir auga þitt, í hinum ágæta Mímisbrunni.
Á hverjum morgni drekkur Mímir mjöð af veði (auga) Óðins.
Viltu enn fá að vita meira?29. Óðinn valdi handa henni hringa og hálsmen, fé, merkileg fræði og spá sem fengin var með galdrastöfum,
sá hún vítt og breitt um allan heim.30. Hún sá valkyrjur sem komu víða að, tilbúnar að ríða á fund goðanna (mannanna, skv. ÓB).
Skuld hélt á skildi, Skögul kom önnur, Gunnur, Hildur , Göndul og Geirskögul.
Nú eru taldar dísir Óðins (valkyrjurnar), tilbúnar að ríða yfir landið.31. Ég sá Baldri, hinum blóðuga ás, syni Óðins, búin örlög,
mjór og mjög fagur mistilteinn stóð vaxinn upp úr moldinni.32. Af þeim sprota/því tré (mistilteininum) sem sýndist mjór, varð til hættulegt sorgar-skeyti, Höður skaut.
Bróðir Baldurs (Váli) var snemma fæddur, sá sonur Óðins drap einnar nætur gamall.33. Hann þvoði aldrei hendur sínar né greiddi sér, áður en hann bar banamann Baldurs (Höð) á bál.
En Frigg grét voða Valhallar.
Viltu enn fá að vita meira?34. Hún (völvan) sá lævísan, bundinn mann liggja á óhugnalegum stað (hvera lundi), líkan Loka (um er að ræða Loka sjálfan svo ekki er skrýtið að hann skuli líkjast sjálfum sér ;-)
Þar situr Sigyn, ekki mjög glöð vegna síns manns.
Viltu enn fá að vita meira?35. Á fellur að austan um eiturdali (gæti þýtt ískalda dali), full af allskyns sverðum, sú á heitir Slíður. (Áin Slíður er á leiðinni til Heljar, samsvarar Styx í grískri goðafræði, sem Karon ferjar menn yfir, sbr. hina ágætu teiknimynd Herkúles ;-)
36. Hús dverga úr gulli, stóð fyrir norðan á Niðavöllum (niðdimmir vellir). Annað hús, drykkjusalur/krá jötuns, sem heitir Brimir, stóð á Ókólni.
37. Hún sá standa hús fjarri sólu, á Náströndu. Á þessu húsi snéru dyrnar í norður.
Eiturdropar (e.t.v. ískaldir dropar) féll inn um þakglugga,
húsið er fléttað úr eiturslöngum.38. Hún sá meinsærismenn (þ.e. menn sem höfðu svarið rangan eið) og morðvarga og þann sem tælir unnustu annars manns (þ.e. stingur undan öðrum) vaða þar þunga strauma
þar saug Níðhöggur lík dauðra manna og reif í sig menn. (Annars þýðir vargur yfirleitt úlfur, hér virðist þó átt við Níðhögg.)
Viltu enn fá að vita meira?39. Hin gamla [tröllskessa] sat austur í Járnviði og eignaðist úlfa. Af þeim verður einn sérstakur, bani tunglsins í líki trölls. (Átt er við Mánagarm / Hata Hróðvitnisson.)
40. [Úlfurinn] fyllist af lífskrafti deyjandi manna, [hann] atar himininn (bústaði guðanna) rauðu blóði,
sólskinið var svart næstu sumur á eftir, veður voru hættuleg.
Viltu enn fá að vita meira?41. (Sleppa vísunni, því efnið er mjög óskýrt; sennilega er hér vísað í glataðar goðsögur.)
42. Sleppa á sömu forsendum og 41.
43. Garmur (dularfullur, ógurlegur hundur) geltir nú mjög fyrir framan Gnipahelli, fjötrar munu slitna en úlfurinn koma hlaupandi (sennilega átt við Fenrisúlf),
hún (völvan) veit fjölda margt, ég sé lengra fram í tímann, um hin bitru ragnarök hinna sigursælu goða.44. Bræður munu berjast og drepa hver annan,
systrasynir munu spilla fjölskylduböndum,
erfitt er í heiminum, mikill hórdómur,
axaröld, sverðsöld,
skildir eru klofnir,
vindasöm öld, úlfaöld (af því það er svo mikið af líkum handa úlfunum að rífa í sig),
áður en heimurinn ferst mun enginn maður vægja öðrum.45. erindi: Sleppa.
