Upphaf prjóns; Dura stykkin og koptísku sokkarnir
Bútarnir frá Dura Europos Eðlilega varðveitist textíll fremur illa og þau fáu elstu stykki sem hafa fundist í fornleifauppgreftri víða um heim hafa varðveist vegna einstaklega heppilegra jarðvegsskilyrða eða loftlags og flest hafa fundist í lokuðum gröfum. Oft hafa 3 tutlur sem fundust í uppgreftri í Sýrlandi, í hinni fornu borg Dura Europos, verið taldar elsta varðveitta prjónlesið, frá 250 fyrir Krist en bæði Richard Rutt og Irene Turnau eru sannfærð um að þessir bútar séu nálbrugðnir. Á öndverðum meiði er Nancy Bush sem telur þá, eins og fornleifafræðingar sem rannsakað hafa bútana, prjónaða með „Cross Eastern Stitch“ (Væri gott ef einhver gæti upplýst mig um íslenskt heiti þessarar aðferðar. Gæti hún kallast „austrænt snúið prjón“? Þess ber að geta að Elsa E. Guðjónsen telur að lengst af hafi tíðkast á Íslandi að prjóna brugðnar lykkjur á svipaðan hátt, reyndar „austrænt ósnúið prjón“, en ég veit ekki hvað hún kallar aðferðina á íslensku.)
Þessir bútar frá Dura eru nú varðveittir í safni Yale háskólans í Connecticut og má skoða skýrar myndir af þeim á síðu safnsins.
Einnig héldu menn um tíma að tveir smábútar (um 2 cm á kant) sem fundust í gröf í Esch, í suðurhluta Hollands, væru prjónaðir enda fundust einnig tveir bronsprjónar (20 cm langir) í sérstöku boxi í gröfinni. Þessir bútar voru nær alveg eyðilagðir í rannsókn árið 1973 og verður sjálfsagt aldrei úr því skorið hvernig þeir voru unnir. En bæði Richard Rutt og Irene Turnau telja þá líklegast nálbrugðna og Rutt bendir á að bronsprjónarnir hefðu allt eins getað verið skartgripir, auk þess sem þeir voru alltof grófir til að hafa verið notaðir í hið hugsanlega hollenska prjónles.
Vattarsaumur eða nálbragðNálbragð hefur verið þekkt frá því a.m.k. 1000 f. Kr. og notað víða um heim. Hér á landi hefur fundist 10. aldar vettlingur gerður með nálbragði, á Arnheiðarstöðum í Fljótsdalshéraði. Myndin til hægri sýnir þennan fræga vött. Vilji menn fræðast meira um hann er bent á stutta grein eftir Margrethe Hald sem fjallar bæði um íslenska vöttinn og notkun nálbragðs víða um heim, „Vötturinn frá Arnheiðastöðum“ í Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1949.
Til gamans má nefna að sumir telja sig sjá röndótta nálbrugðna sokka á nautabana einum á mínóskri fresku í Knossos, Krít. Sú freska er talin máluð um 1500 f. Kr. Nærmynd af nautabananum má sjá hér, á síðunni Caldendar House, 2. Into the Labyrinth.
Nálbragð hefur þann ótvíræða kost að það er mjög sterkt og raknar ekki upp. Ókosturinn er hins vegar sá að erfitt er að gera sæmilega teygjanlegar flíkur með nálbragði (kannski þess vegna sem menn hafa ekki lagt í nema ökklaháa sokka) og einnig er þetta fremur seinleg aðferð, a.m.k. miðað við prjón.
Á Vefnum má finna fjölda síðna um nálbragð, dugir að slá inn "naalbinding" í Google myndaleit. Handhæg kennslusíða er „Basic Naalbinding “en einnig má benda á mörg myndbönd sem sýna mismunandi aðferðir í nálbragði, á Gatopardos.com.
Koptísku sokkarnirTil að halda mig við hefð í prjónasögu byrja ég á umfjöllun um koptísku sokkana sem þó eru alls ekki prjónaðir heldur nálbrugðnir, skv. rannsókn Dorothy Burnham 1972 sem víða er vísað í, t.d. í bókum Rutt, Turnau og Nancy Bush. Til þess tíma héldu menn að sokkarnir væru prjónaðir með „austrænu snúnu prjóni“ eins og bútarnir frá Dura Europos.
Nokkur pör af svona sokkum fundust í gröfum í Egyptalandi og eru taldir frá 3.-5. öld. Egyptaland þeirra tíma var suðupottur ýmissa þjóðarbrota. Frá því um 30. f. Kr. var Egyptaland rómverskt skattland. Samt sem áður var gríska stjórnsýslumál skattlandinu og latína náði aldrei góðri fótfestu. Markús guðspjallamaður boðaði kristni í Egyptalandi og stofnaði patríarkadæmi árið 33. e. Kr. í Alexandríu, sem nú er næst stærsta borg Egyptalands og var frá fyrstu tíð ein mikilvægasta hafnarborg landsins. Koptíska kirkjan er einmitt talin með elstu kirkjudeildum í heimi. Eftir að Rómaveldi klofnaði (árið 395) varð Egyptaland hluti af austrómverska ríkinu (býsanska ríkinu), allt til þess að arabar hertóku landið á 7. öld.
