Fjölkyngi í Egils sögu

Hér á eftir eru rakin nokkur dæmi um fjölkyngi í Egils sögu.

Egill er staddur á dísablóti heima hjá Bárði í Atley. Bárður og Gunnhildur drottning eru þar einnig og eitra fyrir Agli. Þau setja eitur í ölið hans. Egil grunar að ekki sé allt með felldu og dregur hníf sinn úr slíðrum og sker í lófa sinn. Tekur hann svo hornið sem ölið er í, ristir á það rúnir og nuddar blóðinu á það. Síðan kveður hann vísu og hornið sprakk.

Egill leggur álög á jarðir sem Björn hersir hafði átt. Hann fer með þulu sem segir að allir þeir sem nýti jarðirnar, hvort sem er til leigu eða annarra nytja, brjóti með því lög, rjúfi grið og baki sér reiði goðanna.

Egill fer með ákvæðavísu gegn Eiríki konungi og Gunnhildi drottningu. Í vísunni ákallar Egill goðin og biður landás að leggja fæð á Eirík sem virðir þinghelgina að engu.

Egill reisti níðstöng gegn Eiríki konungi og Gunnhildi drottningu. Hann tók hrosshöfuð og setti það á stöng. Svo mælti hann að landvættum (þeim sem vernda landið) skyldi líða illa uns konungshjónin færu frá.

Gunnhildur drottning galdrar að Egill komi til sín. Hún eflir seið og lætur seiða að Egill haldi ekki ró sinni á Íslandi fyrr en hún sé búin að sjá hann.

Á Gulaþingi skorar Egill Atla hinn skamma á hólm. Í hólmgöngunni var sverð Egils bitlaust því að Atli hafði lagt álög á vopn Egils. Egill kastar frá sér vopnum, hrindir Atla og bítur hann á barkann.

Egill er hjá Þorfinni í Eiðaskógi. Þar liggur dóttir Þorfinns veik. Egill lætur lyfta stúlkunni úr rúminu, leggur hrein klæði undir hana, svo rannsakar hann rúmið og finnur þar hvalstákn með rúnum. Egill les rúnirnar, tálgar þær svo af og lætur þær í eldinn. Síðan lætur hann viðra klæðin er hún hafði haft. Fer Egill svo með vísu, ristir nýjar rúnir, leggur þær undir kodda hennar og við þetta batnar stúlkunni.





Laxdæla Snorra Edda Snorri Sturluson