Category Archives: Óflokkað

Hvert var mótífið/hvatinn?

Þessi færsla fjallar um lekamálið margumrædda.

Ég les mikið af allra handa morðbókmenntum, frá Íslendingasögum til nútímareyfara. Í Íslendingasögunum er yfirleitt klár ástæða þess að menn eru drepnir en morðsögur nútímans snúast um leitina að morðingjanum. Í þeim síðarnefndu er oft meginatriði í rannsókn og lausn málsins að komast að því hver var hvatinn að baki morðinu: Hver hagnaðist á að drepa viðkomandi?

Umfjöllun netmiðla og bloggara um lekamálið er sjálfsagt orðin álíka löng og Njála, væri hún prentuð út. En fáir hafa spurt þessara spurninga: „Af hverju var skjalinu lekið til fjölmiðla?“ og „Af hverju var skjalinu breytt áður en því var lekið til fjölmiðla?“.

Einhverjir hafa gert því skóna að fréttir fjölmiðla af þessari börnuðu samantekt úr Innanríkisráðuneytinu (sem óvart var lá á opnu drifi þar innanhúss – en samt var það kannski hinn dularfulli B sem lak henni) hafi átt að sverta mannorð Tonys Omos því samtökin No Borders hefðu ætlað að mótmæla brottvísun hans út landi sama dag og fréttirnar birtust. Finnst einhverjum í alvöru líklegt að Innanríkisráðuneytið hafi haft áhyggjur af einhverjum mótmælum, algeng sem þessi smá-mótmæli eru? Tony Omos var svo lítið peð í flóttamannafjöldanum sem vísað er úr landi að ekki einu sinni Eva Hauks vissi sérstök deili á honum daginn fyrir mótmælin og er hún þó mestur áhugamaður um flóttamenn á Íslandi.

Nei, skýringin á því af hverju skjalinu var lekið til fjölmiðla hlýtur að vera önnur. Í ljósi þess hvernig mál hafa æxlast síðan er ekki óvitlaust að láta sér detta í hug mótífið að koma höggi á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, hamra svo járnið viðstöðulaust uns líkist engu öðru en ógeðslegu einelti. Viðbótarklausan, þessi sem bætt var við samantektina sem lögfræðingur Innanríkisráðuneytisins samdi, er einmitt vel til þess fallin til að skaffa óteljandi fyrirsagnir með stríðsletri í DV og miðlum af sama toga ásamt ómældri hneykslun hjarðarinnar sem getur bara lesið svoleiðis fyrirsagnir og tuttugu-orða-fréttir.

Síðan hafa netmiðlar og bloggarar gætt þess vandlega að málið leggist ekki í þagnargildi. Fundnir eru leka-sökudólgar en sumt dregið til baka þegar meintur sökudólgur hótar kæru; það er lagst yfir gamlan dægurlagatexta og hann túlkaður af slíkri dýpt að sjálf Julia Kristeva hefði ekki gert betur; þegar fólk neitar ekki fabúleringum slúðurmiðla jafngildir það játningu sektar (og skiptir engu þótt sama fólk geti ekki tjáð sig því málið er enn í rannsókn); ættir fólks sem mögulega gæti tengst þessu máli eru raktar lengst aftur við fólk sem mögulega gæti unnið að rannsókn þess (eða bara verið í sjálfstæðiflokknum) o.s.fr. Núna loksins eru einhverjir farnir að velta fyrir sér mótífinu/hvatanum og ævintýralegar samsæriskenningar líta dagsins ljós, hver annarri ótrúlegri; Hver hagnast á útreið Hönnu Birnu?

 

Tony Omos er öllum löngu gleymdur, hann er eins og hver annar snærisþjófur af Skaganum að því leytinu. Næsta skref hlýtur að vera að athuga hvort Hanna Birna flýtur á vatni eða hvort hún sekkur (til vara mætti vigta hana á vogarskál á móti önd). Ekkert annað en nornapróf getur úr þessu friðað þann almenning sem fylgist af áhuga, grimmd og gullfiskaminni með lekamálinu mikla.

Sigríður Magnússon, braskið, betlið og meinta kvenréttindabaráttan

Ég er alveg að gefast upp á að reyna að skrifa um Sigríði blessunina. Eftir nokkrar atrennur sé ég að textinn er yfirleitt of langur, alltof mikið af heimildatilvísunum og útkoman þannig að sæmdi sér prýðilega í meistararitgerð en síður á bloggi. Svo hér er lokaatrennan þar sem farið er hratt yfir sögu og tilvísunum sleppt – í staðinn lista ég upp helstu heimildir í lok textans.

 

Hvernig æxlar maður sér fé af ríkum Englendingum?

Sigríður hafði ágæta fyrirmynd þar sem eiginmaður hennar var. Svo sem getið var í síðustu færslu hafði Eiríkur talað auðugan Breta (Wales-búa) inn á að borga stofnkostnað við háskóla á Íslandi, hafði raunar loforð fyrir gífurlegu fé til þess. Í fínna kvenna fansi sem Sigríður kom sér í eftir að Eiríkur fékk bókavarðarstöðuna í Cambridge var ekki alveg jafn feitan gölt að flá. Þó eignaðist hún vinkonu sem gaf henni 200 pund, sem var dágóður peningur (til samanburðar má geta þess að far til Íslands frá Bretlandi kostaði fram og til baka á bilinu 5-8 pund og að ferðabókum frá 1878 og 1889 ber saman um að heildarkostnaður við ferðalag um Ísland, uppihald, hestaleigu, fargjald o.s.fr. væri um 20 pund). Sigríður fékk loforð fyrir þessu fé í upphafi árs 1883 en þegar féð var afhent 1884 hét það að gjöfin væri minningargjöf um systurdóttur hennar sem lést í árslok 1883.

VinaminniFyrir þessi 200 pund lét Sigríður reisa stórhýsi í Reykjavík, á lóðinni þar sem Brekkubær hafði staðið, og kallaði Vinaminni. Húsið stendur enn og er nr. 3 við Mjóstræti, það var byggt 1885. Eftir það hafði hún öruggan samastað í Reykjavík á sínum sumarferðum og gat hætt að setjast upp hjá systrum eða móður Stephensen landshöfðingja, svo sem hún hafði eitthvað gert af enda varla hægt að ætlast til að svo fín frú, sem Sigríður varð af einbeitni, byggi í torfkofa hjá mömmu sinni þá hún vísiteraði Reykjavík á sumrin.

Myndin af Vinaminni nýbyggðu er úr Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins. Litla myndin krækir í síðu með nánari upplýsingar um ljósmyndina og húsið, þar er og hægt að sjá stærri útgáfu af henni.

Eftir að hafa verið ritari í nefnd sem stóð fyrir mikilli fjársöfnun fyrir bágstadda Íslendinga haustið 1882 (raunar bar Íslendingum sjálfum ekki sama um hversu eða hvort þeir væru bágstaddir og söfnunarféð nýttist auk þess illa vegna skipulagsleysis, sem Eiríkur Magnússon bar líklega ábyrgð á) hlýtur Sigríði að hafa verið vel ljóst að fá mætti enskt hefðarfólk til að reiða fram ansi mikið fé ef málstaður væri góður; Nefndin var nefnilega skipuð afar háttsettu fólki og söfnunin gekk svakalega vel þar til aðrir Íslendingar en þau hjónin fóru að láta í sér heyra.

