1. Texti á tölvutæku formi
Ýmiss konar skilgreiningar og heiti eru til á texta á tölvutæku formi. Sumar þeirra eiga við um texta sem bæði eru til á tölvutæku formi og á pappír. Þótt þetta verkefni fjalli ekki sérstaklega um hugtök sem notuð eru til að fjalla um tölvutexta er nauðsynlegt að gera grein fyrir nokkrum þeirra í upphafi svo ljóst sé hvernig ég nota þau sjálf. Aðallega verður samt fjallað um „hýpertexta“, sem ég kýs að kalla stiklutexta  (en um íslensk heiti á „hýpertexta“  er fjallað sérstaklega í kafla 1.3.1). Í umfjöllun hér á eftir um „sýberíutexta“ og „krákustígatexta“ styðst ég við kafla úr bók Espen J. Aarseth. [1] Hann notar sýberíutexta sem yfirhugtak, örlítið þrengra hugtak er krákustígatextar og undir þá falla m.a. stiklutextar.
 
1.1  „Sýberíutexti“ (Cybertext)
Þetta hugtak er notað um hvers konar vélræna niðurskipan texta.[2]   Ekki er endilega gert ráð fyrir að tölvur komi þar við sögu. Hugtakið er ættað frá Norbert Wiener og lærisveinum hans, en bók hans Cybernetics, undirtitill Control and communication in the Animal and the Machine kom út 1948. „Cybernetics“ heita stýrifræði á íslensku og fjalla um hvers kyns sjálfvirkni. Mér er ekki ljóst hvernig textavinnsla átti að geta verið sjálfvirk fyrir daga tölva, enda fær bók Wieners þessi eftirmæli:
Reyndar voru Stýrifræðin (Cybernetics) enn mjög tæknileg, mótsagnakennd og nánast ólæsileg, en almenningur greip þau á lofti líkt og þau væru töfralykill sem myndi opna leyndardóminn um það sem hefði gerst í veröldinni áratuginn á undan. [3]
Orð sem dregin eru af  heiti þessarar bókar eru nú notuð um alls kyns fyrirbæri í tölvuheiminum, s.s. Sýbería (Cyberspace) sem er ímyndaður heimur þar sem menn hugsa sér að búi vefsíður, spjallrásir, póstþjónar og annað sem tilheyrir veröld Internetsins.
 
1.2 „Krákustígatextar“ (Ergodic texts)
er hugtak sem á við um margs konar tölvu„bókmenntir“ en einnig texta á pappír. Enska orðið er dregið af grísku orðunum ergon, sem þýðir vinna, og hodos, sem þýðir stígur. Ég hef grun um að Espen Aarseth  hafi sjálfur búið þetta orð til.  Krákustígatexti einkennist af því að lesandinn þarf að finna leið gegnum textann og um hvern texta eru margar leiðir. [4]  Góð dæmi um krákustígatexta eru stiklutexti og ævintýraleikir í tölvum.  Aarseth telur að krákustígatexti sé undirgrein sýberíutexta. Hann telur að elsta dæmi um sýberíutexta (og jafnframt krákustígatexta) sé ritið I Ching, sem er kínverskt spádómsrit eða véfrétt, frá því um 1122 - 770 fyrir Krist. Ritið er sett saman af flóknum táknum og lesið úr þeim eða valdir möguleikar  því með því að kasta pinnum eða smápeningum á jörðina.
Aarseth deilir nokkuð á aðferðir hefðbundinnar bókmenntafræði. Hann telur að ekki sé hægt að yfirfæra þær aðferðir beint á sýberíutexta eða krákustígatexta. Hann  reynir að skýra sjónarmið sitt með því að taka dæmi af fótboltaleik. Áhorfandi að leiknum getur notið hans, hrifist með, orðið æstur, hrópað, stappað o.s.fr. en hann getur ekki tekið þátt í leiknum og ekki haft áhrif á gang hans. Lesandi sem les venjulegan texta er í sömu stöðu og þessi áhorfandi, en lesandi sem les krákustígatexta er í stöðu sem er miklu líkari stöðu leikmanns á vellinum.  Samt er staða þeirra ekki alveg sambærileg því leikurinn getur farið hvernig sem er meðan möguleikar í krákustígatexta eru alltaf endanlega margir. (Margir telja nú reyndar að áhorfendur geti haft áhrif á gang leiksins með hvatningu og einnig má nefna að möguleikar á því hvernig leikur fer eru ekki óendanlegir.)

