Þegar ég vaknaði af bjútíblundi föstudagsins brá svo við að heimilið var sambandslaust við umheiminn (nema gegnum síma og bréfdúfur – hugsanlega). Ég hringdi í bilanaþjónustu símnets og talaði lengi við agalega huggulegan strák, sem reyndi að leiðbeina mér í að fixa samstarf routers og símalínu. Þegar pilturinn komst að því að ég væri íslenskukennari skipti hann yfir í orðið “beinir” og á tímabili spjölluðum við þannig að hann sagði beinir og ég sagði router … Svo dáðist hann að fornminjum sem ég gat boðið upp á, þ.e.a.s. Netscape.
Ekki gekk þetta hjá okkur og þegar maðurinn kom niður af fjallinu (hann var að leysa íþróttakennara útivistarhóps af) gekk hann blautur og hrakinn í að fixa nettenginguna. Hann talaði við konu og ég held að þeirra samtal hafi verið mun lengra en mitt og piltsins, árangurinn aftur á móti hinn sami og lauk með því að þau, maðurinn og símastúlkan, gáfu út dánarvottorð beinisins /routersins.
Ég sat döpur í dyngju minni, búin að fatta að ég hafði reist mér hurðarás um öxl í vinnunni og netleysið minnti enn betur á að ég myndi sligast eða eitthvað slæmt! Auk þess gat ég ekki unnið í hobbíinu mínu því þá þarf ég að vera tengd amrískri tölvu.
Hvað gera konur þá? Þær taka hálfa svefntöflu og fara að sofa klukkan 21!
Eftir vöknun II í morgun frétti ég að allur Skaginn hefði verið meira og minna sambandslaus í gær svoleiðis að meint andlát routersins var bara firra og vandræðin öll Símans-megin. Þá sá ég náttúrlega í hendi mér að þetta sambandsleysi var leið æðri máttar til að benda enn frekar á hurðarásinn og öxlina! Eftir að hafa fengið þessa andlegu bendingu er tvennt kristaltært:
a) ég kem af mér hurðarásnum með einhverjum leiðum;
b) ég fer í æðruleysismessu annað kvöld!