[Var Egill andfélagslegur persónuleiki?] [Egill Skallagrímsson]


Skv. evrópskri skilgreiningu á andfélagslegum persónuleika (ASPD) verða a.m.k. 3 af eftirtöldum einkennum að vera til staðar, svo viðkomandi teljist andfélagslegur persónuleiki:

a) sýnir algjört tillitsleysi í garð annarra
b) sýnir mikið skeytingarleysi og virðingarleysi fyrir hefðum, reglum og skyldum samfélagsins
c) er ófær um að viðhalda tilfinningatengslum við aðra, þótt ekkert mál sé að stofna til slíkra tengsla
d) þolir afar illa mótlæti og hættir mjög til árásargirni og meðfylgjandi ofbeldis
e) er ófær um að finna til sektar og að læra af reynslunni, einkum refsingum
f) vill gjarna kenna öðrum um eða finna sökudólga þegar eigin hegðun veldur vandræðum.

(Antisocial Personality Disorder European Description )

Ameríska skilgreiningin á ASDP er þannig (en maður telst andfélagslegur persónuleiki ef hann hefur a.m.k. 3 af eftirtöldum einkennum):

1.  getur ekki hlýtt reglum og lögum samfélagsins, þrátt fyrir ítrekaðar útistöður við lögreglu
2.  er óheiðarlegur, t.d. lýgur, notar fölsk nöfn eða kemur sök á aðra til að hagnast sjálfur
3.  er hvatvís eða getur ekki hugsað fram í tímann
4.  verður auðveldlega pirraður og árásargjarn, sem m.a. lýsir sér í endurteknum slagsmálum eða árásum
5.  skeytir ekkert um öryggi sitt eða annarra
6.  sýnir stöðugt ábyrgðarleysi, getur t.d. ekki haldið vinnu eða virt fjárhagsskuldbindingar
7.  iðrast ekki misgjörða í garð annarra.

(Antisocial Personality Disorder American  Description)

Þessi skilgreining er miðuð við fullorðinn einstakling en undanfari er oft hegðunartruflun eða hegðunarvandi í æsku:

Barn eða unglingur þarf að sýna þrjú af eftirtöldum einkennum til að greinast með hegðunartruflun:

* Árásargirni í garð fólks og dýra
* Vísvitandi eyðileggingu eigna
* Óheiðarleika eða þjófnað
* Alvarleg og endurtekin brot á reglum (t.d. að lúta ekki aga foreldra eða skólareglum)
 

Í  Sálfræðibókinni  er andfélagslegur persónuleik skilgreindur nokkuð öðruvísi en evrópskar og amerískar skilgreiningar hér að ofan sýna.  Þar er talið einkenna andfélagslegan persónuleika:

1. Nokkur yfirbragðsþokki og greind yfir meðallagi.
2. Engar ranghugmyndir eða önnur merki um órökrétta hugsun.
3. Engin merki um kvíða eða önnur taugaveiklunareinkenni, eru yfirvegaðir og tunguliprir.
4. Óáreiðanleiki, gegna ekki skyldum, engin ábyrgðarkennd í smáu eða stóru.
5. Segja ósatt og skortir einlægni.
6. Sýna enga iðrun eða merki um skömm.
7. Andfélagsleg hegðun skilar litlum ávinningi, er illa skipulögð og hvatvís.
8. Léleg dómgreind og vanhæfni til þess að læra af reynslunni.
9. Sjúkleg sjálflægni, eru algerlega uppteknir af sjálfum sér og geta ekki elskað aðra.
10. Skortur á djúpum og langvarandi tilfinningum.
11.  Skortur á innsæi, geta ekki séð sjálfa sig með augum annarra.
12. Vanþakklæti fyrir sérstaka tillitssemi, alúð eða traust.
13. Óæskileg hegðun með drykkju, eru dónalegir og ruddalegir og skipta skapi mjög snögglega.
14. Afar lítið um sjálfsmorðstilraunir.
15. Ópersónulegt og tilviljanakennt kynlíf.
16. Hafa engin markmið og geta ekki lifað hefðbundnu lífi.

(Hörður Þorgilsson. 1993 :497)
 
 
 
 

Uppfært í apríl 2010
Harpa Hreinsdóttir