Svo Sigríði datt í hug góður málstaður: Bágar aðstæður íslenskra kvenna til menntunar.

 

Að koma málstaðnum á framfæri, ota sínum tota og afla fjár

Áður hefur verið sagt frá þátttöku Sigríðar í Iðnaðarsýningunni í Reykjavík 1883 og hvernig hún hóf í kjölfarið á henni að sýna íslenskar hannyrðir og krítaði liðugt um vinsældir þeirra meðal bresku konungsfjölskyldunnar. Þessum hannyrðasýningum hélt hún áfram og bætti íslenskum silfurmunum við. Forsendan fyrir að eitthvað þætti í íslensku silfurmunina varið var auðvitað að þeir væru gamlir, verðmætar fornminjar, því víravirki og önnur íslensk silfursmíð skar sig ekkert úr því sem víða tíðkaðist.

Hún sýndi þessar vörur víða (líklega hvar sem hún gat) en frægastar eru sýningar hennar á Alþjóðlegu heilsusýningunni í London 1884, Iðnsýningunni í Edinborg 1886, Ensk-dönsku sýningunni í London 1888 og Heimssýningunni í Chicago 1893. Þetta voru meira og minna sömu hannyrðirnar sem hún sýndi árum saman og í viðbrögðum við gagnrýni landa sinna bar hún yfirleitt fyrir sig hversu velættaðar konur hefðu ofið eða prjónað þessa muni eða, til vara, systur og móðir hennar sjálfrar.

Jafnframt þessum sýningum stundaði Sigríður verslun og viðskipti í nokkrum stíl, líklega frá 1883. Hún reyndi að opna verslun með íslenska muni bæði í Cambridge og Manchester, fékk íslenskar konur til að vinna fyrir sig, t.d. baldýra (en greiðsla frá Sigríði fyrir svoleiðis fékkst bara með eftirgangsmunum), flutti ódýrt enskt dót til Íslands og seldi með góðri álagningu o.s.fr. Brambolti Sigríðar virðist þó lítill gaumur hafa verið gefinn fyrr en á Heimssýningunni í Chicago 1893 og verður fjallað um harðvítugar deilur um það hér á eftir.

Auk sýningahalds og viðskipta gerði Sigríður nokkuð að því að halda fyrirlestra um Ísland og bág kjör Íslendinga og alveg sérstaklega bág kjör íslenskra kvenna.

Kvennaskólinn í Vinaminni

Sigríður fékk þá stórkostlegu hugmynd að opna kvennaskóla í stórhýsi sínu í Reykjavík, Vinaminni. Hugmyndin rímaði líka ágætlega við sýningar og safnanir og fyrirlestra hennar en síður við þá staðreynd að nokkrum húsum fjær var starfandi Kvennaskólinn í Reykjavík (og nokkrir slíkir til utan Reykjavíkur). Kvennaskóli Sigríðar tók til starfa haustið 1891 en starfaði einungis einn vetur. Skólastúlkur voru 15, þar af 5 í heimavist í Vinaminni.

Í samanburði við það nám sem boðið var upp á í Kvennaskólanum í Reykjavík á sama tíma er ómögulegt að sjá neina sérstöðu í kvennaskóla Sigríðar. Í báðum skólunum var kennd sama handavinnan (kúnstbróderí, baldýring, fatasaumur o.þ.h.) og sömu bóklegu greinarnar (íslenska, reikningur, landafræði, enska, danska o.fl.). Ef eitthvað var þá var framboð á bóklegum greinum talsvert meira í Kvennaskólanum í Reykjavík en þeim í Vinaminni. Og verðið sem námsmeyjar greiddu var nákvæmlega hið sama: 1 kr. á dag fyrir þær sem voru í heimavist, minna fyrir Reykjavíkurstúlkur sem sóttu tíma í skólanum.

Það er erfitt að sjá nokkra rökræna ástæðu fyrir þessari kvennaskólastofnun Sigríðar E. Magnússon nema að hún þjónaði ágætlega þeim málstað sem hún hafði valið sér til að réttlæta sýningarþörf og aðra athygli sem hún vildi gjarna njóta. Auk þess var þessi kvennaskóli gullvæg ástæða til samskota ríkra Englendinga, sem Sigríður nýtti sér óspart. (Fyrir því eru nægar heimildir þótt hún hafi á gamals aldri haldið því fram að hún hafi aldrei þegið neitt fé í samskotum heldur hafi unnið fyrir öllu saman með fyrirlestrarhaldi.)

 

Heimssýningin í Chicago 1893 og deilurnar um framlag og framferði Sigríðar þar

Sigr�ður, g�tar, Fr�ðaSigríður fékk inni með hannyrðasýningu sína og sýningu á íslenskum silfurmunum á þessari sýningu auk þess að fá að flytja fyrirlestur á fjölsóttu þingi kvennasamtaka sem haldið var í tilefni sýningarinnar. Að eigin sögn sat hún ævinlega hjá munum sínum, íklædd íslenskum búningi og sýndi hvernig skyldi spinna á rokk.

Á myndinni hér til hliðar er hún uppáklædd með gítar (eins og á flestum myndum af henni) en rokkinn vantar – í hans stað er hundurinn Fríða, mikið uppáhald þeirra Eiríks og Sigríðar enda myndin tekin löngu áður en hún fór til Chicago. Myndin er úr Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafns.

Íslendingar sem sáu sýninguna Sigríðar í Chicago voru vægast sagt ekki upprifnir. Bæði hannyrðir og silfur þóttu drasl og auk þess í meira lagi vafasamt að merkja silfurkeðjur þannig að önnur átti að hafa verið í eigu Jóns Arasonar og hin í eigu Snorra Sturlusonar. Körlunum (einkum þeim sr. Hafsteini Pjeturssyni og Matthíasi Jochumssyni) var svarað með því að þeir hefðu nákvæmlega ekkert vit á hannyrðum og upplýsingarnar um uppruna silfurkeðjanna hefðu fylgt frá upphaflegum eigendum sem væru einstaklega ráðvant fólk. En sú sem hún opnaði breiðsíðuna á var Mrs. J.T. Sharpe [Hólmfríður Stephensson, búsett í Chicago], íslensk kona sem gagnrýndi sýningu og staðhæfingar Sigríðar opinberlega. Í löngu svari Sigríðar var allt tínt til: Forsjárdeila sem tengdist ætt frú Sharpe, ættrakningar og mistök í ættrakningum, yfirlýsingar um að sumt af slekti Mrs. J.T. Sharpe væri nú ekki fínna en svo að það hefði grátbeðið Sigríði að reyna að koma sínu silfri í verð, að rangt hefði verið eftir Sigríði haft í dagblöðum vestra um ýmislegt, að Mrs. Sharpe hefði ekkert vit á íslenskum búningum o.s.fr.

