Egypsku /islömsku sokkarnir Barnssokkurinn lengst til vinstri fannst nálægt Kairó í Egyptalandi. Aldursgreiningu ber ekki alveg saman, menn nefna allt frá 11.-12. öld (tíma Fatímída 1) til 13.-15. aldar (tíma Mamelúkka 2). Sokkurinn er nú varðveittur í The Textile Museum, Washington DC. Á því safni er að finna a.m.k. 15 egypska sokka frá svipuðum tíma. Fleiri sokkar af sama tagi eru á söfnum víðar um heim. Prjónafesta á þessum og sambærilegum sokkum sem fundist hafa frá svipuðum tíma er yfirleitt um 4 lykkjur á sentimetra (9-10 lykkjur á þumlung) og 4-5 umferðir í sentimetra (10-13 umferðir á þumlung).
Sokkurinn er fitjaður upp og prjónaður frá tánni. Hann er prjónaður í hring, ekki er vitað með hve mörgum prjónum, og samkvæmt langflestum heimildum var ekki búið að finna upp ranga /snúna /brugðna lykkju á þessum tíma svo slétt prjón var hið eina sem bauðst. Þó hefur verið bent á að hælar á svipuðum sokkum frá sama tíma virðast prjónaðir fram og til baka og því notaðar brugðnar lykkjur jafnt og sléttar, en e.t.v. hafa þeir verið prjónaðir fram og til baka af réttunni. Sokkarnir eru úr bómullarþræði og prjónaðir með tvíbandaprjóni. Litirnir eru drapplitur (sennilega ólituð bómull) og dökkblár (indigo-lituð bómull).
Mynstrið sýnir að öllum líkindum núbískar geitur (Capra ibex nubiana) sem m.a. mátti finna í Egyptalandi (og finnast reyndar enn, sé vel leitað) við einhvers konar tré. N táknið rétt og speglað er hefðbundið islamskt skraut sem er algengt í austurlenskum ofnum mottum.3
Sokkurinn til hægri er endurgerð (myndin er birt með leyfi eiganda). Á síðu hennar Recreating A Medieval Egyptian Cotton Child's Sock er endurgerð sokkanna útlistuð og þar eru teikningar af munstrinu. Ítarlegar sögulegar upplýsingar um þennan sokk má sjá á Medieval Eyptian Cotton Child Sock - Documentation eftir sama höfund.4
Þessi sokkur fannst á svipuðum slóðum og barnssokkurinn að ofan. Hann er prjónaður í hring úr bómullarþræði, með tvíbandaprjóni, á svipaðan máta og barnssokkurinn og í svipuðum litum (e.t.v. eilítið ljósari blárri lit). Hann er 50 cm langur og 15,5 cm víður efst. Prjónið er mun fínna en á barnssokknum, 6 lykkjur á cm (14 lykkjur á þumlung) og um 7 umferðir í cm (17 umferðir á þumlung). Leturborðarnir efst, við ökklann og á tábergi eru með kúfísku letri; þar stendur Allah. Kúfískt letur er elsta afbrigðið af arabísku letri og enn notað í arabískri skrautskrift, sjá má dæmi um það hér.
Umfjöllun um sokkinn og endurgerð hans má lesa á Dar Anahita: Medieval Egyptian Knitting 1.4 Munstrið og lýsing á endurgerðinni er á Dar Anahita: Medieval Egyptian Knitting 2 My Recreation of A Medieval Egyptian Sock in The Textile Museum,Washington, D.C. Litmyndin sýnir þessa endurgerð og er birt með leyfi höfundar.
Sama uppskrift er í pdf-skjali (mun prentvænna), Medieval Muslim Egyptian Stockings.4
Skýr mynd af endurgerðum sokknum og öðrum endurgerðum Lilinah biti-Anat á egpypsku prjónlesi4 er á Flickr, http://www.flickr.com/photos/35361091@N00/2263707057/in/photostream/
Annað sýnishorn af endurgerð svona sokks, í öðrum litum, er á bloggfærslu Carolyne Frier, Mamluke Socks á blogginu How Things Are Going in the Fall.
Hér er enn einn egypski sokkurinn frá sama tímabili. Hann er prjónaður úr hvítri og blárri bómull, líklega bæði ljósblárri og indigó-blárri. Sé smellt á litlu myndina af munsturborðanum opnast pdf-skjal með munstrinu. (Harpa teiknaði eftir svarthvítri lítilli mynd í bók Rutt.)
Neðar á þessari síðu eru nokkrar sögulegar upplýsingar sem gætu skýrt af hverju egypsku sokkarnar eru ýmist kallaðir Fatímista-sokkar eða Mamelúkka-sokkar. Síðara heitið er þó algengara.
