2. Forn frásagnarlist og stiklutexti

Í þessum kafla verður tæpt á nokkrum kenningum um forna frásagnarlist, einkum kenningum um munnlegan flutning frásagna, og þær bornar saman við lögmál sem stiklutexti lýtur.
 

2.1  Kenningar um frásagnareiningar í Íslendingasögum
Ýmsar kenningar hafa komið fram um frásagnareiningar í Íslendingasögum. Mest hefur verið fjallað um Njálu í því sambandi. Einar Ólafur Sveinsson kallaði frásögn Njálu vef  en hafði þá væntanlega í huga uppsettan vef á vefstól og hugsaði sér frásögnina fléttaða úr ívafi og uppistöðu. Því mætti segja að hann hefði haft tvívíðan vef í huga [21]. Carol Clover hefur kallað frásagnaraðferð Íslendingasagna þræði („stranding“) þar sem greina megi smærri frásagnareiningar sem saumspor („stitches“). Þarna er sömuleiðis tvívíð myndhverfing, þ.e. hún hugsar sér flöt sem þræðirnir liggi á. Theodore Anderson hefur sett fram ákveðin hefndarmynstur sem bygging Íslendingasagna sé reist á og Jesse Byock rær á sömu mið. Sá síðarnefndi telur sögurnar setta saman úr smáum einingum, „feudemes“, sem e.t.v. mætti kalla fæðardem á íslensku. Þessar einingar í frásagnarlist myndu samsvara hlutverki morfema í málfræði. Kannski mætti hugsa sér fæðardemin sem kubba og þá er um leið notuð þrívíð líking. Þetta er þó óljóst í grein Byocks [22].

Vésteinn Ólason skrifaði yfirlitsgrein 1978 í Skírni þar sem hann tæpir á umræðu, sem löngum hefur verið vinsæl, um það hvort fornar íslenskar bókmenntir séu fyrst og fremst byggðar á munnmælum eða rituðum heimildum, eða séu skáldverk. Ætlunarverk hans er annars að gera grein fyrir viðhorfum til frásagnarlistar, sem þá voru tiltölulega ný af nálinni, einkum formgerðarstefnu. Í því sambandi rekur hann kenningar Propps  um frásagnarliði í ævintýrum, en Propp komst að þeirri niðurstöðu að öll eiginleg ævintýri hafi sömu frásagnargerð. Síðan rekur hann  kenningar Parry og Lord um formúlur í júgóslavneskum kvæðum, sem kvæðamenn mæltu af munni fram. Áheyrendur hafa síðan áhrif á flutning kvæðamanns á kvæði hverju sinni. Vésteinn gerir svo ítarlega grein fyrir kenningum Lars Lönnroth en bók hans, Njáls saga: A Critical Introduction, var þá nýkomin út.

Lönnroth gerir ráð fyrir að Njála sé á einhvers konar millistigi milli munnlegrar og skriflegrar frásagnarhefðar. Frásagnargerð Njálu er stigveldi (hierarchy) byggingareininga. Stærstu einingarnar í þessu stigveldi eru hálfsjálfstæðir þættir. Hann telur 15 slíka þætti í Njálu. Þættirnir skiptast í kapítula en þeim má síðan skipta í sneiðar (segments). Sneiðarnar eru tvenns konar,  atriði (scene), sem felur í sér samtal, og lýsing. „Lönnroth færir að því traust rök að sneiðarnar, atriði og lýsingar, svo og þættir, séu formeiningar sem eigi rætur að rekja til munnlegrar frásagnarlistar.“   [23] Aftur á móti telur hann að kapítularnir í Njálu séu komnir til fyrir bókleg áhrif.
Í grein Vésteins Ólasonar, sem fyrr var nefnd, vitnar hann í The Nature of Narrative eftir Scholes og Kellogg. Þeir segja að líkindi með einstökum Íslendingasögum megi skýra þannig að þar sé um að ræða efni úr sameiginlegum munnlegum arfi. Sögurnar séu ekki samdar af einhverjum einum einstaklingi. [24]
 