Fyrir utan fyrirlesturinn hjá kvennasamtökunum hafði Sigríður nefnilega verið mjög dugleg að koma sér í viðtöl þarna vestra. Málflutningur hennar var yfirleitt á sömu leið: Fyrst stutt rakning á landnámi og tignum uppruna Íslendinga, síðan um bág kjör í þessu landi elds og ísa, síðan um sérstaklega bág kjör kvenna, sem neyddust til að nema allt sem þær lærðu svo til einungis af móður sinni því engir skólar væru til fyrir þær, síðan um hetjulega baráttu Sigríðar sjálfrar til úrbóta á kjörum kvenna, bæði í að koma hannyrðum þeirra í verð og svo að koma á fót og reka kvennaskóla í þessu guðsvolaða landi. Silfursafn sitt hefði hún eignast með því að taka við allt að 700 ára gömlum ættargripum bláfátæks fólks sem neyddist til að biðja Sigríði að selja það á Englandi til að eiga fyrir salti í grautinn (öllu heldur brauði, að sögn Sigríðar) og af litlum efnum hafði hún sjálf reynt að kaupa og borga fyrir sem mest af því í þeim tilgangi að skila ættargripunum aftur eða gefa þá á Fornmenjasafn Íslendinga. Jafnframt kom fram í þessum viðtölum að nú neyddist Sigríður til að selja sitt silfursafn (ég veit að þessar staðhæfingar hennar standast illilega á en það gerir líka margt annað í málflutningi hennar) til að geta rekið sinn kvennaskóla í landi þar sem stúlkum gæfist enginn annar kostur á menntun.

Eitthvað var um að fólki hér uppi á Íslandi blöskraði þessar staðhæfingar og hefði á því orð í blaðagreinum. Amrísku blöðin voru hins vegar full aðdáunar á þessari duglegu konu, hennar fórnarlund og brautryðjandastarfi.

Sigríður reyndi svo að selja sitt silfursafn ýmsum söfnum vestra en tókst ekki enda verðlagði hún það ákaflega hátt. (Hún hafði áður reynt að selja sama safn í Noregi og Svíþjóð án árangurs). Á gamals aldri hélt Sigríður því fram að einhver dularfullur útsendari landa hennar sem vildu eyðileggja fyrir henni, af tómri illgirni að því er virðist, hafi komið í veg fyrir að hún gæti selt Metropolitan Museum í New York safnið sitt. Í Ameríku dvaldi Sigríður svo í sjö ár og virðist hafa verið á framfæri Eiríks eiginmanns síns allan þann tíma – sjálf hélt hún því fram að hún hefði unnið fyrir sér með fyrirlestrarhaldi.

Sigr�ður gömul

Þessi mynd er áreiðanlega tekin í Ameríkudvöl Sigríðar, sjálfsagt í tilefni fyrirlestrar. Hana má sjá stærri í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafns – myndin krækir í upplýsingasíðuna þar. Sé gert ráð fyrir stafavillu í upplýsingum um myndina þá hefur Sigríður haldið þennan fyrirlestur í skóla í Pensylvaníu sem sérstaklega einbeitti sér að kennslu amerískra frumbyggja (indjána), með sérdeild fyrir stúlkur. Sem sjá má á myndinni er Sigríður klædd í íslenska búninginn, með gítarinn við hönd og ljómandi falleg mynd af Jóni Sigurðssyni til hliðar (ef mér ekki skjátlast), allt huggulega skreytt með bandaríska fánanum.

Eftir lát Sigríðar fékk Þjóðminjasafnið að velja úr silfursafninu til kaups og keypti nokkuð af gripum úr kvenbúningum. Fylgir sögu að suma hafi hún keypt af gullsmiðum sem hefðu fengið þá sem brotasilfur í smíðaefni og hlutirnir séu því margir ekki mjög gamlir. Hvað varð af hannyrðasafninu veit ég ekki nema að fingravettlingar Guðrúnar, móður Sigríðar, eru á Þjóðminjasafninu.

Það skýtur dálítið skökku við að nú skuli e.t.v. í bígerð að dubba upp hana Sigríði Magnússon, konu sem virðist hafa prjónað duglega við sannleikann, sveigt hann og teygt á ýmsa vegu eftir því hvernig hann þjónaði best að koma henni sjálfri á framfæri, sem einhverja baráttukonu fyrir kvenréttindum á Íslandi og sérstakan brautryðjanda í kynningu á land og þjóð í útlöndum!

Heimildir

Bækur:

Aðalsteinn Eiríksson. 1994. Saga skólans. Kvennaskólinn í Reykjavík. Almenna bókafélagið, Reykjavík, s. 89-206.

Guðrún Borgfjörð. 1947. Minningar. Hlaðbúð, Reykjavík.

Guðrún P. Helgadóttir. 1994. Þóra Melsteð. Kvennaskólinn í Reykjavík. Almenna bókafélagið, Reykjavík, s. 7- 88.

Matthías Jochumsson. 1893. Chicagó-för mín 1893. Prentsmiðja Björns Jónssonar. Akureyri.

Mrs. Alec-Tweedie. A Girl’s Ride in Iceland. 1894 (önnur útgáfa, fyrst gefin út 1889). Horace Cox, Windsor House, Bream’s Buildings, E.C. LONDON.

N. L. van Gruisen.1879. A Holiday in Iceland. Elliot Stock. London.

Sigríður E. Magnússon. A Sketch of “Home-Life in Iceland.” 1894. The Congress of Women: Held in the Woman’s Building, World’s Columbian Exposition, Chicago, U. S. A., 1893. Ritstjóri Eagle, Mary Kavanaugh Oldham. Monarch Book Company, Chicago, s. 521-525.

Sigrún Pálsdóttir. 2010. Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847-1917. JPV útgáfa, Reykjavík

Stefán Einarsson. 1933. Saga Eiríks Magnússonar í Cambridge. Reykjavík.

Þór Magnússon. 1994. Kvensilfur frá Sigríði Magnússon. Gersemar og þarfaþing. Úr 130 ára sögu Þjóðminjasafns Íslands. Reykjavík, s. 160.

Greinar og fréttir:

Alvi. Slíkt eru kvinnubrögd. Føringatíðindi 1. feb. 1892, s. 2.

Auður Styrkársdóttir. 2012. “Mér fannst ég finna sjálfa mig undireins og ég var laus við landann”. Kvennabaráttan á Íslandi og alþjóðlegt samstarf. Saga. Tímarit Sögufélags L:1, s. 35-77.

Eiríkur Magnússon. [Bréf til ritstjóra]. Heimskringla 9. júní 1894, s. 2

Frá löndum. Heimskringla 24. nóv. 1894, s. 4.

Hafsteinn Pjetursson. Chicago-brjef. III.  Lögberg 25. október 1893, s. 1-2.

Jón Þórarinsson. „Frú Sigríður Magnússon, fulltrúi Íslands á friðarsamkomunni.“ [Og meðfylgjandi svar ritstjóra.] Ísafold 2. júní 1894, s. 127-128.

Kvennaskólinn í Vinaminni. Reykvíkingur. 21. janúar 1892, s. 51.

Kvennmenntunarvinur. Kvennaskólinn í Vinaminni. Ísafold 14. nóv. 1896, s. 314.

Páll Melsteð. Frú Sigríður Magnussen, fulltrúi Íslands á friðarsamkomunni. Ísafold 9. maí 1894, s. 97-98.

Sigríðr E. Magnússon. Kvennaskóli í Vina-Minni. Fjallkonan 1. sept. 1891, s. 140.

Sigríður E. Magnússon. Betra er seint en aldrei. Ísafold 22. jan. 1910, s. 15.

Sigríður E. Magnússon. Betra er seint en aldrei. Frh. Ísafold 2. feb. 1910, s. 24.

Sigríður E. Magnússon. Kvennaskólinn í Vina-Minni. Reykvíkingur. 14. sept. 1891, s. 36.

Sigríður Einarsdóttir [Magnússon]. Svar til sjera Hafsteins Pjeturssonar. Lögberg 20. des. 1893, s. 1.