46. Hið gamla trét stynur, Askur Yggdrasils skelfur þar sem hann stendur, en jötunn (líklega Loki) losnar.
47. Garmur (dularfullur, ógurlegur hundur) geltir nú mjög fyrir framan Gnipahelli, fjötrar munu slitna en úlfurinn koma hlaupandi (sennilega átt við Fenrisúlf),
hún (völvan) veit fjölda margt, ég sé lengra fram í tímann, um hin bitru ragnarök hinna sigursælu goða.48. Hrymur (jötunn) kemur akandi úr austurátt með skjöld fyrir sér, Miðgarðsormur byltir sér ákaflega. Ormurinn lemur öldurnar, en örn kætist (yfir væntanlegum líkum á matseðli!), hann rífur í sig lík með föla nefinu sínu, Naglfar (skipið) losnar.
49. Skip (þ.e. Naglfar) kemur úr austurátt, koma munu jötnar úr Múspelli yfir hafið en Loki stýrir, jötnarnir fylgja allir Fenrisúlfi, með þeim í för er Loki.
50. Hvað er að gerast hjá ásum? Hvað er að gerast hjá álfum? Ógurlegur hávaði er í jötunheimum, æsir sitja á fundi, dvergarnir, sem eru kunnugir í klettum, stynja fyrir framan steindyr. Viltu enn fá að vita meira?
51. Surtur kemur úr suðurátt, með logandi eld, af sverði goðanna (e.t.v. sverð Freys) skín eins og sól. Grjótbjörg skella saman en tröllin hrapa, mennirnir ganga götuna til dauðans en himinninn klofnar.
52. Þá kemur fram annað sorgarefni Friggjar, þegar Óðinn fer að berjast við úlf (Fenrisúlf) en hinn bjarti banamaður Belja (þ.e. Freyr) berst við Surt, þá mun eftirlætisgoð Friggjar (Óðinn) falla.
53. Þá kemur hinn mikli sonur Óðins, Víðar, að berjast við hrædýrið (Fenrisúlf). Með höndinni lætur hann sverð standa í hjarta sonar Loka (Fenrisúlfs), þá hefur hann hefnt föður síns.
54. Þá kemur hinn ágæti sonur Jarðar (þ.e. Þór), gengur sonur Óðins (þ.e. Þór) fram að berjast við orminn (í vísunni stendur úlf, en átt er við Miðgarðsorm) sem drepur verndara Miðgarðs (þ.e. Þór) með eiturblæstri (krafti),
allir menn tortíma hinum byggða heimi,
sonur Jarðar (Þór) gengur, að þrotum kominn, níu fet í burtu frá orminum, áhyggjulaus yfir illu umtali (yfirleitt skýrt þannig að Þór hafi nú engar áhyggjur af því að vera brigslað um hugleysi því hann er búinn að drepa orminn).55. Sólin sortnar, jörðin sígur í sæ, bjartar stjörnur hverfa af himninum.
Eldur geisar við Ask Yggdrasils, hár hiti (eldur) leikur allt upp í sjálfan himininn.56. Garmur (dularfullur, ógurlegur hundur) geltir nú mjög fyrir framan Gnipahelli, fjötrar munu slitna en úlfurinn koma hlaupandi (sennilega átt við Fenrisúlf),
hún (völvan) veit fjölda margt, ég sé lengra fram í tímann, um bitur ragnarök hinna sigursælu goða.57. Hún (völvan) sér fagurgræna jörðina koma öðru sinni (aftur) upp úr sjónum. Fossar falla, örninn sem veiðir fiska á fjalli (annað hvort átt við að örninn hefur aðsetur á fjöllum eða að hann veiði fiska í fjallavötnum) flýgur yfir.
58. Æsir hittast á Iðavelli og ræða um hinn volduga Miðgarðsorm, og minnast á helstu tíðindi og á gamla speki Óðins.
59. Þar munu finnast undursamlegar gullnar töflur (taflmenn) aftur, í grasinu; Þær sem guðirnir höfðu átt í upphafi heimsins.
60. Akrar munu vaxa án þess þurfi að sá í þá, böl allra mun batna Baldur mun koma. Þeir Höður og Baldur munu búa vel í rústum/tóftum Valhallar. (Einhverra hluta vegna virðast þeir Höður og Baldur vera kallaðir „hergoð“ (valtívar) sem passar fremur illa við þá.)
61. Þá spáir Hænir með blóðugum trébútum, og synir tveggja bræðra (þ.e. synir Baldurs og Haðar) búa á stórum himninum. Viltu enn fá að vita meira?
62. Hún sér standa á Gimlé gulli þakið hús sem fegurra en sólin. Þar eiga traustir/góðir menn að búa og njóta yndis um aldur og ævi.
63. Það kemur hinn dimmi dreki fljúgandi, hinn gljáandi ormur, neðan frá Niðafjöllum. Níðhöggur ber lík í fjöðrum sér, hann flýgur yfir jörðina,
nú mun hún (völvan) sökkva.