2.2   Kenningar um sagnageymd og hlutverk höfundar
Walter Ong er mannfræðingur sem hefur rannsakað munnlegar frásagnir hjá mörgum ólæsum ættbálkum. Hann segir að í samfélagi sem aldrei hefur haft nein kynni af rituðu máli sé þekking ekki eign neins sérstaks heldur sé hún sameign. Verkkunnátta erfist mann fram af manni. Óhlutbundin þekking ættbálksins, s.s. gildi, réttlætiskennd og samfélagsskipan er falin í epískum formúlum, þemum og goðsögum. Úr þeim efniviði vefa sagnamenn ættbálksins frásögn sína. Áheyrendur þekkja efnið fyrir, a.m.k. í stórum dráttum. Ekki er hægt að tala um sagnamann sem höfund í nútímaskilningi þess orðs. Enginn á þekkinguna heldur er hún sameiginlegur sjóður samfélagsins. Sagnamaður er bundinn af þessu og getur ekki breytt sögunum að neinu ráði, enda þekkja áheyrendur hana fyrir. Ong komst aftur á móti að því að sögur breytast smám saman í tímans rás í takt við menningu samfélagsins. Ef hætt er að líta á einhverjar dyggðir sem eftirsóknarverðar í samfélaginu breytast frásagnir t.d. þannig hetjan fær nýja eiginleika eða jafnvel hættir að vera hetja. Hlutverk sagnamanns er því ekki að semja sögu, heldur gæta þess að sameiginlegur þekkingararfur glatist ekki og að hann endurspegli jafnan ríkjandi gildismat samfélagsins. Hver sagnamaður lærir af hinum eldri. [25]

Þótt Ong fjalli vissulega ekki sérstaklega um Íslendingasögur má draga ýmsar ályktanir um þær af kenningum hans. Löngum hafa menn gert því skóna að gildismat Íslendingasagna endurspeglaði að einhverju leyti samfélag 13. aldar, þegar þær voru skrifaðar. Þetta er í samræmi við breytingar sem Ong segir að verði á óhlutbundnum þekkingarsjóði  ættbálks.

Ritun hefur væntanlega verið iðkuð á Íslandi í talsverðan tíma áður en fyrstu sögurnar voru skrifaðar en það þarf ekki að hafa breytt sagnahefð að ráði. Elisabeth Eisenstein heldur því fram að ritmenning hafi verið svo vesaldarleg (orðið sem hún notar er „thin“) að hún varð að treysta mjög á munnlega miðlun. Þannig hafi orðið til sambræðingur hálf-munnlegrar og hálf-bóklegrar menningar sem eigi sér enga samsvörun í nútímanum. Hvert handrit var einstakt. Hver uppskrift eða afrit veik meira að minna frá frumritinu því hugmyndir um höfund eða höfundarrétt þekktust ekki og af því að enn var treyst mjög  á munnlega geymd sem var heldur óstöðug. [26]  Það sem kemst einna næst þessum bræðingi munnlegrar og skriflegrar hefðar, sem ríkti fram til daga prentlistarinnar, er Internetið, segir Amanda Griscom í greinaflokknum „Trends of Anarchy and Hierarchy: Comparing the Cultural Repercussions of Print and Digital Media.“ Gagnvirkir möguleikar gefa hverjum og einum kost á að hafa áhrif á texta eða verk. Semjendur verka eru ekki háðir neinum ströngum reglum heldur geta sett verk sín fram hvernig sem þeir vilja. Slíkt stjórnleysi einkenndi einmitt handritagerð. [27]  Griscom nefnir ekki enn eitt sem einkennir Internetið, sem er gegndarlaus ritstuldur!  En ef til vill líta þeir sem ganga í sjóð vefsins til að sækja sér efnivið í eigin verk ekki á slíkt sem stuld?  Kannski er vefurinn í huga nútímamannsins álíka sameiginlegur sjóður þekkingar og sagnasjóður var í augum forfeðra okkar.
 