Þótt ekki sé æskilegt að beita hefðbundinni bókmenntarýni á krákustígatexta til að meta þá sjálfa segir Aarseth að rannsóknir á sýberíutextum geti e.t.v. lagt nokkuð af mörkum til að skilja eðli frásagnar betur:

Jafnvel þótt sýberíutextar séu ekki frásögn heldur annars konar bókmenntir, sem stjórnast af annars konar reglum, þá má í þeim finna einhverja þætti frásagnar, í mismiklum mæli. Í þeim flestum sjást einhverjir angar frásagnargerðar, alveg eins og  í öðrum bókmenntagreinum sem ekki teljast til frásagnarlistar. Hér er annað sjónarhorn valið og almenn einkenni texta notuð til þess að lýsa ýmsum tegundum sem samsettum bókmenntagreinum.  E.t.v. má finna einhverjar nýjar, smáar vísbendingar um hvað frásögn er, með því að rannsaka sýberíutexta og reyna að greina þessa annars konar frásögn. [5]
1.3  Stiklutexti
 
1.3.1  Hvað er hýpertexti og hvað kallast hann á íslensku?
Við leit í  Orðabanka Íslenskrar málstöðvar (http://www.ismal.is/ob/) fundust eftirtalin nýyrði yfir hýpertexta:
gjörtexti, fjölvíddartexti (úr Nýyrðadagbók), stiklutexti, stiklutextakerfi (úr Tölvuorðasafni).

Skilgreining á stiklubúnaði (hypermedia) og stiklutexta er eftirfarandi:

 Stiklubúnaður þar sem notaður er texti, myndir eða hvort tveggja. Stiklutexti gefur kost á framsetningu skjala þar sem líkt er eftir því hvernig mannshugurinn raðar saman hugmyndum. Í bókum, kvikmyndum og tali er efni hins vegar sett fram í tiltekinni röð.
Skilgreining á gjörtexta eða fjölvíddartexta er þannig:
 Tölvutexti þar sem unnt er að smella á orð á skjánum og fá þá nánari skýringu, mynd, hljóð o.s.frv.
Mér finnst fjölvíddartexti ná best þeim skilningi sem ég legg sjálf í orðið hýpertexta. Orðið felur í sér að textinn getur verið í mörgum lögum, þ.e. einhvers konar yfirborðstexti og síðan krækjur [6] í dýpri lög textans, sem oft eru nánari skýringar yfirborðstextans. Það  hefur hins vegar þann ókost að vera allt of stirðbusalegt.

Orðið stiklutexti er gott að því leytinu að þar kemur fram „stiklueðli“ hýpertexta;  menn geta stiklað á stóru eða lesið vandlega. Einnig minnir orðið á hvernig lesendur stikla gegnum hýpertexta (eins og að hoppa stein af steini) fremur en að þræða fyrirfram markaða leið frá orði til orðs. Gallinn er sá að  þýða þyrfti „link“ með stiklu til að gæta samræmis og það finnst mér ekki nógu gott orð yfir krækju. Orðið stiklutextakerfi hefur sama galla og fjölvíddartexti. Það er allt of langt og óþjált í munni.

Gjörtexti er þjált orð en ekki sérlega gagnsætt. Á sama máta fá finna í Orðabankanum orðið gjörmiðil, sem nýyrði yfir „hypermedia“. Þetta er auðvitað í stíl við margmiðlun („multimedia“).

Ég hef einnig heyrt hýpertexta kallaðan ofurtexta enda er hyper- oft þýtt með ofur- á íslensku. Orðið hefur sama galla og gjörtexti, þ.e. er ekki sérlega gagnsætt við fyrstu sýn. Stærsti galli þessara orða er, að mínu mati,  að hvorki ofurtexti né gjörtexti hafa unnið sér sess í tölvumasi manna. Þau eru einfaldlega ekki notuð.
Í umfjöllun minni hér mun ég nota orðið stiklutexti yfir hýpertexta, en krækju yfir „link“ því þetta eru þau orð sem hafa unnið sér sess í íslensku nú (hvað sem síðar verður).
 