Úr brjefi frá Chicago 12. ágúst. Ísafold 16. okt. 1893, s. 276.

Þ.P. [Þóra Pjetursdóttir]. Um frú Sigríði Magnússon og sýning íslenzkra hannyrða. Þjóðólfur 9. mars 1894, s. 46-47.

Greinar og fréttir í erlendum dagblöðum:

A True Philanthropist. The Davenport Daily Republican 11. nóv. 1890, s. 2.

Educational Echoes. The Reading Times 11. ágúst 1893, s. 2.

For Icelandic Girls. A School Soon to be Established for Their Higher Education. The New York Times 19. nóv. 1893, s. 13.

Her Aim for Iceland. Mrs. Magnussen is the object of some sharp criticism. Chicago Daily Tribune 6. des. 1893, s. 6.

Iceland Woman’s Enterprise. Pushed the Sale of Native Woolens to Support a School for Young Girls. The Brooklyn Daily Eagle 26. ágúst 1902, s. 8.

Icelandic Education. Mrs. Magnusson Tells of Her Efforts to Supply a Girls’ High School at Reykjavik. – Something of Icelandic Customs and Costumes. The Brooklyn Daily Eagle 15. nóv. 1896, s. 22.

Schools In Iceland. Mrs. Magnusson’s Reply to the Attack of Mrs. Sharp. The Inter Ocean 17. des. 1893, s. 29.

Women Tailors in Iceland. Wife of an English Professor Establishes a Novel School. Arkansas City Daily Traveler 14. des. 1896.

Wool of Iceland. It Is Finest and Strongest Possible and Is Carded and Spun by Women. The Brooklyn Daily Eagle 18. jan. 1902, s. 10.

Læknir um kukl

Sagan endurtekur sig og málflutningurinn gengur líka aftur sem sjá má af eftirfarandi dæmi. Feitletranir í texta eru mínar en skáletranir eru höfundarins, Jóns Hjaltalín landlæknis.

Þegar nú tala skal um það, hvernig menn eigi að fyrirbyggja eða verja sig fyrir þessum kvefsóttum, sem á þessari öld gjörast alltíðar, þá er svarið þetta: Flýtið ykkur, landar, að fjölga læknum, allt hvað kostur er á, því það megið þið vita, að allir hinir nýjari stjórnendur álíta það hið stærsta ríkidæmi, að hafa sem flesta og duglegasta lækna. Jeg meina þó engan veginn þar með, að það sje gagnlegast að fjölga sem mest homöopathiskum skottulæknum, eins og gjört hefir verið til þessa, og sem eru vorra tíma hneyxli, eins og þeir nú tíðkast hjer á Íslandi, og eigi annað fyrir að sjá, en þeir, ef þessu fer fram, eyðileggi alveg alla reglulega læknahjálp hjer á landi, og jeg hljóti þar af, og þeir sem mjer hafa fylgt, að hafa þá sorg, að sjá allt það, sem jeg hef barizt fyrir betri læknaskipun hjer á landi, líða undir lok. Það er annað en gaman, þegar jafnvel doctores philosophiae, fyrir utan alla smælingjana, fara að leggjast á eitt, til þess að koma því á, sem haldin er hin versta mótspyrna móti allri reglulegri læknahjálp. Það er von, þótt almenningur, sem fer eptir nafninu “læknir” villist á slíku, einkum þegar þeir heyra það framborið af lærðum mönnum. Eg hefi aldrei láð löndum mínum það, þótt þeir vildu fjölga læknum hjá sjer, því þess þurfa þeir sannarlega með; en hitt hefi jeg jafnan láð þeim, og lái jafnan, að þeir bæði í orði og verki halda með þessum “smáskammtafúskurum” sem aldrei geta kallast læknar, og leggja mjer þann þröskuld í veginn, sem bæði þeim og almenningi hefði átt að þykja mál komið að ryðja sem fyrst út vegi manns.

Þó jeg sje nú kominn alvarlega á hin efri árin, þá er kraptarnir eru vanir að hnigna, er mjer, Guði sje lof, enn nú eigi svo apturfarið, að eigi geti jeg borið hönd fyrir höfuð mjer eða embættisbræðra minna, þegar embættiskylda mín býður það, og læknisfræðinni, sem jeg alltaf hef elskað af hreinum hug, er misboðið af óvitrum og alls eigi mjer velviljuðum mönnum. Landar mínir verða því að kenna sjálfum sjer það, ef jeg sje mjer skylt, að færa þetta homöopathiska stríð út yfir pollinn, hvert sem helzt mjer sjálfum sýnist.

Jón Hjaltalín. Fáein orð um kvefsóttinaHeilbrigðistíðindi 11. tbl. 4. árg. 1879, s. 86-88

Dr. Svanur og hinir vantrúarfélagarnir

Ég horfði á Svan Sigurbjörnsson lækni í sjónvarpsfréttum um daginn, mér til ánægju því þetta er mesti myndarmaður, og skoðaði svo glærurnar hans (krækt er í þær neðst í þessum stutta pistli hér, á skodun.is) sem fylgdu fyrirlestrinum hans á Fræðadögum heilsugæslunnar. Vennmyndirnar á glærunum eru flottar. Þótt ég sé afar ósammála málflutningi Svans nennti ég ekki að mótmæla honum … ekki fyrr en núna þegar ég sá að félagar hans í Vantrú hnykkja á málflutningnum (sjá pistilinn Kuklfrelsi á vef Vantrúar). Það er langt síðan ég hef bloggast á við vantrúarfélaga og mér finnst soldið ljótt að afrækja þá því það er eiginlega enginn sem nennir að svara þeim núorðið. Ég bæti úr þessu núna.

Í málflutningi Svans gegn kukli eru nokkrar auðsjáanlegar gloppur. Helstar eru þessar:

* Hann virðist gera ráð fyrir að fólk sé almennt fífl/óvitar sem verði að hafa vit fyrir svo það fari sér ekki að voða. Mín reynsla af fólki er að flest er það skynsamt. Ég held að það sé hið besta mál að gera fólki betur kleift að nálgast upplýsingar um óhefðbundnar lækningar (kukl og hjálækningar, sem Svanur kýs að kalla þær), þá eru meiri líkur á að menn geti tekið upplýsta ákvörðun um mögulega gagnsemi slíkra lækninga við sínum kvillum. Forsendan fyrir frjálsum vilja er þekking og ég er viss um að við Svanur erum hjartanlega sammála um að frjáls vilji er eftirsóknarverður. (Við erum hins vegar líklega ekki sammála um hvenær hann eigi við, t.d. er ég ekki sammála því að leik- og grunnskólahald á aðventunni eigi algerlega að lúta vilja þeirra örfáu sem er í nöp við jólaundirbúning kristinna manna og Svanur virðist ekki sammála því að veikt fólk fái að velja sér lækningaraðferðir.)

* Svanur (og hinir vantrúarfélagarnir) ganga út frá því að skörp skil séu milli vísinda og ekki-vísinda, þar sem læknisfræði séu vísindi. Ritstjórn Vantrúarvefjarins segist gera þá einu kröfu að vísindaleg vinnubrögð ráði för þegar komi að heilsu fólks. Nú er margt í lækningum sem ómögulega er hægt að kalla vísindi í þeim skilningi að þar hafi vísindalegar aðferðir getað greint orsakir og eðli krankleika eða að læknismeðferð byggi á einhverju sem er vísindalega sannað.