2.3 Líkindi með frásagnareiningum og stiklutexta
Kenningar Lönnroth má setja upp á þennan veg:

 
Þetta líkan minnir strax á skipulagningu vefseturs. Vefsíður eru annað hvort skiplagðar svona eða sett er upp svipað form og kallast „þankahríð“ í ritunarkennslu, þ.e. hugmyndablöðrur sem tengjast.  Ef líkan Lönnroth væri skipulag vefsíðu yrði væntanlega byrjað á að skrifa hvern þátt fyrir sig, undirkapítula hans og e.t.v. einstakar sneiðar. (Hver sneið gæti svo væntanlega tengst mörgum kapítulum, þvers og kruss, þótt Lönnroth geri vitaskuld ekki ráð fyrir því á rituðu formi.)  Það er og hægt að hugsa sér svona líkan þrívítt, þar sem sneiðar, þættir og kapítular væru líkt og fjöldi fljótandi pýramída, eins og Nielsen telur æskilegt að vefsíður séu (sjá kafla 1.3.3).
Menn hafa fyrir löngu tekið eftir því að Íslendingasögur fjalla margar um sama fólkið og segja jafnvel frá sömu atburðum. Þannig má finna tengsl milli Eglu, Laxdælu, Njálu, Gísla sögu Súrssonar, Gunnlaugs sögu ormstungu o.fl. E.t.v. mætti kalla það sérstakan „heim“ þar sem efni og lýsingar skarast. Annað hvort er þetta skýrt með því að höfundar hafi „tekið að láni“ hver hjá öðrum, eða að skrásetjarar einstakra sagna byggi á sömu munnlegu frásögnunum. Mér finnst síðari möguleikinn líklegri. Hér á undan voru raktar hugmyndir um að í upphafi ritaldar hafi skilin milli handrits og munnlegrar geymdar verið afar óljós. Jafnvel er því haldið fram að handritið hafi verið til að geyma frásögn en ætlast hafi verið til að henni væri miðlað munnlega. Bent hefur verið á að það sé helst Internetið sem líkist þessu millibilsástandi munnlegra og ritaðra heimilda, þar sem höfundarréttur var óþekktur en sameiginlegri þekkingu var miðlað. Heimir Pálsson víkur að líkindum með sögunum í bók sinni Lykill að Íslendingasögum og segir:

Skemmtilegt bragð eru beinar og óbeinar tilvísanir sagnanna hverrar til annarrar og til alþekktra sögulegra prsóna og ætta. Þær byggja þannig upp eins konar „sýndarveruleika“ þar sem eitt styðst við annað.  [28]

Ég fylgi þessari hugmynd um sýndarveruleika sagnanna eftir og hugsa mér hvern sagnaheim sem vefssetur. [29]  Hver saga ætti sína heimasíðu, þ.e. á vefsetri væri að finna heimasíðu Eglu, Njálu, Gísla sögu Súrssonar, Gunnlaugs sögu ormstungu o.fl.  Vefsetrin gætu heitið Borgfirðinga sögur, Vestfirðinga sögur o.s.fr. líkt og Íslendingasögunum er gjarna skipt í bindi. (Heimasíðu Njálu mætti að öllum líkindum finna á fleiri en einu vefsetri þar sem hún tengist svo mörgum öðrum sögum.)  Hver heimasíða vísar svo í einhverja hluta sögunnar, sem vísar í smærri hluta, sem tengjast saman á alla mögulega vegu. T.d. gæti lesandi Eglu, sem les um viðskipti hans og Gunnhildar drottningar, krækt í síðu um viðskipti Gunnhildar og Hrúts í Laxdælu og síðu um viðskipti Gunnhildar og Hrúts í Njálu. Gunnhildur gæti átt sína eigin heimasíðu með krækjum í mismunandi sögur, eða margar heimasíður, hverja undir sinni sögu, sem kræktust saman. Einstakar sögur gætu krækt í sömu heimildir, eins og Kristni sögu, Grágás eða konungasögur.