1.3.2 Eðli stiklutexta
Þær heimildir sem ég hef undir höndum eru einkum tvenns konar:  Annars vegar eru það vangaveltur bókmenntafræðinga um eðli eða lögmál skáldskapar á rafrænu formi, hins vegar eru það greinar um vefsíður og hönnun þeirra. Þær fyrrnefndu eru einatt settar fram á hátimbraðan hátt og oft reynt að tengja umfjöllun um stiklutexta við aðrar hugmyndir um tengsl lesanda og bókmenntaverks, sjálfstæði bókmenntaverka o.s.fr., t.d. hugmyndir Barthes og Derrida. Þær síðarnefndu eru oft ætlaðar þeim sem hyggjast æxla sér fé með vefinn [7]  í þjónustu sinni og þar eru málalengingar með minnsta móti, en hins vegar lítið fjallað um skáldlega hugmyndafræði að baki vefsíðum. Í umfjöllun minni hér reyni ég að fara bil beggja.
 
1.3.2.1 Hugmyndir bókmenntafræðinga um eðli og lögmál skáldskapar á rafrænu formi
Handhægt yfirlit yfir ýmis verk sem fjalla um þetta má finna á síðunni Hyperizons:  Theory and Criticism of Hypertext Fiction.[8]

Menn virðast ekki sammála um hvort kalla eigi skáldskap á tölvutæku formi (electronic storytelling) sérstaka bókmenntagrein eða ekki. Einnig er talsvert á reiki hvað skuli teljast til skáldskapar. Í yfirlitsgrein um ýmsar kenningar er vitnað í Sarah Smith, en hún sjálf er höfundur skáldverka á rafrænu formi og segir:

Menn eru ekki einu sinni sammála um hvað eigi að kalla það sem við gerum. Voyager fyrirtækið gefur út „auknar bækur“ meðan Eastgate Systems framleiðir „fagurbókmennta-hypertexta“, „gagnvirkar skáldsögur“ og „rafræn skáldverk“. Storyspace býr til „vefi“;  Macromind Director gerir tölvuunnar kvikmyndir með „tökum“ og „sviðsetningu“. HyperCard sýnir „spjöld“ í „stokkum“. Og auðvitað framleiða stærstu og vinsælustu fyrirtækin í geira rafræns skáldskapar „leiki“. [9]
Fyrir utan hugtökin HF (hypertext fiction) eru notuð hugtökin EF (electronic fiction) og IF (interactive fiction) en í rauninni er engin ein skilgreining til á því hvað skáldskapur á rafrænu formi er - menn eru einungis sammála um að hann sé til, segir Franco Minganti í tiltölulega nýlegri grein um rafrænan skáldskap.[10]

Minganti rekur ýmislegt misspaklegt sem sagt hefur verið um stiklutexta, möguleika hans og eðli. Hann vitnar m.a. í Jane Yellowlees Douglas sem vill líkja skáldverki á stiklutextaformi við myndarlegt safn. Við þurfum ekki að grandskoða hvern hlut á safni til að finnast að við höfum skoðað það. Það sem fær okkur til að yfirgefa safnið er sú tilfinning að hafa fullnægt einhverri þörf í okkur sjálfum - eða við erum búin að fá nóg. [11]  Minganti er ekki sérlega hrifinn af þessari líkingu sjálfur en mér finnst hún eiga vel við. Ég tel að sjaldnast sé stiklutexti lesinn frá orði til orðs (sjá einnig hugmyndir Nielsens í kafla 1.3.3 ) heldur geti lesandi snúið aftur og aftur í textann, hafi hann áhuga á að skoða hann betur, alveg eins og menningarlega sinnað fólk heimsækir sömu söfn aftur og aftur og sér oftast eitthvað nýtt. Þetta eðli stiklutexta gerir hann m.a. ólíkan texta á pappír (bók eða grein)  sem menn lesa oftast frá upphafi til enda.

Í grein Mingantis kemur líka fram að stiklutexti er óháður tíma og rúmi eða altént er þar bæði tími og rúm sveigjanlegt. Tímaröð er ekki til í stiklutexta, vegna þess að lesandinn getur lesið um atburði í hvaða röð sem er. Þar er ekkert til sem heitir upphaf og endir. Sömuleiðis gerist stiklutexti ekki í tilteknu rými/rúmi. Ekki er ákveðin atburðarás í stiklutexta (af því lesa má hann í hvaða röð sem er og stundum fer mörgum sögum fram samtímis). Einnig má benda á að textinn hefur mörg lög. Um það fjallar Hanjo Berressem sérstaklega í grein sinni um grannfræði stiklutexta („The Topology of Hypertext“) og segir að í stiklutexta renni yfirborð og dýpt saman. Að vísu lítur stiklutexti, við fyrstu sýn, út fyrir að vera yfirborð á mörgum lögum texta, þar sem hægt er að kafa misdjúpt. En strax og farið er niður í dýpra lag textans er það orðið nokkurs konar yfirborð. Þegar textalög eru opnuð og leggjast hvert yfir annað er ekki lengur hægt að tala um yfirborð og dýpt  - að þessu leyti er stiklutexti sama eðlis og Möbíusarborði;  ekki er hægt að ákvarða hvað eru innri og hvað ytri lög textans. [12]  Þetta kallar Heimir Pálsson að „senda notandann ... á djúpið“ [13] en það samrýmist vissulega líkingunni við skipstjórnarhnit sem felst í orðunum „Cybertext“ og „Cybernetics“ (sbr. kafla 1.1).