Svo ég taki dæmi af þeirri læknisfræði sem ég hef helst einhverja innsýn í, þunglyndislækningum (sem eru hluti geðlækninga) þá hefur ekki verið sýnt fram á orsakir þunglyndis (þótt settar hafi verið fram ýmsar ólíkar tilgátur út í bláinn öldum saman – tuttugasta- og tuttugastaogfyrstaöldin þar ekki undanskildar), vísindaleg rök fyrir samsetningu þunglyndislyfja eru engin (þótt settar hafi verið fram tilgátur en síðan bakkað með þær) og virkni þunglyndislyfja umfram virkni lyfleysu mælist ekki svo marktækt sé nema í örfámennum hópi allra veikustu sjúklinganna.  Rökin fyrir lyfjagjöf (oft mismunandi blönduðum lyfjakokteilum) handa þunglyndissjúklingum eru klínísk reynsla viðkomandi læknis (mögulega stéttarinnar í heild ef menn eru duglegir að bakka hver annan upp). Aðalrök þeirra sem stunda óhefðbundnar lækningar eru einmitt að reynslan sýni að þær virki. Þá vaknar auðvitað spurningin, í ljósi málflutnings Svans og félaga, hvort reynsla geðlækna hafi miklu meira vægi en reynsla annarra þeirra sem brúka aðferðir sem ekki geta kallast vísindalegar.

Næsti kostur sem geðlæknar bjóða þunglyndum upp á þegar ljóst er að lyfin virka ekki hætis hót eru endurtekin raflost. Það er nákvæmlega ekkert vitað hvað endurtekin raflost gera við heilann; aðferðin var fundin upp við allt öðrum geðsjúkdómi (geðklofa) en þykir virka illa á hann; af reynslu veit ég að sjúklingum er ekki gefinn kostur á upplýstu samþykki fyrir þessari aðferð heldur einungis samþykki á grundvelli afar takmarkaðra og fegraðra upplýsinga. Skelfilegum afleiðingum sem þessi hrossalækning (til að gæta sannmælis tek ég fram að hún var samt upphaflega prófuð á svínum en ekki hrossum) getur haft er ekki haldið á lofti í heilbrigðiskerfinu.

* Svanur virðist gera ráð fyrir að sú þekking sem er viðurkennd í læknisfræði í dag sé hin eina rétta vísindalega þekking á lækningum. Hann virðist ekki gera sér grein fyrir því að hluti vísindalegra þekkingar í læknisfræði nútímans gæti þess vegna verið álitin bölvaðar bábiljur í framtíðinni. Annað eins hefur nú gerst í sögu læknisfræðinngar. Ég minni t.d. á þá tvo sem hafa fengið Nóbelsverðlaun fyrir merkilegar uppgötvanir í geðlæknisfræðum:

Walter-Jauregg fékk sín verðlaun 1927 fyrir þá merkilegu uppgötvun að það að smita sýfilisgeðveika með malaríu og láta þá fá duglega hitatoppa í nokkurn tíma gæti lagað geðveikina tímabundið (að því tilskildu auðvitað að sjúklingurinn dræpist ekki úr malaríunni). Á Íslandi brúkuðu menn varíant af þessu, brennisteinsolíu sem var sprautað í vöðva í sama skyni, þ.e. til að láta sjúklinginn frá háan hita, og á sjötta áratugnum (þegar sýfilisgeðveiki hafði verið útrýmt með pensillíni) voru leiðinlega geðveikir sjúklingar á Kleppi enn sprautaðir með eigin blóði í vöðva til að framkalla sótthita … í lækningarskyni. Heimildir um lækningamátt aðferðanna eru hins vegar sjaldgæfar.

Hinn sem fékk Nóbelsverðlaun, árið 1949, fyrir ómetanlegt framlag sitt til geðlækninga var Egan Moniz, sem fann upp á því að hræra tilviljanakennt í hvelatengslum í heilum geðveikra og staðhæfði að þeim batnaði við það. Sú aðferð, lóbótómían, fór sigurför um heiminn og hér á Íslandi urðu harðvítugar blaðadeilur um miðja síðustu öld milli vísindalega þenkjandi lækna og yfirlæknisins á Kleppi sem ekki vildi hræra í heilum sinna sjúklinga og var þ.a.l. ásakaður (af kollegunum) um að fylgjast ekki með og vilja ekki nota vísindalegar aðferðir. Í ljósi sögunnar finnast mér því yfirlýsingar Svans um vísindi nútíma læknisfræði vera helsti hrokafullar.

* Svanur tekur öfgafullt dæmi til að sanna að kukl geti verið lífshættulegt, nefnilega ákvörðun Steve Jobs um að leita sér óhefðbundinna lækninga við sínu krabbameini. Að taka sérvitringinn Steve Jobs sem dæmi um hættu kuklisins er svona álíka og að taka Thalidomide sem dæmi um þær skelfilegur hættur sem kunna að stafa af lyflækningum almennt … Og ég vona að Svani sé kunnugt um þá staðreynd að fólk deyr stundum þrátt fyrir að það skipti við lækna, jafnvel inniliggjandi á spítölum.

Nú er ég ekki sérlega höll undir kukl, til þess er ég of vantrúuð á að margt af því virki. En ég er heldur ekki höll undir allar (meintar) vísindalegar lækningar af því ég veit að sumar eru ekki endilega til bóta og geta verið til mikils skaða. Samt veit ég um mörg dæmi þess að óhefðbundnar lækningar hafi hjálpað sjúklingum og einnig um mörg dæmi þess að hefðbundnar lækningar hafi hjálpað sjúklingum. Ég fagna samtökum á borð við Heilsufrelsi, ekki af því ég sé sammála öllu í þeirra málflutningi heldur vegna þess að ég geri þá kröfu að fólk geti nálgast upplýsingar, aflað sér þekkingar og haft frelsi til að taka ákvarðanir sem snerta þess heilsu. Síst af öllu vil ég að strangtrúarmenn á borð við Svan taki að sér skömmtun á upplýsingum um heilsutengd málefni.

Santorini og Krít

Við erum komin heim eftir þriggja vikna velheppnað ferð til Santorini og Krítar. Ég hef sett upp myndasíðu úr ferðinni, þótt minnið hafi snarbatnað við að hætta að eta pillur er ágætt að hafa myndasíðu í bakhöndinni, svoleiðis síður hafa reynst mér ómetanlegar á stundum.

Einhvern daginn blogga ég um bækurnar sem ég las í fríinu … inn á milli morðbókmennta las ég sögulega skáldsögu sem gerist á Spinalonga, tvær bækur um sækópata (önnur er skáldsaga, sem ég las reyndar í annað sinn enda er hún helv. góð), eina bók um geðlyfjuð amrísk ungmenni og svo fyrstu íslensku rafbókina sem ég hef keypt, Hælið. Og svo má auðvitað blogga um yfirvofandi útdauða netkaffihúsa … tek spjaldið með mér næsta sumar.

Ég gerði mitt besta til að fylgjast með helstu hitamálum á netinu hér á klakanum og sá að þau snérust annars vegar um Brynjar Níelsson (sosum ekkert nýtt) og hins vegar um gullfiskinn Sigurwin. Svoleiðis að maður hafði einhver umræðuefni yfir kvöldverðinum 😉

En … þetta var frábær ferð (eins og allar hinar ferðirnar til grísku eyjanna) en það er líka gott að vera komin heim, mikil ósköp.

