[Landnám Skallagríms] [Kort úr Egils sögu]

Borg og Digranes (Borgarnes)

 
Borg Naustanes Sonatorrek Skallagrímshaugur
Lágmynd af Agli Brákarey og Brákarsund Granastaðir
og Sandvík
Allar smámyndir krækja í stærri myndir.

 BorginHér sést Borg á Mýrum eins og bærinn lítur út nú, séð frá Borgarnesi.  Skallagrímur Kveldúlfsson nam land víða um Borgarfjörð og settist að á Borg.  Egill Skallagrímsson tók síðan við búinu. Þegar Egill brá búi tók Þorsteinn Egilsson við, faðir Helgu hinnar fögru, sem Gunnlaugssaga greinir frá.  Snorri Sturluson bjó hér á árunum 1202- 1206.
 

Bærinn dregur ugglaust nafn sitt af klettaborginni sem hann stendur undir.
 

Á Borg hefur staðið kirkja allt frá árinu 1003.  Þetta er því sennilega elsti kirkjustaður á Vesturlandi.  Sagt er að Þorsteinn Egilsson hafi látið gera fyrstu kirkjuna.  Þegar nýbúið var að vígja hana var Kjartan Ólafsson, ein aðalsöguhetja Laxdælu, jarðaður hér.  Leiði hans sést enn en það snýr þvert á önnur leiði í kirkjugarðinum (þ.e. norður-suður, en ekki austur-vestur eins og tíðkast nú).  Á leiðinu er steinn með rúnaletri (en reyndar stendur alls ekki Kjartan Ólafsson á steininum!).

Á hlaðinu á Borg er minnismerkið Sonatorrek, eftir Ásmund Sveinsson myndhöggvara.  Það var reist árið 1985.
 
 
 
 

Fyrir neðan Borg er Naustanes.  Þaðan var siglt með lík Skallagríms yfir á Digranes (Borgarnes) þar sem hann var heygður.
 
 
 
 
 

Í Borgarnesi er Skallagrímsgarður.  Þar sést haugur Skallagríms enn þann dag í dag.  Egill heygði son sinn, Böðvar, á sama stað.  Minnismerki, sem sýnir Egil reiða heim lík Böðvars, var reist í garðinum árið 1970.
 
 

Minnismerkið Brák var reist skammt við Brákarsund árið 1997.  Ambáttin Brák bjargaði lífi Egils þegar Skallagrímur greip til hans í æðiskasti.  Hún steypti sér í Brákarsund og karlinn fleygði bjargi á eftir henni;  kom hvorugt upp síðan.  Yfir Brákarsund er nú brú sem tengir Brákarey við land.  Slíku var vitaskuld ekki til að dreifa á tímum Eglu og lá skip Þórólfs Skallagrímssonar einmitt við festar á Brákarpolli nóttina sem Egill hjó á landfestar skipsins svo það rak út á fjörð.
 

  Æðiskast Skallagríms kom í kjölfar knattleiks sem haldinn var í Sandvík.  Hann drap þá vin Egils, Þórð Granason frá Granastöðum, og greip síðan til Egils.
 
 

Uppfært í apríl 2010
Harpa Hreinsdóttir