Loks er nefnt í grein Minganti að í skáldverki sem er stiklutexti er unnt að tjá hugmyndir án orða, eða fara út fyrir mörk tungumálsins. Þessi hugmynd er þó ekki skýrð, en ég reikna með hann hafi myndir og hljóð, önnur en málhljóð, í huga.

Af misljósum greinum og staðhæfingum bókmenntafræðinga um eðli skáldverka sem stiklutexta má draga eftirfarandi saman:

1.3.3 Notkun og hönnun vefsíða
Stiklutexti varð ekki algengur að ráði fyrr en vefurinn varð til 1991. Vefsíður (skjöl á vefnum) eru ekkert annað en stiklutexti. Um sögu vefsins sjálfs verður ekki fjallað hér en látið duga að segja að urmull nýrra vefsíðna verður til á degi hverjum. Eftir því sem magn vefsíðna eykst verður æ mikilvægara að ota sínum tota á vefnum; það þýðir lítið að hanna vefsíður ef enginn les þær eða veit af þeim. Þess vegna er lagt æ meir kapp á að rannsaka hvernig menn nota vefinn og hvernig best sé að byggja upp vefsíður eða heilu vefsetrin (web-sites).

 Jakob Nielsen, sem til skamms tíma var ritstjóri vefseturs Sun Microsystems, hefur unnið að rannsóknum á notkun vefsins síðan 1994. Svo merkilegt sem það nú er virðist notkun/lestur fólks á vefsíðum lítið hafa breyst frá 1994 til 1997. Niðurstöður sem eru sameiginlegar úr rannsókn Nielsens 1994 og 1997 eru:

Af nýjungum sem komu fram eftir 1994, s.s. hreyfimyndir, rammar og forrit sem keyra á miðri síðu, telur Nielsen fátt til bóta. Ég er ósammála honum um þetta, enda tel ég að kenningar hans miðist fyrst og fremst við síður markaðs- eða upplýsingafyrirtækja, sem menn heimsækja til að fá upplýsingar hratt og auðveldlega. Það er ekki hægt að alhæfa svona um hönnun vefsíðna fremur en hægt er að alhæfa um eina rétta uppröðun hluta sem eigi að gilda jafnt um lager, vörusýningu og listasafn, svo dæmi sé tekið. Hönnun vefsíðu verður auðvitað að taka mið af væntanlegum notendum.  Einnig tel ég að lesendur vefsíðna hafi mismunandi smekk eftir aldri.  Ég tel að unglingar séu t.d. miklu meir á höttunum eftir fallegu útliti, enda er sú kynslóð sem nú er á unglingsaldri alin upp við myndmál og leggur því annað mat á vefsíður. Því miður get ég ekki bent á neinar kannanir þessu til staðfestingar en byggi mat mitt á eigin reynslu af kennslu unglinga.

Nielsen hefur skrifað aðra grein um það hvers vegna 79% af notendum vefsins renni augum yfir textann fremur en að lesa hann. Hann nefnir nokkrar ástæður fyrir því, sem eru einkum:

Það þreytir augun að lesa af skjá. Auk þess les fólk fjórðungi hægar af skjá heldur en af pappír. Fólk er vant því að vera virkt þegar það skoðar vefsíður, þ.e. að flakka sífellt  fram og aftur. Ofboðslegt magn vefsíðna verður til þess að fólk vill skoða frekar en lesa. Loks er líf nútímamannsins það erilsamt að fólki finnst það einfaldlega ekki hafa tíma til að hanga yfir einni síðu og lesa hana frá orði til orðs. [15]