Sól og sumar og bloggfrí

Sólin skín og sumarið er komið og ég nenni æ sjaldnar að kveikja á tölvunni. Svoleiðis að þetta blogg er eiginlega bara tilkynning um að komið sé bloggsumarfrí. Það er skemmtilegra að yrkja garðinn sinn akkúrat núna, tsjilla á pallinum prjónandi, lesandi, sólbaðandi sig … lífið er einkar ljúft þessa dagana. Og nýdoktorinn að kalla á mig í kvöldmatinn í þessum skrifuðum orðum …

Hringur Aðalsteins konungs, skalli Skalla-Gríms o.fl.

Við í íslenskumafíunni í FVA höfum dálítið rætt um þáttinn Ferðalok – Silfur Egils Skallagrímssonar sem sýndur var á sunnudagskvöld á RÚV. Þetta var skemmtilegur og fróðlegur þáttur og ég hlakka til að sjá næstu þætti. En eins og fleiri kollegar mínir hér á Skaga kann ég Egils sögu næstum utanbókar. Og mér kom sumt í þessum þætti spánskt fyrir sjónir.

Það sem kom kannski mest á óvart var senan þegar Aðalsteinn Englakonungur réttir Agli hring á sverðsoddi sem í Egils sögu er lýst þannig:

Aðalsteinn konungur sat í hásæti; hann lagði og sverð um kné sér, og er þeir sátu svo um hríð, þá dró konungur sverðið úr slíðrum og tók gullhring af hendi sér, mikinn og góðan, og dró á blóðrefilinn, stóð upp og gekk á gólfið og rétti yfir eldinn til Egils. Egill stóð upp og brá sverðinu og gekk á gólfið; hann stakk sverðinu í bug hringinum og dró að sér, gekk aftur til rúms síns; konungur settist í hásæti. En er Egill settist niður, dró hann hringinn á hönd sér, og þá fóru brýn hans í lag; lagði hann þá niður sverðið og hjálminn og tók við dýrshorni, er honum var borið, og drakk af.

giftingarhringur Aðalsteins konungs?Yfirleitt hefur þessi lýsing verið skilin sem svo að Aðalsteinn konungur hafi rétt digran armhring yfir eldinn. Skömmu áður hafði Egill greftrað bróður sinn og spennt gullhring á hvora hönd honum. Vilji menn leggja lýsingu á karakter Egils út á versta veg má skilja háttalag hans í veislu Aðalsteins sem merki um eftirsjá Egils eftir að hafa splæst þessum gullhringjum á lík Þórólfs, í augnabliks geðshræringu, því Agli var einkar sárt um fé og dýrgripi. Orðalagið „að spenna hring á hönd“ eða „draga hring á hönd“ bendir óneitanlega til armbands fremur en fingurgulls, hefði Egill ekki öðrum kosti „dregið hring á fingur sér”? Og verðmæti gjafar Aðalsteins minnkar auðvitað gífurlega ef hann splæsti bara baug á borð nútíma giftingarhring. (Í svari Guðrúnar Kvaran við spurningunni Hvers vegna breyttist orðið hringur í armband, og fingurgull í hring?“, á Vísindavefnum, má fræðast um rugling milli orðanna hringur og baugur í tímans rás, sem er raunar ekki sérlega upplýsandi varðandi þetta atriði nema til að staðfesta að orðið hringur þýddi mjög oft armband.)

Annað sem einnig kom okkur stórneytendum Egils sögu á óvart var hve Skalla-Grímur var vel hærður fram á sinn síðasta dag. Þegar hann krefur Egil um silfur Aðalsteins konungs blasa við hrokknir lokkar. Fer lítið fyrir „skalla þeim hinum mikla“ sem var „fullur upp úlfúðar“ mörgum áratugum áður. Raunar er gersamlega óskiljanlegt af hverju Grímur fékk þetta viðurnefni sé miðað við það sem sást í þættinum.

Þeir feðgar eru báðir miklir myndarmenn í þættinum, eiginlega talsvert sjarmerandi, sem er ekki í samræmi við lýsingar Egils sögu. Egill lítur meira að segja út eins og velhært og sprækt unglamb þegar hann fer að husla silfrið sitt, þá áttræður, skv. Egils sögu búinn að missa sjón, heyrn að hluta og sídettandi, karlanginn …

armhringur frá v�kingaöldNú kann einhverjum að finnast að ég sé að agnúast út í smáatriði í annars góðum þætti. En mér finnst að vilji menn fjalla um Íslendingasögur á annað borð sé lágmarkskrafa að þeir hafi lesið þessar sögur og viti skil á frægustu lýsingum í þeim. Ef menn nenna því ekki er best að sleppa því að sýna atburði úr þeim og gera annars konar heimildaþætti, t.d. um fornleifar.

Myndir eru skjámynd úr þættinum sem um er rætt í færslunni og mynd af  þremur armbaugum úr silfri frá víkingaöld sem fundust á Englandi. Ljómandi fallegan víkingaaldar-armhring úr gulli má sjá hér.
 
 
 
 
 
 

Viðhorf Landlæknis og HVE til eftirá-hagræddrar sjúkraskrá og vanrækslu

Í dag sendu bæði Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) og Geir Gunnlaugsson landlæknir frá sér yfirlýsingar vegna umfjöllunar Kastljóss um fæðingu Sveindísar Helgu, dóttur Hlédísar Sveinsdóttur. Hluti umfjöllunar Kastljóss snérist um hrópandi misræmi milli þeirra gagna sem HVE sendi Landlækni og sömu gagna sem HVE afhenti Hlédísi.

Eitt af hlutverkum Landlæknis er að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsfólki. Það vekur því furðu að landlæknir skuli ekki sjá ástæðu til þess að kanna eða hafa eftirlit með vægast sagt einkennilega færðri sjúkraskrá og öðrum gögnum frá HVE. Fjöldi rangfærslna lýtur allur í sömu átt, nefnilega að gera hlut spítalans skárri en hann var. Raunar kemur skýrt fram hjá lögfræðingi Hlédísar í viðtali i Kastljósi að hefði Landlæknir ekki haft myndband af fæðingunni undir höndum hefði hann (eða sérfræðingur sá sem Landlæknir kallaði til) ekki getað komist að þeirri niðurstöðu að vanræksla starfsfólks HVE hefði valdið þeim hræðilega skaða sem barnið beið í fæðingunni. Ekki sé hægt að komast að þeirri niðurstöðu sé byggt á gögnum þeim sem HVE sendi Landlækni.

Í 5. grein Laga um sjúkraskrár 55/2009 segir:

  • Við sérhverja færslu sjúkraskrárupplýsinga í sjúkraskrá skal koma fram nafn þess sem skráir, starfsheiti hans og tímasetning færslu. Viðbót, leiðrétting, breyting eða eyðing sem gerð er á færslu sjúkraskrárupplýsinga skal ætíð vera rekjanleg.
  • Sjúkraskrárupplýsingar skulu færðar jafnóðum eða að jafnaði innan tuttugu og fjögurra stunda frá þeim tíma er þeirra var aflað.