Ég hef kynnst ágætum sagnamanni sem nú er látinn  [30]. Ég fékk hann stundum til að koma í kennslustund til mín og segja nemendum sögur. Sögur hans byrjuðu yfirleitt alltaf eins:  Sagt var frá pósti á Snæfjallaströnd sem lenti í snjóflóði. Gerður var út leitarflokkur en sá lenti líka í snjóflóði og einn einn flokkurinn fór að sækja látna og lifendur. Faðir sögumannsins hafði verið í síðari leitarflokknum. Sögurnar sem þessi maður sagði voru samt mjög ólíkar. Stundum voru æviatriði póstsins og ýmissa ættingja hans rakin. Stundum var fjallað um einhverjar persónur í leitarflokknum og ættingja þeirra, gjarna einnig drauga sem fylgdu einstökum ættum og sögur þeirra drauga raktar. Stundum fór sögumaður yfir í lýsingar á eigin æsku  og uppvexti  á Snæfjallaströndinni. Þá fylgdi einatt sagan af því þegar hann sá huldukonu sem barn. Þeirri sögu fylgdi skýring á sýninni á sálfræðilegum eða líffræðilegum nótum, en líffræðikennari skólans hafði einhvern tímann útskýrt þessa sýn með mishröðum boðum til boðstöðva heilans. Einhvern veginn tókst sagnamanni oft að tengja þessa byrjun á Snæfjallaströndinni við Eyrbyggju, sem var hans uppáhalds saga, og kom hann þá að þeirri skoðun sinni að í Eyrbyggju hefði ekki getað rignt blóði heldur rauðátu, á sínum tíma!  Ég veit ekki hvað réði gangi sögunnar hverju sinni. Sagnamaður spurði oft nemendur, hvort þeir vissu hvað eitthvað væri, hvort þeir hefðu lesið þetta eða hitt, hvort þeir þekktu tiltekinn mann á Akranesi (en honum fylgdi draugur sem átti uppruna sinn á Snæfjallaströnd) o.s.fr. Sennilega hefur það farið eftir svörum nemenda hvaða stefnu sagan tók, þótt ég viti það ekki með vissu.

Það sem mér finnst eftirtektarvert við þessar sögur er að úr sömu byrjun sem uppistöðu gat sagnamaður spunnið afar ólíka þræði, úr þjóðsögum, líffræði, Íslendingasögum, sagnfræði o.s.fr. Þetta gerði hann algerlega áreynslulaust, á gullaldarmáli, sem nemendur skildu ekki nema að hluta, en fylgdust samt spenntir með.

Sé gert ráð fyrir að Íslendingasögurnar byggist að miklu leyti á munnlegum fróðleik, má þá ekki hugsa sér að þær hafi verið sagðar einhvern veginn svona?  Sagnamaður byrjar að segja frá Agli Skallagrímssyni og þar er komið sögu sem hann kynnist Gunnhildi og drepur Atleyjar-Bárð. Áheyrendur spyrja einhvers um Gunnhildi. Sagnamaður vindur sér að rekja samskipti Gunnhildar við aðra Íslendinga, s.s. Hrút, Ólaf pá og fleiri. E.t.v. voru sumar (eða allar) Íslendingasögur aldrei sagðar sem sú heild sem við nú þekkjum. Kannski réðu áheyrendur því hvernig sagan varð í hvert skipti, líkt og júgóslavneskir áheyrendur höfðu áhrif á flutning kvæðamanna í rannsókn Parry.
Svo undarlegt sem það nú er getur ný tækni, stiklutexti, gert okkur kleift að endurskapa forna menningu sem er þetta (hugsanlega) upphaf  Íslendingasagna. Krækjur hefðu sama hlutverk og áheyrendur forðum. Tölvan væri sagnamaðurinn. Sagan sjálf væri heimasíða. Hún hefði hvorki upphaf né endi að því leytinu að hver saga gæti hverfst yfir í aðra sögu, áreynslulaust. Kannski eru sú Egla og sú Njála sem við þekkjum ekkert annað en heimasíður, sem einhver ritstjóri krækti saman?
 

2.4 Þróun ritlistar og þróun vefsins 
Þótt ekki komi það stiklutexta sérlega mikið við er gaman að skoða kenningar um þróun vefsins (eins og  Perry Hewitt setur þær fram, sbr. kafla 1.3.3) og það sem vitað eru um upphaf ritaldar á Íslandi. Þessi samsvörun sýnir manni að ekkert er nýtt undir sólinni.

