Konur í Laxdælu

Konurnar sem koma fram í Laxdælu skipta miklu máli. Sagan byrjar á því að segja mjög nákvæmt frá Unni djúpúðgu, ættmóður mikilvægs fólks í Laxdælu.

Unnur djúpúðga er ennþá mjög ung er hún verður ekkja. Hún tekur þátt í ferð föður síns en eftir að sonur hennar er drepinn í útlöndum tekur hún sjálf stjórnina og stjórnar skipssmíði og fer til Íslands ásamt 20 mönnum, meðal annars barnabörnum sínum. Hún hefur mikil völd. Þegar þau koma í Breiðafjörð nemur hún land um alla Breiðafjarðardali og verður það sögusvið Laxdælu. Þetta landnám er einnig mjög einkennandi fyrir vald og stórlæti hennar. Hún deyr mjög virðulegum dauðdaga í brúðkaupsveislu yngsta sonarsonar síns.

Konan sem lætur söguna ganga áfram er Þorgerður, sonardóttir Unnar djúpúðgu. Hún giftist tvisvar og fæðir tvo stráka sem heita Höskuldur Dala-Kollsson og Hrútur Herjólfsson, en þeir koma mikið við sögu. Ekki er mikið sagt um skaplyndi Þorgerðar.

Næsta áberandi kona er Jórunn sem var gift Höskuldi Dala-Kollssyni. Hún var mjög vitur og vel að sér en frekar skapstór. Jórunn fæddi Höskuldi mörg hress börn sem koma seinna við sögu. Sambúð þeirra verður frekar erfið er Höskuldur kemur heim úr utanlandsferð og með honum kemur ambáttin Melkorka. Jórunn sýnir nú stolt og gefur ekki eftir fyrr en Melkorka er flutt á annan bæ.

Melkorka er mjög sérstök kona. Hún er af Írakonungsætt, sem kemur seinna fram. Fyrst virðist hún vera mállaus ambátt sem virkar mjög sterkt á karlmenn svo að eigandi hennar vill helst ekki selja hana og Höskuldur borgar þrefalt verð til að fá hana. Hún fæðir Höskuldi barn er Ólafur pá hét og var hann einnig mjög sérstakt barn. Melkorka er dóttir Írakonungs eins og kemur fram, þegar Höskuldur kemst að því að hún er ekki mállaus. Hún hefur samt áhyggjur af syni sínum og gerir mikið til að hann komist til Írlands og geti sannað ætterni sitt.

Ólafur kvænist seinna Þorgerði Egilsdóttur og er hægt að segja um hana að hún var mjög viljasterk og hafði mikil áhrif, hjá föður sínum og einnig í hjónabandi. Byrjar það með því að hún er spurð hvort hún vilji giftast Ólafi og segir hún að hún sé miklu meira virði en að giftast ambáttarsyni. En getur Ólafur sæst við hana með því að tala við hana sjálfur og verður það mjög gott hjónaband. Hún fæðir Ólafi mörg börn, meðal annars Kjartan, uppáhaldsbarn sitt, og hún tekur líka vel við Bolla, fósturbarni sínu, sem er hálfbróðursonur Ólafs pá. En skapharka, jafnvel fjandskapur hennar, birtist seinna þegar hún eggjar bræður Kjartans til að drepa Bolla. Hún fer sjálf með í þá ferð og skipar mönnum að höggva hausinn af Bolla sem sýnir hvað hún hafði mikil völd yfir fólki og hvað skap hennar er mikið.

Er nú komið að því að skrifa um Guðrúnu Ósvífursdóttur, sem er eiginlega aðalpersóna í sögunni, ástæða ósættis fóstbræðra og mikilvæg í mörgum atriðum.

Bara 15 ára gömul dreymir Guðrúnu furðulega drauma og ræður Gestur frændi þá fyrir hana. Hann segir að hún muni giftast fjórum sinnum og verða þrisvar sinnum ekkja. Sem ung kona telst hún vera fegursta og myndarlegsta konan sem óx upp á Íslandi, kurteis og örlynd. En með árunum varð hún æ frekari, skapmikil og viljasterk. Hún giftist fyrsta manni sínum að ráði föður síns en svíkur hann og skilur við hann því hún kynntist öðrum manni. Einmitt þá sýnir hún mikla hæfileika til að fá fólk til að gera henn ar vilja. Þeir hæfileikar leiða fyrst til skilnaðar hins mannsins við konu sína en síðar til bana Kjartans, sem hún var fyrr ástfangin af. Hún notar mjög sniðugar aðferðir til að eggja fólk til að lúta sínum vilja, sýnir hún það þegar hún fær bræður sína og Bolla, þriðja eiginmann sinn, til að drepa Kjartan og seinna þegar hún fær Þorgils og syni sína til að hefna Bolla.

Á heildina má segja að hún hafi verið mjög vitur kona, viljasterk og klár og alls ekki má gleyma að hún var mjög myndarleg.

Nú er bara eftir að segja svolítið um Hrefnu, konu Kjartans Ólafssonar. Hrefna var talin vænst kvenna á Norðurlandi og mjög vinsæl. Hún reynist Kjartani mjög góð kona en hefur hún frekar lítið að segja í hjónabandinu. Hún deyr skömmu eftir dauða Kjartans, úr sorg.

Þetta eru mikilvægustu konurnar í Laxdælu. En einnig kemur fram ein kjaftakerling, sem hefur áhrif á dauða Kjartans og ein kona er kölluð karlkona. Þótt henni sé illa borin sagan í upphafi er hún vinkona margra og oft fara menn í heimsókn til hennar til að skemmta sér.


Egils Saga Snorra Edda Snorri Sturluson