Eytt úr sjúkraskráÞað er því ótrúlegt að sjá í sjónvarpi að mikilvægum hluta er eytt úr sjúkraskrá áður en hún er send til Landlæknis og það löngu eftir að skráin var færð.  Þetta sást mætavel í fyrrnefndum Kastljósþætti og birt var skjámynd sem sýndi muninn við síðustu færslu mína. Hlutinn sem þurrkaður var út segir frá ástandi barnsins rétt eftir fæðingu og krampaköstum sem komu síðar. Til hægri sést lítil mynd af stykkinu sem einhver hjá HVE þurrkaði út úr sjúkraskránni, sé smellt á myndina birtist hún stærri (hvort tveggja er skjámynd úr Kastljósi). Hver voru rök HVE fyrir að eyða þessum upplýsingum áður en skjalið var sent til Landlæknis? Og finnast Landlækni þessi vinnubrögð í góðu lagi?

Edward Kiernan yfirlæknir, Birna Gunnarsdóttir ljósmóðirÍ einnar síðu bréfi yfirlæknis fæðingardeildar (kvennadeildar) HVE úir og grúir af villum. Hluta þeirra er hægt að sanna með myndbandsupptökunni af fæðingunni. Svoleiðis villa er lituð á myndinni af bréfi yfirlæknisins (sé smellt á myndina kemur upp stærri útgáfa, þetta er skjámynd úr Kastljósþætti um málið.) Þar er ekki minnst á mónítor-ritið sem sýnir svo ekki verður um villst að barnið leið mikinn súrefnisskort í talsverðan tíma en það fæddist.

Ýmsar fleiri rangfærslur eru í gögnum frá HVE til Landlæknis. Má nefna að alls staðar er því haldið fram í gögnunum að legvatn hafi verið tært sem það var ekki, ýmist er aðstoðarlæknirinn (nýútskrifaður læknakandídat) viðstaddur fæðinguna eða ekki, yfirlæknirinn segist ekki hafa komið að fæðingunni en gerði það o.fl. Einna alvarlegustu “breytingarnar” sem starfsfólk HVE gerir eftir á og sendir Landlækni eru nýjar útgáfur af svokölluð APGAR-skori litlu stúlkunnar sem fæddist mjög sködduð af súrefnisskorti. Steinbergur Finnbogason lögfræðingur segir um þetta atriði, í Kastljósi 19. febrúar:

Skv. gögnunum þá erum við með þrjú mismunandi APGAR skor eftir eina mínútu. Það er í einni skýrslu ekkert merkt inn og gæti þá verið hvað sem er, í annarri skýrslu sem virðist koma seinna fram að þá er búið að færa inn töluna þrír í APGAR og í enn öðru bréfi sem er sent til Landlæknis er því haldið fram að APGAR skor hafi verið fimm. Og í sjálfu sér ef APGAR skor er fimm þá er ekkert að, ef það er þrír þá er eitthvað að en kannski ekkert eitthvað svakalegt en samkvæmt vídeóinu og seinna framkomnu áliti þá hefði barnið í mesta lagi átt að fá einn í APGAR skor.

Og niðurstaða hans um rangfærslur í gögnum HVE sem send voru Landlækni er:
 

Þær breytingar sem við sjáum þar þær miða að því … hugsanlega miða þær að því að fegra myndina.

Í yfirlýsingu Landlæknis í dag segir að málið hafi verið rannsakað ítarlega sem hafi leitt til faglegrar niðurstöðu. Landlæknir hafi beint þeim tilmælum til HVE að halda fund með Hlédísi Sveinsdóttur og biðja hana formlega afsökunar á þeim mistökum og þeirri vanrækslu sem hún og nýfætt barn hennar urðu fyrir. – Þess ber að geta að framkvæmdastjóri lækninga á HVE hélt þennan fund með Hlédísi einu og hálfu ári eftir hina afdrifaríku fæðingu og var það í fyrsta sinn sem henni var gefið tækifæri til að funda með aðilum málsins.- Um hinar einkennilegu breytingar sem HVE gerði á sjúkraskrá eftir á og um rangfærslur í gögnum frá stofnuninni segir Landlæknir í þessari yfirlýsingu:

[…] skal tekið fram að Heilbrigðisstofnun Vesturlands er ábyrgðar- og umsjónaraðili þeirrar sjúkraskrár sem um ræðir og getur gert á henni leiðréttingar skv. lögum um sjúkraskrár, sé sýnt fram á að upplýsingar í henni séu bersýnilega rangar eða villandi.

Nú væri áhugavert að Landlæknir upplýsti hvort eyða fyrir APGAR-skor sé svo “bersýnilega röng og villandi” að hún gefi umsjónarmanni sjúkraskrár, HVE, sjálfkrafa tilefni til að skálda þar inn ótrúlegar tölu talsvert löngu eftir fæðinguna. Sömuleiðis er áhugavert að vita skoðun Landlæknis á öðrum röngum upplýsingum sem HVE lét embætti hans í té, voru þær að hans mati upplýsandi fyrir málið?

Landlæknir lýkur yfirlýsingu sinni á skýrri niðurstöðu málsins, að mati embættisins, og viðurlögum:

Heilbrigðisstarfsmönnum urðu á mistök og vanræksla við fæðingu barns Hlédísar. Þessari niðurstöðu hefur verið fylgt eftir af festu gagnvart stjórnendum sjúkrahússins og einstökum starfsmönnum.

Starfsmennirnir sem í hlut eiga starfa allir áfram við HVE nema aðstoðarlæknirinn (að ég held). Ljósmóðirin sinnir enn fæðandi konum, yfirlæknirinn er kjur á sínum sessi sem og framkvæmdastjóri lækninga. Bæði Landlæknir og HVE neita að upplýsa hvernig niðurstöðunni um mistök og vanrækslu starfsmanna HVE hafi verið fylgt eftir “af festu”. Hlédísi Sveinsdóttur hefur ekki verið formlega tilkynnt um þau viðbrögð. Það má svo sem giska á að einhverjir sem í hlut áttu hafi fengið formlega áminningu, sem skiptir engu einasta máli fyrir ríkisstarfsmann (nema standi til að reka hann hvort sem er og þarf þá að safna tveimur formlegum áminningum fyrst).
 

HVE harmar vitaskuld eigin mistök í sinni yfirlýsingu í dag en minnist í henni ekki á vanrækslu starfsmanna sinna. Stofnunin segist hafa endurskoðað “allar verklagsreglur tengdar þjónustu við fæðandi konur […] og [að] eftirlit með að þeim sé framfylgt skerpt. Þá voru settar reglur sem takmarka mjög  fjölda aðstandenda við fæðingar.”

Síðari málsgreinin stingur í augu því erfitt er að sjá hvernig fjöldi aðstandenda við fæðingu hefur haft áhrif í þeim mistökum og vanrækslu sem hér var um að ræða. Skýringin er væntanlega sú að í sinni greinargerð til Landlæknis kvartaði ljósmóðirin undan skvaldri í móður og vinkonum Hlédísar sem voru viðstaddar fæðinguna og tengir síðan vinkonuna sem hélt á myndbandsupptökutækinu við vinnustað hennar en hún vinnur hjá fjölmiðlafyrirtæki. Nú veit ég ekki hversu viðkvæmar ljósmæður eru fyrir skvaldri en ef þetta á að vera afsökun fyrir því að hún fylgdist ekki með síritanum sem sýndi súrefnisskort ófædds barnsins eða að ástand barnsins þegar það fæddist fór framhjá henni held ég að önnur störf myndu líklega henta þessari konu betur. HVE hefur sem sagt komið auga á það ráð að takmarka fjölda leikmanna við fæðingu sem úrræði til að koma í veg fyrir mistök og vanrækslu starfsmanna sinna á fæðingardeild, skv. yfirlýsingu HVE í dag.