Hewitt segir að í árdaga vefsins hafi menn aðallega verið uppteknir af tækninni sjálfri. Í raun og veru skipti ekki svo miklu máli hvaða efni var á vefsíðunum (og jafnvel ekki máli hvernig þær litu út). Það að kunna að skrifa html-kóða var „toppurinn“. Sé litið til þess sem fyrst var skrifað á Íslandi var það ekki skáldlegt efni heldur efni sem þegar var fastmótað og til, þ.e.a.s. lög, áttvísi og þýðingar helgar. Venjulega er kennt (a.m.k. í framhaldsskólum) að þetta hafi verið skrifað fyrst af því það var svo nauðsynlegt. En í ljósi þess að lög höfðu í margar aldir verið lærð utanað (og voru vel fallin til utanbókarlærdóms með stuðlum sínum og hrynjandi) og ýmiss konar helgirit voru þegar til á latínu var þetta kannski ekki bráðnauðsynlegt. Er hugsanlegt að menn hafi gripið það sem til og þokkalega fastmótað til þess að æfa sig í nýrri tækni, þ.e. ritlistinni?  Að alveg eins og tölvusjúkir stráklingar sátu við sólarhringunum saman, í kringum 1994- 95, og ófu hugfangnir ómerkilegt efni með frumstæðum html-kóða hafi fyrstu skrifarar og húsbændur þeirra hrifist svona mjög af ritlistinni?  Og eins og fyrstu vefsíðurnar voru gráar og lítt spennandi (séðar nú á dögum) má telja Íslendingabók, sem er talin með elstu íslensku ritum, fremur þurrlega.

Ein helsta heimildin um upphaf ritaldar hér á landi er Fyrsta málfræðiritgerðin. Hún er yfirleitt talin skrifuð á tímabilinu 1150 - 1175 af óþekktum höfundi, sem hafði það markmið að setja Íslendingum stafróf. Sjálfsagt hefur ekki veitt af því þar sem hver stafsetti eftir eigin höfði. Fyrsti málfræðingurinn vildi sem sagt setja staðal, alveg eins og menn reyna að koma sér saman um html-staðal nú á dögum. Og líkt og vefarar nútímans þverbrjóta staðlaðar reglur um html fóru skrifarar alls ekki eftir reglum Fyrsta málfræðingsins. Sams konar óreiða ríkir í ritun html kóða og í stafsetningu handrita Íslendingasagnanna.

Erfitt er að koma auga á áherslu á hönnun í íslensku handritunum. Þau eru fá fögur. Þannig á annað stig vefsins sér tæplega samsvörun við þróun ritlistar hér á landi. Í útlöndum má hins vegar sjá handrit sem ljóma í öllum regnbogans litum og eru lýst eftir kúnstarinnar reglum. Frægast þeirra allra er eflaust Keltabókin (The Book of Kells) sem ferðmenn í Dyflinni standa í röðum til að berja augum eitt andartak.  Lýsing handrita tengdi orð og mynd órjúfanlegum böndum líkt og skreyting vefsíðna gerir nú á dögum. Einhver íslensk handrit eru  lýst, t.d. Stjórn.  En kannski hlupum við yfir þetta stig?  Eða höfðum höfðum hvorki tæki og tól til þess?
Þriðja stig sem vefurinn komst á var upplýsingaflóðið eða áhersla á sem mest innihald. Taka mætti dæmi af þeim Íslendingasögum sem taldar eru elstar. Sögur eins og Heiðarvígasaga og Eyrbyggja þykja ekki sérlega listilega samsettar en í þeim má finna aragrúa upplýsinga. Bygging þeirra er þó mjög losaraleg, hvort sem skoðuð er heildin eða smærri einingar.

Fjórða stigið, sem vefurinn er á núna, skv. Hewitt, einkennist af þörf fyrir ritstjórn. Einhver þarf að ákveða hvað á að vera á vefsíðu, hvernig efnið á að tengjast o.s.fr., svo notendur týnist ekki bara í upplýsingaflóði. Þróun ritunar Íslendingasagna virðist svipuð. Einhver raðaði efninu niður á skipulegan hátt (og sumir telja sá sé skáld, aðrir telja hann ritstjóra). Til urðu skipulegar heildir eins og Njála, Laxdæla eða Heimskringla.
 
[3. kafli]     [Efnisyfirlit]