1 Fatímistar voru íslömsk höfðingjaætt í N-Afríku, sem taldi sig komna af Fatímu, dóttur Múhameðs spámanns. Þeir stofnuðu kalífadæmi í Atlaslöndum 909 og var Egyptaland lengst af kjarni ríkis þeirra. Egyptaland auðgaðist mjög á þessum tíma, sem heppilega staðsett verslunarmiðstöð milli Miðjarðarhafslandanna og Indlands. Fatímistar stofnuðu Kaíró (al-Qahira, „Sigurvegarinn“) og gerðu borgina að höfuðborg sinni 973. Ríki Fatímistar leið undir lok 1171.
2 Mamelúkkar voru upphaflega lífverðir Egyptasoldáns, af tyrkneskum og kákasískum uppruna. Þeir náðu völdum í Egyptalandi 1250. Tyrkir lögðu ríki þeirra undir sig á 16. öld en Mamelúkkar stjórnuðu þó Egyptalandi áfram, í umboði Tyrkjasoldáns.
Milli þessara tveggja ríkjandi ætta komst Saladín til valda. Hann var af kúrdneskum ættum, upphaflega hershöfðingi Núreddíns soldáns en náði eftir hans dag völdum yfir öllu hans ríki, þ.m.t. Egyptalandi og kallaði sig þá soldán. Hann gerði Damaskus (nú í Sýrlandi) höfuðborg í sínu ríki en efldi þó Kaíró að mun. Reyndar var hann oftast fjarverandi þaðan, sinnandi ýmsum stríðsrekstri annars staðar. Synir og ættingjar Saladíns slógust um völdin eftir hans dag og mikil orka og mannskapur fór í að berjast við krossfara í Jerúsalem og víðar; síðasta afkomanda Saladíns tókst þó að losa Eyptaland við krossfara en var fljótlega eftir steypt af stóli, af lífvörðum sínum, Mamelúkkum.
3 Raunar var N táknið einstaka sinnum sett saman við Chi Rho táknið í frumkristni. Chi Rho eru upphafstafir Krists á grísku (XP) og N sem bætt var við í frumkristni, s.s. sést á áletrunum í katakombunum í Róm, stóð fyrir NIKA (gr.), þ.e. sigrar, og hafi þá táknið allt merkt „Kristur sigurvegari“. Sumir halda að það hafi staðið fyrir Noster (lat.), þ.e. okkar, líklega átti þá táknið að merkja „Kristur frelsari okkar“. Það er heldur ólíklegt að þetta frumkristna N hafi neitt með skrautið á islömsku sokkunum að gera. En þessa er getið hér því seinna verða gerðar síður um algeng tákn í prjónamunstrum.
Sjá um þetta: Webber, F.R. 1938, 2. útg. Church Symbolism. An Explanation Of The More Important Symbols Of The Old And New Testament, The Primitive, The Mediaval And The Modern Church. J.H. Jansen, Cleveland Ohio, s. 93. (Fyrst gefin út 1927.) Sjá einnig „Symbol“ á Bible Picture Gallery.
4 Það er svolítið ruglandi að Ellen Perlman, Lilinah biti-Anat og Urtatim al-Qurtubiyya bint 'abd al-Karim al-hakim al-Fassi er allt sami höfundurinn, sem gengur undir þessum mismunandi nöfnum. Hún er einnig þekkt sem Anahita
Helstu heimildir:
Fryar, Caroline „Mamluke Socks“ á blogginu How Things Are Going in the Fall
Perlman, Ellen. Medieval Muslim Egyptian Stockings
Lockheart, Susannah. Egyptian Socks at the Textile Museum, A study of Extant Knitted Items
Rutt, Richard. 1989. The History of Hand Knitting. Interweave Press, Colorado, s. 33-39. (Bókin kom fyrst út 1987.)
„The Art of the Fatimid Period (909–1171)“ á Heilbrunn Timeline of Art History, The Metropolitan Museum of Art
Theaker, Julie. „History 101“ á knitty little pearls of wisdom,
Urtatim al-Qurtubiyya bint 'abd al-Karim al-hakim al-Fassi. A Brief Introduction to Medieval Muslim Knitting og undirsíður sem krækt er í úr textanum.
Sagnfræðiupplýsingar eru fengnar héðan:
„Fatímistar“ í Íslensku Alfræðiorðabókinni, Örn og Örlygur, 1990.
„Fatimid Caliphate“ á Wikipedia
„History of Muslim Egypt“ á Wikipedia
„Kufic“ á Wikipedia
„Kufic alphabet“ á Wikimedia
„Mamluk“ á Wikipedia
„Mamelúkkar“ í Íslensku Alfræðiorðabókinni, Örn og Örlygur, 1990.
„Saladín“ í Íslensku Alfræðiorðabókinni, Örn og Örlygur, 1990.
Vefsíður voru skoðaðar í apríl 2011.
Gert í apríl 2011
Harpa Hreinsdóttir