HVE telur staðhæfingar um að sjúkraskrá hefði verið hagrætt, atriðum eytt og með því brotin lög vera órökstudda og villandi framsetningu og færir sem rök fyrir því að Landlæknir hafi ekki skipt sér neitt af þeirri hagræðingu staðreynda.  Í yfirlýsingu HVE er ekki vikið orði að því stofnunin hyggist bæta skráningu upplýsinga í sjúkraskrá eða skerpa eftirlit með því að þeim sé ekki breytt löngu seinna. Forstjóri HVE sem skrifaður er fyrir yfirlýsingu stofnunarinnar í dag segist, í lokin, fagna opinberri rannsókn sem skeri úr um hvort rangfærslur í sjúkraskrá og öðrum gögnum frá HVE til landlæknis varði við lög.

Sem viðskiptavinur HVE er ég Guðjóni Brjánssyni hjartanlega sammála og finnst mikilvægt að lögregla skeri úr um hversu mikið megi edítera sjúkraskrá og hversu mikið halla réttu máli í öðrum gögnum frá heilbrigðisstofnun sem send eru Landlækni þegar kvartað er til hans; Hvað teljast eðlilegar leiðréttingar eftir á og hvað fellur undir skjalafals?

Og satt best að segja myndi ég ráðleggja hverri þeirri konu sem ætlar að fæða barn á fæðingardeild Sjúkrahúss Akraness að sjá til þess að fæðingin sé tekin upp myndband, af þöglum myndatökumanni auðvitað …  

Viðbót 28. febrúar: Í dag birtist önnur yfirlýsing frá HVE þar sem mismunur í sjúkraskrá er skýrður og fjallað um fleira þessu máli tengt.
  
  
  
 

Skjalafals á Sjúkrahúsi Akraness?

Sjúkraskrá á HVEÉg er varla búin að ná mér eftir Kastljós gærdagsins. Þar lýsti ung kona reynslu sinni af þjónustu fæðingardeildar Sjúkrahúss Akraness (sem er hluti Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, HVE) og stjórnendum sjúkrahússins af miklu æðruleysi, eiginlega var hún ótrúlega málefnaleg og róleg miðað við hvernig brotið hefur verið á henni og dóttur hennar. Mistök sem gerð voru þegar hún fæddi dóttur sína eru ótrúleg, það er varla hægt að nota orðið mistök yfir atburðarásina eins og henni var lýst í Kastljósi og gögn sýndu, heldur kannski frekar afdrifaríkt slugs starfsmanna á fæðingardeildinni (sem kallast kvennadeild á skipuriti HVE).

Hitt var þó enn ótrúlegra: Vafasömu hagræðing gagna! Yfirlæknirinn skáldar upp atvikalýsingu sem er alls ekki í samræmi við myndband af fæðingunni … konan hefur svo eftir honum að hann muni ekki eftir henni. Ég trúi því ekki að grafalvarlegur súrefnisskortur sé það algengur meðal nýfæddra barna á þessari fæðingardeild að yfirlæknirinn geti hreinlega ekki munað eftir hverju tilviki fyrir sig og neyðist til að uppdikta eigin frásögn af fæðingunni.

Einhver hefur vísvitandi eytt mikilvægum upplýsingum úr sjúkraskrá og bætt inn upplýsingum sem láta háttalag ljósmóður og aðstoðarlæknis líta eilítið skár út, sem sagt hagrætt sjúkraskrá verulega! Þessi ritskoðaða og breytta sjúkraskrá var send Landlæknisembættinu sem gögn sjúkrahússins í málinu. Það ætti að vera auðvelt að sjá hver gerði þetta því skv. reglum HVE ber að skrá hver afritar sjúkraskrá hverju sinni.

Landlæknir kom sér undan að svara spurningu Kastljóss um hvort hann teldi að um rangfærslur eða skjalafals væri að ræða í gögnum Sjúkrahúss Akraness og taldi ekki ástæðu til að vísa málinu til lögreglu. Framkvæmdastjóri lækninga á HVE vildi ekki tjá sig og vísaði til trúnaðar- og þagnarskyldu. Ég veit ekki til þess að hann sé bundinn sérstökum trúnaði um mögulegt skjalafals starfsfólksins sem hann á að hafa eftirlit með en af því erindisbréf hans liggur hvergi frammi get ég sosum ekki fullyrt um að svo sé ekki. Hann ber hins vegar ábyrgð á meðhöndlun sjúkraskráa enda skrifaður fyrir reglum um notkun þeirra sem krækt er í hér að ofan.

Í ljósi þess sem Kastljós hefur eftir Landlækni og framkvæmdastjóra lækninga á HVE þarf varla að koma á óvart að á mánudaginn síðasta, 11. janúar, skrifuðu Landlæknir og forstöðumaður HVE undir samning um að HVE tæki að sér að prófa og þróa rafræna sjúkraskrá. „Markmið samningsins er að stuðla að vönduðum og faglegum vinnubrögðum við innleiðingu og þróun rafrænnar sjúkraskrár.“ Má af þessu ráða að Landlæknir telji Sjúkrahúsið á Akranesi (sem er hluti af HVE) hafa staðið sig vel í vönduðum og faglegum vinnubrögðum við færslu og meðhöndlun sjúkraskráa til þessa?
 

Myndin við þessa færslu er skjámynd úr þætti Kastljóss og sýnir sjúkraskýrsluna sem móðirin fékk afhenta og eintak sömu skýrslu sem Landlæknir fékk afhenta, hvort tveggja frá HVE.
 
 

Dauðinn og lífið

Það eru fá feimnismál eftir í okkar nútíma. Mætti segja að dauðinn einn væri feimnismál, um hann er ekki talað, um hann er forðast að hugsa. Samt er það svo að lífið væri einskis virði, hvunndagslegt og ómerkilegt, ef því lyki ekki með dauða. Það sem gefur lífinu gildi, gerir lífsleiðina eftirsóknarverða, er dauðinn sem bíður handan hornsins.

Undanfarið hef ég, eins og fjöldi fólks, fylgst með bloggi Vilborgar Davíðsdóttur og viðtölum við hana. Hún leyfir okkur hinum að fylgjast með síðustu dögum eiginmanns síns. Blogg Vilborgar er einstakt. Þótt umfjöllunarefnið sé hræðilega sorglegt skrifar hún af æðruleysi og kærleik. Ég get ekki sett mig í hennar spor og ég beygi af í hvert sinn sem ég les færslu. Fegurðin ríkir í þessum færslum, einlægni og virðing fyrir óumflýjanlegum dauða og lífinu sjálfu. Það þarf einstaka mannkosti til að skrifa slíkan texta. Þótt við hin séum einungis lesendur er sérhver færsla okkur umhugsunarefni og auðgar líf okkar, ekki hvað síst af því að Vilborg sýnir okkur að dauðinn, mesti harmurinn, eykur gleðina af lífinu. Hún minnir okkur á að lifa lífinu í árvekni.

Í gamla daga, áður en ævintýri voru aðlöguð rétthugsun, enduðu þau stundum illa. Í ævintýri Vilborgar sigrar drekinn illi. En orðstír hetjunnar lifir áfram þótt hetjan bindi sér nú helskóna.

Megi Drottinn gefa hetjunni ró og hinum líkn sem lifa.