Með kristnum áhrifum komst á sú tíska að grafa lík fullklædd og vafin í sjöl og ábreiður, jafnvel hengi og veggteppi. Nýir greftrunarsiðir og hið þurra loftslag Egyptalands varð til þess að óvenju mikið af textíl hefur fundist frá 1.-6. öld.
Tungumálið koptíska, sem er komin af forn-egypsku, var ríkjandi tungumál á 3.-5. öld og þaðan er nafn sokkanna dregið. Koptíska varð líka mál kirkjunnar og gríska stafrófið var notað til að skrifa koptíska texta. Þetta sýnir vel hve áhrif Grikkja voru mikil en auk þeirra bjuggu Sýrlendingar, Assýringar, gyðingar, Rómverjar og alls kyns þjóðarbrot í Egyptalandi á tímum koptísku sokkanna. Svo það er næsta ómögulegt að giska á hvaðan aðferðin við sokkagerðina er upprunnin en grísk og persnesk áhrif eru oft nefnd.
Í færslunni „Life of a Coptic sock“ á Sock It! er gerð grein fyrir fundarstöðum nokkurra koptískra sokka og útskýrt hvernig þeir hafa verið varðveittir.
Hinir umræddu koptísku sokkar eru nálbrugðnir úr ullarþræði og eru taldir frá 3. - 5. öld. Sokkarnir eru tásokkar að því leyti að hlutinn fyrir stórutá er brugðinn sér og hlutinn fyrir hinar tærnar sér. Þetta skýrist af því að Egyptar gengu í sandölum. Flestir telja að þeir séu nálbrugðnir frá tám og upp. Þannig voru líka elstu sokkar prjónaðir. Myndin að ofan er af sokkapari (í fullorðinsstærð) sem er varðveitt á safni Viktoríu og Alberts, í London. Litla myndin krækir í stóra mynd þar sem sjá má hverja lykkju mætavel. Einnig er sýnd nærmynd af hluta annars sokksins og ekki skrítið að menn hafi lengi haldið að þeir væru prjónaðir. Myndirnar eru birtar með leyfi safnsins.
Myndin til vinstri sýnir koptískan nálbrugðinn barnssokk. Hann er bersýnilega úr frekar grófu ullargarni. Sokkurinn fannst í Oxyrhyncus í Egyptalandi og er talinn frá því á 2. öld e. Kr. (Mér finnst líklegra að hann sé frá 3.-5. öld eins og aðrir svipaðir sokkar þótt heimildin World Textiles. A Concise History segi annað.) Hann er nú varðveittur á safni háskólans í Manchester.
Á undirsíðu bloggsins Sock It! er hægt að horfa á myndband sem sýnir aðferðina við nálbragðið og önnur færsla krækir í fjölda síðna með mismunandi útlistunum á hvernig skuli vinna slíka sokka (sjá krækjulista til hægri á þeirri síðu). T.d. má finna uppskrift að koptískum sokki með smávegis útskýringum á nálbragði má finna hér.
Í rauninni er sniðið á koptísku sokkunum nauðalíkt japönskum tabi sokkum sem tíðkast víst enn í Japan og eiga sér langa sögu þótt ekki hafi þeir verið prjónaðir. E.t.v. má finna svona snið, þar sem stóra táin er prjónuð eða sniðin sér, hjá þjóðum sem gengu lengstum í sandölum.
Heimildir úr bókum:
Bush, Nancy. 1994. Folk Socks. The History & Techniques of Handknitted Footwear. Interweave Press, Colorado 1994, s. 11-13.
Rutt, Richard. 1989. A History of Hand Knitting. Interweave Press, Colorado 1989 (fyrst gefin út 1987), s. 28-32
Schoeser, Mary. 2003. World Textiles. A Concise History. Thames & Hudson, London, s. 62.
Turnau, Irene. 1991. History of Knitting before Mass Production. (Agnieszka Szonert þýddi). Polska Akademia Nauk. Institut Historii Kultury Mareialnej. Varsjá 1991, s. 13-19.
Heimildir af vef:
Aegyptus (rómverskt skattland), http://is.wikipedia.org/wiki/Aegyptus_(r%C3%B3mverskt_skattland)
„Egypt, 1–500 a.d.“ á HEILBRUNN TIMELINE OF ART HISTORY, http://www.metmuseum.org/toah/ht/?period=05®ion=afe
„Historical socks“, Sock Museum, http://www.sockmuseum.com/historical-socks
Kang, Jun-suk. 2009. A History of Textiles in Egypt. Nemendaritgerð í AP European History Class, í Korean Minjok Leadership Academy. (Fjallar einkum um vefnað en geymir stutt yfirlit yfir koptískan textíl.) http://www.zum.de/whkmla/sp/1011/ignoramus/igno2.html#III
Sock It! http://ancientegyptiansock.blogspot.com/
Ennfremur er krækt beint í heimildir úr texta.
Gert í apríl 2011
Harpa Hreinsdóttir