Perry Hewitt, aðalritstjóri vefseturs hugbúnaðarfyrirtækisins Lotus  (Lotus Development Corporation),  fjallar um það hvernig megi koma til móts við þá staðreynd að fólk les ekki á vefnum, heldur rennir augum yfir textann og vafrar um vefinn. Hann nefnir dæmi um fréttahluta eigin síðu og segir að áherslan sé æ meiri á stutta texta (smærri búta í mjórri dálkum). Að auki verði lesandinn að geta nálgast sömu sögu á mismunandi stigum. Það er hægt að lesa textann í heild; lesa bara fyrstu efnisgrein til að ná meginatriðinu;  eða renna augum yfir feitletraðar fyrirsagnir - og afla upplýsinga á áhrifaríkan hátt á hvern veginn sem er.[16]

Nielsen nefnir að í rannsókn sinni 1994 hafi komið í ljós að einungis 10% notenda skrunuðu niður vefsíðu til að leita krækja sem ekki voru sýnilegar í fyrstu skjáfylli. Nýrri rannsóknir benda til þess að þetta hafi breyst, sennilega eftir því sem fólk vandist vefnum, og nú skruna flestir notendur þegar þess þarf. Þó er enn einhver hópur sem aldrei skoðar nema eina skjáfylli. Þess vegna mælir Nielsen með því að heimasíður eða stýrisíður (navigation pages) séu hannaðar sem ein skjáfylli fyrir meðalstóran skjá.[17]

Nielsen segir að vegna þess að lesendur kíki oftast á upphaf síðunnar sé nauðsynlegt að þar sé að finna aðalatriði textans. Því á að skrifa vefsíður eins og „öfugan pýramída“, þannig að niðurstaðan eða aðalatriðið komi fyrst, en nánari umfjöllun síðar. Þetta snið hefur löngum tíðkast í blaðamennsku en er líka nauðsynlegt í vefsíðugerð. Nielsen segir:  „Hver síða ætti að vera byggð eins og öfugur pýramídi, en verkið sem heild ætti að líta út sem fjöldi pýramída fljótandi um í sýndarheimi fremur en hefðbundin „grein.“ [18] Hann nefnir gott dæmi um fréttasíðu sem er byggð upp sem öfugur pýramídi. Þar hefst hver frétt með útdrætti í einni efnisgrein. Krækt er í fréttina í heild og ennfremur er krækt í ítarlegt bakgrunnsefni. [19]

Eftir því sem notkun fólks á vefnum er rannsökuð frekar verða til ýmsar kenningar um hvernig byggja á upp vefsíðu og tryggja gott aðgengi að upplýsingum, líkt og rakið hefur verið hér að framan. Þörf verður fyrir umsjón með vefsíðum, eða ritstjórn. Svona rekur Perry Hewitt  hvernig stefnur og straumar í vefsíðugerð hafa verið:

1. Fyrsta stig vefsins einkenndist af þróun tækninnar. Eftirsóttustu vefarar/vefgerðarmenn (Web professionals) voru forritarar.
2. Annað stig vefsins einkenndist af þörf fyrir góða hönnun. Það var ekki nóg að gera vefsíðu heldur varð hún líka að líta vel út.
3. Á þriðja stigi vefsins var aðaláhersla á innihald/efni (content). Fyrirtæki sáu sér leik á borði til að koma til móts við óseðjandi þörf notenda fyrir upplýsingar. Þau komu alls kyns fréttabréfum og kynningum á framfæri. Mikilvægi þeirra sem semja innihald (content developers) - sem áður voru kallaðir höfundar - jókst mjög.
4. Nú er vefurinn kominn á fjórða stig. Fyrirtæki leggja æ meiri áherslu á samhengi (context). Nú þarf að skipuleggja vefsíður á sambærilegan hátt og hefur löngum tíðkast í prentmiðlun, þ.e.a.s. ráða ritstjóra. [20]
 

1.3.4 Samantekt
Draga má saman það sem komið hefur fram hér á undan og segja að lögmál stiklutexta séu:
Stiklutexti (þ.m.t. vefsíður) er sveigjanlegur í rúmi og tíma því hann myndar vef en ekki röð. Vefsíður eiga að vera stuttar og þær á að skrifa á sama hátt og fréttir í dagblaði (líkt og „pýramída á hvolfi“) en krækja svo í fyllri texta. Lesandinn ræður hvernig og í hvaða röð hann les síðurnar. Hægt er að nota hljóð og myndir (ekki bara texta) en vefsíða verður að hlaðast hratt inn í vefsjá notandans.

[2. kafli]    [Efnisyfirlit]