Daily Archives: August 30, 2008

You are browsing the site archives by date.

Uppvakningur í bloggheimum

Ég hef tekið þrjár atrennur að þessari færslu en undanfarið hefur tölvuskömmin ákveðið að endurræsa sig í hvert sinn sem ég hef skrifað eina efnisgrein í bloggfærslu. Þar með er allt týnt og tapað í það sinnið. Elsku maðurinn féllst á að skoða tölvuskinnið og reyna að sjúkdómsgreina (stór hluti tölvukunnáttu minnar lenti í Óminninu mikla) – kom í ljós að sambúðarerfiðleikar tveggja vírusvarnarforrita höfðu ginnt notandann til að slökkva á eldvegg Windaugans og var nú leiðin greið fyrir alls kyns kvikindi sem ekki teljast veirur eða ormar. Ég ímynda mér að þetta séu stafrænar marflær, frænkur þeirra silfurskottur og ein og ein silaleg grápadda. Maðurinn lagðist yfir spyware og addaware og allskyns – ware forrit, gerði svo góð kaup og nú ætti að vera búið að kemba alla óværuna úr minni tölvu. Þessi færsla sem ég minntist á í upphafi er auðvitað næsta efnisgrein …

Ég hef sumsé horft sorgmædd á litla teljarann minn (neðst á hægri hliðarrein), sem sýnir hvað ég er orðin ofur-viðkvæmur bloggari. Það er af sem áður var, þegar tölur dagsins sýndu 200 – 250, og ég var viss um að þessir gestir læsu bloggið mitt en væru ekki smelli-smell-mogga-bloggara-vinir sem kíkja og smella umsvifalaust til baka.

Þegar maður (í þessu tilviki kona) hefur hætt bloggun með háværum yfirlýsingum og flugeldasýningu (vegna þess að þessi kona nennti ekki að eiga yfir höfði sér nagg og níð og jafnvel tillögur að sjálfsvígi, frá einhverjum farandi minnipokamönnum) … þegar þetta hefur verið haft svona til að halda friðinn, þá er doldið erfitt að byrja að blogga aftur. En hafi Blefken haft rétt fyrir sér um íslenskar afturbatapíkur þá get ég gerst afturbatabloggynja, risið úr öskustó, vaknað upp frá bloggdauðum o.s.fr.

Sumsé er ég blogg-uppvakningur frá og með nú. Sníkjubloggandi systkini eru boðin velkomin á bloggvöllinn!

P.s. Í lokin bendi ég á krækjuna sem ég setti í blogg Vilborgar, Líf í varurð. Þetta er blogg sem ég mæli mjög með og hef í rauninni alltof lítið lesið sjálf.