Richard Rutt telur, í bók sinni The History of Hand
Knitting, langlíklegast að prjón sé upprunnið
í hinu islamska Egyptalandi. Árið 641 náði
Amr ibn al-As yfirráðum í Egyptalandi og ríkti
þar í umboði kalífans í Medína (sem
hét Umar og var persónulegur vinur og ráðgjafi
Múhameðs spámanns, þótt það komi
prjónasögu kannski ekki mikið við). Amr ibn al-As gerði
Fustat að höfuðborg ríkisins en þar er nú
Kaíró.1
Í Fustat fannst prjónabútur sem komst í
eigu Dr. Fritz Iklé (1877-1946) sem bjó í Basel í
Sviss. Iklé átti stórt einkasafn austurlenskra muna,
sérstaklega gott úrval af glervörum og austurlenskum
ofnum mottum og teppum en einnig annan textíl. Þessi merkilegi
prjónabútur er nú glataður en varðveist hefur
góð lýsing á honum í Mary Thomas's Knitting
Book, útg. 1938, og svarthvít ljósmynd.
Búturinn var aðeins 6,5 cm breiður, prjónaður
úr silki og prjónið afar fíngert, u.þ.b.
15 lykkjur á cm. Munstrið var dökk-vínrautt á
gullnum bakgrunni og prjónið austurlenskt snúið prjón.
Aðferðin er hefðbundið tvíbanda prjón sem
sást vel á röngunni. Mary Thomas segir að munstrið
hafi verið prjónað á hvolfi, þannig hafi lykkjurnar
snúið, en litla ljósmyndin sem hún birtir í
sinni bók snýr rétt. „Ekkert glæsilegra sýnishorn
af tvíbanda silkiprjóni hefur fundist: Þetta ber af
öllu enn þann dag í dag“, skrifar hún.2
Iklé aldursgreindi prjónlesið frá 7.-9. öld.
Rutt bendir á að engar leifar af islömsku prjónlesi
hafi verið greindar með fullvissu eldri en frá því
um 1100 en auðvitað er ekki hægt að ganga úr skugga
um hvort greining Iklé var rétt því stykkið
er glatað.
Til hægri sést litla svarthvíta ljósmyndin
sem bók Mary Thomas varðveitir. Neðan við hana er lítil
mynd af munstrinu. Sé smellt á hana opnast miklu stærri
mynd. Ég teiknaði munstrið upp eftir svarthvítri
smágerðri munsturteikningu Richard Rutt á s. 33 í
bók hans en reyndi að sýna litina rétta, miðað
við lýsingu Mary Thomas.